1 minute read

Þjóðhátíðardegi fagnað í Suðurnesjabæ

Íbúar Suðurnesjabæjar fögnuðu þjóðhátíðardeginum með hátíðar- og skemmtidagskrá við Sandgerðisskóla sl. laugardag.

Kynnar hátíðarinnar voru þær Sara Mist Atladóttir og Salóme Kristín Róbertsdóttir úr Ungmennaráði Suðurnesjabæjar. Fjallkonan var Kara Petra Aradóttir nýstúdent.

Magnús Stefánsson bæjarstjóri flutti hátíðarræðu, þar sem hann ræddi m.a. um Suðurnesjabæ, sem fagnar fimm ára afmæli um þessar mundir.

„Ég vil nota þetta tækifæri til þess að minna okkur á að fyrir réttri viku síðan átti sveitarfélagið okkar Suðurnesjabær fimm ára afmæli. Sveitarfélagið tók til starfa þann 10. júní 2018 og þar með er 10. júní árlegur afmælisdagur

Suðurnesjabæjar. Með lýðræðislegum hætti, sem byggir í grunnin á ákvæðum stjórnarskrár lýðveldisins frá 17. júní 1944, tóku íbúar Sandgerðisbæjar og Sveitarfélagsins Garðs ákvörðun um sameiningu sveitarfélaganna í Suðurnesjabæ og var sú ákvörðun tekin með lýðræðislegri kosningu íbúanna. Á sama hátt ákváðu íbúarnir með lýðræðislegri kosningu hvað nýja sveitarfélagið skyldi heita og var niðurstaðan Suðurnesjabær. Ég óska íbúum Suðurnesjabæjar til hamingju með fimm ára afmæli sveitarfélagsins, þótt seint sé og við eigum að halda á lofti stofndegi sveitarfélagsins ár hvert, það er í lýðræðislegum anda og minnir okkur á hvernig við tökum ýmsar ákvarðanir með lýðræðislegum hætti.

Það mætti halda langa ræðu um það hvernig starfsemi Suðurnesjabæjar hefur þróast undanfarin fimm ár, hvað gert hefur verið, hvernig íbúaþróun hefur verið o.s.frv., en við látum það bíða í bili. Hins vegar vil ég nefna hve íbúum Suðurnesjabæjar hefur fjölgað á þessum fimm árum og hve margir hafa valið þann kost að taka búsetu í okkar samfélagi.

Fyrir sameiningu 2018 voru íbúarnir samtals innan við 3.400, en um þessar mundir bíðum við spennt eftir því að íbúafjöldinn nái því að verða 4.000. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að bjóða alla sem hafa bæst í hóp íbúa sveitarfélagsins á undanförnum árum velkomin í okkar samfélag, með von um að öllum líði vel í sveitarfélaginu og njóti þeirra lífsgæða og þjónustu sem sveitarfélagið stendur fyrir og býður upp á. Suðurnesjabær er sannarlega gott samfélag og fjölmörg tækifæri og möguleikar blasa við til jákvæðrar þróunar í náinni framtíð,“ sagði Magnús m.a. í ræðu sinni.

Þá lét hljómsveitin Payroll fyrir þjóðhátíðargesti í Suðurnesjabæ. Hljómsveitin er skipuð ungu tónlistarfólki úr Suðurnesjabæ. Team Danskompaní sýndi Disneysyrpu frá keppnisliði Team Danskompaní. Leikhópurinn Lotta lauk svo deginum og flutti söngvasyrpu.

This article is from: