4 minute read
sport Ætli ég sé ekki best
– segir Sigurrós Eir Guðmundsdóttir, leikmaður meistaraflokks Keflavíkur í Bestu deild kvenna, en hún er ein af leikreyndari mönnum liðsins. Sigurrós er uppalin Keflvíkingur og hefur leikið 182 meistaraflokksleiki með Keflavík í deildarkeppnum, bikarkeppnum og Faxaflóamótum. Skráðir leikir eru reyndar orðnir 247 en Sigurrós lék um tíma með Þrótti Reykjavík og Haukum. Fyrstu skrefin með meistaraflokki tók Sigurrós þegar hún lék seinni hálfleik í sigri Keflavíkur á ÍBV í Lengjubikarnum þann 18. apríl 2009. Víkurfréttir ræddu við Sigurrós um tímabilið og ferilinn.
Keflavík hefur verið að finna taktinn í síðustu leikjum og situr nú í sjöunda sæti Bestu deildar kvenna, Keflavík er jafnt Stjörnunni að stigum sem er í því sjötta. Eftir sigur á Þór/KA í sextán liða úrslitum bikarkeppninnar komst liðið í fyrsta sinn síðan 2008 í átta liða úrslit Mjólkurbikars kvenna. Keflavík tapaði hins vegar naumlega fyrir Stjörnunni (0:1) þegar liðin áttust við á HS Orkuvellinum síðasta föstudag.
Stefni á að taka skrefið upp á við „Tilfinningin fyrir tímabilinu er mjög góð,“ segir Sigurrós í upphafi viðtals. „Við erum að fóta okkur. Það var smá hökt á okkur í byrjun en við erum að ná að pússa okkur saman, það er kominn meiri stöðugleiki hjá okkur. Við sjáum að mótið er galopið, við getum unnið hvaða lið sem er og tapað fyrir hvaða liði sem er. Þetta tímabil er bara undir okkur sjálfum komið.“
Var ekki svolítið svekkjandi að detta út úr bikarnum?
„Jú, það var mjög svekkjandi. Líka hvernig leikurinn spilaðist. Heppnin var allavega ekki með okkur í þessum leik, þetta var svolítið þannig.“
Þá er bara hægt að einbeita sé að deildinni, er það ekki þetta klassíska?
„Jú, það er bara næsti leikur –á móti Val á miðvikudaginn. Það verður hörkuleikur, heimaleikur. Við tökum þær hérna á grasinu, við viljum alltaf þrjú stig hérna heima,“ segir hún en Valur situr í efsta sæti Bestu deildar kvenna og hefur aðeins tapað einum leik á tímabilinu.
Sigurrós segir að takmarkið á tímabilinu sé að skila betri árangri en undanfarið með liðinu. „Taka skrefið upp á við. Ég held að þetta sé að smella hjá okkur, að við séum að átta okkur á hvað við getum, hverjir eru okkar styrkleikar.
Við höfum verið að prófa leikmenn í nýjum stöðum, eins og Anita [Lind Daníelsdóttir] hefur
ÍÞRÓTTIR verið að standa sig frábærlega í hafsentinum. Manni hefði aldrei dottið til hugar að setja hana í þá stöðu en ég held að þetta sé hennar staða. Hún er algjör klettur í vörninni og með þennan fót kemur hún boltanum hátt á völlinn þegar þess þarf.“
Sorglega fáir mæta á leiki
Það hefði nú verið gaman að sjá fleiri á vellinum en það voru alveg sorglega fáir sem mættu á leik í átta liða úrslitum bikarkeppninnar.
„Já, sérstaklega af því að mér finnst þetta hafa verið sérstakur áfangi hjá okkur. Miðað við hvað það er langt síðan að við höfum náð að komast í átta liða úrslitin. Keflavík var að reyna ýmislegt til að hvetja fólk til að fjölmenna, það voru einhver happdrætti og svona, en maður er mjög þakklátur þeim sem komu. Samt smá svekkelsi, maður hefði viljað fá fleiri í stúkuna.“
Leikurinn fór fram í blíðskaparveðri og eins og Sigurrós bendir á þá reyndi knattspyrnudeildin fá fólk til að fjölmenna og styðja við bakið á liðinu en aðeins 72 mættu á leikinn samkvæmt skýrslu.
„Maður veit eiginlega ekki hvað þarf að gera, hver ástæðan er fyrir þessum fjölda. Er þetta orðið of aðgengilegt annarsstaðar og fólk þar af leiðandi latara við að koma á vellina – en svo sér maður önnur lið fylla sínar stúkur. Þannig að maður spyr sig.“
Þú ert nú búin að vera lengi í boltanum, ertu ekki með þeim leikreyndari í hópnum?
„Jú, maður er allavega með þeim elstu.“ Nú hlær Sigurrós. „Þannig að maður hefur einhverja reynslu. Ég byrjaði ung í þessu svo einhver reynsla hefur safnast upp.“ Sigurrós er uppalin í Keflavík og lék sinn fyrsta meistaraflokksleik aðeins sextán ára gömul. Hún lék svo með Þrótti í Reykjavík og Haukum um tíma en sneri aftur til Keflavíkur fyrir tímabilið 2020. „Ég er náttúrlega bara Keflvíkingur en maður þurfti að skreppa annað. Það var einmitt Jóna [Guðrún Jóna Kristjánsdóttir], aðstoðarþjálfarinn okkar, sem fékk mig yfir í Þrótt á sínum tíma. Þá vorum við þjálfaralausar og kvennaboltinn lá svolítið niðri hjá okkur í Keflavík og ég nennti ekkert að bíða endalaust eftir nýjum þjálfara þegar mér bauðst að fara annað. Mig langaði að halda áfram og vissi ekki alveg hvernig framtíðin var í Keflavík á þeim tíma.“
Það hefur nú verið gerð bragarbót á þeim málum hjá Keflavík.
„Já, þetta eru þvílíkar framfarir – en maður verður að passa sig á að staldra ekki við heldur.
Það er ýmislegt sem þarf að bæta í kvennaboltanum á Íslandi í dag en þetta eru miklar framfarir miðað við hvernig þetta var. Þetta er bara allt annað, svart og hvítt.“
Þá vorum við þjálfaralausar og kvennaboltinn lá svolítið niðri hjá okkur í Keflavík og ég nennti ekkert að bíða endalaust eftir nýjum þjálfara þegar mér bauðst að fara annað ...
247 leikir í meistaraflokki, þar af 182 með Keflavík. Það fjölgar leikjunum hjá þér.
„Þeir væru nú orðnir talsvert fleiri en ég lenti í meiðslum á yngri árunum. Maður var svolítið óheppin þá og missti þar af leiðandi út nokkuð af leikjum. Ég hef alveg verið laus við meiðsli í seinni tíð – þetta kemur víst með aldrinum segja þeir. Þetta er hluti af reynslunni, maður lærir betur á líkamann á sér og veit betur hvað hann þarf. Þá minnka meiðslin.“
Sigurrós getur leyst flestar stöður á vellinum en hún leikur núna á miðjunni með Keflavík.
„Ég var að leysa af í bakverðinum á síðasta ári og hef aðeins verið að spila þá stöðu eftir að ég ökklabrotnaði á sínum tíma. Þá var ég í brasi að nota hægri fótinn og mér var hent í vinstri bakvörðinn þannig að ég þyrfti ekki að nota hægri fótinn þegar ég var að spila hjá Þrótti. Ég festist svolítið í bakverðinum en get leyst hinar og þessar stöður. Ég spilaði á kantinum líka á síðasta tímabili, varnarsinnaður kantmaður – en svona í grunninn er ég miðjumaður vil ég meina.“
Hver er skemmtilegasta staðan?
„Það er á miðjunni. Þar er mesti „fætingurinn“ og ætli ég sé ekki best geymd þar,“ sagði baráttuhundurinn Sigurrós að lokum.
V Galeg Me Gr Mu
Fyrirliði Keflavíkur í meistaraflokki kvenna, Kristrún Ýr Holm, var ansi vígaleg þegar Keflvíkingar töpuðu fyrir Stjörnunni í átta liða úrslitum Mjólkurbikars kvenna en leiknum lauk með 1:0 sigri Stjörnunnar. Kristrún skartaði grímu í leiknum en hún þurfti að fara af velli í lok leiks Keflavíkur og ÍBV í Bestu deild kvenna eftir að hafa fengið boltann í andlitið. Kristrún nefbrotnaði við höggið en hún lætur „smá“ nefbrot ekki halda sér frá því að taka fullan þátt í baráttunni með Keflavík.