1 minute read
Umhverfisbreytingar á norðurslóðum
UMHVERFISBREYTINGAR Á NORÐURSLÓÐUM.
ENVIRONMNTAL CHANGES AT HIGHER LATITUDES (ENCHIL)
Þessi nýja alþjóðlega meistaranámsbraut (EnCHiL Nordic Master) býður upp á hágæða rannsóknatengt framhaldsnám á fræðasviði umhverfisfræða ásamt hagnýtri reynslu á Grænlandi, Íslandi og á öðrum Norðurlöndum.
ÁHERSLUR Í NÁMI
Vistkerfi og samfélög norðurslóða breytast með síauknum hraða. Þetta er vegna breytts loftslags, breyttrar landnýtingar, meiri ferðamannastraums, aukinna viðskipta og flutninga landa á milli sem og annarra hagrænna breytinga.
Aukin þörf er fyrir umhverfismenntaða sérfræðinga með skilning og þverfaglega getu til að fjalla um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda og umhverfis norðurslóða, í anda heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.
UPPBYGGING NÁMSINS
Námið tekur tvö ár og er 120 ECTS. Kennt er á Hvanneyri og Grænlandi ásamt a.m.k. einu misseri við Háskólann í Lundi í Svíþjóð eða Háskólann í Helsinki í Finnlandi.
Allt að 20 meistaranemar eru teknir inn ár hvert. Þriðjungur þeirra byrjar við Landbúnaðarháskóla Íslands (LBHÍ) en hinir við Lundarháskóla eða við Helsinkiháskóla. Allur hópurinn tekur eitt misseri saman við LBHÍ á Hvanneyri og á Grænlandi. Á öðru ári sérhæfa íslensku nemendurnir sig með eins misseris námi við Lundarháskóla eða Helsinkiháskóla og á síðasta misseri vinna þau meistaraverkefni sem getur farið fram við LBHÍ, í Lundi, í Helsinki eða við Oulu háskóla í Finnlandi, Árósaháskóla í Danmörku, Landbúnaðarháskóla Eistlands eða við Umhverfisstofnun Grænlands.
AÐ NÁMI LOKNU
Vaxandi þörf er fyrir menntaða umhverfisfræðinga með þekkingu á norðurslóðum og þeim áskorunum sem það svæði stendur frammi fyrir, bæði á Íslandi og alþjóðlega. Þörf er á aðilum sem hafa getu til að tileinka og nýta sér nýjustu rannsóknaniðurstöður í samskiptum við stefnumótendur og aðra hagaðila svo bregðast megi á réttan og sjálfbæran hátt við þeim breytingum sem nú ríða yfir.
Þessi MS gráða er hagnýtur og góður undirbúningur fyrir þverfaglegt doktorsnám í umhverfisfræðum, en ekki síður sterkur undirbúningur fyrir vinnu við stjórnsýslu tengda málefnum náttúrunýtingar og byggðamála, innanlands sem og alþjóðlega. Aukin eftirspurn er eftir sérfræðingum af einkageiranum á sviði norðurslóðafræða vegna aukinna tækifæra og áhuga á svæðinu og málaflokknum.
Útskrifaður einstaklingur mun búa yfir einstakri reynslu og þekkingu frá Íslandi og Grænlandi ásamt a.m.k. eins misseris námi við einn af sterkustu rannsóknaháskólum Norður-Evrópu á sviði norðurslóðafræða.
Aðilar eru einnig undirbúnir undir þverfaglega teymisvinnu í alþjóðlegu umhverfi og samvinnu.
WWW.ENCHIL.NET
Umsóknarfrestur er til 15. apríl. Sótt er um á enchil.net
Námsstig: Framhaldsnám Nordic Master. Námslengd: 2 ár 120 ECTS. Fagdeild: Náttúra & Skógur. Kennt á Hvanneyri, Grænlandi og Lundi eða Helsinki