3 minute read

Gróðurhús í grænum skóla er áskorun og ævintýri

„Gróðurhús í grænum skóla er áskorun og ævintýri“ er verkefni græna teymis Tjarnasels, barnanna, kennara og matráðar. Verkefnið hlaut í síðustu viku hvatningarverðlaun fræðsluráðs Reykjanesbæjar við hátíðlega athöfn í Duus Safnahúsum. Við sama tækifæri voru þrjú önnur verkefni í skólum Reykjanesbæjar sem fengu sérstaka viðurkenningu

Undanfarin ár hefur gríðarlega mikil og öflug vinna farið fram í að umbylta flötu og litlausu útisvæði leikskólans Tjarnarsels, elsta leikskólans í Keflavík, í náttúrulegan garð. Sú vinna hefur að langmestu leiti farið fram í sjálfboðavinnu. Í byrjun júní ár hvert mæta hress börn og systkini þeirra, galvaskir foreldrar, duglegir afar og ömmur, fyrrverandi nemendur, kennarar og fjölskyldur þeirra fylktu liði til að fegra og snyrta garðinn, smíða leiktæki, útbúa leiksvæði og gróðursetja sumarblóm sem hafa verið forræktuð með börnunum frá febrúar ásamt kryddjurtum og grænmeti. Þegar allir leggjast á eitt er óhætt að segja að kraftaverk gerist. Samtakamátturinn og krafturinn í slíkum mannauði er ómetanlegur, segir í umsögn um verkefnið.

Síðasta vinnudag sem var í júní 2022 mættu í kringum 170180 manns á öllum aldri með bros á vör. Það var töfrum líkast að fylgjast með þessum dugnaðarforkum mæta með uppbrettar ermar, í vinnugöllunum með gleðina að vopni og til í hvað sem er. Það hefur verið sérstaklega ánægjulegt að sjá fjölskyldur barna af erlendu bergi brotna taka þátt í verkefninu og eykst þátttaka þeirra með hverju ári. Eftir síðasta vinnudag sagði móðir pólskrar stúlku þegar hún gekk út „núna finnst mér ég vera hluti af samfélagi.“ Kraftur fjölbreytileikans svífur því yfir á þessum stærsta degi ársins í elsta leikskóla bæjarins, segir jafnframt í umsögn um verkefnið sem hlaut hvatningarverðlaunin í ár.

Gróðurhús sem er sérstaklega hannað fyrir börn

Nýjasta viðbótin í garðinum við Tjarnarsel er svokallað Bambahús, sem er gróðurhús sem sérstaklega er hannað fyrir börn. Nýsköpunarog þróunarsjóður menntasviðs Reykjanesbæjar styrkti skólann til að kaupa slíkt hús árið 2022.

Ræktunarstarfið þar hófst sama dag og húsið var sett niður og er það grænfánaverkefni skólans að þessu sinni, en Tjarnarsel hefur fengið Grænfánann sjö sinnum m.a. fyrir sjálfbærni í garðinum og forræktun blóma og grænmetis.

Skólinn tók þátt í Erasmus+ verkefni með Landvernd á árunum 2019-2021 ásamt leik- og grunnskólum á Íslandi, Slóveníu, Lettlandi og Eistlandi. Afrakstur þess verkefnis var gefin út í rafrænni bók sem kallast Lifandi náttúra – lífbreytileiki á tækniöld. Árið 2017 gaf skólinn út handbók sem kallast Garðurinn okkar – útnám í leikskóla.

Verkefnið sem hlaut hvatningarverðlaun fræðsluráðs er leitt áfram að Græna teymi skólans og verkefnastjóra garðsins, þeim Fanneyju M. Jósepsdóttur verkefnisstjóra, Önnu M. Kjærnested deildarstjóra og Þóreyju Óladóttur leikskólakennara. Græna teymið leiðir ræktunarstarfið áfram af metnaði og ástríðu fyrir viðfangsefninu sem skilar sér í blómlegri útikennslu þar sem börn, kennarar og matráðar fá notið sín við leik og störf með framsækni, virðingu og eldmóði.

Bætt við garðinn á hverju ári „Við erum að bæta einhverju við garðinn okkar á hverju ári. Í fyrra bættum við við gróðurhúsi og erum að fá verðlaun fyrir það núna. Við erum að auka sjálfbærni og kenna börnunum hvernig á að rækta til matar. Það er þannig að grænmeti sem þú ræktar sjálfur er miklu betra á bragðið en annað grænmeti. Þau eru alltaf til í að smakka og prófa. Svo eru þau að sjá blóm verða til af fræi,“ segir þær Fanney, Anna og Þórey í samtali við Víkurfréttir, sem leitt hafa verkefnið. Þær segja garðinn við Tjarnarsel hafa þróast frá malbiki til náttúru en unnið hefur verið að umbreytingu á leiksvæði barnanna allt frá árinu 2013. Verkefnastjóri var fenginn til að leiða verkefnið í upphafi en frá upphafi hefur verið kappkostað að hafa umhverfi leikskólans Tjarnarsels sem náttúrulegast. Þar eru stórir steinar og mold í bland við gróður og þrautir ýmiskonar. Börnin taka virkan þátt í hugmyndavinnunni og eru stundum með háar hugmyndir.

Þannig vildu nokkur börn fá Parísarhjól í ár. „Það kemur kannski seinna en hugmyndavinnan byrjar alltaf hjá börnunum, grasrótinni,“ segja þær stöllur.

„Nýheimar - námsúrræði fyrir börn á flótta“ í Háaleitisskóla. Það eru þau Helena Bjarndís Bjarnadóttir og Friðþjófur Helgi Karlsson sem leiða verkefnið sem var sett á laggirnar haustið 2021 af frumkvæði skólans og með traustum stuðningi fræðsluskrifstofu. Markmið verkefnisins er aðlögun barna í leit að alþjóðlegri vernd að skólastarfinu og skjól fyrir þau á meðan umsóknarferlið er í gangi.

„Fjármálafræðsla í 10. bekk“ er verkefni í Njarðvíkurskóla sem Yngvi Þór Geirsson leiðir. Yngvi Þór er grunnskólakennari við Njarðvíkurskóla og hefur kennt samfélagsgreinar í 10. bekk til fjölda ára og hefur fjármálafræðsla verið hluti af námsefni árgangsins. Fyrir um fimm árum fór Yngvi að útbúa sitt eigið námsefni þar sem honum fannst það sem var í boði ekki henta nægilega vel og ekki vera í takt við samfélagið. Yngvi Þór hefur verið að þróa verkefnið jafnt og þétt frá þeim tíma. Markmiðið með fræðslunni er að kynna helstu fjármálahugtök fyrir nemendum, gera nemendur læsa á fjármál og að þau viti hvar og hvernig á að nýta sér upplýsingar og reiknivélar á netinu. Aðalmarkmiðið er að þau verði fjárhagslega sjálfstæð í framtíðinni og fari vel með peningana sína.

„Jóga og núvitund í vettvangsferðum“ hjá leikskólanum Gimli hlaut einnig viðurkenningu. Sigurbjörg Eydís Gunnarsdóttir leiðir verkefnið en leikskólinn Gimli hefur til fjölda ára unnið markvisst með jóga og núvitund sem hefur skilað sér vel inn í starf leikskólans. Á vormánuðum 2020 fékk Gimli styrk úr Nýsköpunar- og þróunarsjóði Reykjanesbæjar fyrir verkefnið Jóga og núvitund í vettvangsferðum. Með því verkefni var farið í að tengja jóga og núvitund við umhverfismennt og nemendum kenndar aðferðir sem hægt er að nota út í náttúrunni. Sigurbjörg sem hefur séð um jógastundir nemenda á Gimli er verkefnastjóri yfir verkefninu. Hún setti í upphafi saman verkefnabók með fjölbreyttum æfingum sem kennarar geta unnið með nemendahópnum. Nánar má lesa um verkefnið sem hlutu viðurkenningu á vef Víkurfrétta, vf.is.

This article is from: