12 minute read
Fisktækniskóli Íslands fagnar stórafmæli
Páll Valur Björnson
umsjónarmaður grunnnáms
Nemendur í heimsókn í Fiskkaup.
Fisktækniskóli Íslands fagnar stórafmæli
Það svifu eftirvænting og bjartsýni yfir vötnum þegar starfsfólk Fisktækniskólans mætti til starfa í byrjun árs sem helgaðist kannski fyrst og fremst af því að hugsanlega værum við laus við það þunga farg sem Covidpestin lagði á starfsfólk skólans líkt og alla aðra. Önnur ástæða fyrir því að starfsmenn mættu glaðir og reifir að loknu jólafríi var sú að á þessu ári fagnar skólinn 10 ára afmæli sínu sem framhaldsskóli og 15 ára afmæli stofnunar undirbúningsfélags að stofnun skólans. Það var árið 2012 sem skólinn fékk fyrst formlega viðurkenningu sem einkaskóli á framhaldskólastigi til kennslu á Fisktæknibraut með fjárveitingu frá ríkissjóði. Aðrar brautir sem bæst hafa við eftir það eru Veiðarfæratækni, löggild iðngrein þar sem skólinn sinnir kennslu faggreina, og svo fjórar framhaldsbrautir undir sameiginlega yfirheitinu Haftengd auðlindatækni. En það eru Gæðastjórnun, Vinnslutækni og Fiskeldistækni og Haftengd Nýsköpun. Allar brautirnar eru hannaðar í nánu samstarfi við atvinnulífið. Áður voru þessar brautir greiddar með styrkjum frá fyrirtækjum og með þátttökugjöldum en nú hafa þær verið samþykktar af ráðuneyti og falla undir formlegt framhaldsskólanám. Önnur starfsemi er greidd með tekjum af sölu náms og námskeiða til starfsgreinanna. Í dag er því kennt á sex brautum og frá því 2012 hafa um 500 nemendur stundað nám við brautir skólans, þar af 200 nemendur frá samstarfsskólum víða um land sem sérhæft starfsfólk í veiðum, vinnslu og fiskeldi.
Janúarmánuður fór í undirbúning nemenda fyrir vinnustaðanámið en það var sá hluti námsins sem mest fór úr skorðum á Covid tímanum þar sem fyrirtæki lokuðu fyrir hverskyns heimsóknir og verkkennslu. Það náðist samt fín lending í þeim málum þar sem skólinn vann að því að koma nemendum sínum í vinnu í sjávarútvegsfyrirtækjum í heimabæjum nemenda og er skólinn mjög þakklátur fyrir þau jákvæðu viðbrögð sem fyrirtækin sýndu við þessari málaleitan. Nemendur héldu
síðan til þessara vinnustaða sem samningar höfðu náðst við og öfluðu sér ómetanlegrar reynslu og þekkingar sem er nauðsynlegur hluti af náminu. Hefðbundin starfsemi skólans hélt svo áfram en á vorönn er verið að sinna námskeiðum hverskonar út um allar koppagrundir auk þess sem og Gæðastjórnun og Fiskeldisnám sem er kennt eru í lotum allan veturinn.
Fisktækniskólinn hefur alla tíð átt í góðu samstarfi við samsvarandi skóla á Norðurlöndum og víðar og í lok apríl fóru kennari og tveir nemendur ásamt einni stúlku úr björgunarsveitinni Þorbirni í Grindavík á námskeið og ráðstefnu á vegum Norsafe verkefnisins í Nuuk á Grænlandi. NorSafe verkefnið er þriggja ára verkefni sem hleypt var af stokkunum af Grænlenska utanríkisráðuneytinu og Norræna ráðherraráðinu í tengslum við formennsku Danmerkur í ráðinu. Í verkefninu hefur verið lögð áhersla á lífið við strandlengjuna í Grænlandi og sérstaklega á ungu kynslóðina. NorSafe tekur einnig þátt í tveimur systurverkefnum sem felst í samvinnu við Ilinnarifik/ Grænlandsháskóla og Pinngortitaleriffik/Náttúrustofnun Grænlands. Þau verkefni felast í veiðum á lúðu í Norður- Atlandshafinu og hvernig efla má virðisaukann í fiskveiðum við Grænland. Verkefninu lýkur í árslok 2022.
Ein helsta ástæða þess að NorSafe býður til þessarar ráðstefnu ungmenna og forráðmanna menntastofnana á sviði sjávarútvegs er sú að leitast eftir þeirri þekkingu og reynslu sem þetta fólk hefur öðlast í gegnum nám sitt og störf. Eins vill NorSafe heyra um framtíðardrauma þeirra nemenda sem stundað hafa þetta nám og hvernig þau sjá sig eftir að hafa lokið því. NorSafe vill einnig heyra um hvort þátttakendur utan Grænlands hafi einhverjar hugmyndir og lausnir sem gætu leitt til þess að draga úr dauðsföllum á og við sjóinn á Grænlandi sem eru alltof mörg. Eins og við öll sem störfum við menntun í sjávarútvegi eru þau að leita eftir hugmyndum hvernig auka megi áhuga ungmenna á öllum Norðurlöndum á námi tengdu sjávarútvegi og bláa hagkerfinu öllu. Ógleymanleg ferð fyrir alla sem þátt tóku í stórkostlegu en afar framandi landi sem Grænland er og það var þreyttur en glaður hópur og reynslunni ríkari sem lenti aftur á Íslandi níu dögum síðar.
Það var stutt stórra högga á milli hjá kennara og nemendunum tveimur því einum degi eftir komuna frá Grænlandi hélt nemendahópurinn allur í langþráð skólaferðalag til Danmerkur og Noregs. Það er kunnara er frá þurfi að segja að allar svona ferðir hafa legið niðri síðastliðin tvö ár vegna heimsfaraldursins Covid-19. Það ríkti því enn meiri eftirvænting og tilhlökkun í mannskapnum að halda nú loks af stað á vit ævintýranna með þessum nágranna- og vinaþjóðum okkar sem við hjá Fistækniskólanum höfum átt svo gott og farsælt samstarf við. Fyrsti viðkomustaður okkar var Fiskeriskolen en hann er eini sjómannaskóli Danmerkur og er staðsettur í Thyborøn, þar sem Limfjörðurinn rennur út í Norðursjó, en þar er fjarlægð frekar stutt frá miðunum að frábæru hafnarumhverfi og fiskuppboði enda er miklu magni af fiski og hverskonar sjávarfangi landað þar.
Hjá Fiskeriskolen er lögð mikil áhersla á þá staðreynd að sjávarútvegur er alþjóðleg starfsgrein og er skólinn því í góðu samstarfi við aðra sjávarútvegsskóla víðsvegar um Evrópu. Þetta þýðir að kennarar þeirra eru upplýstir um alþjóðlegar aðstæður sem uppi eru hverju sinni í atvinnugreininni sem gerir það að verkum að þeir hafa góð tækifæri til að aðstoða nemendur sína og þátttakendur í að ná sambandi við útlönd ef hugur stefnir þangað. Það var tekið á móti okkur með kostum og kynjum eins og venjan er hjá þessum góðu vinum okkar og nemendur okkar hlutu m.a. kennslu í meðferð slökkvitækja og hvernig berjast á við hverskyns eldsvoða. Eins fengu þeir mjög mikilvæga kennslu í meðferð á björgunarbúnaði um borð í skipum og síðan verklega kennslu í björgun á sjó þar sem nemendur tókust á við krefjandi aðstæður út á Limafirðinum um borð í Athene, skipi Fiskeriskólans.
Frábær heimsókn og afar lærdómsrík en að henni lokinni hélt hópurinn frá Hirtshals yfir sundið til Noregs en okkar viðkomustaður var bærinn Tau sem liggur í grennd við Stavanger en gestgjafar okkar þar eru Strand Videregående Skole, hvers einkunnarorð eru að skólinn ætti að vera góður staður til að vera á og góður staður til að læra á. Nemendur verða að upplifa að vera í stöðugri faglegri og félagslegri þróun. Öll viðhorf þurfa að mótast af fagþekkingu og verða að einkenna þjálfun í öllum greinum. Skólinn skal skila bestu menntun í fiskeldi, sjávarútvegi og fiskiðnaði. Öllum nemendum, án undantekninga og óháð bakgrunni og hegðun, verður að mæta af kurteisi og af virðingu. Það var nákvæmlega þannig sem okkur var tekið og einkenndust allir dagar okkar í Noregi af námsfýsi og gleði. Nemendur okkar fengu mikla og góða innsýn í þá kennslu sem fram fer í skólanum ásamt mjög lærdómsríkum heimsóknum í stór fyrirtæki í fiskeldi.
Starfsfólk Fisktækniskóla Íslands.
Frábærir, skemmtilegir og fræðandi dagar sem við áttum í yndislegu umhverfi. Það var þreyttur en ánægður hópur sem labbaði út úr flugstöð Leifs Eiríkssonar í Keflavík eftir 10 daga ferðalag þar sem blandaðist saman skemmtun og nám. Ferðalag sem mun án efa lifa í hugum þeirra sem þátt tóku um ókomna tíð, ferðalag þar sem nemendur Fisktækniskóla Íslands fengu að upplifa og fræðast um ótrúlega marga þætti sjávarútvegsins bæði til sjós og lands. Ferðalag sem hefur aukið skilning nemenda okkar jafnt sem kennara á þeirri stórkostlegu þróun sem hefur átt sér stað á öllum sviðum bláa hagkerfisins.
Þessi námsferð var hið besta hópefli því auk þess að vera fræðandi, eftirminnileg og skemmtileg lærðu nemendur betur að umgangast hvert annað, taka tillit, virða skoðanir og rökræða. Það er nú bara þannig að í svona hópi koma alltaf upp einhver vandamál og það gerðist hjá okkur en við leystum þau farssællega innan hópsins á þann hátt að allir voru sáttir. Nemendur lærðu að takast á við það verkefni að vera útlendingar í öðru landi, kynnast framandi menningu, öðrum siðum og ferðast á mismunandi vegu. Þau upplifðu það að ferðast með flugvélum, bílum, ferjum, lestum, bátum og svo að sjálfsögðu fótgangandi við mismunandi aðstæður. Það er ekki nokkur vafi á því að þetta ferðalag hefur gefið þessum einstaklingum aukna sjálfsvirðingu, sjálfstraust, umburðarlyndi og auðmýkt sem mun nýtast þeim um ókomna framtíð.
Það var hátíðleg stund í Gjánni í Grindavík þann 25. maí s.l. en þá fór fram glæsileg útskrift fjölmennasta nemendahóps sem lokið hefur námi frá Fisktækniskóla Íslands. Alls luku 53 nemendur formlegu námi frá skólanum á vorönn. Segja má að þessi athöfn hafi verið þriðja og síðasta útskrift vorannar, en fyrr í mánuðinum hafði farið fram hátíðleg athöfn í höfuðstöðvum Marel í Garðabæ, þar sem sjö nemendur fengu afhent skírteini sín sem Vinnslutæknar og deginum áður luku níu nemendur námi í Fiskeldistækni á Bíldudal. Sérlega ánægjulegt var að meðal útskriftarnemenda voru fimm nemendur sem útskrifuðust úr Veiðarfæratækni (áður netagerð), skólinn sinnir kennslu faggreina í veiðarfæratækni en það er enn sem áður löggild iðngrein. Einnig hófst á ný kennsla í smáskipanámi sem Fisktækniskólinn hafði reyndar áður kennt um árabil en vegna uppfærslu námskrár hafði verið nokkurt hlé á því að skólinn hafi getað boðið uppá það nám. Fátt er gleðilegra fyrir starfsmenn skólans en að útskrifa nemendur sem lagt hafa á sig þá krefjandi vinnu sem skólaganga er.
Á síðustu árum hefur Fisktækniskólinn í samstarfi við Grindavíkurbæ og Codland starfsrækt sumarskóla þar sem nemendum 9. bekkja sem starfa við Vinnuskóla bæjarins býðst fjögurra daga sjávarútvegsnámskeið. Markmiðið með sumarskólanum er að veita ungmennum innsýn í fjölbreytt störf innan bláa hagkerfisins og opna augu þeirra fyrir hversu áhugverð tækifæri er að finna við sjávarútveg í sinni heimabyggð. Við kynntum þeim hin rótgrónu sjávarútvegsfyrirtæki bæjarins sem hafa verið og munu vera hornsteinn atvinnulífs í bænum okkar. Áhersla er lögð á að kynna fullvinnslu aukaafurða úr sjávarfangi og mikilvægi sjávarútvegsins fyrir land og þjóð ásamt því að kynna fyrir þeim þau fjölmörgu afleiddu störf sem fylgja sjávarútveginum. Eins fá nemendur innsýn í starf Björgunarsveitarinnar og að sjálfsögðu er sögu Grindavíkur gerð skil en saga bæjarins er samofin sögu sjávarútvegs og fiskvinnslu. Einnig heimsóttum við höfuðborgina þar sem nemendur fengu innsýn í starf Sjávarklasans og Slysavarnaskóla sjómanna, um borð í Sæbjörgu. Rannsóknarsetur Bláa lónsins var og heimsótt ásamt Þekkingarsetri Suðurnesja í Sandgerði. Frábærir fjórir dagar þar sem nemendur snéru heim mun meðvitaðri um hversu mikilvægur sjávarútvegur er landi og þjóð og þau fjölmörgu tækifæri sem felast þar, t.d. tækifærin sem tengjast þróun og nýsköpun líkt og hefur sýnt sig í greininni á undanförnum misserum.
Á árinu fóru fram tvær stórar sjávarútvegssýningar eftir Covid hlé, „Icefish 2022“ var haldin 8-10. júní í Kópavogi og Íslenska
Norrænir kennarar og nemendur á Norsafe
sjávarútvegssýningin/ Iceland Fishing EXPO fór fram 21-23. september í Laugardalshöll. Fisktækniskólinn hefur ávallt tekið þátt í þessum sýningum og það var eins nú. Með þessari þátttöku gefst gestum og gangandi kostur á að kynna sér starfsemi skólans. Þessar sýningar eru einnig partur af námi skólans en þar fá nemendur gríðarlega góða innsýn í þá stórkostlegu þróun sem átt hefur sér stað í greininni á síðustu áratugum. Þessar sýningar hafa einnig mikla þýðingu fyrir skólann þar sem stjórnendum og starfsfólki gefst kostur á að hitta og eiga samskipti við öll helstu fyrirtæki sjávarútvegsins bæði heima og erlendis. Það er skólanum afar dýrmætt að eiga í góðum samskiptum og samstarfi við þessa aðila með það að leiðarljósi að þróa skólann og námið í takt við þá öru þróun sem á sér stað í atvinnulífinu.
Nemendur úr sumarskólanum.
Þátttakendur frá skólanum í Grænlandi.
Það er óhætt að segja að haustmánuðir þessa árs hafi verið viðburðarríkir og skemmtilegir í Fisktækniskólanum. Hefðbundið nám hófst að venju í lok ágúst en það sem stendur kannski uppúr á þessari haustönn er sá mikli heiður sem skólanum hlotnaðist í október en þá hlaut skólinn Nordplus Aurora verðlaunin sem eru veitt því verkefni á sviði leik-, grunn- og framhaldsskóla, sem talið er hafa skarað frammúr á árinu. Verkefni Fisktækniskólans, sem hlaut verðlaunin í ár, var til þriggja ára og hefur að markmiði að mynda samstarfsnet allra sérskóla á Norðurlöndum á sviði veiða, vinnslu og fiskeldis. Þetta verkefni hófst fyrir rúmum 13 árum þegar Fisktækniskóli Íslands fékk stuðning Vest-norrænu skrifstofunnar í Færeyjum (NORA) til að tengja saman skóla í Grænlandi, Íslandi, Færeyjum og vestanverðum Noregi. Samstarfið víkkaði síðan út hægt og rólega og eru nú alls níu skólar í samstarfsnetinu - og frá öllum Norðurlöndum og svæðum – nema reyndar Svíþjóð en til stendur að bæta þeim við í næstu lotu.
Skólinn fékk einmitt heimsóknir nú haust frá þessum skólum en kennarar frá tveimur norskum samstarfsskólum og einum dönskum, sá danski kom með stóran nemendahóp sem kynnti sér starfsemi okkar ásamt að heimsækja valin fyrirtæki í sjávarútvegi.
Sjávarútvegsráðstefnan var haldin með glæsibrag í Hörpu dagana 10-11. nóvember 2022. Þar fóru fram mörg áhugaverð erindi og kynningar. Fisktækniskólinn hafði umsjón með einni af málstofunum á ráðstefnunni Menntun í sjávarútvegi þar sem raðað var saman áhugaverðum erindum tengdum menntun í nútímalegu umhverfi sjávarútvegsins auk þess að vera með kynningarbás.
Í lok málstofunnar undirrituðu svo Brim og Fisktækniskóli Íslands viljayfirlýsingu um samstarf í eflingu menntunar ungs fólks og hvers
Á æfingu í Danmörku.
kyns símenntunar/þjálfunar starfsfólks Brims í sjávarútvegi á Íslandi. Markmiðið með yfirlýsingunni er tvíþætt; þ.e. það snýr annars vegar að mannauði Brims, símenntun, hæfni og starfsþróun, -og hins vegar að því að stuðla að aukinni nýliðun í starfsgreinum sem lúta að haftengdri starfsemi. Til að vinna að þessu verkefni verður skipuð samstarfsnefnd skipuð tveimur fulltrúum frá Fisktækniskóla Íslands og eins fulltrúa frá Brimi auk viðeigandi fagaðila frá fyrirtækinu (framleiðslustjórar, gæðastjórar, verkstjórar, útgerðarstjórar, skipstjórnarmenn o.fl.) sem munu hafa aðkomu að verkefninu eftir þörfum. Hlutverk samstarfsnefndarinnar er að marka stefnu, skilgreina verkefni og hafa umsjón með samstarfi aðilanna. Brim hefur gegnum tíðina verið í miklu samstarfi við Fisktækniskólann í tengslum við símenntun starfsfólks og undirritun þessi kemur til með að treysta það góða samstarf enn frekar.
Það má svo sannarlega segja að árið 2022 hafi verið gott og gjöfult í Fisktækniskóla Íslands og ljóst að með enn frekari stuðningi ríkisvaldsins, sveitarfélaganna á Suðurnesjum og svo fyrirtækja í Sjávarútvegi þá á skólinn eftir að vaxa og dafna og vera leiðandi í menntun og þróun tæknináms í sjávarútvegi.
Óskum starfsfólki í sjávarútvegi gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári
Héðinn Stærð: 29 x 4 sm
Hvítur
Kongsberg
Stærð: 18,5 x 3,5 sm
Hvítur Pantone 485 Pantone 116
hedinn.com
Stærð: 7,5 x 2 sm
Hvítur