3 minute read
Tækifæri felast í að stunda nám
Helga Kristín Kolbeins
skólameistari Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum
Tinna, Magdalena, Bikir Freyr, Bogi, Eva, Aron Steinar, Guðmundur, Arnar Gauti, Mikael, Sindri, Símon, Ægir, Einar Örn, og Andri Snær, nemendur á vélstjórnarbraut.
Tækifæri felast í að stunda nám
Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum nýtur þess að vera staðsettur í Eyjum þar sem sjávarútvegur er okkar mikilvægasta atvinnugrein og þarf á að halda vel menntuðu fólki. Vinnumarkaðurinn er að taka miklum breytingum og það á einnig við um sjávarútveginn. Mikil tækniþróun, sjálfvirknivæðing, gervigreind allt leiðir þetta til að sum störf hverfa en önnur verða til. Þessi þróun hefur áhrif á samfélagið sem við búum í og auðvitað einnig á skólanna.
Það felast mikil tækifæri í að stunda nám í dag og við vitum sífellt meira með rannsóknum um hvernig nám á sér stað hjá einstaklingum. Það er því mikil breyting sem hefur átt sér stað í kennslustofunni.
Áhersla er á fjölbreyttar leiðir til náms og fleiri skilningarvit eru virkjuð. Námið er sveigjanlegra og nemendur hafa meira svigrúm til að skipuleggja tímann sinn út frá eigin þörfum. Í Framhaldsskólanum er starfrækt öflug Vélstjórnarbraut og hefur ásókn í námið verið nokkuð stöðug síðast liðin misseri en við getum alltaf bætt við okkur öflugum nemendum. Einstaklingar sem hafa starfsreynslu og eru orðnir 23 ára geta farið í raunfærnimat og stytt tímann sem námið tekur. Nemendur sem útskrifast af vélstjórnarbraut fá starfsréttindi og geta einnig haldið áfram námi, bætt við sig nokkrum áföngum til að fá stúdentspróf og eftir D réttindi þarf einungis nokkra áfanga í viðbót, auk starfstíma til að fá heimild til að taka sveinspróf í rafvirkjun. Mikil eftirspurn á vinnumarkaðinum eftir vélstjórum og bjóða sum fyrirtæki nemendum námsstyrki ef þeir leggja stund á vélstjórnarnám ásamt vinnu með námi og í skólaleyfum.
Það er alveg ljóst að þörfin fyrir einstaklinga sem hafa góðan skilning á vélum minnkar ekki við breytta samfélagsgerð og allar þessar öru tæknibreytingar, heldur þvert á móti, þörfin á vel menntuðum vélstjórum á bara eftir að aukast.
Námið á brautinni er krefjandi og er bæði bóklegt og verklegt. Þegar nemandi hefur lokið námi af vélstjórnarbraut býr hann yfir hæfni sem samanstendur af þekkingu, færni, viðhorfum og gildum.
Einar Örn nemandi á véltjórnarbraut.
Birkir, Tinna, Aron, Birgir og Einar nemendur á vélstjórnarbraut.
Nemandinn hefur hæfnina til að takast á við breytingar sem fela í sér að geta skapað ný gildi, hann getur tekið ábyrgð og tekist á við erfið úrlausnarefni. Þannig erum við að mennta fagmenn sem geta sinnt þeim störfum sem þeir eru ráðnir til, bætt við sig námi og tekist á við sívakandi kröfur.
Í skólanum er mikið er lagt upp úr að bjóða nemendum sem best kennsluumhverfi og er skólinn vel tækjum búinn en nám í vélstjórn krefst öflugs tækjabúnaðar, auk þess sem þar þurfa að vera kennsluhermar en í þeim kynnast nemendur öllum mögulegum og ómögulegum aðstæðum sem upp kunna að koma þegar þeir eru komnir til starfa og geta leyst viðfangsefnin í hermunum og eru þá betur undirbúnir þegar þeir koma til starfa.
Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum leggur áherslu á að búa nemendur undir framtíðina með virkri þátttöku í þjóðfélaginu og þannig að efla ábyrgðarkennd þeirra gagnvart samferðafólki sínu og samfélagi. Nemendur verða að hafa vilja og getu til að hafa jákvæð áhrif á eigið líf og samfélagið í kringum sig, getu til að setja sér markmið sem endurspegla ábyrg viðbrögð til breytinga.
Við óskum landsmönnum öllum gleðilegra jóla og fengsæls nýs árs bæði til sjávar og uppbyggilegu námi til framtíðar.
Ingimar Óli á rennibekknum