8 minute read

Verðum að nýta tækifæri sem eru til staðar“

Norðlenskt fyrirtæki þróar lyf úr kítósani

Líftæknifyrirtækið Genís á Siglufirði hefur framleitt fæðubótarefnið Benecta úr kítósani undanfarin ár og vinnur nú að því að fjármagna næsta áfanga. Hyggst fyrirtækið þróa frumlyf úr kítósani úr rækjuskel, auk þess sem það vinnur að þróunarverkefni á sviði beinendurnýjunar. Við tókum forstjóra fyrirtækisins, Sigurgeir Guðlaugsson, tali og spurðum út í þá spennandi hluti sem Genís fæst við.

Sigrún Erna Geirsdóttir Byggt á grundvelli rannsókna

„Saga Genís hófst 2005 þegar fyrirtækið er stofnað á Siglufirði. Það má þó segja að sagan nái lengra aftur því fyrirtækið er stofnað á grundvelli rannsókna á lífvirkni kítíns úr rækjuskel sem höfðu staðið yfir talsvert lengur,” segir Sigurgeir. Kítín er náttúrulegt byggingarefni og finnst í ýmsu sem er í náttúrunni, eins og humarskel, sveppum, skordýrum o.fl. Kítósan er svo efni sem unnið er úr kítíni. Stærstur hluti framleiðslunnar fer fram á Siglufirði og þar er einnig rannsókna- og þróunardeildin. Genís hefur svo skrifstofu í húsi Grósku í Vatnsmýrinni. Sigurgeir segir að það hafi legið beint við að byrja á því að feta braut fæðubótarefna þegar rannsóknir voru á upphafsmetrunum. Upp úr því hafi fæðubótarefnið Benecta orðið til en því er ætlað að draga úr bólgum og styðja við uppbyggingu vefja. Benecta hefur verið á markaði í nokkur ár og selst vel hérlendis. „Við höfum aðeins dýft tánum í erlenda markaði, t.d Bretland og Þýskaland. Markaðssókn erlendis var að hefjast þegar við duttum í heimsfaraldur kórónuveirunnar og það kom því ákveðið stopp í þá sókn.” Aðstæður hafi breyst síðan þá og nú sé verið að undirbúa sókn á erlenda markaði enda gefist mörg tækifæri erlendis fyrir öflug fæðubótarefni.

Fæðubótarefnið fyrir dýr og menn

„Sala Benecta hefur gengið vel á þeim stöðum sem selja vöruna og nú ætlum við að sjá til hver næstu skref verða. Við þurfum m.a að skoða hvort við verðum öflugri sjálf í svona markaðssókn eða hvort það væri betra að fara í samstarf við stærri, erlenda aðila sem hafa reynslu á

„Saga Genís hófst 2005 þegar fyrirtækið er stofnað á Siglufirði. Það má þó segja að sagan nái lengra aftur því fyrirtækið er stofnað á grundvelli rannsókna á lífvirkni kítíns úr rækjuskel sem höfðu staðið yfir talsvert lengur.”

Sigurgeir Guðlaugsson, forstjóri Genís. „...Varan virkar, hún selst vel og þrátt fyrir að hlutfallslega lítið fjármagn hafi farið í að kynna vöruna síðustu misseri heldur hún alltaf sinni kjarnasölu, mánuð eftir mánuð. Þetta væri ekki til staðar ef varan væri ekki að gera fólki gott.”

markaði. Við verðum klárlega að nýta tækifæri sem eru til staðar. Varan virkar, hún selst vel og þrátt fyrir að hlutfallslega lítið fjármagn hafi farið í að kynna vöruna síðustu misseri heldur hún alltaf sinni kjarnasölu, mánuð eftir mánuð. Þetta væri ekki til staðar ef varan væri ekki að gera fólki gott,” segir Sigurgeir. Rannsóknir fyrirtækisins hafa þó ekki einungis verið nýttar til þess að framleiða fæðubótarefni fyrir fólk heldur dýr líka. „Við erum í samstarfi við innkaupasamband dýralækna í Þýskalandi, WDT, og þróuðum vöruna í samstarfi við þá. Í Þýskalandi heitir hún Agil senior en á Íslandi höfum við notast við nafnið Second half plus og er hún hugsuð fyrir eldri hunda til að hjálpa þeim seinni hluta ævinnar.” Upphaflega átti að kynna vöruna 2020 í Þýskalandi en það frestaðist til ársbyrjunar 2021 vegna Covid-19 og kynning hennar fór því hægar af stað en ætlað var. Sigurgeir segir að salan sé hins vegar í stöðugum og góðum vexti og því sé nú verið að meta hvort félagið muni leggja aukinn þunga í markaðssetningu vörunnar líka á Íslandi en hingað til hefur hún einungis fengist á einum stað. „Við sjáum mikið af tækifærum í gæludýrageiranum. Lífvirkni kítósans er jú til staðar hjá dýrum, alveg eins og hjá okkur. Lífvirknin og kostirnir við notkun vörunnar byggir á sama grunni.” Samlegðaráhrifin séu mikil og þetta geti orðið að annarri traustri stoð í rekstrinum.

Líftæknifyrirtækið Genís á Siglufirði hefur framleitt fæðubótarefnið Benecta úr kítósani undanfarin ár.

Lyfjaþróun

Genís stefnir þó enn hærra með rannsóknir sínar á lífvírkni kítósans. „Kjarnafókusinn hjá okkur núna er lyfjaþróun og fókusinn er tvíþættur. Annars vegar erum við í forklínískum rannsóknum fyrir nýtt frumlyf, þ.e lyf sem við byggjum frá grunni, á þekkingu okkar á kítósansameindum, og hins vegar erum við að rannsaka möguleika kítósans á sviði beinendurnýjunar. Kítósan hefur ákveðna virkni við beinvöxt, það þéttir bein og hraðar vexti. Það sem við viljum gera er að þrívíddarprenta stoðgrindur inn í bein, sem er nokkuð nýtt í beinendurnýjunargeiranum, og blanda kítósani saman við þær.” Í dag fari t.d einstaklingur með slæmt úlnliðsbrot í spelku en þeirra hugmynd sé að sjúklingurinn fari í ítarlega myndatöku og að henni lokinni sé prentuð út þrívíddarstoðgrind sem

passi beint inn í beinbrotið. Stoðgrindin sé mjög létt því í henni séu lífvirk efni sem leysist upp og svo loft. Fyrirtækið verði með einkaleyfi á kítósanblöndunni í stoðgrindinni. „Þetta myndi ekki virka í dag í stór stoðbein vegna þyngdarinnar en væri fullkomið í minni bein eins og í fingri eða í úlnlið. Stoðgrindin leysist svo upp, kítósanið seytlar út í beinbrotið og beinið vex hraðar og betur en ella.” Sigurgeir segir að lyfið sem fyrirtækið sé að vinna að hafi verið í þróun hjá vísindafólki Genís síðustu misseri. „Virka efnið í fæðubótarefninu er kokteill af mörgum kítósansameindum. Okkur hjá Genís hefur tekist að einangra hverja kítósansameind fyrir sig og við vitum hverjar hafa mesta virkni og möguleika á að geta orðið að nýju virku lyfjaefni.” Þar sem sameindirnar bindist við bólguprótín í líkamanum og breyti virkni þeirra þá einbeiti Genís sér að lyfi gegn bólgusjúkdómum, eins og astma, lungnaþembu, slit- og liðagigt. Þarna liggi miklir möguleikar fyrir lyf byggð á kítósani.

Fjármögnun næstu missera

Margt er framundan hjá Genís og ætlar fyrirtækið því að fjölga starfsmönnum í náinni framtíð, ásamt því að hafa nýverið lokið fjármögnun upp á 2,4 milljarða. „Við stefnum í fyrsta lagi á að halda áfram okkar lyfjaþróunarvegferð sem er langt og dýrt ferli. Á sama tíma viljum við tryggja okkur fjármagn fyrir markaðsstarf á fæðubótarefninu og halda áfram tilraunum vegna dýra. Við þurfum því bæði að tryggja okkur fjármagn til næstu missera og fjölga í starfsmannahópnum. Um mitt næsta ár ætti starfsmannahópurinn því að vera á milli 20 og 30 manns.” Að sögn Sigurgeirs taka svona lyfjaþróunarferli auðveldlega tíu ár sem er stór biti fyrir lítið fyrirtæki. „Við erum að vinna að því núna að fjármagna fasa 1, svo sjáum við til með fasa 2 og 3. Fasi 3 er sérstaklega tímafrekur og dýr. Fyrir lítið líftæknifyrirtæki er það ærið verkefni að fara í gegnum alla þrjá fasana svo oftast fara þau í samstarf við aðra. Við munum skoða það síðar hvort við gerum slíkt líka, þá myndum við finna okkur réttan samstarfsaðila og klára ferlið með þeim.”

Þrautseigja og menntun vega þungt

Það var árið 1999 sem stjórnvöld bönnuðu rækjuvinnslum að henda rækjuskel þar sem vitað var að í skelinni væru efni sem gætu nýst við sköpun verðmæta. Við þetta mynduðust ákveðin tækifæri. „Það myndaðist pressa á að fullnýta allt hráefni og henda sem minnstu, skoða allt sem var þá flokkað sem úrgangur,” segir Sigurgeir. Rannsóknir hófust fyrir alvöru á skelinni og á grundvelli þeirra rannsókna var Genís stofnað. Lítið tæknifyrirtæki sem nýtti sér íslenskt hráefni og hugvit, eins og Kerecis gerði líka og Zymetech. „Það eru nánast endalaus tækifæri fyrir okkur Íslendinga að fullvinna það sem við fáum úr hafinu, við erum ennþá að klóra í yfirborðið í nýtingu og virðisaukningu,” segir hann.

„Það myndaðist pressa á að fullnýta allt hráefni og henda sem minnstu, skoða allt sem var þá flokkað sem úrgangur.”

Að störfum í Genís, en fjölmargir starfa þar.

,,Okkur hefur borið gæfa til þess að sjá tækifæri í því sem áður var litið hornauga og það er lykilatriði að umhverfið styðji vel við þessa frumkvöðla.”

Íslendingar séu ekki eina þjóðin sem vinni sjávarafurðir en við séum hins vegar komin lengra en margir aðrir. Aðspurður um ástæður þess segir Sigurgeir að svarið sé samspil margra þátta eins og stuðningsríks fjármögnunarumhverfis, menntunarstigs þjóðarinnar og þrautseigju frumkvöðla. „Við erum ekki með sérfræðinga á öllum sviðum en almennt séð erum við vel menntuð. Fólk fékk hugmynd og fylgdi henni eftir, það trúði á tækifærin og gafst ekki upp.”

Við þurfum þolinmótt fjármagn

og annar stuðningur stjórnvalda hafi skipt miklu og geri enn. „Það er nauðsynlegt að það sé stuðningur í kerfinu við nýsköpunarfyrirtæki. Fjármögnunarumhverfið skiptir miklu máli, fyrir félag eins og okkar sem er í lyfjaþróun þá skiptir það sköpum. Frumkvöðull fær ekki hugmynd á fimmtudegi og á mánudegi er hann kominn með 100 manna fyrirtæki. Frumkvöðullinn þarf að vera mjög þrautseigur og umhverfið þarf að fylgja með.” Á Íslandi séum við að auki svo fá að hér séu ekki margir sérhæfðir fjárfestar sem fylgja ákveðnum geirum, eins og tíðkast erlendis. „Við eigum þó öfluga sprotasjóði eins og Frumtak, Nýsköpunarsjóð, Brunn o.fl sem eru grundvöllurinn fyrir því að svona sprotastarfsemi sé möguleg á Íslandi. Við þurfum samt að gera betur og vera klókari að sjá tækifæri sem ganga ekki út á að skila strax jákvæðu peningainnstreymi og arðgreiðslum. Frumkvöðlar þurfa þolinmótt fjármagn.” Sprotafyrirtæki byggi á áfangamiðuðum viðskiptamarkmiðum, vegferð fyrirtækisins endi oft á því að heilu kerfin séu seld í heilu lagi og allur arðurinn komi í lokin. Það sé nauðsynlegt að hugsa út fyrir boxið. ,,Okkur hefur borið gæfa til þess að sjá tækifæri í því sem áður var litið hornauga og það er lykilatriði að umhverfið styðji vel við þessa frumkvöðla.

Óskum starfsfólki í sjávarútvegi gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári

Snæfellsbær

This article is from: