2 minute read
Úr 13 klúbbfélögum í 210
Stórtæk uppbygging einkenndi fyrstu áratugina
Golfklúbbur Borgarness var stofnaður 21. janúar 1973 með 13 stofnfélögum. Forsendan fyrir stofnun klúbbsins var vilyrði Borgarneshrepps um að klúbburinn fengi Hamarsland fyrir golfvöll. Sumarið 1973 voru fyrstu golfhöggin slegin á Hamri á 3 holu velli á „norðurtúnum“ þar sem æfingasvæðið er nú. Holurnar urðu 9 árið 1975 á grunni teikningar frá verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen. Skipulag vallarins tók í reynd mið af þeirri teikningu allt til aldamóta.
Eitt stærsta framtakið á fyrstu árunum var endurreisn Hamarsbæjarins sem golfskála. Hamarsbærinn,
sem er í burstabæjarstíl, var reistur 1926 og er þekkt kennileiti vegfarenda um Borgarfjörð. Húsið var í niðurníðslu þegar klúbburinn fékk það til afnota 1978 en með samstilltu átaki félaga var það gert upp.
Rétt fyrir 1990 var byrjað að horfa til stækkunar í 18 holur. Breytingar á aðalskipulagi tókust í samvinnu við Borgarnesbæ sem gerði ráð fyrir stækkun vallarins. Hannes Þorsteinsson golfvallarhönnuður var fenginn til að hanna nýja völlinn sem loks varð að veruleika árið 2007. Þá voru félagar í klúbbnum orðnir 210 sem var tímanna tákn.
Endurreisn Hamarsbæjarins á árunum 1978-1979 er tákn þess krafts sem einkenndi starf klúbbsins á fyrstu starfsárum hans.