3 minute read

Mikill heiður fyrir GV að fá Íslandsmótið til Eyja

Við erum virkilega spennt fyrir því að taka á móti bestu kylfingum landsins. Þetta er stærsta golfmót ársins, ár hvert, og ekki langt síðan mótið var síðast haldið í Eyjum, 2018, nánar tiltekið. Því eru margir af þeim sem koma að mótinu öllum hnútum kunnugir við undirbúning mótsins,“ segir Sigursveinn Þórðarson, formaður Golfklúbbs Vestmannaeyja.

Hann bætir því við að stjórn GV hafi tekið miklum breytingum síðan 2018.

„Mörg okkar eru að koma að þessu móti í fyrsta skipti. Þannig að við höfum bæði reynslu og marga fróðleiksfúsa sem eru að upplifa þetta stóra mót í fyrsta sinn. Þetta verður virkilega spennandi. Okkar bestu kylfingar munu mæta til Eyja og takast á við völlinnokkar. Við hlökkum til þess að sjá hvernig þeim gengur.“

Formaðurinn segir að það skipti miklu máli fyrir klúbbinn að fá tækifæri til þess að halda Íslandsmót fyrir bestu kylfinga landsins.

„Við hér í Eyjum viljum að völlurinn okkar standist þær kröfur að vera krefjandi fyrir bestu kylfinga Íslands. Það er mikill heiður fyrir GV að GSÍ hafi valið völlinn okkar sem keppnisvöll ársins. Við munum gera okkar besta til að hafa þetta sem minnisstæðast fyrir keppendur. Þetta er einnig mikil kynning fyrir völlinn okkar, sem hefur verið mjög góður í ár þrátt fyrir áföll síðastliðinn vetur.“

Mikil vinna liggur að baki hjá félagsmönnum og starfsfólki á undanförnum mánuðum. Mikið gekk á hjá náttúruöflunum sl. vetur og það var krefjandi verkefni að gera völlinn tilbúinn fyrir stærsta golfmót ársins.

„Veðrið var engu líkt í byrjun ársins og margar stórar lægðir gengu yfir Eyjuna. Við misstum m.a. út í sjó teiginn á sautjándu og það gekk mikið grjót á land á sextándu braut. Við höfum nú byggt upp nýjan teig á sautjándu braut. Með góðri hjálp félaga okkar úr Mosfellsbæ náðum við að fjarlægja allt grjótið af vellinum. Við erum heppin með vallarstjóra, Guðgeir Jónsson, sem sýnir natni og hæfileika í að sinna flötum vallarins eins og best verður og því fá kylfingar að kynnast á næstu dögum.

Síðasta árið hefur verið framkvæmdaár hjá okkur í Eyjum. Við erum að byggja við skálann okkar og útbúa aðstöðu fyrir golfhermana á neðri hæðinni. Samtímis erum við að stækka salinn. Þá hefur verið ráðist í að útbúa búningsaðstöðu fyrir bæði karla og konur. Þetta stóra verkefni hefur tekið á en við erum sannfærð um að til lengri tíma verði þetta klúbbnum okkar til framdráttar. Við erum heppin, því bæði höfum við haft sterka bakhjarla með okkur í verkefninu og eins hefur Vestmannaeyjabær staðið vel við bakið á okkur. Það hefur skipt sköpum varðandi hraða framkvæmdanna,“ segir Sigursveinn.

Formaðurinn er sannfærður um að vikan framundan verði skemmtileg í Eyjum.

Veitingastaðurinn „Einsi kaldi“ mun sjá um veitingar í skálanum mótsdagana og við munum leggja okkur fram við að þjónusta kylfinga eins og best verður á kosið. Við erum rík af sjálfboðaliðum sem leggja mikla og óeigingjarna vinnu í að mótið verði sem glæsilegast.

Við hlökkum til að taka á móti bestu kylfingum landsins,“ segir Sigursveinn Þórðarson, formaður GV.

Sigursveinn Þórðarson, formaður GV.

This article is from: