8 minute read
við verðum að finna leið
English translation of the article is available on Studentabladid.is
Advertisement
Viðtal við heilbrigðisráðherra
GREIN Hólmfríður María Bjarnardóttir Kevin Niezen
MYND Aðsend
Stúdentablaðið ræddi við Svandísi Svavarsdóttur um ástandið í samfélaginu. Starf heilbrigðisráðherra hefur sennilega aldrei verið eins áberandi, aldrei eins mikilvægt og aldrei haft eins mikil áhrif á daglegt líf stúdenta.
Svandís Svavarsdóttir tók við sem heilbrigðisráðherra 1. desember 2017 en síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Svandís hefur áður gegnt ráðherraembætti, en hún var umhverfisráðherra 2009–2012 og umhverfis- og auðlindaráðherra 2012–2013. Áður en Svandís fór í stjórnmál starfaði hún m.a. sem kennslustjóri í táknmálsfræði og táknmálstúlkun við Háskóla Íslands. Við spurðum hana hvort að táknmál ætti að vera skyldufag í skólum. „Já – það væri verðugt markmið. Hins vegar er ákveðin áskorun fólgin í því hversu marga kennara við þyrftum til að ná því markmiði. Best væri að kennararnir væru móðurmálstalandi táknmálsnotendur og sá hópur er ekki stór. Væntanlega þyrfti að ráðast í mikla námsefnisgerð á vef og jafnframt þyrfti að tryggja að efnið væri gagnvirkt eins og nokkurs væri kostur.“
Einn aðstoðarmanna Svandísar er ung kona á þrítugsaldri. Við spurðum hvort Svandísi þætti mikilvægt að ungt fólk sæki í störf hjá hinu opinbera og hvers vegna. „Það er mjög gott að alls konar fólk sinni alls konar störfum, og ég held að það starfi í raun margt ungt fólk í fjölbreyttum störfum hjá hinu opinbera, sem er jákvætt. Það er líka mikilvægt að fólk á öllum aldri taki þátt í stjórnmálastarfi. Ég er með tvo aðstoðarmenn og aldursbilið milli þeirra er 41 ár og mér finnst mjög gott að þau séu annars vegar ung kona með lögfræðimenntun og hins vegar eldri karl með mikla reynslu og þekkingu á heilbrigðissviði, það er góð blanda,“ segir Svandís.
MIKILVÆGT AÐ TRYGGJA JAFNT AÐGENGI
ALLRA AÐ HEILBRIGÐISÞJÓNUSTU Meðal verkefna sem Svandís hefur beitt sér fyrir eru bætt geðheilbrigðisþjónusta og leiðir til að efla lýðheilsu. Í vor var samþykkt frumvarp um að sálfræðiþjónusta færi undir sjúkratryggingar og yrði hluti af almenna tryggingakerfinu, en það á að taka gildi um næstu áramót. Við spurðum Svandísi hvernig það gengi og hvort hún væri bjartsýn á að það muni koma til framkvæmdar. „Ég hef lagt mikla áherslu á eflingu geðheilbrigðisþjónustunnar um land allt; við höfum á meðan ég hef gegnt starfi heilbrigðisráðherra fullmannað geðheilsuteymi um land allt, fjölgað sálfræðingum í heilsugæslunni og lagt áherslu á forvarnir og lýðheilsu. Nýlega styrkti ég Pieta-samtökin til að efla forvarnarstarf samtakanna gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða og ég tók ákvörðun um að fjármagna stöðu verkefnastjóra sjálfsvígsforvarna hjá embætti landlæknis út næsta ár. Það hefur því mikið gerst á þessu málefnasviði en áskoranirnar á tímum COVID-19 eru margar og erfiðar,“ svarar Svandís. Hún sagði ríkisstjórnina hafa verið meðvitaða um þetta frá upphafi faraldursins og að í apríl hafi verið tilkynnt um átak, sem í færu 540 milljónir króna, til að stuðla að geðrækt og bættri andlegri heilsu íbúa landsins. En í frumvarpi til fjárlaga er líka gert ráð fyrir þessari upphæð árið 2021. „Umræðan um geðheilbrigði og andlega líðan er líka orðin mun opnari og meiri en hún var fyrir nokkrum árum, sem er gott,“ segir Svandís og bætir við „Samráð við notendur geðheilbrigðisþjónustunnar og þau sem hafa reynslu af geðsjúkdómum hefur líka verið fest í sessi, enda löngu tímabært. Mikilvægi þess að grípa snemma inn í hefur verið meira áberandi, bæði í fræðilegri umræðu og samfélagsumræðunni, og mikilvægi þess að styrkja þjónustu í nærumhverfi, eins og við höfum verið að gera með eflingu heilsugæslunnar.“
Í viðtali árið 2019 sagði Svandís að stundum sé sagt að það segi mest um samfélag hvernig það fer með sína viðkvæmustu hópa. Aðspurð um hvað sú setning segði um það hvernig við, sem samfélag, komum fram við heimilislausa og fólk með fíknivanda, svarar hún að sá punktur skipti miklu máli. „Eitt af mínum aðalmarkmiðum í embætti heilbrigðisráðherra er einmitt að tryggja jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu, óháð ytri aðstæðum eins og efnahag, búsetu, kyni og félagslegri stöðu að öðru leyti. Við höfum nú þegar lækkað greiðsluþátttöku sjúklinga umtalsvert á
kjörtímabilinu og til dæmis fellt niður komugjöld í heilsugæslu fyrir öryrkja og lífeyrisþega. Þegar kemur að hópum sem þessum skiptir miklu að þjónustan sé laus við hindranir eins og kostur er og kostnaður er stór hindrun fyrir allt of marga.“
Við spurðum Svandísi út í tildrög frumvarpsins um neyslurými, hvar þau stæðu núna og hvort hún sæi fyrir sér að neyslurými opnuðu í náinni framtíð, í ljósi þess að fólk vill ekki fá húsnæði fyrir heimilislausa í nærumhverfi sitt, hvað þá neyslurými. „Ég hef mikla trú á skaðaminnkandi nálgun þegar kemur að vímuefnavanda og er sannfærð um að sú leið sé til þess fallin að auka lífsgæði fólks með fíknivanda. Þess vegna var ég sérstaklega stolt af því þegar lög um neyslurými voru samþykkt á Alþingi í sumar. Með því erum við að sýna fólki virðingu sem er í sérstaklega erfiðri stöðu og er jaðarsettast af öllum íbúum samfélagsins. Það er gríðarlega mikilvægt að við mætum fólki þar sem það er statt og ég veit að það er jákvæður vilji fyrir því að koma neyslurými á laggirnar hjá Reykjavíkurborg, svo vonandi verður það að raunveruleika sem allra fyrst.“
MEÐVITUÐ UM ÓÞEKKTAN ÓVIN Við spurðum Svandísi hvort þriðja bylgjan hafi komið henni á óvart „Nei, í raun kom það mér ekki á óvart þegar þriðja bylgjan hófst, því ég var og er meðvituð um að við erum að glíma við áður óþekktan óvin sem við vitum ekki hvernig mun haga sér. Við vitum líka að á meðan veiran er á kreiki í heiminum þá verður hún viðfangsefni heilbrigðiskerfisins og samfélagsins hér.“ Aðspurð um hvort hægt væri að spá fyrir um endann á veirunni og hvort hún bindi vonir við bóluefni eða telji best að stemma stigu við veirunni með smitvörnum og aðlögunarhæfni samfélagsins segir Svandís að það sé ljóst að við getum ekki séð fyrir endann á þessu ferli og verðum að finna leið til að lifa með veirunni til lengri tíma. „Ég veit að það er ekki það sem fólk vill heyra, en þess vegna er mikilvægt að vera með skýrar sóttvarnaaðgerðir og að fólk hugi vel að sínum persónubundnu sóttvörnum. Svo má heldur ekki tapa gleðinni, þetta mun hafast. Við munum komast í gegnum þetta saman.“
Samvinna hins opinbera og einkageirans í baráttunni við COVID-19 á Íslandi þykir áhugaverð. Við spurðum Svandísi út í þátttöku Íslenskrar erfðagreiningar og viðbrögð heilbrigðiskerfisins í baráttunni við veiruna. „Framlag Íslenskrar erfðagreiningar hefur verið ómetanlegt í baráttu okkar við veiruna. Hið opinbera heilbrigðiskerfi hefur sýnt, og sýnir enn, ótrúlegan styrk og sveigjanleika í baráttunni. Heimsfaraldurinn hefur undirstrikað mikilvægi öflugs opinbers heilbrigðiskerfis og að mínu mati er faraldurinn hvatning til okkar allra að halda áfram að styrkja og efla heilbrigðiskerfið okkar allra, og áminning um það hversu mikill auður felst í heilbrigðisstarfsfólki sem hefur lagt alla sína orku í baráttuna við veiruna,“ segir Svandís.
Aðspurð um launaþróun heilbrigðisstarfsmanna segir Svandís: „Það er mín skoðun að allt heilbrigðisstarfsfólk eigi skilið að fá laun sem eru í samræmi við álagið og ábyrgðina sem það sinnir, og þá á ég við allar stéttir sem sinna heilbrigðisþjónustu og tengdum verkefnum. Það er ljóst að stórar kvennastéttir í heilbrigðisþjónustu hafa til dæmis ekki alltaf fengið laun í samræmi við álag og ábyrgð í vinnu og það er ekki í lagi - og ég hef stutt og mun styðja heilbrigðisstarfsfólk í sinni baráttu fyrir bættari kjörum.“ STÆRSTI LÆRDÓMURINN ER EFLAUST
AÐ VERA HEILBRIGÐISRÁÐHERRA Í HEIMSFARALDRI Við spurðum Svandísi út í auðveldustu og erfiðustu ákvarðanir hennar í faraldrinum. „Það var auðveldast að taka þá almennu ákvörðun í upphafi að fylgja ráðum okkar færasta fólks og treysta á rannsóknir og vísindalegan grundvöll hverrar ákvörðunar eins og nokkurs hefur verið kostur. Við höfum lagt áherslu á mikla upplýsingamiðlun og gagnsæi eins og unnt er. Okkar þétta og vel upplýsta samfélag hefur sýnt styrkleika sína í gegnum allar bylgjur faraldursins. Sóttvarnaaðgerðirnar sem af veirunni leiða hafa haft mikil áhrif á samfélagið allt, þ.m.t. atvinnu og efnahag margra en ekki síður lýðheilsu og lífsgæði til lengri tíma. Það er stóra verkefnið okkar núna að reyna að koma til móts við þessi áhrif eins og nokkurs er kostur, m.a. með því að aðstoða þá sem hafa misst vinnuna eða orðið fyrir tekjutapi vegna aðgerðanna.“
Það er erfitt að meta hættu þess að fólk smitist annars vegar og hins vegar kostaðinn fyrir samfélagið að hafa allt lokað. Hvað vegur þyngst að þínu mati? „Hér skiptir lýðheilsa miklu máli og jafnvel allra mestu máli, það er að gæta þess að sóttvarnaaðgerðir stefni lýðheilsu þjóðarinnar í sem minnsta hættu. Ég held að það liggi í augum uppi að við höfum öll lært af reynslunni á þessum tæpu átta mánuðum sem veiran hefur verið á kreiki hér á landi, og sú reynsla gerir það að verkum að við tökum kannski að einhverju leyti öðruvísi ákvarðanir en við gerðum í upphafi,“ segir Svandís.
Við spurðum Svandísi hvernig nálgun almannavarna hafi breyst í ljósi þess hve ófyrirsjáanleg veiran er. „Það er sóttvarnalæknir sem gerir tillögu um sóttvarnaaðgerðir tengdar farsóttum eins og kórónuveirunni. Stóra áskorunin núna snýr að því að við þurfum að læra að lifa með veirunni í lengri tíma og þurfum því að finna jafnvægi milli takmarkandi sóttvarnaaðgerða og þess að samfélagið okkar geti gengið á sem eðlilegastan hátt,“ segir Svandís og bætir við að viðbragðsáætlun vegna heimsfaraldurs sé í sífelldri endurskoðun hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og sóttvarnalækni.
Aðspurð um verkefni hennar á tímabili sínu sem ráðherra segir hún: „Ég er stolt af því að okkur hefur tekist að efla opinbera heilbrigðisþjónustu umtalsvert á kjörtímabilinu, með því að auka fjármagn til málaflokksins, en einnig með því að setja heilbrigðisstefnu fyrir Ísland. Við höfum lokið og vinnum enn að fleiri stórum verkefnum í heilbrigðismálum á kjörtímabilinu, til dæmis ganga framkvæmdir við nýjan Landspítala við Hringbraut vel, greiðsluþátttaka sjúklinga hefur lækkað og mun lækka enn frekar, lög um þungunarrof voru samþykkt og heilsugæslan efld. Mörg verk eru þó enn óunnin og eitt kjörtímabil er alls ekki nóg til þess að klára öll þau verkefni sem ég myndi vilja klára. Málaflokkurinn er auk þess af þeirri stærðargráðu að þeim verkefnum lýkur aldrei. Fjölmörg tækifæri til nýsköpunar og þróunar eru líka vaxandi hluti af heilbrigðismálum nútímans. Stærsti lærdómurinn verður svo eflaust að vera heilbrigðisráðherra í heimsfaraldri, ég sá það ekki fyrir,“ segir Svandís.