3 minute read
Vinnuslys sjómanna
Jónas Þór Jónasson, lögmaður Sjómannafélags Íslands
Vinnuslys sjómanna – slys eru ekki alltaf slys og bótarétturinn getur glatast.
Með breytingum sem gerðar voru á kjarasamningum sjómanna á fiskiskipum og farskipum fyrir um 20 árum fólst ein mesta réttarbót sem gerð hefur verið í kjaramálum sjómanna, þegar samið var um hina svokölluðu kaskótryggingu, sem þýddi að sjómenn sem slösuðust um borð við vinnu sína voru undantekningalaust slysatryggðir samkvæmt ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993, án tillits til þess hvernig slysið bar að höndum og hverjum það var um að kenna. En þetta er ekki svona einfalt, því þó svo að sjómaður meiðist við vinnu sína um borð eru þeir ekki í öllum tilvikum slysatryggðir. Þá getur sú staða einnig komið upp að bótaréttur sjómanna sem slasast um borð falli niður sé ekki rétt staðið að málum í kjölfar slyssins.
Slys eru ekki alltaf slys – hvaða slys eru bótaskyld?
Þegar skipverjar meiðast við vinnu sína um borð í skipi þá halda flestir að þeir séu sjálfkrafa tryggðir samkvæmt hinni góðu slysatryggingu sjómanna. Af þessum ástæðum hafa menn til dæmis ekki vandað nægjanlega til verka þegar verið er að skrá upplýsingar um slys í skipsdagbók og slysatilkynningar. Raunin er hins vegar sú að það skiptir máli hvernig slys ber að, til þess að það falli undir slysatryggingu sjómanna og að menn njóti bótaréttar samkvæmt tryggingunni. Það að slasast um borð þýðir ekki endilega að viðkomandi skipverji sé tryggður samkvæmt slysatryggingunni, því samkvæmt skilmálum tryggingarinnar þarf slysi að hafa verið valdið af skyndilegum utanaðkomandi atburði, án vilja þess sem meiðist, til þess að um bótaskylt slys sé að ræða. Séu þessi skilyrði ekki fyrir hendi telst skipverjinn ekki vera slysatryggður, þrátt fyrir að hafa hlotið meiðsli við vinnu sína um borð, og er óvinnufærnin þá flokkuð sem veikindi eða sjúkdómur og er þá enginn bótaréttur fyrir hendi leiði meiðslin til varanlegs líkamstjóns. Taka má dæmi um þennan mun á slysi og veikindum með því að skipverji sem rennur á bleytu eða glussa og dettur og meiðir sig eða skipverji sem slasast við að vír slæst utan í hann, hann er slysatryggður samkvæmt slysatryggingu sjómanna. Hins vegar skipverji sem meiðist í baki við ofreynslu eða að beita sér vitlaust til dæmis við að lyfta eða ýta einhverju þungu hann er ekki slysatryggður samkvæmt slysatryggingunni, því þeim meiðslum er þá ekki valdið af skyndilegum utanaðkomandi atburði, heldur af röngu átaki skipverjans sjálfs. Er því mikilvægt láta skrá slys tafarlaust, með skilmerkilegum hætti í skipsbók, því hér getur eitt smáatriði skipt sköpum fyrir bótarétt viðkomandi skipverja, sérstaklega þegar um alvarleg meiðsli er að ræða eða meiðsli sem skerða starfsgetu viðkomandi skipverja til lengri tíma litið.
Strangar reglur um tilkynningu vinnuslysa – bótarétturinn getur glatast.
Um slysatryggingu sjómanna gilda ákvæði laga um vátryggingarsamninga. Hafi sjómaður hlotið varanleg mein í sjóvinnuslysi er honum skylt samkvæmt lögunum tilkynna um slysið til viðkomandi tryggingafélags innan eins árs frá því honum mátti vera það ljóst að um varanlegar afleiðingar væri að ræða. Með öðrum orðum hafa sjómenn aðeins eitt ár til að tilkynna um slysið til tryggingafélagsins frá því þeim varð þetta ljóst. Berist tryggingafélaginu ekki tilkynning innan þess tíma fellur bótaréttur sjómannsins niður að öllu leyti og á hann enga kröfu lengur á hendur félaginu, jafnvel þó svo að afleiðingar slyssins sé alvarlegar. Er það því mikilvægt að sjóvinnuslys séu tilkynnt sem fyrst til viðkomandi tryggingafélags eigi síðar en að ári liðnu. Margir halda að útgerðirnar tilkynni öll skráð vinnuslys til tryggingafélaganna er raunin er alls ekki sú. Hefur það allt of oft gerst hin síðustu ár að sjómenn hafi glatað bótarétti sínum með því að bótaskyld slys hafi ekki verið tilkynnt fyrr en það var orðið of seint.
Þegar sjóvinnuslys ber að höndum er því að mörgu að huga. Skulu sjómenn sem slasast í sjóvinnuslysi því ganga sem fyrst úr skugga um það gengið sé frá málum með öruggum og nákvæmum hætti, þannig að tryggt sé að hagsmunir og bótaréttur þeirra sé frá upphafi tryggður, þannig að þeir eigi það ekki á hættu að glata sínum bótarétti.