2 minute read
Íslandsmótið haldið á sögufrægum velli
Golfklúbbur Vestmannaeyja er þriðji elsti golfklúbbur landsins, stofnaður 4. desember árið 1938. GV kom síðar að stofnun Golfsambands Íslands árið 1942, ásamt Golfklúbbi Reykjavíkur (Íslands) og Golfklúbbi Akureyrar.
Á fyrstu árum klúbbsins var spilað á 6 holu golfvelli, sem var að mestu í Herjólfsdal. Sá völlur var útbúinn sama ár og klúbburinn var stofnaður. Áttunda flötin á núverandi Vestmannaeyjavelli er að hluta til frá árinu 1938. Því er leikið á elstu flöt landsins á Íslandsmótinu 2022. Á Vestmannaeyjavelli eru enn notaðar þrjár holur sem tilheyrðu fyrsta golfvelli Eyjamanna.
Íslandsmótið í golfi, sem var á þeim tíma Landsmót, fór fyrst fram árið 1959 í Vestmannaeyjum. Þremur holum var bætt við upprunalega völlinn til þess að mótið gæti farið fram á 9 holu velli – sem var krafa á þeim tíma.
Árið 1962 var völlurinn endanlega orðinn 9 holur en honum hefur oftsinnis verið breytt í áranna rás. Í eldgosinu í Heimaey árið 1973 fór völlurinn allur undir vikur og ösku – og var ekki leikið á vellinum á meðan hreinsunarstarf félagsmanna og íbúa bæjarins fór fram.
Hreinsun gamla golfvallarins lauk árið 1977 en á meðan léku Eyjamenn golf á bráðabirgðavelli norðan við Lyngfell.
Félaga í GV dreymdi um að eignast 18 holu golfvöll. Gerður var rammasamningur við bæjarsjóð Vestmannaeyja um stækkun vallarins og í kjölfarið var hafist handa við að undirbúa stækkun hans í 18 holur. Mikil vinna var við stækkun vallarins og þurfti meðal annars að aka 15.000 rúmmetrum af efni til uppfyllingar í hraunið sem völlurinn var að hluta til lagður yfir. Þess var þó gætt að hraunhólarnir fengju að halda sér. Er það mál manna að afar vel hafi tekist til með hönnun og skipulag vallarins. Árið 1990 voru þrjár nýjar holur tilbúnar og þremur árum síðar bættust við 6 holur. Þar með var Vestmannaeyjavöllur orðinn 18 holu golfvöllur og var formlega vígður 1994.
Árið 1998 valdi bandaríska golftímaritið Golf Digest golfvöllinn í Vestmannaeyjum einn af 200 skemmtilegustu golfvöllum í Evrópu. Því hefur verið slegið fram, bæði af innlendum og erlendum kylfingum, að golfvöllurinn í Eyjum sé eitt best geymda leyndarmálið innan golfheimsins í Evrópu.