3 minute read
Gleðilega aðventu kæri lesandi
Þóra Björg Sigurðardóttir
prestur í Garða- og Saurbæjarprestakalli
Gleðilega aðventu kæri lesandi
Senn líður að jólum og undirbúningurinn gengur sinn vanagang. Það eru aðventuhátíðir um allt land, búðir auglýsa jólavarning, jólahlaðborðin eru þétt setin og skrautið sest á sinn stað. Reyndar er það þannig að hlutirnir eru ekki alltaf eins ár frá ári, það er ekki sami jólavarningurinn í búðum og skrautið kannski breytist í tímanna rás. Við höfum einnig séð það undanfarin tvö ár að jólahlaðborðin geta fallið niður til dæmis vegna heimsfaraldurs. Við setjum væntingar fyrir jólin, að þau eigi að vera svona og hins vegin og stundum standast væntingarnar, og stundum ekki.
Við getum þó gengið út frá einu vísu og það er að saga jólanna af fæðingu frelsarans hún breytist ekki ár frá ári. Það var sannarlega ekki fínt jólahlaðborð og skraut þar sem Jesús fæddist – og það var alls ekki allt upp á 10. Hann fæddist ekki inn í fullkomnar og frábærar aðstæður. María og Jósef fóru til Betlehem þetta kvöld og voru fjarri heimili sínu. María var þunguð og alveg komin að því að eiga barnið. Hún sat á asnanum sem Jósef teymdi áfram og þau leituðu að gistingu, en hvergi var gistingu að finna. Loks var það á einu gistiheimilinu þar sem gistihúsaeigandinn gat þó allavega leyft þeim að nota fjárhúsið sitt. Það var ekkert annað í stöðunni fyrir þau á þessum tímapunkti en að þiggja það boð. Þar fæðist barnið og allt gengur að óskum sem betur fer. En þrátt fyrir erfiðar aðstæður þá er þessari sögu lýst þannig að það var friður og ró. Hirðar sem gættu kinda sinna úti í haga urðu varir við að það var eitthvað sérstakt við þessa nótt. Þeim birtist engill sem flutti þeim gleðitíðindin um að frelsarinn væri fæddur - ekkert var lengur eins og það hafði áður verið.
Ég get alveg ímyndað mér að þessi unga móðir hafi haft aðrar væntingar fyrir fæðingu barnsins. Þarna var hún stödd í erfiðum aðstæðum á flótta. Barnið var ekki barn maka hennar. Þetta út af fyrir sig hefur verið erfitt að útskýra og standa undir sem ung tilvonandi móðir. Þau þurftu svo að ferðast langa vegalengd því konungurinn var hræddur um að þessi nýi frelsari myndi taka völdin. Við getum rétt ímyndað ykkur hvort það hafi verið þægilegt að vera fullgengin á meðgöngu að ferðast langa vegalengd á asna. En það var svo sem ekkert annað í stöðunni. Barnið fæddist síðan þarna í fjárhúsi þar sem engin læknishjálp var í návígi. Þar var eflaust kalt og skítugt og kvíðvænlegar aðstæður fyrir unga móður að eiga sitt fyrsta barn.
Þrátt fyrir eflaust brostnar væntingar, þá fór allt vel. Og sagan er svo falleg einmitt svona. Í erfiðum aðstæðum er samt alltaf von. Það er hægt að upplifa innri ró þrátt fyrir að aðstæður okkar séu erfiðar eða krefjandi. Boðskapur jólanna er fyrir alla – vonin um að allt muni blessast. Boðskapur jólanna breytist aldrei ár frá ári. Hann er einstakur og hann er persónulegur. Við getum tekið mismunandi á móti boðskapnum eftir aðstæðum í lífi okkar hverju sinni, en kjarninn er þó alltaf sá sami. Guð gefur okkar það fyrirheit að allt geti endað vel, alveg eins og þessi saga.
Ég upplifi alltaf einhverja óútskýrðan innri frið og kærleika á aðfangadagskvöld. Sama hvernig aðstæður mínar eru, sama hvort ég hef verið á góðum stað í lífinu eða erfiðum. Jólin koma alltaf og jesúbarnið mætir okkur alltaf hvar sem við erum stödd í lífinu - með vonina um það að við séum aldrei ein og vonina um að við getum alltaf unnið sigra.
Amen. Guð gefi ykkur gleðileg jól.