Viðtal
DAM-meðferð fyrir fólk sem glímir við tilfinningavanda Viðtal og myndir: Sigríður Elín Ásmundsdóttir
Hrönn Stefánsdóttir og Ragnheiður Eiríksdóttir eru hjúkrunarfræðingar í DAM-teymi göngudeildar lyndisraskana LSH Kleppi. Teymið er þverfaglegt og þjónustar fólk með langvarandi og djúpstæðan tilfinningalegan óstöðugleika. Díalektísk atferlismeðferð (DAM) (e. DBT – dialectical behaviour therapy) byggist á kenningum um samspil líffræði og umhverfis. Meðferðin er fyrir fólk sem glímir við óstöðugleika í tilfinningastjórnun og unnið er út frá einkennum í meðferðinni en ekki ákveðnum greiningum. Fólk sem nýtir sér DAM-meðferð getur haft margvíslegar greiningar eins og til að mynda persónuleikaröskun, áfallastreituröskun, geðhvörf tvö, átröskun, þunglyndi o.fl. Við heyrðum í Ragnheiði og Hrönn og fengum þær til að segja okkur nánar frá DAM-meðferðarúrræðinu og teyminu. Hvenær tók þetta sérhæfða teymi til starfa og hver var hvatinn að því að vera með sérhæft teymi sem veitir DAM-meðferðarþjónustu? Hér á landi var byrjað að veita DAM-meðferð árið 2003 á Hvítabandinu á Skólavörðustíg en upphaflega var meðferðin þróuð í Bandaríkjunum fyrir um 30 árum síðan fyrir einstaklinga sem voru með jaðarpersónuleikaröskun og miklar sjálfsvígshugsanir og/eða sjálfsskaða. Meðferðin er gagnreynd og er notuð víðs vegar um heiminn. Í teyminu starfa sálfræðingar, hjúkrunarfræðingar, félagsráðgjafi, geðlæknir og iðjuþjálfi, en fleiri starfsstéttir koma einnig að þjónustu við skjólstæðinga. Unnið er út frá einstaklingnum þannig að aðkoma einstakra sérfræðinga fer eftir þörfum hvers og eins. Einstaklingar sem leita til teymisins hafa alla jafna reynt ýmis önnur meðferðarúrræði, s.s. HAM, en ekki náð viðunandi bata. Hvað er DAM-meðferð? DAM-meðferð er yfirgripsmikil geðmeðferð sem hefur það að markmiði að auka jafnvægi fólks í daglegu lífi. Unnið er út frá kenningu um samspil umhverfis og líffræðilegrar meðferðar. Í kenningunni er gert ráð fyrir að til þess að vandi komi fram sé til staðar líffræðileg viðkvæmni og óviðurkennandi umhverfi. Lykilatriðið er þá samspil þessara tveggja þátta. Tilfinningalegur óstöðugleiki kemur fram í röskun á stjórn á fimm þáttum: Óstöðugleika á tilfinningum, samskiptum, sjálfsmynd, hegðun og hugsun.
14
Tímarit hjúkrunarfræðinga | 2. tbl. 98. árg. 2022
Meðferðin skiptist í fjóra færniþætti sem eru núvitund, streituþol, tilfinningastjórnun og samskiptafærni. Færni er kennd í hóp einu sinni í viku í tvær klukkustundir í senn og mikil áhersla er lögð á heimavinnu og æfingar. Tilfinningastjórnun kennir færni til að draga úr tilfinningalegri viðkvæmni, læra að þekkja og bregðast við tilfinningum og draga þannig úr tilfinningalegri þjáningu. Streituþol fjallar um aðferðir til að þola við í óbærilegum aðstæðum eða líðan. Samskiptafærni snýst um sambönd við annað fólk. Til dæmis að biðja um það sem við þurfum og setja mörk. Núvitund er grunnurinn að allri færninni sem kennd er í DAM-meðferð. Með þjálfun í núvitund getum við betur gengist við aðstæðum okkar í lífinu en á sama tíma gert breytingar til hins betra. Hvernig er DAM-meðferð frábrugðin öðrum meðferðarúrræðum? HAM, hugræn atferlismeðferð, er sú geðmeðferð sem hefur helst verið notuð fyrir þann hóp sem sækir DAM-meðferð. Munurinn felst í því að í DAM er kennd færni til að bregðast við aðstæðum og tilfinningum á árangursríkan hátt og núvitund er grunnstoðin í meðferðinni allri.