5 minute read

Stækkun Hamarsvallar var eftirminnilegt verkefni

Rætt við Símon Pál Aðalsteinsson framkvæmdastjóra GB 1997-2007

„Það er í raun ótrúlegt hvernig við náðum að stækka völlinn miðað við efni og aðstæður,“ segir Símon Páll Aðalsteinsson spurður um ár sín sem framkvæmdastjóri GB á árunum 1997 - 2007. Símon sem er einn af heiðursfélögum klúbbsins var fyrsti framkvæmdastjóri hans og var sem slíkur allt í öllu í því mikla framtaki sem stækkun Hamarsvallar í 18 holur var á fyrstu árum aldarinnar.

Gjaldkerinn sá fyrir sér 25% starf

Símon kveðst hafa smitast af golfbakteríunni um 1990 og þá byrjað að taka þátt í starfi GB, m.a. í vallarnefnd. Hann flutti í Borgarnes 1997 ásamt eiginkonu sinni Þuríði Jóhannsdóttur en Símon er bifvélavirki að mennt og ráku hjónin vélaverkstæðið Vélabæ í Bæjarsveit um árabil. „Ég var á þessum tíma að jafna mig eftir vinnuslys og fór reglulega í göngutúra um Borgarnes. Ég kom stundum við í kaffi á skrifstofunni hjá Jóni Haralds í Sjóvá og þá barst golfklúbburinn og Hamarsvöllur oft á góma,“ segir Símon en Jón var á þessum tíma gjaldkeri klúbbsins.

„Jón fór að stinga upp því að fá mig í vinnu fyrir klúbbinn, þar væru næg verkefni fyrir mann með mína reynslu. Hann sá fyrir sér að ég færi í 25% starf,“ bætir hann við og glottir. „Þetta þróaðist þó á annan veg og var stjórn klúbbsins búin að ráða mig sem framkvæmdastjóra í fullt starf áður en ég vissi af.“

Flatir tyrfðar í snjó

Fljótlega eftir að Símon hóf störf var byrjað að huga að breytingum á Hamarsvelli í takt við teikningu Hannesar Þorsteinssonar golfvallarhönnuðar frá 1992. „Fyrsti áfangi í því var að gera nýjar flatir sem nú eru á 9, 10, og 11. holu, en að auki var 11. hola lengd. Lokahnykkurinn í þessum áfanga var eftirminnilegur því að flatirnar voru þökulagðar í slyddu og snjókomu að hausti,“ segir Símon. „Annað minnistætt verkefni á þessum fyrstu árum var heilmikil aðgerð við að fjarlægja grjót og björg upp úr Hamarsvelli sem höfðu skagað upp úr honum og leikið vélar klúbbsins grátt. Ætli við höfum ekki náð yfir 100 tonnum upp úr vellinum sem síðan nýttist við landmótun á nýja vallarsvæðinu.“

Dýrmætur stuðningur Frekari nýframkvæmdir við stækkunina fóru síðan fram á árunum 2003-2006. „Ég man að Jonni Ragg (Jón Georg Ragnarsson) og ég lögðum fram tillögu eitt sinn á aðalfundi, sennilega árið 2002, um að ráðast í stækkun vallarins og var tillagan samþykkt. Veturinn eftir var gerð kostnaðar- og framkvæmdaráætlun sem Ingvi Árnason kom að stórum hluta að og var hún lögð fram í stjórn og send til Borgarbyggðar. Við unnum síðan eftir þessari áætlun í grófum dráttum en nutum á leiðinni dýrmæts stuðnings úr ýmsum áttum,“ segir Símon.

„Það þurfti að fá heilmikið efni til landmótunar á nýja vallarsvæðinu og fékk klúbburinn til dæmis mikinn stuðning frá Borgarverki undir forystu Sigvalda Arasonar. Ég veit ekki hvað margir gera sér grein fyrir hversu miklir efnisflutningarnir voru en sem dæmi eru 5. og 6. hola nokkrum metrum yfir þeirri hæð sem var upphaflega á þessu svæði. Þetta voru þúsundir rúmmetrar af efni sem var sturtað á stækkunarsvæðið.“

Ævintýri á jarðýtum

Þó ýmsir verktakar hafa komið að einstökum verkefnum vegna jarðvinnu við stækkun Hamarsvallar var það Símon sem bar hitann og þungann af landmótununni á jarðýtum sem GB festi kaup á vegna stækkunarinnar.

„Fyrst keypti klúbburinn jarðýtu í félagi með Daníel Haraldssyni í Brautarholti og kom í minn hlut að ýta efni og móta brautirnar. Þessi vinna fór einkum fram á haustin og veturna þegar aðstæður leyfðu,“ greinir Símon frá. „Síðar keypti klúbburinn svo aðra og stærri jarðýtu sem einnig nýttist“.

Jarðvinna, landmótun og sáning fór aðallega fram 2003-2006 ásamt tyrfingu flata, en þökur komu úr Fljótshlíð fyrir austan fjall. Unnið var eftir hönnun Hannesar en í sumum tilfellum þurfti að taka mið af aðstæðum. „Til dæmi var heljarinnar puð að búa til flötina á 6. holu. Á þessum slóðum er ísaldarleir sem er erfiður viðureignar og lá líklega mánaðarvinna að baki við að búa til „bollann” sem flötin dvelur í með jarðýtu,“ segir Símon en alls varði hann um 900 tímum á ýtunni. Geta má þess að ítarlegar lýsingar á framkvæmdunum eru að finna í skýrslum Björgvins Ó. Bjarnasonar formanns vallarnefndar á þessum árum í ársskýrslum en Björgvin sá um mælingavinnu á framkvæmdasvæðinu á Hamri.

Það snjóaði þegar 10. flöt var þökulögð haustið 2000.

Eftirminnilegt verkefni

Símon segir að stækkun Hamarsvallar hafi verið afar eftirminnilegt verkefni og kveðst hann ánægður með útkomuna. Völlurinn sé mikið prýði í dag, hann er vel hirtur og sé ánægjulegt að sjá hversu vinsæll hann er meðal kylfinga. „Það er í raun lyginni líkast hvernig klúbburinn náði þessum áfanga en það tókst með mikilli vinnu og útsjónarsemi ásamt góðum stuðningi frá bakhjörlum klúbbsins. Heildarkostnaðurinn var í reynd mun minni en áætlanir í upphafi gerður ráð fyrir. Ég er ánægður með að grunnvinnan hafi skilað sér svona vel,“ segir Símon að lokum.

Unnið á jarðýtu klúbbsins á nýja vallarsvæðinu upp úr aldamótum.

This article is from: