3 minute read
Golfhreyfingin á Íslandi er í almennum blóma
Kæri kylfingur.
Hápunkti golfsumarsins verður náð um helgina í Vestmannaeyjum þegar keppni þeirra bestu fer fram og úrslit ráðast í Íslandsmótinu í golfi árið 2022. Í ár eru 152 keppendur mættir til leiks, 44 konur og 108 karlar. Er það mesti fjöldi kvenna á Íslandsmótinu frá upphafi og hefur hlutfall kvenna aldrei verið hærra frá árinu 2001 eða 29%.
Golfvöllurinn í Vestmannaeyjum og Golfsamband Íslands eiga saman ríkulega, rúmlega 80 ára sögu, enda er leifar af elstu flöt landsins að finna á aftari hluta 8. flatar undir Fjósakletti.
Golfklúbbur Vestmannaeyja hefur þannig gegnt stóru hlutverki í uppbyggingu golfs á Íslandi og er Vestmannaeyjavöllur enn með þrjár upprunalegar flatir frá árinu 1938, en þá var völlurinn opnaður. Fjórum árum síðar var Golfsamband Íslands stofnað og fagnar sambandið því 80 ára afmæli í ár.
Golfhreyfingin á Íslandi er í almennum blóma. Nýjustu tölur staðfesta að enn fjölgar þeim kylfingum á Íslandi sem kjósa að skrá sig í golfklúbba. Milli áranna 2021- 2022 varð 5% fjölgun og í dag eru skráðir um 23.500 iðkendur í golfi á Íslandi. Þegar rýnt er nánar í tölur kemur í ljós að fjölgunin er mest í yngstu aldurshópunum upp að 19 ára aldri og endurspeglar sú þróun þá markvissu og öflugu vinnu innan golfklúbbanna að fjölga ungu fólki, tryggja endurnýjun iðkenda og um leið að tryggja þátttakendur í keppnishaldi þeirra yngri í golfíþróttinni.
Að lokum er gaman að minnast á það hversu góð heilsubót það er að mæta á golfmót sem áhorfandi og ganga með. Má lesa um nýjan lýðheilsufróðleik aftar í blaðinu.
Samkvæmt heimildum R&A Golf and Health 2016-2020 eyða áhorfendur á golfmótum löngum tíma í grænu umhverfi og njóta um leið samvista við vini, fjölskyldu og kunningja.
Í fjölmörgum rannsóknum hefur verið sýnt fram á að allir þessir þættir hafa góð áhrif á andlega heilsu og geðheilbrigði. Við hvetjum því gesti Íslandsmótsins í golfi til að njóta útiveru, hreyfingar og gæðasamveru ásamt því að fylgjast vel með atferli okkar allra bestu kylfinga. Mikið er hægt að læra af þeim hvað varðar undirbúning fyrir högg, ákvarðanatökur og leikskipulag almennt. Golflúbbi Vestmannaeyja og félagsmönnum klúbbsins þökkum við gestrisnina og samstarfið.
Hvort sem þú, lesandi góður, ákveður að mæta á völlinn til ánægju og heilsubótar eða horfa á beinar útsendingar RÚV um helgina þá reiknum við með þér í golfveislu helgarinnar og óskum þér góðrar skemmtunar!
Hulda Bjarnadóttir forseti Golfsambands Íslands