2 minute read
Fyrsti Nautic togarinn í Pétursborg að taka á sig mynd
Captain Sokolov er fyrstur tíu samskonar togara sem smíðaðir verða eftir hönnun Nautic-RUS í Pétursborg.
Fyrsti vinnslutogarinn af tíu sem skipahönnunarfyrirtækið Nautic hannaði fyrir rússneska útgerðarfyrirtækið Norebo er óðum að taka á sig mynd en togararnir eru smíðaðir í Severnaya skipasmíðastöðinni í Pétursborg. Dótturfyrirtækið Nautic-RUS í Pétursborg hannaði skipin og hafði með höndum alla hönnun og verkfræðilega útreikninga. Alfreð Tulinius, einn af eigendum Nautic, hefur unnið að þessum verkefnum ásamt samstarfsfólki sínu í dótturfyrirtækinu í Pétursborg þar sem nú eru tæplega 50 starfsmenn. Hann segir ýmis önnur verkefni fyrir stafni í skipahönnun fyrir rússneskar útgerðir.
Vinnsluskip af fullkomnustu gerð „Skipin fyrir Norebo eru 83 metra löng og 16 metra breið fullvinnsluskip með yfir 100 tonna afkastagetu á sólarhring,“ segir Alfreð . Sex af þessum tíu skipum verða búin fyrir bolfiskveiðar og -vinnslu . Þau koma til með að draga tvö troll samtímis og hafa í reynd spilbúnað til að draga þrjú troll . Í skipunum verður bæði flakavinnsla og heilfrysting auk þess sem mjölverksmiðja er um borð . Togararnir sex verða gerðir út frá Murmansk-svæðinu nyrst í Rússlandi . Hinum fjórum skipunum er hins vegar ætlað að sækja í Alaska-ufsa og verða þau gerð úr frá Austur-Rússlandi . „Í þeim skipum verður vinnslan svolítið frábrugðin og sérstaklega hvað varðar bræðsluna sem getur afkastað 200 tonna hráefni . Hún verður því tvöfalt afkastameiri en í bolfiskskipunum,“ segir Alfreð . Skipin eru búin 6 .120 kW aðalvél, öflugum ljósavélum og 4,2 metra skrúfu .
Frumraun Rússa í smíði vinnsluskipa „Í hönnun þessara skipa fórum við alla leið í hugmyndafræði sem við byrjuðum á þegar við hönnuðum ísfisktogarana fyrir Brim, áður HB Granda, á sínum tíma,“ segir Alfreð um útlit skipanna, sér í lagi hvað varðar framendann . Alfreð segir að eigandi Norebo hafi lagt ríka áherslu á þessa hönnun og að skipin verði sem glæsilegust í útliti . „Annað mikilvægt atriði í hönnuninni er burðarfræðilega útfærslan sem gerir að verkum að við fáum súlulaust vinnsluþilfar . Það auðveldar verulega að koma vinnslubúnaðinum fyrir eins og best verður á kosið,“ segir Alfreð .
Togararnir tíu verða smíðaðir hver á fætur öðrum í Pétursborg en smíði skipanna markar tímamót í rússneskum sjávarútvegi og er náið fylgst með verkefninu þar í landi . „Einfaldlega vegna þess að skip af þessum toga hafa aldrei verið smíðuð í Rússlandi . Stóru rússnesku verksmiðjutogararnir sem við þekkjum voru allir smíðaðir á sínum tíma í Austur-Þýskalandi og Póllandi þannig að hér er um að ræða frumraun í smíði verksmiðjuskipa innan Rússlands . Þeir hafa mikla reynslu í smíði herskipa og það sem ég hef séð hingað til er með því besta sem ég hef séð í stálsmíði,“ segir Alfreð .
Nautic-RUS hefur vaxið hröðum skrefum að undanförnu og segir Alfreð að ýmis hönnunarverkefni séu í farvatninu . Horfur séu því á að bæði verði fleiri stór vinnsluskip byggð eftir hönnun NauticRUS sem og minni skip . Ekkert segir Alfreð þó fast í hendi fyrr en samningar liggi fyrir .