7 minute read
Smokkaherferð Ástráðs
Smokkaherferð Ástráðs 2022: Hvernig skal vekja umræðu um það sem við vitum öll að er gott fyrir okkur en viljum helst ekki tala um
Snædís Inga Rúnarsdóttir Sigríður Óladóttir Meðstjórnendur í Ástráði veturinn 2021-2022
Advertisement
Hvað liggur að baki? Bakteríur, veirur og sníklar hafa valdið kynsjúkdómum í mönnum lengur en mannkynssagan hefur verið rituð. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofunun greinast á heimsvísu fleiri en ein milljón manns á dag með kynsjúkdóm. Fleiri en 30 meinvaldar geta valdið kynsjúkdómi í mönnum og eru átta þeirra með langhæst nýgengi. Eins og er eru fjórir af þessum átta læknanlegir; sárasótt, lekandi, klamydía og staksvipungasýki (trichomoniasis). Hinir fjórir eru allir veirusýkingar; lifrarbólga B (hepatitis B), áblásturssóttarveira (herpes simplex virus, HSV), eyðniveira (human immunodeficiency virus, HIV) og vörtuveira (human papilloma virus, HPV). Kynsjúkdómum getur fylgt skömm, lýti og heilsubrestur, sem getur leitt til ófrjósemi og jafnvel dauða.1
Besta forvörnin gegn útbreiðslu kynsjúkdóma er skírlífi. Til allrar hamingju er til önnur kynsjúkdómavörn: smokkurinn. Sé hann rétt notaður, dregur sú notkun marktækt úr útbreiðslu kynsjúkdóma, hindrar getnað og kostar lítið. Gera má ráð fyrir að aukin notkun smokksins myndi leiða til marktæks sparnaðar innan heilbrigðiskerfisins þó þessi útgjöld hafi ekki sérstaklega verið reiknuð hérlendis. Aðkoma Ástráðs Meirihluti starfs Ástráðs hefur lengi snúist um að halda uppi grunnstarfsemi félagsins, þ.e.a.s. fræðslunni okkar í framhaldsskólum landsins. Mikil vinna fylgir þeirri starfsemi og því hefur verið erfitt að sinna nýjum verkefnum á vegum Ástráðs. Lengi hefur það verið draumur okkar eldri nema í stjórn Ástráðs að koma af stað einhvers konar herferð sem snýr að smokkanotkun. Við höfum á síðustu árum tekið eftir umræðu um litla notkun á smokknum meðal ungs fólks auk þess sem Íslendingar hafa í langan tíma átt metið í flestum klamydíusmitum í Evrópu.2 Tókum við í stjórninni ákvörðun að gera smokkaherferð á vegum félagsins.
Fyrri herferð og upphaf núverandi herferðar Ástráður tók þátt í smokkaherferð árið 2011 en hún var byggð á annarri smokkaherferð frá árinu 1986. Þær gengu báðar út á að þjóðþekktir einstaklingar mæltu með notkun smokksins. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan 2011 og hafa samskipti og tilhugalíf ungs fólks tekið stakkaskiptum með tilkomu og þróun nýrrar tækni. Við teljum okkur geta náð betur til þessa hóps með öðrum hætti en áður hefur verið gert. Jafnframt er þessi nálgun stærri að umfangi og meira krefjandi. Hugsunin var að ávinningurinn af herferð væri þríþættur. Í fyrsta lagi myndi þetta hafa í för með sér bætta kynheilsu ungs fólks, í öðru lagi myndi kostnaður heilbrigðiskerfisins í þessum málaflokki minnka og í þriðja lagi auka kynfrelsi ungs fólks.
Skólaárið 2020–2021 fór mikil undirbúningsvinna af stað og settum við okkur það metnaðarfulla markmið að safna 4 milljónum til þess að setja af stað auglýsingu sem snéri að því að koma í veg fyrir kynsjúkdómasmit. Sú hugmynd var í grunninn byggð á handriti að auglýsingu frá eldri stjórnum. Í stuttu máli gekk það plan ekki eftir þar sem við fengum ekki fjármagn úr þeim sjóðum sem við sóttum um styrk úr.
Boltinn fer að rúlla Þá voru góð ráð dýr. Við áttum afgangspening úr gömlu verkefni og stefndum þá á að reyna að nýta hann. Planið var að halda okkur við sama umræðuefni og reyna að nýta sem best þann litla pening sem við höfðum milli handanna. Ákveðið var að gera stutt myndbönd þar sem fólk svaraði hinum ýmsum spurningum sem snéru að smokknum en sú hugmynd kom frá Siggu Dögg, kynfræðingi. Grunnhugmyndin með myndböndunum var að skapa umræðu um smokkinn og átti sú umræða ekki einungis að snúa að hinu jákvæða í tengslum við hann heldur líka því neikvæða. Hér til hliðar má sjá hvaða spurningar voru til umræðu. Lagt var upp með að fá þjóðþekkta einstaklinga til að svara spurningunum. Þátttakendur myndu þá koma í stúdíó í
Spurningar • Hvaða þrjú orð tengir þú við smokkinn? • Hver er þín fyrsta minning af smokknum? • Áttu einhverja
skemmtilega minningu
af smokknum? • Hvað er það skrítnasta sem þú hefur heyrt um smokkinn? Eða heyrt einhvern gera við smokkinn? • Hvað er það skrítnasta sem þú hefur heyrt fólk nota í staðinn fyrir smokkinn? • Hvað væri þitt drauma smokkabragð? • Finnst þér vandræðalegt að kaupa smokk? • Af hverju heldur þú að smokkurinn sé feimnismál? • Hvernig má auka sýnileika smokksins? • Þarf smokkurinn að vera aðgengilegri? • Hvað heldur þú að smokkur sem þú kaupir í matvöruverslun kosti? • Veistu hvað töfrateppi er?
stutta stund og svara spurningum sem þau vildu svara af listanum. Einnig var í boði að handleika smokk fyrir framan myndavél.
Framkvæmd Innan Ástráðsnefndar voru níu einstaklingar sem komu að verkefninu með einum eða öðrum hætti. Hér til hliðar má sjá þátttakendur frá Ástráði. Eftir marga fundi á vormánuðum ársins 2022 var búið að fá aðgang að stúdíói í Grafarvogi. Þá næst kom að því að hafa samband við mögulega þátttakendur. Send voru skilaboð á um 150 einstaklinga. Flestir svöruðu ekki. Sumir afþökkuðu þátttöku. Um tíma leit út fyrir að fólk hefði almennt ekki áhuga á að taka þátt í verkefninu og reyndist það skipuleggjendum innan Ástráðs erfitt. Það breyttist allt einn daginn tveimur vikum fyrir upptökur, þá jókst skyndilega fjöldi einstaklinga sem höfðu áhuga á þátttöku.
Í lokin vorum við komin með tæplega 30 einstaklinga sem voru tilbúnir í að taka þátt. Hér til hliðar má sjá lista yfir þátttakendur. Förinni var fyrst heitið í Stjórnarráðið til að taka upp svör Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra við spurningum herferðarinnar. Í kjölfarið voru tveir tökudagar í stúdíóinu, 12. og 13. apríl. Kristín Waage hjá Waage sound sá um tæknileg atriði og fulltrúar í Ástráðsnefnd sáu um að þátttakendur mættu á réttum tíma, fóru fyrir hvaða spurningum þeir myndu svara og sáu um léttar veitingar. Gengu tökudagarnir mjög vel og eftir þá var komið tæplega 8 klukkustunda efni sem er bæði fyndið og fróðlegt.
Eftirvinnsla Næstu vikurnar tók eftirvinnslan við en það gekk hægt vegna lokaprófa hjá öllum þátttakendum í Ástráðsnefnd. Einnig var greinilegt að klippivinna og skilningur á henni er ekki kennd í læknadeild og var það okkur fjötur um fót. Þessi vinna teygðist því í kjölfarið fram á sumarið en þá kom upp annað vandamál hversu duglegir læknanemar eru að vinna á sumrin og ekki er endilega mikil orka í að hafa skoðun á fagurfræðilegum málum í lok vinnudags.
Eftir talsverð tölvupóstsamskipti, símtöl og staðfundi þá eru komin 14 stutt myndbönd þar sem þjóðþekktir einstaklingar svara þeim spurningunum sem fylgja með. Þetta eru stutt myndbönd sem munu fara á samfélagsmiðlana TikTok og Instagram. Eitt lengra myndband varð svo til í lok sumars og mun því vera dreift á fréttamiðla.
Framhald Þegar þessi texti er ritaður erum við að fara að setja myndböndin á samfélagsmiðlana. Mikill hraði er í samfélaginu og þá sérstaklega á samfélagsmiðlum. Því gætu myndböndin farið fram hjá mörgum sem myndu hafa gagn af þeim. Möguleiki er á að þau muni hafa þveröfug áhrif á einhverja en þrátt fyrir það er hugsunin aðeins sú að vekja athygli á smokknum. Skólarnir eru að byrja enn eina ferðina og von er um að smokkurinn verði settur í aðeins afslappaðra samhengi ef fólk getur að minnsta kosti rætt um hann.
Heimildir: 1. World Health Organization. [Sótt þann 21. nóvemerber]. Sexually transmitted infections (STIs). Aðgengilegt á: https:// www.who.int/en/newsroom/factsheets/detail/sexuallytransmittedinfections(stis) 2. European Center for Disease Prevention and Control. Chlamydia infection
Annual Epidemiological Report for 2018.
Stockholm: ECDC; 2020. Fulltrúar Ástráðs sem tóku þátt í verkefni Yfirumsjón • Snædís Inga Rúnarsdóttir • Sigríður Óladóttir
Ástráðsfulltrúar • Elísabet Mjöll Guðjónsdóttir • Hera Björg Jörgensdóttir • Hugrún Lilja Ragnarsdóttir • Lilja Ósk Atladóttir • Ólafur Hreiðar Ólafsson (skólaárið 2020–2021) • Sunneva Roinesdóttir • Unnur Lára Hjálmarsdóttir
Listi yfir þátttakendur • Atli Óskar Fjalarsson leikari • Álfgrímur Aðalsteinsson áhrifavaldur • Bergsveinn Ólafsson áhrifavaldur og sálfræðingur • Birta Abiba fyrirsæta • Erlingur Sigvaldason háskólanemi og stjórnmálamaður • Erpur Eyvindarson rappari • Gógó Starr dragdrottning • Guðmundur Felixson leikari og grínisti • Guðrún Ingibjörg Þorgeirsdóttir læknir og áhrifavaldur • Ingunn Lára Kristjánsdóttir fréttakona • Isabel Alejandra Díaz, forseti Stúdentaráðs
Háskóla Íslands • Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra • Lenya Rún Taha Karim, alþingiskona • Mars M. Proppé, aktívísti og stjórnarmeðlimur í Samtökunum 78 • Pálmi Freyr Hauksson, leikari og grínisti • Ragna Sigurðardóttir læknir og stjórnmálakona • Sigríður Dögg, kynfræðingur • Sólborg Guðbrandsdóttir, áhrifavaldur og rithöfundur • Sylvía Hall háskólanemi • Sigríður Klingenberg, spákona • Stefán Ingvar Vigfússon, grínisti • Tara Mobee, söngkona • Vigdís Hafliðadóttir, söngkona og grínisti • Vilhelm Neto, leikari • Þorbjörg Þorvaldsdóttir, grunnskólakennari og stjórnarmeðlimur í Samtökunum 78 • Þorsteinn V. Einarsson, áhrifavaldur • Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir