2 minute read

Stefndi á gullsmíði en féll fyrir netagerðinni

Next Article
Hátíð hafsins

Hátíð hafsins

segir Elísabet Finnbjörnsdóttir, netagerðarnemi og starfsmaður hjá Hampiðjunni

„Netagerð er starfsvettvangur sem ég mæli hiklaust með fyrir alla því þetta er að mínu mati fjölbreytt og skemmtilegt starf,“ segir Elísabet Finnbjörnsdóttir sem starfar í netagerð Hampiðjunnar í Reykjavík. Áður starfaði hún í Hampiðjunni á Ísafirði. Elísabet er í námi í veiðarfæragerð í Fisktækniskóla Íslands en um er að ræða fjarnám. Raunar lætur hún ekki þar við sitja því hún er einnig í skipstjórnarnámi hjá Skipstjórnarskólanum og hefur því mörg járn í eldinum. En hvernig rataði hún inn í vinnu við netagerð?

„Þetta kom upphaflega þannig til að ég fór á sínum tíma í heimsókn með vinkonu minni í Hampiðjuna á Ísafirði þar sem pabbi hennar er yfirmaður og þegar við gengum út var ég komin með vinnu í netagerðinni. Það var því eiginlega tilviljun að ég fór að vinna í þessu og ég sé ekki eftir því,“ segir Elísabet. Hún segist ekki hafa haft tengingar við netagerðina sem slíka en vera komin af sjómönnum og sé því vön umræðu um sjómennsku og veiðarfæri. Elísabet segir lítið um konur í netagerðinni, þær hafi stundum verið fleiri meðan hún starfaði hjá Hampiðjunni á Ísafirði en hún er í augnablikinu eina konan í netagerðarvinnunni hjá Hampiðjunni í Reykjavík.

Lærir skipstjórn og veiðarfæragerð á sama tíma

„Þetta er hiklaust starf sem konur mættu velta fyrir sér. Mér finnst starfið fjölbreytt, það er ekki líkamlegt erfiði og alltaf eitthvað nýtt að læra,“ segir Elísabet sem ákvað, eftir að hafa kynnst starfinu, að grípa tækifærið og skrá sig í fjarnám í netagerð hjá Fisktækniskólanum.

„Ég fæ starfstíma minn í netagerðinni metinn og læri á mínum vinnustað að vinna með veiðarfærin. Með náminu fæ ég innsýn í ólíkar gerðir veiðarfæra, læri um útreikning á veiðarfærum, geri módel af veiðarfærum og ýmislegt fleira. Þetta er mjög gagnlegt,“ segir Elísabet og bætir því við að hún hafi haft augastað á gullsmíðanámi áður en hún kynntist netagerðinni. „En eftir að ég kynntist netagerðinni þá vissi ég að þetta var eitthvað sem mig langaði að læra alveg óháð því hvað ég ætlaði að gera við þessa þekkingu.“

Aðspurð segist Elísabet vonast til að fá tækifæri til að nýta þá skipstjórnarþekkinguna þegar þar að kemur og þá komi netagerðarkunnáttan henni vafalítið til góða.

„Fyrir skipstjórnendur er gott að hafa líka innsýn og þekkingu á veiðarfæragerðinni þannig að þetta tvennt nýtist saman. En markmiðið með því að læra bæði skipstjórnina og netagerðina er að skapa mér atvinnutækifæri í framtíðinni bæði á sjó og landi,“ segir hún.

Elísabet Finnbjörnsdóttir. Ljósmynd aðsend

This article is from: