Farsæll á sjó og í landi Bragi Ólafsson hefur marga fjöruna sopið enda var hann á sjó í rúmlega 44 ár og þegar hann var kominn fast að sextugu hafði hann aldrei unnið við annað en sjómennsku. Lengst af var hann stýrimaður og skipstjóri fyrir vestan og á farsælan sjómannsferil að baki. „Ég missti hvorki skip né menn í hafið og fyrir það er ég afskaplega þakklátur.“ Bragi segist þó tvisvar hafa komist í hann krappann en hann hafi þó ekki gert sér grein fyrir þeirri lífshættu sem vofði yfir honum og mönnum hans fyrr en í land var komið. Þegar Bragi var hins vegar 59 ára ákvað hann að nóg væri komið og hélt í land. Hann átti eftir að komast að því að það er líf í landi – og bara þónokkuð litríkt og skemmtilegt en Bragi hefur svo sannarlega ekki setið auðum höndum eftir að sjómennskunni lauk. Bragi Ólafsson, athafnamaður og fyrrum skipstjóri. Allar ljósmyndir eru úr eigu Braga
Bragi á að baki rúmlega 44 ára farsælan feril sem sjómaður og skipstjóri. Hann fór snemma að sækja sjóinn, rétt nýskriðinn yfir fermingu en þá réri hann á trillu sem faðir hans keypti svo drengurinn hefði eitthvað fyrir stafni yfir sumarið. Þar með var grunnurinn lagður að framtíðinni. Bragi segir varla neitt annað hafa komið til greina þegar á reyndi en að leggja sjómennskuna fyrir sig. „Mamma vildi að ég yrði rafvirki og mér leist svo sem ágætlega á það. Haft var samband við rafvirkjameistara á Ísafirði sem var tilbúinn til að taka mig í læri en þegar á hólminn var komið ákvað ég að snúa mér frekar að sjómennskunni enda meira upp úr henni að hafa í þá daga.“
Alda Áskelsdóttir
Bragi sem er borinn og barnfæddur Súgfirðingur er kominn af sjómönnum langt aftur í ættir en sá þeirra sem segja má að hafi lagt línurnar fyrir það sem koma skyldi var afi Braga, Friðbert Guðmundsson. „Afi minn var mjög framtakssamur og framsýnn maður. Hann átti marga báta um ævina, auk þess sem hann stofnaði fiskvinnslu sem fékk nafnið Fiskiðjan Freyja. Afkomendur afa ráku fyrirtækið allt til ársins 1982 þegar það var selt Sambandinu“ Ævintýri Friðberts hófst hins vegar með einum litlum bát. „Árið 1906 var afi 28 ára en þá lét hann smíða fyrir sig fyrsta vélbátinn en sá bátur fékk nafnið Vonin. Á þessum tíma voru menn að átta sig á þeim möguleika að setja vélar í þessa litlu báta sem róið var þarna fyrir vestan og reyndar víðar um land. Tveimur árum áður hafði bátnum Stanley frá Ísafirði verið breytt í vélbát og reynst vel. Afi ákvað því að láta smíða fyrir sig svipaðan bát á Ísafirði. Í Voninni var tveggja hestafla vél,“ segir Bragi og hlær um leið og hann bætir við: „Sem þætti lítið í sláttuvél í dag en þar með má segja að útgerðarsaga á Suðureyri hafi hafist fyrir alvöru. Þetta hafði ekki verið neitt neitt. Menn réru út
12
SJÁVARAFL JÚNÍ 2022
á fjörðinn til fiskjar og Ásgeirsverslun, sem var útibú frá Ísafirði og tók við öllum þorski en hitt báru sjómennirnir heim til sín til matar.“ Bragi segir að langamma sín og -afi hafi verið með þeim fyrstu sem settust að á Suðureyrarmölum þar sem þorpið stendur núna. Þá var Friðbert, afi hans, 9 ára og íbúarnir orðnir sjö að tölu. „1920 bjuggu þar hins vegar 300 manns. Á þessum árum varð hálfgerð sprenging. Fólk fór að sjá pening og það ýtti undir flutning úr sveitunum, sér í lagi þeirra sem höfðu ekki borið annað úr bítum en fæði og klæði.“ Nýir hættir í sjávarútvegi gegndu lykilhlutverki í þessari þróun. „Eftir að vélarnar komu í bátana var hægt að sækja fiskinn lengra út á miðin og fiska meira í hverjum róðri og þar með var kominn grundvöllur fyrir því að setja á laggirnar fiskvinnslu.“ Friðbert átti Vonina í hátt í 20 ár en á þeim tíma keypti hann fleiri báta. „Afi hafði gjarnan þann háttinn á að eiga helming í mörgum bátum og deildi eignarhaldinu með skipstjóranum og vélstjóranum. Það þótti gott fyrirkomulag enda þannig tryggt að vélstjórinn passaði vel upp á vélina og skipstjórinn upp á línuna og að það yrði ekki bruðlað með neitt.“ Samhliða útgerðinni rak Friðbert salt- og harðfiskvinnslu. „Smátt og smátt komu svo synir afa og svo síðar tengdasonur í reksturinn. Þegar afi dó keyptu pabbi og tveir bræður hans hlut systkina sinna í útgerðinni og tóku alfarið við þeim rekstri. Við bræðurnir fylgdum svo í kjölfarið.“
14 ára sjóveikur vélstjóri en tvítugur að kaupa þriðja bátinn Eins og áður sagði var Ólafur Friðbertsson, faðir Braga, með föður sínum í útgerð og var skipstjóri alla sína tíð. Honum fannst því liggja