1 minute read
Skipulagsfræði
FRAMHALDSNÁM MS SKIPULAG & HÖNNUN
BÚSETUGÆÐI, ATVINNULÍF, SAMGÖNGUKERFI OG UMHVERFISMÁL
Skipulagsfræði er þverfagleg og sjálfstæð fræðigrein sem tengist lögfræði, félagsfræði, hagfræði, landfræði, náttúrufræði, arkitektúr og verkfræði. Námið hefur sjálfbæra þróun og sköpun lífvænlegs umhverfis að leiðarljósi með áherslu á gagnrýna skipulagshugsun.
ÁHERSLUR Í NÁMI
Meistaranám í skipulagsfræði við LBHÍ uppfyllir skilyrði um réttindi til að nota hið lögverndaða starfsheiti skipulagssfræðingur að fengnu leyfi umhverfis-og auðlindaráðuneytis. Námið uppfyllir þær menntunarkröfur sem gerðar eru til skipulagsfræðinga af Skipulagsfræðingafélagi Íslands. Í því felst m.a. að námið veiti þekkingu á búsetugæðum, atvinnulífi, samgöngukerfum og umhverfismálum. Sjálfstætt rannsóknarverkefni vegur einn fjórða á móti skipulögðum námskeiðum.
UPPBYGGING NÁMSINS
Námið er fjórar annir, þar sem hver önn skiptist í tvær stuttannir. Á fyrstu önn sækja nemar námskeið í skipulagskenningum og aðferðum. Á annari önn vinna nemendur hagnýtt verkefni á vinnustofu og leysa raunverulegt skipulagsverkefni úr umhverfinu. Á þriðju önn eru m.a. námskeið í skipulagslögfræði og samgönguskipulagi. Þá er einnig námskeið í rannsóknaraðferðum með hliðsjón af viðfangsefni lokaverkefnis. Á fjórðu önn er unnið lokaverkefni á sviði skipulagsfræða. Nemendur vinna verkefnið sjálfstætt undir handleiðslu leiðbeinanda. AÐ LOKNU NÁMI Vaxandi þörf er fyrir menntaða skipulagsfræðinga á Íslandi og er námið sniðið að íslenskum þörfum en fylgir engu að síður nýjustu stefnum í skipulagskenningum og fræðigreininni.
Námið þjálfar nemendur í skipulagsgerð, rannsóknaraðferðum og undirbýr þá í samstarfi við stofnanir, sérfræðinga, stjórnvöld og ekki síst almenning, íbúa og fyrirtæki sem og aðra hagsmunaaðila í skipulagi. Nemendur eru þjálfaðir í að beita megindlegum og eigindlegum rannsóknaraðferðum, rýmishönnun og hagnýtri nálgun við lausn skipulagsverkefna með samvinnu við ýmsa hagsmunaaðila. FRAMHALDSNÁM Hægt er að stunda áframhaldandi nám í skipulagsfræði á doktorsstigi við skólann eða sækja sér frekari framhaldsmenntun erlendis.
DÆMI UM LOKAVERKEFNI NEMENDA
Greining á möguleikum í miðbæjaruppbyggingu á Húsavík. Áhrif jarðgangnagerðar á íbúaþróun í dreifbýli. Borgarlínan, aðgengisleg úrbót fyrir alla? Fjölþátta ákvarðanagreining við flokkun landbúnaðarlands. Staða Glerár á Akureyri og virði hennar fyrir samfélagið. Skipulag og samfélag, endurhönnun borgarhluta. Sérstaða Stokkseyrar innan sveitarfélagsins Árborgar.
Námsstig: Framhaldsnám MSc. Námslengd: 2 ár 120 ECTS. Fagdeild Skipulag & Hönnun. Kennt á Keldnaholti Reykjavík.