8 minute read

Skaginn 3X og Baader í eina sæng

Samningur Skagans 3X og Loðnuvinnslunnar undirritaður. Frá vinstri: Þorri Magnússon - framleiðslustjóri (LVF), Friðrik Mar Guðmundsson - framkvæmdastjóri (LVF), Ingvar Vilhjálmsson - svæðissölustjóri (Skaginn 3X), Steinþór Pétursson - skrifstofustjóri (LVF), Einar Brandsson - söluhönnuður (Skaginn 3X), Rúnar Björn Reynisson - vélahönnuður (Skaginn 3X). Myndir aðsendar

Í október í fyrra var tilkynnt um kaup þýska fyrirtækisins Baader á meirihluta í Skaganum 3X. Kaupin gengu í gegn nú í febrúar og nú stendur yfir vinna við samþættingu starfseminnar. Samstarfið felur í sér mörg spennandi tækifæri fyrir bæði fyrirtæki að sögn Ingvars Vilhjálmssonar, svæðissölustjóra Skagans 3X í Evrópu, en blaðamaður Sjávarafls sló á þráðinn og tók á honum stöðuna.

Öflugt samstarf

Mál málanna hjá Skaganum 3X þessa dagana er innkoma Baader í rekstur fyrirtækisins, sem er með fimm starfsstöðvar, fjórar á Íslandi og eina í Noregi. „Við þetta verða talsverðar breytingar innan Skagans 3X,“ segir Ingvar. „Við göngum inn í það víðtæka sölukerfi sem Baader býr yfir. Það hefur byggst upp á tugum ára, enda Baader 100 ára gamalt fjölskyldufyrirtæki með söluskrifstofur og þjónustuaðila um allan heim. Vörur Skagans 3X verða þannig fáanlegar á mun fleiri stöðum og það má segja að með svona breytingum séum við að stimpla okkur inn á stærri markaði.“ Talsverð endurskipulagning fylgir samruna sem þessum. Fyrsta skrefið er sameiginlegt alþjóðlegt sölunet þar sem sölufólk Skagans 3X og Baader munu samræma sölu tæknilausna fyrirtækjanna og leiða saman krafta sína til að sækja enn lengra, ásamt því að viðhalda tengslum fyrirtækjanna við viðskiptavini sína. Framleiðsla og vöruþróun hér á landi fer þó enn fram undir merkjum Skagans 3X en Ingvar segir það spennandi að vera komin undir hatt Baader: „Þetta er náttúrulega mjög rótgróið og gamalt fyrirtæki. Baader hefur lagt áherslu á flökunarvélar í gegnum tíði na og er mjög sterkt í heildarlausnum fyrir lax í dag. Aðalsmerki Skagans 3X hefur svo verið í heildarkerfum fyrir uppsjávarvinnslu og í kælilausnum.“ Fyrirtækin eiga því góða samleið og ljóst að fyrirtækin geta stutt hvort við annað með fjölbreyttu vöruúrvali og samnýtingu þekkingar.

Loðnuvinnslan

Uppsjávarvinnslukerfi Skagans 3X hafa notið mikilla vinsælda og þá sérstaklega í loðnuvinnslu. „Skaginn 3X hefur sett upp töluvert af slíkum verksmiðjum, til dæmis í Eskju hérna á Íslandi, Síldarvinnsluna í Vestmannaeyjum og svo hafa verið settar upp nokkrar stórar verksmiðjur í Færeyjum en einnig í Rússlandi,“ segir Ingvar. Fyrr í þessum mánuði undirrituðu Skaginn 3X og Loðnuvinnslan samning um nýtt uppsjávarvinnslukerfi fyrir starfsemi fyrirtækisins á Fáskrúðsfirði, sem Ingvar segir góð tíðindi fyrir Loðnuvinnsluna: „Við höfum átt gott samstarf

Frysting er orkufrek en ef við berum saman okkar lausnir í plötu- og kassafrystingu við hefðbundna blástursfrystingu þá nota þær allt að 40% minni orku. Þetta er eitt af því sem horft ert til þegar ábatinn af nýjum lausnum er reiknaður út.

Við búum svo vel að vera mjög nálægt upprunanum. Báðar okkar verksmiðjur eru nálægt höfnum og því höfum við auðvelt aðgengi að fiski og erum nálægt framleiðslunni, en það skiptir sköpum þegar verið er að gera tilraunir með ný tæki og tól.

um árabil, og í fyrrasumar settum við upp sjálfvirkt karaþvottakerfi hjá þeim. Loðnuvinnslan hefur staðið í miklum framkvæmdum og endurbótum á húsnæði og tækjabúnaði undanfarið, og nýja vinnslan er liður í því verkefni.“

Í ljósi góðs árangurs undanfarið var ákveðið að flýta uppfærslu uppsjávarverksmiðjunnar: „Það var á fimm ára áætlun hjá þeim, en þar sem síðasta loðnuvertíð gekk vel heilt yfir var ákveðið að taka þetta í tveimur skrefum og sjálfvirknivæða bakendann á vinnslunni núna. Nýja kerfið er alsjálfvirkt og mun það meðal annars búa yfir þremur sjálfvirkum plötufrystum. Í gamla kerfinu hjá þeim var allt gert á höndina, handraðað í frysta og á bretti. Flökun og annað slíkt er í öðru húsnæði hjá þeim. Nú munu þeir koma með körin þegar búið er að flaka fiskinn, skammtarnir koma þá inn í vigtarkerfi, ofan í pokavélar og sjálfvirkt inn á frystana. Þaðan fer fiskurinn frosinn inn á kassavélar og þjarkar raða svo öllu saman á bretti. Það eina sem þarf að gera handvirkt er að taka við brettunum á lyftara og færa inn í frystigeymslu,“ segir Ingvar, en auk þess að útvega pokavélar og frysta hefur Skaginn 3X umsjón með uppsetningu og uppstillingu á verksmiðjunni. Hönnun og framleiðsla er þegar hafin en stefnt er á að gangsetja verksmiðjuna fyrir næstu loðnuvertíð: „Þeir klára makrílvertíðina í sumar, taka svo niður tækin og nýju vélarnar koma inn.“

Sjálfvirknin efst á dagskrá

Breytingar á framleiðsluferlum á alheimsvísu hafa aukið eftirspurn eftir sjálfvirkum vinnslulausnum. Í Bandaríkjunum hefur stór hluti sjávarútvegs byggt á því að vinna á vertíðum með innfluttu vinnuafli og flytja hráefnið óunnið til Asíu. Þar er aflinn unnin og fluttur aftur til baka. Flutningskeðjur heimsins og hreyfanleiki vinnuafls hefur þó tekið breytingum í kjölfar Covid-19 faraldursins. „Veiran hefur gert það að verkum að þessi fiskur er ekki að fara til Asíu heldar leitar hann inn á meginlandið til frekari vinnslu. Fyrirtæki þar hafa ekki jafn greiðan aðgang að vinnuafli og undir venjulegum kringumstæðum. Þetta ýtir því við þeim að sjálfvirknivæða sig til að halda sömu framleiðslugetu,“ segir Ingvar.

Samkvæmt honum felur þessi þróun í sér ýmis tækifæri fyrir Skagann 3X og Baader: „Með því að leggja saman krafta okkar og Baader eigum við miklu meira erindi inn á þessa markaði, við erum með breiðara vöruúrval og sterkara sölu- og þjónustunet. Baader hefur alltaf haft það að leiðarljósi að selja engar vörur inn á markaði án þess að geta boðið upp á þjónustu á staðnum, það er gríðarlega mikilvægt að geta þjónustað viðskiptavini eftir að búnaður hefur verið settur upp. Við ætlum því að byggja á þeim góða grunni sem Baader hefur skapað til að koma vörum frá Skaganum 3X inn á þessa markaði.“

Skert ferðageta í kjölfar Covid hefur tafið ýmis verkefni, en nú þegar birta tekur til er kapp lagt á að svara uppsafnaðri þörf: „Það skiptir gríðarlega miklu máli að fólk geti hist og farið yfir málin. Þessi stærri verkefni taka oft mörg ár þar sem verið er að smíða stórar lausnir með flóknum hugbúnaði. Það sem hefur verið erfiðast í þessu er að við höfum ekki átt auðvelt með að koma uppsetningarmönnum út í heim til að setja upp kerfin,“ segir Ingvar en bætir kíminn við að menn muni hlaupa beint á flugvöllinn eftir bólusetningu í Laugardalshöllinni til að sinna því verkefni að sjálfvirknivæða heiminn.

Uppsjávarvinnslukerfið sem sett verður upp hjá Loðnuvinnslunni. Ingvar Vilhjálmsson, svæðissölustjóri Skagans 3X í Evrópu.

Frystilausnir í breytilegum heimi

Það er ærið verkefni að laga sig að breyttum aðstæðum í breyttum heimi. Undanfarin ár hefur eftirspurn eftir ferskum fiskvörum aukist. Faraldurinn hefur hins vegar gert það að verkum að veitingahús, fiskbúðir og fiskborð í stórmörkuðum víða um heim hafa þurft að skella í lás. Aftur á móti hafa aðrir geirar komið inn sterkir og fiskneysla sem slík hefur haldist í horfinu. Framleiðendur hafa þó tekið eftir auknu kalli eftir frystum fiski og kanna því margir möguleikann á því að bjóða upp á hvoru tveggja. „Þar getur Skaginn 3X komið sterkur inn. Við höfum lagt mikla áherslu á frystilausnir, bæði í fiski og kjöti,“ segir Ingvar en lausnir Skagans 3X eru tvíþættar: „Við bjóðum upp á sjálfvirka lausfrysta sem hafa verið að ryðja sér til rúms og svo erum við með hefðbundna plötu- og kassafrysta eins og þá sem við munum setja upp hjá Loðnuvinnslunni. Þar erum við með þrýstingslausa tækni svo gæði vörunnar haldast betur í gegn, og í lausfrystingu notum við áldropa sem auka virknina og spara tíma og orku.“

Síðustu ár hefur átt sér stað vitundarvakning hvað varðar sjálfbærni og hliðarafurðir. „Frysting er orkufrek en ef við berum saman okkar lausnir í

Það eru stórar fréttir að svona stórt alþjóðlegt fyrirtæki kaupi lítið fyrirtæki á Íslandi og það sýnir hversu framarlega við stöndum í tækni og þróun. Við vekjum athygli um allan heim fyrir hugvit og nýsköpun.

Plötufrystar Skagans 3X í nýrri verksmiðju Eskju.

plötu- og kassafrystingu við hefðbundna blástursfrystingu þá nota þær allt að 40% minni orku,“ segir Ingvar og bætir við: „Þetta er eitt af því sem horft ert til þegar ábatinn af nýjum lausnum er reiknaður út. Hagkvæmni er lykilhugtak þegar kemur að því að nýta takmarkaðar auðlindir eins vel og hægt er. Við höfum einnig lagt áherslu á vinnslu hliðarafurða, sem menn gáfu kannski ekki mikinn gaum áður fyrr.“

Nýsköpunarlandið Ísland

Stór hluti af starfsemi Skagans 3X snýr að þróun og nýsköpun, og hefur fyrirtækið staði framarlega í þeim efnum um árabil. Í kaupum Baader á meirihluta í Skaganum 3X vegur sá þáttur ansi þungt að sögn Ingvars: „Við búum svo vel að vera mjög nálægt upprunanum. Báðar okkar verksmiðjur eru nálægt höfnum og því höfum við auðvelt aðgengi að fiski og erum nálægt framleiðslunni, en það skiptir sköpum þegar verið er að gera tilraunir með ný tæki og tól. Við erum líka með fullt af hæfu fólki og það eru hvatar hjá ríkisstjórninni í dag að laða að vel menntað fólk til Íslands og allt þetta leggst á sömu árinu, að það er verið að búa til umhverfi til þess að skapa eitthvað nýtt.“ Laxaframleiðsla fer vaxandi í heiminum og fyrir vestan hafa skotið upp kollinum ný fyrirtæki síðustu ár sem stækka ört. Þá kemur sér vel fyrir Skagann 3X og Baader að vera með framleiðslu á Ísafirði: „Baader er mjög framarlega í laxavinnslu þannig að ef þeir eru að þróa ný tæki og nýja tækni þá er nærtækast að vera við markaðinn og við upprunann, til að fá eins ferskt hráefni og mögulegt er. Það eru stórar fréttir að svona stórt alþjóðlegt fyrirtæki kaupi lítið fyrirtæki á Íslandi og það sýnir hversu framarlega við stöndum í tækni og þróun. Við vekjum athygli um allan heim fyrir hugvit og nýsköpun og það hefur verið gefið út að menn ætli frekar að gefa í hvað þetta varðar heldur en hitt. Þetta mun styðja við bæjarfélögin þar sem Skaginn 3X starfar á, bæði á Akranesi og á Ísafirði og það er fullur vilji að efla það enn frekar,“ segir Ingvar að lokum.

This article is from: