Notalegt um jólin
Skreytingar skipa stóran sess í jólaundirbúningi Tinnu Alavis, lífsstílsbloggara, en hún leggur einnig mikið upp úr bakstri og góðum mat. Á alavis.is má finna ótal uppskrifir. „Ég byrja að skreyta í lok nóvember og í byrjun desember er heimilið orðið jólalegt og kósý,“ segir Tinna. Að skreyta heimilið er einmitt meðal þeirra jólahefða sem hún heldur mest upp á. Henni finnst gaman að búa til aðventukrans og skreyta jólatréð og hvað jólabakstur varðar eru piparkökur og sörur ómissandi. Jólamyndir koma Tinnu alltaf í jólaskap og á jólunum sjálfum má möndlugjöfin ekki gleymast. Á heimili Tinnu eru sterkar matarhefðir á aðfangadag. „Við borðum rjúpur í aðalrétt á aðfangadag en það er uppáhaldsmaturinn minn. Síðan erum við með ananasfrómas í eftirrétt,” segir hún og bætir við að mandlan sé falin í frómasinum. Jóla forrétturinn skiptir líka miklu máli. „Mig langar að deila með ykkur humarsúpunni minni. Hún er í miklu uppáhaldi og er virkilega bragðgóð. Hún er tilvalin sem forréttur á jólunum.“
Humarsúpa Fyrir 4-6 1 kg humar í skel Íslenskt smjör, til steikingar 3 laukar 2 hvítlauksrif ½ blaðlaukur 3 gulrætur ½ steinseljubúnt (smátt saxað) ½ kóríanderbúnt (smátt saxað) 2 msk. tómatpúrra 1-2 dl hvítvín 1 l rjómi (auk þess 1 msk. af þeyttum rjóma fyrir hverja skál) 2 teningar fiskikraftur 2 tsk. karrý Salt og cayenne-pipar eftir smekk
28
Skolið humarinn vel, takið hann úr skelinni og setjið til hliðar. Steikið skeljarnar í potti upp úr íslensku smjöri og hvítlauk í u.þ.b. 10 mínútur. Bætið þá lauknum, blaðlauknum og gulrótunum við. Næst er karrý, steinselja og kóríander sett út í ásamt salti og cayenne-pipar. Steikið áfram í 10 mínútur. Hrærið tómatpúrrunni saman við. Hellið hvítvíninu út í pottinn. Leysið 2 teninga af fiskikrafti upp í litlum potti með 1 lítra af vatni og hellið út í stærri pottinn. Látið sjóða í 5 mínútur og hellið þá 1 lítra af rjóma út í súpuna. Látið súpuna malla á vægum hita í 1 klst. Sigtið skeljarnar og grænmetið frá í lokin og setjið humarinn út í súpuna í stutta stund. Setjið 1 msk. af þeyttum rjóma ofan á miðja súpuna áður en hún er borin fram. Saltið eftir smekk.