3 minute read
Vinnslustöðin kaupir fjölskyldufyrirtækið Huginn ehf
Vinnslustöðin hf. í Vestmannaeyjum keypti nýverið útgerðarfélagið og fjölskyldufyrirtækið Huginn ehf. Eins og fram kemur á vef Vinnslustöðvarinnar keypti félagið fjölveiðiskipið Huginn VE 55 ásamt veiðiheimildum Hugins ehf. í makríl, loðnu, kolmunna og síld. Kaupsamningurinn var undirritaður 29. janúar síðastliðinn. Fyrir átti Vinnslustöðin 48% hlut í Hugin en á nú fyrirtækið allt. Vinnslustöðin hf. hyggst starfrækja fyrirtækið í óbreyttri mynd.
Eins og fram kemur á vef Vinnslustöðvarinnar eru seljendur Hugins ehf. ein dóttir og þrír synir hjónanna Guðmundar Inga Guðmundssonar og Kristínar Pálsdóttur. Tveir ættliðir Hugins munu vinna hjá Vinnslustöðinni og eru það bræðurnir Guðmundur Huginn og Gylfi Viðar Guðmundssynir ásamt syni Guðmundar Hugins og alnafna afa síns Guðmundi Inga Guðmundssyni. Ákveðið hefur verið að þeir muni deila skipstjórasætinu á Hugin VE 55. Páll Þór Guðmundsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Hugins ehf, er skipstjórnarmenntaður eins og bræður hans og tók við framkvæmdarstjórn fyrirtækisins árið 2001 en lætur nú af störfum.
Á vef Vinnslustöðvarinnar kemur einnig fram að Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdarstjóri Vinnslustöðvarinnar, telur að kaup fyrirtækisins á Hugin ehf séu góðar fréttir fyrir Vinnslustöðina sem og Vestmannaeyjar: ,,Það var ekki sjálfgefið að kaupandi meirihluta Hugins væri félag í Eyjum en systkinin eru trú og trygg byggðarlaginu sínu og lögðu áherslu á að félagið, skipið og aflaheimildirnar yrðu hér áfram. Við erum afar ánægð með þá afstöðu þeirra,” segir Sigurgeir Brynjar.
Útgerðarfélagið Huginn ehf. var stofnað árið 1959 af þeim Guðmundi Inga Guðmundssyni og Óskari Sigurðssyni. Guðmundur Ingi Guðmundsson fæddist í Hafnarfirði 22. október 1932. Hann útskrifaðist sem stýrimaður frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík árið 1954 og flutti til Vestmannaeyja árið 1955 og varð þar farsæll skipstjóri og útgerðarmaður. Óskar Sigurðsson fæddist í Vestmannaeyjum þann 1. júní 1910. Hann útskrifaðist úr Verslunarskóla Íslands árið 1929 og fór þá út fyrir landsteinana til frekara náms í Þýskalandi. Varð hann síðar gjaldkeri og sá um bókhald fyrir Vinnslustöðina í Vestmannaeyjum og varð seinna meir forstjóri Vinnslustöðvarinnar.
Fyrsti báturinn sem þeir Guðmundur Ingi og Óskar keyptu saman var 62 tonna trébátur sem silgdi í höfn í Vestmannaeyjum 22. október árið 1959, á 27 ára afmælisdegi Guðmundar Inga. Fékk báturinn nafnið Huginn VE 65. Það var svo árið 1963 sem fyrirtækið keypti Huginn II VE 55, 216 tonna stálskip sem var smíðað í Þrándheimi í Noregi. Var það skip afar aflasælt.
Huginn VE-55 kemur til heimahafnar eftir lengingu í Póllandi. Ljósmynd, Sigurgeir Jónasson.
Árið 1972 stofna útgerðir Hugins VE 55 og Bergs VE 44 nýtt útgerðarfélag saman sem fékk nafnið Bergur-Hugin ehf. og, eins og fram kemur á vef Síldarvinnslunnar, gerði Bergur-Huginn fyrst út skuttogarann Vestmannaey. Síldarvinnslan keypti Berg-Hugin ehf. árið 2012 og gerir tvö skip félagsins, Vestmannaey og Bergey, út frá Vestmannaeyjum.
Árið 1975 fær Huginn ehf. nýtt skip smíðað fyrir sig í Mandal í Noregi og var það skip afhent sama ár. Það skip fékk nafnið Huginn VE 55 og var það selt til Rússlands árið 2003. Það var svo í desember árið 1998 sem ákveðið var að smíða nýtt skip í Chile. Smíðin á því skipi dróst um eitt ár en í júní árið 2001 kom skipið loksins í heimahöfn í Vestmannaeyjum. Sama ár gerist SR-mjöl meðeigandi í Hugin ehf. en Síldarvinnslan kaupir nokkru síðar þann hlut. Síldarvinnslan og SR-mjöl sameinuðust í eitt fyrirtæki 1. janúar 2003 undir nafni Síldarvinnslunnar. Árið 2005 kaupa Guðmundur Ingi og fjölskylda hlut Síldarvinnslunnar í fyrirtækinu. Sama ár selja þau Vinnslustöðinni 48% hlut í Hugin ehf.
Fjölveiðiskipið Huginn VE 55 kom til Vestmannaeyja 2001 og er það öflugt og vel búið skip sem er að mestu hugsað sem síldar- og kolmunnaveiðiskip. Það veiðir uppsjávarfisk í nót eða flottroll. Eins og stendur á vef Vinnslustöðvarinnar var útgerðarfélagið Huginn ehf frumkvöðull í makrílveiðum á Íslandi. Árið 2002 hófst makrílævintýri Hugins ehf. Í fyrstu var árangurinn misjafn en það var svo um sumarið 2007 sem Huginn VE 55 veiddi 3000 tonn af makríl; 2500 í íslenskri lögsögu og 500 komu úr færeysku lögsöginni. Hófust þar með beinar makrílveiðar í lögsögu Íslands.