1 minute read

Skógfræði

EINSTAKT NÁM MEÐ ÁHERSLU Á SJÁLFBÆRA SKÓGRÆKT, SKÓGARNÝTINGU OG VISTHEIMT

Fléttað er saman námsgreinum á sviði náttúruvísinda, skógfræði, vistheimtar, tæknifræði, stjórnunar og hagfræði og einnig er farið inn á svið landupplýsinga og landslagsfræða. Lögð er áhersla á að veita nemendum traustan vísindalegan grunn og um leið að búa þá sem best undir störf sem fræðimenn, stjórnendur eða sjálfstæðir atvinnurekendur. Þetta er einstök samsetning náms sem ekki á sér hliðstæðu í öðrum íslenskum háskólum.

ÁHERSLUR Í NÁMI

Áhersla er lögð á skóginn, bæði sem endurnýjanlega hráefnisauðlind á Íslandi og sem vistkerfi sem veitir margvíslega vistþjónustu. Fjallað um ræktunartækni skógræktar, sjálfbæra nýtingu og umhirðu skóglenda, aðlögun að landslagi, vandaða áætlanagerð og skipulag framkvæmda sem og nýsköpun. Þá er einnig lögð áhersla á fræðilegan grunn og hagnýta þekkingu á sviði vistheimtar og sjálfbærrar landnýtingar.

UPPBYGGING NÁMSINS

Í náminu eru almennar raungreinar og líffræði um 25%, fagnámskeið á sérsviði brautar um 40%, stjórnun, rekstur, hönnun og áætlanagerð um 20% og valfög um 10%. Nemendur ljúka námi með 10 ECTS lokaverkefni (6% af heildarnámi).

AÐ LOKNU NÁMI

Umsvif skógræktar og landgræðslu eru að aukast og á síðustu árum hefur þörf fyrir fólk með trausta fagþekkingu á þessu sviði stóraukist. Einnig eru að verða til lítil verktakafyrirtæki víða um land sem sérhæfa sig í skógfræði og selja þjónustu sína til bænda, sveitarfélaga og annarra landeigenda. Þetta er þverfaglegt nám sem nýtist einkar vel til starfa hjá hinu opinbera eða til sjálfstæðrar atvinnustarfsemi innan græna geirans. Einnig opnast möguleikar á störfum erlendis sem varða skógfræði og landgræðslu, t.d. í sambandi við þróunarverkefni í þriðja heiminum, en skógar- og jarðvegseyðing er oftar en ekki undirrót vandamála sem leysa þarf á mörgum stöðum.

Ennfremur opnast margvísleg önnur atvinnutækifæri, t.d. í kennslu, landbúnaði, blaðamennsku og stjórnsýslu.

FRAMHALDSNÁM

Tækifæri er á áframhaldandi námi til meistaragráðu í skógfræði eða landgræðslu við LBHÍ eða öðrum háskólum.

Námsstig: Grunnnám Bakkalár BSc. Námslengd: 3 ár 180 ECTS. Fagdeild Náttúra & Skógur. Starfsstöð Hvanneyri. Fjarnámslausnir í boði.

This article is from: