11 minute read
Skemmtiefni Ég fæ aldrei kvef!” Hvaða félag í læknadeild
„Ég fæ aldrei kvef!”
Frásögn læknanema
Advertisement
„Hvernig ertu til heilsunnar?” „Stálhraustur!”
Það hlakkar í manninum fyrir framan mig. Og í mér líka. Dösuð eftir langan stofugang hef ég knappan tíma til að innskrifa hann fyrir aðgerð. En þetta er enginn sjúklingur með reynslu: hér verður sko engin ritgerð skrifuð!
Spilaborgin fellur fljótt þegar skyrtan er dregin frá svo hlusta megi hjartað. Þar kemst upp um kauða. Efst trónir myndarlegur skurður lóðrétt niður bringubeinið: „Hvað er þetta?” „Æj elskan, ekki neitt! Það var víst einhver þrenging í æðinni en maður er sem betur fer svo vel stokkaður af varahlutunum!”
Hann brettir upp buxnaskálmina. Og vissulega er þar ör eftir bláæðatöku. En þar er meira. „Hefurðu farið í hnéaðgerð?” „Ætli það ekki. Það var nú eitthvað að stríða mér, en veistu, ég er allur annar í dag!”
Frekari bútasaumur kemur í leitirnar. Hér er búið að taka gallblöðru, þarna er komið stóma og gott ef hann vantar ekki tvo fingur og annan legginn neðan hnés. Það fer að verða æ heimspekilegri spurning hvort hér sé um að ræða sama mann og kom í heiminn til að byrja með. Í raun er ég stórhissa á því að hann sé á leið í aðgerð, hvað fleira er hægt að skera úr aumingja manninum?
Reiðarhöggið kemur þó þegar ég falast eftir lyfjunum. Maðurinn þarf að nota báðar hendur þegar hann dregur upp þéttpakkaða rúllu. Nei, hættu nú alveg. Á ég að þora að spyrja? „Og er þetta fyrir næsta mánuðinn?” „Nei, guð minn góður heillin. Þetta er nú bara næsta vika!”
Fjandinn, ég get ekki setið á mér lengur. „Og þú ert alveg hraustur?”
Hann brosir í kampinn. „Já, veistu, ég hef alltaf verið svo afskaplega heppinn með heilsuna. Ég fæ aldrei kvef!”
Þó þessi saga sé tilbúningur er hún uppspuni sem á sér sterkar rætur í raunveruleikanum. Samræmið milli sýnar manna á eigin heilsu og raunverulegs heilsufars getur reynst lítið. Sér í lagi þegar um er að ræða sjúklinga af eldri kynslóðinni. Hjartaáföll og brottnám líffæra falla furðu fljótt í gleymsku. Þau falla alla vega í skuggann af stafla þeirra snýtibréfa sem voru til brúks síðastliðin ár.
Þetta var mér þó nýr sannleikur mín fyrstu ár í klínik og vakti óneitanlega furðu og jafnvel hneykslan. Stendur fólkinu á sama? Þetta gat svo skapað pirring þegar skautað var yfir langvinna sjúkdóma og meiriháttar aðgerðir í sögutöku. Verst var þegar fólk gleymdi að það væri yfir höfuð að taka einhver lyf. Hvað heldur það eiginlega að leynist í litríku vikuboxunum og lyfjarúllunum? Andremmutöflur og sykurpillur? Kannski Ópal?
En viti menn, nú þegar útskrift nálgast er mér farið að þykja ósköp vænt um þennan snert af kæruleysi. Auðvitað er þetta ákveðin afneitun, ef til vill aftenging. En þar speglast líka skemmtilega afslappað og þroskað viðhorf gagnvart lífinu. Að vera ekki of upptekinn af öllu sem amar að. Þeir stinga ekki sárast sjúklingarnir sem glíma við erfiðustu greiningarnar, heldur þeir sem hverfa inn í veikindi sín.
Það er ekkert feimnismál að margir sem veljast inn í þetta nám eru velviljaðir, jafnvel viðkvæmir, að eðlisfari. Og því tel ég að margir kannist við það að fá oftar en ekki illt í hjartað yfir sjúklingum sem hafa þurft að þola hvert áfallið á fætur öðru.
En svo líður á, maður fer milli deilda og allt í einu getur sorgarsöngurinn orðið helst til of lengi kveðinn. Sérstaklega þegar áföllin virðast utan frá séð ekki svo stór. Ég hef þurft að bíta í tunguna á mér þegar gengið er á sjúklinga sem virðast helteknir af eigin heilsufari. Manni fer að finnast það sjálfhverfa. Sér í lagi þegar maður hefur kynnst þeim sem taka ótrúlegustu hlutum sem hverju öðru hundsbiti. Hann getur því miður verið furðu fljótur að koma, skrápurinn og dómharkan.
Ég er ekki stolt af því en stundum gleymi ég hversu framandi og erfiður staður spítalinn er þorra fólks þó ég sé orðin honum vön. Það er langt í frá sanngjarnt að leggja þungan dóm á persónu einhvers í þess háttar aðstæðum. Veikindi sem kippa manni úr eigin tilveru valda því oft að veruleikinn fjarlægist óðfluga. Djúp gjá myndast milli þess sem var og er og í því bili rúmast gífurleg vanlíðan. Og það er í mistri þessarar víddar sem persónan skrumskælist og afbakast. Það er kannski væmið og tilgerðarlegt, en mér fannst nú voða fallegar línur sem ég las um daginn: „Sá sem aðeins hefur séð vatn renna í skurðum, veit lítið hvernig það lítur út í fossum. Honum hættir við að eigna vatninu eiginleika, sem hann að réttu lagi ætti að eigna skurðinum.”
Landspítalabeddinn er þröngur skurður og ekki viðbúið að allir renni þar jafn ljúflega um. Og ekki rýmkar hann við að kviksetja karakter manna þar líka.
Svo er að hinu. Þegar ég hugsa til þess þá ættu margir af mínum nánustu vinum og vandamönnum afskaplega erfitt með sjúklingshlutverkið. Gott ef ég sé ekki þar á meðal. Samt þykir mér ekkert minna til þeirra koma fyrir vikið. Væntumþykjan í garð þeirra myndi alltaf breiða yfir þann litla og ómarkverða brest.
Kannski er mikilvægast að skilja að þetta bil megi brúa með því ómerkilega spýtnabraki sem felst í einföldustu dráttum daglegs lífs. Ég hef tekið eftir því að oft þarf ósköp lítið til að fólk gleymi að það eigi um sárt að binda, í það minnsta um stundarkorn. Smá rabb um daginn og veginn, lítil einlæg spurning um hagi þess og uppruna og allt í einu er allt aðeins auðveldara. Auðvitað er erfitt að finna tíma til þessa. En nái maður að skjóta þessu hversdags hjali inn dregur það oft úr þeim óróa sem virðist ótæmandi brunnur kvíða og þrálátra áhyggja.
Huggunin er mögulega ekki fólgin í öðru en áminningu um að tíminn líði áfram á sama hraða og áður. Að jörðin snúist enn í kringum sólina þó sumir þættir lífsins séu í uppnámi. Og maður hafi þrátt fyrir allt sömu getu til að njóta þess að fylgjast með gangi dagsins. Það er nefnilega svo ljúft, þetta sjálfsmeðvitundarleysi sem fylgir einlægum áhuga á lífinu.
Fátt er þó einhlítt og síst af öllu viðbrögð fólks við veikindum. Sumir koðna niður í sinni kör á meðan aðrir umbreytast í mestu dýrlinga. Á hjúkrunarheimili eftir þriðja árið man ég eftir konu. Síst vil ég tala nokkurn niður í þessum pistli. Enginn er alslæmur né algóður og öll erum við kostum og göllum gædd. Henni var það helst til tekna að hún gerði ekki upp á milli manna. Alla mat hún jafnt því gjörsamlega allt hafði blessuð konan á hornum sér. Tvisvar verður gamall maður barn en hann getur víst einnig orðið versta gelgja á ný.
Hún umturnaðist hins vegar við öll veikindi, varð ljúfasta lamb og hvers manns hugljúfi. Og jafnan var reglan sú að því hrikalegri sem pestin var því mergjaðri voru umskiptin. Hvort ísingin hlánaði af henni eða hún hafði einfaldlega ekki þrek til að þrátta veit ég ekki. En ég lærði fljótt að ef hún heilsaði með blíðuhótum í kvöldlyfjainnlitinu var voðinn vís. Hjartað hrapaði með snatri í buxurnar og gott ef það skaust ekki út um aðra skálmina á hlaupum eftir hitamæli.
Úr einni sögu í aðra. Á unglingsárum sínum vann móðir mín sumarvinnu á heimili fyrir fatlaða í Mosfellsdal. Hápunktur hvers sumars var dansiball sem haldið var í húsakynnum heimilisins. Dagurinn litaðist björtum litum einskærrar tilhlökkunar og kátínu. Viststúlkurnar sátu löngum tímum við að setja á sig andlit og hver fann sig í sínu fínasta pússi þegar ballið loksins byrjaði.
Eitt skiptið var hljómsveit úr bænum fengin til að spila við miklar undirtektir stúlknakórsins. En mitt á sviðinu, umlukinn þéttpakkaðri gleði og fögnuði, fann mamma sorgarsvip. Gítarleikarinn, táningspiltur varla skriðinn á menntaskólaár, var gráti nær. Og þá áttaði hún sig á því að þessi drengur hafði líklega aldrei litið viðlíkan veruleika áður, aldrei séð fötluð börn, sum bundin hjólastól. Á sama tíma fann hún hversu mótsagnakenndur þessi tregi var. Því hann birtist á kolröngum stað og stund; hér skemmtu sér allir nema hann!
Í námi og starfi er okkur innprentað mikilvægi samkenndar og samúðar gagnvart skjólstæðingum okkar. Aðgát skal höfð í nærveru sálar. En ég held það megi heldur ekki tipla of létt á tánum, hún má ekki spretta fram í óheftri aumkun gegn þeim sem minna mega sín. Leita ekki eymdar þar sem enga er að finna eða veita vorkunn þar sem hennar er ekki þörf. Læknar geta verið drifnir áfram og þrifist á metnaði og linnulausri marksækni. Þetta endurspeglast oft í áhugamálum þeirra. Enda hef ég ekki tölu á því hve oft ég hef þurft að sitja undir lýsingum af háfjallaferðum, ofurmaraþonhlaupum og framandi ferðalögum. Seint vill maður lasta metnað og dugnað og er það alls ekki meiningin hér. En ekki má heldur gleyma að jafn fallegt getur reynst að horfa upp til fjalla og niður af þeim. Uppsýnið getur verið jafn mergjað og útsýnið og lífshamingjan verður seint mæld í hæðarpunktum yfir sjávarmáli.
Sælir eru einfaldir. Í það lesa sumir að hamingjan henti helst hálfvitum. Þeir berja sér jafnvel á brjóst bölsýni og sút því það fjarlægir þá meintum óvitaskap. En sú sæla sem getur fylgt einfaldari sálum á sjaldan rót sína í skilningsleysi eða skerðingu. Fremur er hún fólgin í óheftum þroska þess hæfileika að sjá gegnum hismi tilgerðar og óþarfa þá skýru drætti sem grundvalla hvert líf. Langflestum stendur þessi geta til boða og öll metum við hana mikils. Verðmætustu listaverk hvers heimilis eru sjaldan dýrar frumgerðir heldur fyrstu pappírspár barna. Það er ákveðinn ljómi sem stafar af einfaldri list og fölskum söng. Þar liggur löngunin til að skapa og gera. Maður lifir og dafnar best í framkvæmdinni og áhuganum, í því að taka einfaldlega þátt.
Þessi löngun er oft það dýrmætasta sem hægt er að búa að. Það situr alltaf í mér stofugangur á hjartaskurðdeild í aðdraganda aðventunnar. Nýlega hafði komið inn á borð til okkar maður að austan. Líkamlega bar hann utan á sér flesta þá heilsubresti
sem hann hafði sankað að sér á langri ævi. Og nú var veitukerfi hjartans komið að þolmörkum. Það setti að mér ugg. Þessi maður þurfti aðgerð en slíkum lasarusi yrði aldrei hleypt inn fyrir skurðstofudyrnar. Við innlit lágu honum ósköpin á hjarta, var tíðrætt um að komast undir hnífinn. Hann skyldi í aðgerð, lífið mætti ekki við lengri bið. Mér varð litið í gaupnir mér og beið eftir ræðu sérfræðingsins um að hér yrðu mörkin dregin; hann væri enginn bógur í svo veigamikið inngrip. En annar tónn gall við. Ef í aðgerð vildi hann þá í aðgerð skyldi hann fara! Og í aðgerð fór hann.
Nýskrúbbuð og tvíhönskuð stóð ég við fótgaflinn og fylgdist með bláæðatökunni. Fyrir aftan mig malaði hjarta og lungnavélin sem ein hélt um fjöregg mannsins þá stundina. Það gilti engu hversu létt ég reyndi að hvíla hendurnar á sköflunginum, alltaf dælduðust þar fingurför í þrútna leggina. Um hádegisbilið varð ég bregða mér frá hálfkláraðri aðgerðinni til að sitja fyrirlestra. Við afklæðningu sá ég að hanskarnir voru rennvotir af bjúgvökva. Seinna fregnaðist að aðgerðin hafði dregist fram í rauða næturinnar.
Mig rekur því miður ekki minni til þess hvernig austanmanninum farnaðist eftir uppskurðinn. En þarna birtist mér fyrst sú djúpa virðing sem borin er fyrir lífsviljanum. Þegar hangið er á bláþræði munar oft minna um gildleika þráðarins og meira um styrk þeirra stólpa sem bandið binst. Mestu skiptir þó hið þétta grip þeirrar handar sem hangir á þræðinum og þrjóskan sem þarf til að lina ekki takið. Það er með ólíkindum hvað fólk getur tórað á tilgangi einum saman, sem utanfrá séð getur virst óræður, jafnvel uppspuni einn.
Nú stend ég eins og sum ykkar við þann þröskuld sem skilur að nám og starf. Ábyrgðarleysi og ábyrgð. Oftast er ég afar spennt yfir því að ná loksins þessum stóra áfanga. Það er orðið langþreytt að vera eilífur námsmaður meðan vinir manns eru komnir í fulla vinnu, kaupa íbúð og jafnvel hlaða niður börnum. Mest finn ég hversu hratt tíminn hefur liðið þegar ég sé menntskælinga í strætó. Þetta fólk sem ég samsamaði mig svo fullkomlega í byrjun náms virðist nú nýskriðið úr bleyjubuxunum.
En svo eru aðrir dagar þar sem þröskuldurinn virðist skrattanum hærri, jafnvel óyfirstíganlegur. Hvernig getur nokkur maður hleypt mér í þessa ábyrgð? Óttinn við að mistakast og valda einhverjum skaða getur orðið óbærilegur. Þrátt fyrir allan þennan tíma finnst mér ég oft kunna lítið sem ekkert og langtum minna en nóg.
En í upphafi skal endinn skoða. Læknir sem lítur í baksýnisspegilinn og tekur saman tilfinningar sínar getur kannski ekki hunsað ótta, kvíða og streitu. En ég held að þar sé sjaldan að finna mikla eftirsjá. Því langflestir þakka þau forréttindi að fá að vinna svo gefandi starf í návígi við breitt litróf fólks sem glímir við einstakar aðstæður.
Ein saga að lokum! Í útskriftarferð grunnskóla míns fórum við meðal annars ógleymanlega ferð út í Drangey. Ferðinni var stýrt af syni manns sem hafði varið drjúgum hluta ævinnar í eggjatínslu á eyjunni og síðar leiðsögn fyrir ferðamenn. Og ósköp þótti föður hans vænt um þennan sögulega jarðskika í úthafinu! Virðingin og kærleikurinn var svo mikill að hann gat ekki hugsað sér að ganga þarna örna sinna beint á sögubækurnar. Því gekk hann ætíð út að jaðrinum, setti hælana við blábrúnina, sneri rassi út í veður og vind og lét gossa niður þverhnípið. Þegar hann var spurður hvort hann væri ekki hræddur um að hrapa niður af stóð aldrei á svari: „Hvaða maður dettur aftur fyrir sig meðan hann skítur?”
Fallið er hátt ef maður gerir mistök í læknastarfinu. Ég tel og vona þó að flest séum við svo samviskusöm að úrlausn hinna ýmsu vandamála verði okkur að lokum töm. Jafnvel tamari en allra einföldustu athafnir.
Kannski er besta veganestið vottur af því æðruleysi og bjartsýni sem virðist færast yfir mann með aldrinum. Það þýðir ekki að maður sé skeytingar eða sinnulaus heldur að maður taki sig einfaldlega ekki of hátíðlega. Þegar allt kemur til alls fáum við aðeins aðgang að örlitlum teig í því stóra landslagi sem myndar líf hvers einstaklings. Við getum ræktað þann reit sem best við megum en mesta ábyrgðina á eigin heilsu ber alltaf sá sem á hana.
Og viti menn, nú þegar ég hugsa til þess þá held ég að það sé einmitt orðið býsna langt síðan ég fékk kvef!