3 minute read
Hvað er handan við hornið?
skólameistari Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum
Í Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum er lagt kapp á að mennta einstaklinga til að takast á við framhaldsnám og störf framtíðarinnar. Í Vestmannaeyjum þar sem við lifum og hrærumst í sjávarútvegi er þörf fyrir einstaklinga sem eru menntaðir í störfum er lúta beint að sjávarútvegi. Einstaklinga er koma með nýjar hugmyndir og nýjar lausnir er leiða til betri nýtingar á afurðum ásamt því að auka verðmæti þess sem þegar er framleitt.
Við vitum að störfin sem eru handan við hornið verða að mörgu leyti ólík því sem við þekkjum í dag. Sjálfvirkni leysir af hólmi mörg störf og í skólanum er búið að bæta við fullkomnum tölvustýrðum tækjum og notaðir eru vélahermar til að leysa flókin verkefni.
En þó að margt sé að breytast þá er skólinn meðvitaður og undirbýr nemendur einnig fyrir það sem ekki breytist, allavega ekki næsta áratuginn. Við fáum mikið af upplýsingum um hvað tæknidrifin atvinnusköpun mun hafa mikil áhrif á samfélag okkar. Við fáum mikið af spádómum um hvað framtíðin ber í skauti sér, en það er auðvelt að villast af leið. Því spárnar eru stundum byggðar á gölluðum forsendum, notuð eru hugtök sem eru okkur ekki töm og við jafnvel skiljum ekki. Auðvitað á að horfa fram á veginn og mikilvægt fyrir okkur öll, ekki einungis unga fólkið sem er í námi, að hugsa um hvað er framundan til að undirbúa okkur fyrir framtíðina. Það er gagnlegt að skilja hvernig sú starfsgrein sem einstaklingur velur sér og hvernig atvinnugreinar geta breyst á næstu árum. Hins vegar er mikilvægara að vera sveigjanlegur, sýna seiglu og aðlögunarhæfni og vera þannig tilbúinn fyrir það sem kemur næst. Framtíðin er óútreiknanleg eins og hefur komið hvað best fram í þessum heimsfaraldri, jafnvel vönduðustu spár gátu ekki reiknað út þá stöðu sem heimurinn er í.
Til að ná þeirri hæfni sem sveigjanleiki, seigla og aðlögunarhæfni þarfnast þarf að tileinka sér nokkra lykilþætti sem eru ekki síður mikilvægir í náminu en að læra beinlínis á nýjustu tæknina.
Einstaklingar þurfa að tileinka sér að halda ekki of fast í það sem fyrir er. Þeir þurfa að temja sér það lífviðhorf að fagna breytingum og láta tækifærin ekki líða hjá. Allir hafa ákveðna færni og það eru margar leiðir til að sinna þeim störfum sem við tökum að okkur. Við þurfum að þekkja gildin sem við stöndum fyrir og hvernig við getum best ræktað þau. Með þeirri þekkingu náum við að gera sem mest verðmæti fyrir okkur sjálf og okkar samfélag. Árangur í starfi krefst stöðugrar endurmenntunar. Einstaklingur þarf að vera vakandi fyrir nýjum vinnubrögðum og vera opinn fyrir að prófa nýtt verklag og kanna nýjar hugmyndir.
Gott tengslanet verður seint ofmetið, það er mikilvægt að byggja upp sambönd og slíkt tekur tíma. Öll samskipti skipta gífurlegu máli og við þurfum að vera meðvituð um að heimurinn er ekki stór. Við þurfum að gæta að því að vera ekki of upptekinn við það sem skiptir ekki máli. Tímastjórnun er mikilvæg við þurfum að skipuleggja okkur og við þurfum að verja tíma okkar vel. Við þurfum að vera varkár að fórna ekki langtíma ávinningi fyrir stundargróða. Í skólanum er unnið með hugarfar grósku og lögð er áhersla á seiglu og að gefast ekki upp sem er bráðnauðsynlegt á tímum breytinga. Stundum fara hlutirnir ekki eins og við ætluðum en þá er mikilvægt að einblína ekki á vonbrigðin heldur vaxa í gegnum áskorunina og læra af mistökunum. Í skólanum ræktum við þessa þætti og vitum að við getum ætíð gert betur og að hver dagur býður upp á tækifæri til að gera eitthvað nýtt.