1 minute read
Landslagsarkitektúr
GRUNNNÁM BS SKIPULAG & HÖNNUN
HEFUR ÞÚ ÁHUGA Á FÓLKI, HÖNNUN, SKAPANDI VINNU OG UMHVERFISMÁLUM? ÞÁ ER NÁM Í LANDSLAGSARKITEKTÚR EITTHVAÐ FYRIR ÞIG!
Umhverfið hefur áhrif á samfélagið, einstaklinginn og náttúruna. Í náminu er lögð áhersla á sjálfbærar lausnir með tilliti til þarfir mannsins og sérstöðu náttúru landsins.
ÁHERSLUR Í NÁMI
Landslagsarkitekt þarf að hafa sérþekkingu á samfélagsþörfum, landmótun, formum, fagurfræði, gróðri, vistfræði, efnisnotkun og mannvirkjum. Þessir þættir eru því þungamiðjan í BS námi í landslagsarkitektúr.
UPPBYGGING NÁMSINS
Á fyrsta ári er inngangur að landslagsarkitektúr þar sem rýnt er í einkagarðinn og minni almenningsrými. Farið er í formfræði hönnunar, jarðfræði, tölvustudda hönnun I, garðsögu, grasafræði og vistfræði. Á öðru ári er áhersla á landslagsbyggingafræði með hönnun minni borgarrýma s.s. götur og torg, umhverfisskissur og áhrif lita, jarðvegsfræði, skipulagsfræði, tré og runnar, hugmyndavinna og rýmismyndun, veðurfarsfræði og landslagsgreining. Á þriðja árinu er farið í arkitektúr og skipulag í borgarumhverfi, umhverfi og lýðheilsa, mannvirki í landslagi s.s. vegi, námur og snjóflóðavarnir. Meðal annars er vindvél notuð til að greina skjólmyndun í tengslum við hönnun með gróðri og byggingum. Að lokum Bs lokaverkefni.
AÐ LOKNU NÁMI
Aðilar með þessa menntun gegna mikilvægu hlutverki við að skipuleggja og hanna umhverfi okkar í þéttbýli sem og í dreifbýli. Landslagsarkitektar vinna við skipulagningu og hönnun útisvæða bæði í borgum og dreifbýli. Viðfangsefnin eru t.d. íbúðabyggð, garðar og torg, almenningsgarðar, vegir, íþróttasvæði, skólalóðir og ferðamannasvæði svo eitthvað sé nefnt. Landslagsarkitektar þurfa að nýta sína kunnáttu til að greina svæði, skoða hvaða möguleikar svæðin hafa, hvaða afleiðingar það getur haft á umhverfið og hvaða hönnunarútfærsla hentar.
Störfin geta verið hjá teiknistofum landslagsarkitekta, skipulagsfræðinga, arkitekta og verkfræðinga, opinberum aðilum, sveitarfélögum og ráðgjafafyrirtækjum.
FRAMHALDSNÁM
Með því að halda áfram í námi til meistaragráðu geta nemendur öðlast starfsréttindi sem landslagsarkitektar, skipulagsfræðingar, borgarhönnuðir o.fl.
„FRAMSÆKIÐ NÁM Í FRJÓU UMHVERFI MEÐ EINSTAKAN ANDA“ Guðni Brynjólfur Ásgeirsson mastersnemi við AHO, Osló.
Námsstig: Grunnnám Bakkalár BSc. Námslengd 3 ár 180 ECTS. Fagdeild Skipulag & Hönnun. Starfsstöð Hvanneyri