5 minute read

Leviosa: Sjúkraskrárkerfi í höndum lækna

Davíð B. Þórisson, sérfræðilæknir Matthías Leifsson, hagfræðingur Stofnendur Leviosa

Árið 2013 kom Davíð heim úr sérnámi frá Lundi í Svíþjóð og hlakkaði til að geta nýtt nýfengna þekkingu og reynslu í bráðalækningum. Honum til mikilla vonbrigða komst hann fljótt að því að starf hans fólst að mestu leyti í því að skrá nótur og beiðnir í gamaldags tölvukerfi. Fyrir hverja klíníska ákvörðun þurfti að eyða margfalt meiri tíma til að koma henni í verk í tölvukerfum.

Advertisement

Kannanir bæði hérlendis og erlendis sýna að læknar verja allt að 70% af tíma sínum við tölvuskjá og er það einn helsti þáttur streitu og kulnunar í starfi. Í rannsókn þar sem lækni var fylgt eftir á 10 tíma vakt kom í ljós að hann gerði 4.000 músasmelli en til samanburðar smella atvinnumenn í tölvuleikjum 6.000 sinnum á músina á hverjum degi. Það er ekki að undra að margir læknar vilja fá aftur blað og penna eins og áður þar sem skráð var við hlið sjúklings. Með tilkomu rafrænnar sjúkraskrár hefur læknirinn verið færður frá sjúklingnum að tölvuskjánum.

Rafvæðing sjúkraskrár hófst fyrir 40 árum síðan. Það þótti vera bylting þar sem gögn voru nú aðgengilegri og auðveldari til úrvinnslu t.d. rannsóknarvinnu og tölfræðiúttekta. Á þeim tíma var hugbúnaðarþróun í höndum stórra hugbúnaðarrisa og sáu teymi tölvunarfræðinga og verkfræðinga um að þróa og smíða sjúkraskrárkerfi. Sannarlega sérfræðingar í sínu fagi en hvorki hittu sjúklinga né notuðu kerfið sjálfir og þar liggur einmitt rót vandans – sjúkraskrárlausnir urðu til en með takmarkaðri þekkingu á eiginlegu starfi notandans. Það varð til þess að kostir tölvutækninnar, einkum með tilkomu Internetsins, voru ekki nándar nýttir og útkoman óþjál tölvukerfi þar sem tæknin var látin herma eftir gömlu verklagi í stað þess að endurskoða það og nútímavæða. Nú 40 árum síðar eru læknar – og sjúklingar þeirra – fastir í tæknilegu umhverfi sem hefur engan veginn þróast í takt við samfélagið og starf læknis sem nú er unnið í miklu stærra teymi heilbrigðisstétta og oft með aðkomu sjúklings sjálfs. Verkferlar hafa gjörbreyst en tölvukerfin ekki, nú sem aldrei fyrr er þörf á nýrri hugsun í þróun sjúkraskrárkerfa. Á sama tíma hefur átt sér stað bylting í þróun hugbúnaðar og undir merkjum nýsköpunar hafa opnast möguleikar fyrir notendurna sjálfa að þróa sín kerfi eða lausnir.

Sjúkraskrárkerfi er án vafa mikilvægasta lækningatólið í dag. Heilbrigðisstarfsfólk notar það fyrir öll verkefni tengd sjúklingavinnu og hafa þau ein og sér meiriháttar áhrif á vinnuhraða starfsmanns, gæði veittrar þjónustu og þar með öryggi sjúklings. Illa hönnuð kerfi draga að sama skapi niður starfsemina t.d. með margra klukkustunda uppfærslu þegar biðstofan er full, óþarfa músasmellum og viðmóti sem hefur ekki þróast í takt við tímann.

Oft skortir tól sem mæta raunverulegum þörfum notandans, til dæmis til að tryggja eftirfylgd. Öll áhersla er á að fjölga skráningarreitum og rafvæða ferla þannig að kerfin verða bara stærri og fyrirferðarmeiri á meðan tæknin blómstrar í öðrum geirum með tilkomu veflausna og snjallsíma. Starfsfólkið fær iðulega þau svör að það kunni ekki að nota lausnina rétt þegar reyndin er sú að kerfið hefur ekki einu sinni farið í gegnum notendaprófanir eins og góðum hugbúnaði sæmir. Þróun kerfanna er oft eins og hvísluleikur þar sem forritarinn hefur afar litla hugmynd um starfsumhverfi notandans (heilbrigðisstarfsmannsins) og fær beiðnir um úrbætur frá þriðja eða fjórða aðila sem vinnur ekki heldur með raunverulega sjúklinga.

Erlendis skora þær sjúkraskrárlausnir hæst sem eru hannaðar af notendunum sjálfum. Þess vegna stofnuðum við Leviosa, þar sem þekking á klínískri starfsemi og tengsl við notendur er algjört forgangsatriði. Við þekkjum klíníska starfsumhverfið eins og lófa okkar og getum því þróað nútímalega lausn hraðar og fyrir margfalt minni kostnað. Okkar nálgun í Leviosa er að sameina heilbrigðisteymið allt í öflugri skýjalausn í vafra og með snjalltæki í huga. Okkar áhersla er á að sjúkraskrárkerfi sé framleiðnitól fyrst (e. productivity

tools), miklu framar en skráningarvinnan sjálf. Leviosa er í fyrstu innleiðingu á Íslandi og verður síðar markaðsett erlendis þar sem ekki er síður þörf á nýrri hugsun í þróun sjúkraskrárkerfa.

Leviosa gerir teyminu kleift að halda utan um margslungin verkefni með tólum verkefnastjórnunar þannig þau dreifist á fleiri en lækninn, t.d. yfirferð eðlilegra rannsóknarniðurstaða eða beiðni sjúklings um vottorð. Þegar læknir losnar við umstangið sem fylgir komunni getur hann einblínt á að gera það sem hann er sérmenntaður í, þ.e. að hitta sjúklinga, greina sjúkdóma og meðhöndla. Leviosa lítur á sjúkling sem mikilvægan hluta af teyminu og hann hefur því aðgang að völdum upplýsingum s.s. nótum og rannsóknarniðurstöðum (eftir vali ábyrgs læknis). Sjúklingur fylgist þannig með gangi mála í rauntíma og getur hvenær sem er veitt upplýsingar til að hjálpa teyminu að klára verkefnin fyrr. Þannig virkjast tími á milli heimsókna sem hingað til hefur verið ónýttur.

Upphafið að Leviosa var tól til að straumlínulaga sjúkraskráninguna sjálfa og með því höfum við getað minnkað skráningartíma um meira en 50%. Sniðmát eru þar lykilatriði, þ.e. að geta með einföldum hætti gert skapalón fyrir algengustu verkefni sem ná yfir nótur, kóðun, beiðnir og rannsóknarpantanir. Skráning á sér stað í einum sameiginlegum glugga teymis svo ekki þarf að tvíeða þrítaka texta og fastir textar eins og heilsufars og lyfjasaga eru uppfærðir á einum stað en ekki í gegnum ótal nótur á víð og dreif um sjúkraskrána. Þannig er "copypaste" menningu eytt og sjúkraskráin verður læsileg en ekki torf illa samhangandi upplýsinga og endurtekninga. Slík nálgun leiðir til einfaldara notendaviðmóts og gerir aðgengi að upplýsingum sjúkraskrár mun betra og leiðir til betri þjónustu og færri mistaka eða hnökra.

Við höfum reiknað út að með skráningarhluta Leviosa væri hægt að búa til 4 milljarða virði í rekstri Landspítala og samtímis auka ánægju starfsfólks. Með minni tölvuskráningartíma fá læknar aftur tíma til að vera með sjúklingum og geta andað án þess að líða eins og þeir eigi að vera að hlaupa í næsta verkefni. Við vonumst þess vegna til þess að hið opinbera taki vel á móti okkur, styðji okkar fyrstu skref og vinni þannig að hagræði og eflingu heilbrigðistækni á Íslandi.

Kjarninn í Leviosa er þekking á aðstæðum og náin samvinna með heilbrigðisstarfsfólki og sjúklingum. Við viljum búa til öflugt Leviosalið sem veitir okkur innsýn í daglegar áskoranir og kemur með hugmyndir um hvernig má gera enn betur. Læknanemar og ungir læknar eru okkur afar mikilvægir þar sem þeir hafa betri tækniþekkingu en fyrri kynslóðir og meðfætt innsæi í það hvernig hægt er að vinna dagleg verkefni betur með stuðningi tæknilausna. Því höfum við opnað slóðina https://leviosa.is/tips þar sem við tökum vel á móti hugmyndum læknanema og viljum gjarnan heyra frá þeim og bjóða áhugasömum að taka þátt í prófunum og frekari þróun.

Höfundar eru stofnendur og eigendur Leviosa og er greinin rituð sem kynningarefni.

Við erum á Facebook og Instagram /Augljos

LASER

AUGNAÐGERÐIR

Verið velkomin í forskoðun, tímapantanir eru í síma 414 7000

Kynntu þér háskólaafsláttinn http://www.student.is/afslaettir

This article is from: