2 minute read
Afmæliskveðja frá Golfsambandi Íslands
Ágætu kylfingar.
Það er mér ánægjulegt að fá að rita nokkur orð í tilefni af hálfrar aldar afmælis Golfklúbbs Borgarness.
Í dag státar golfhreyfingin á Íslandi sig af yfir 60 golfvöllum um land allt og er ánægjulegt að sjá Golfklúbb Borgarness hafa skapað sér vinsældir og góðan orðstír. Á tímamótum sem þessum verður ekki hjá því komist að hugsa til þeirra frumkvöðla sem höfðu sýn, úthald og elju til að fara fyrir uppbyggingu golfvallarins í Hamarslandi. Árið 2007 var kominn fullgildur 18 holu keppnisvöllur og þá þegar var boðið upp á gistingu á golfvallarsvæðinu að erlendri fyrirmynd. Slíkt sýnir stóra hugsun og skýra framtíðarsýn.
Golfsamband Íslands hefur átt gott samstarf við forsvarsfólk golfklúbbsins og þakka ég kærlega fyrir uppbyggileg og góð samtöl. Enn fremur er ánægjulegt að fylgjast með áframhaldandi uppbyggingu á svæðinu. Sú uppbygging og framtíðarsýn er ekki síður mikilvæg til að tengja við þá þróun sem orðið hefur frá stofnun klúbbsins. Golfklúbbar þurfa í dag að leita leiða til að sinna fjölbreyttari hópi kylfinga auk þess sem fjölgun ferðamanna hefur áhrif á vinsældir og aðsókn í golf.
Þannig er ekki bara verið að sinna fjölbreyttari markhópum, heldur hefur íþróttin farið úr því að bjóða upp á iðkun nokkra mánuði á ári yfir í heilsársstarfsemi. Slík íþróttaaðstaða hefur jákvæð áhrif á íþróttalíf allra aldurshópa í bænum og viljum við koma þeim lýðheilsusjónarmiðum betur áleiðis og kalla eftir enn öflugra samstarfi við sveitafélög og ríki. Slíkt samstarf gæfi fleirum tækifæri til að njóta fjölbreyttra og fallegra útivistarsvæða sem golfvallarsvæði hafa upp á að bjóða. Þar hefur Golfklúbbur Borgarness sýnt eftirtektarvert frumkvæði og verður ánægjulegt að fylgjast með og styðja áframhaldandi gott starf.
Í tilefni ef 80 ára afmæli Golfsambands Íslands á síðasta ári hvöttum við alla golfklúbba landsins til að varðveita söguna með okkur. Rit sem þetta er mikilvægt í sögulegu samhengi og er ánægjulegt að lagður sé metnaður í að rita söguna og halda utan um myndir og sögulegt samhengi.
Fyrir hönd Golfsambands Íslands færi ég Golfklúbbi Borgarness og Borgnesingum öllum innilegar hamingjuóskir á fimmtíu ára afmæli klúbbsins. Um leið þakka ég stjórnendum og starfsfólki golfklúbbsins afar ánægjulegt samstarf og uppbyggileg samtöl um áframhaldandi uppbyggingu golfs á Íslandi.
Hulda Bjarnadóttir Forseti Golfsambands Íslands