Síldarvinnslan í Neskaupstað er eitt af stærstu útgerðarfyrirtækjum landsins og stærsti framleiðandi fiskimjöls og lýsis á Íslandi.
Velgengni er ekki tilviljun
Alda Áskelsdóttir
Síldarvinnslan í Neskaupstað byggir á gömlum merg og hefur í gegnum tíðina farið í gegnum margan öldudalinn. Nú virðist hins vegar sem svo að brautin sé bein og velgengni fyrirtækisins hefur sjaldan verið meiri. Hagnaður fyrirtækisins síðasta ár var 11 milljarðar og segir Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, þennan góða árangur megi fyrst og fremst rekja til vel ígrundaðra ákvarðana eigenda í gegnum tíðina og ekki hvað síst því góða starfsfólki sem Síldarvinnslan hefur haft á að skipa. Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, segir að sjávarútvegurinn sé mjög skemmtileg og áhugaverð atvinnugrein. „Í sjávarútvegi er að finna mjög fjölbreytt störf og atvinnugreinin er bæði margslungin og skemmtileg.“ Gunnþór hefur frá því að hann fór að vinna unnið við störf tengd sjávarútveginum. „Ég er frá Seyðisfirði og þar á sjávarútvegurinn djúpar rætur. Það má kannski segja að það hafi verið skrifað í skýin að ég myndi starfa við sjávarútveg“, segir Gunnþór og bætir við: „Það atvikaðist bara þannig en
20
SJÁVARAFL JÚNÍ 2022
sennilega var það þó sambland af framtíðarsýn og tilviljunum – þannig er lífið.“ Gunnþór hefur svo sannarlega valið sér rétta atvinnugrein og virðist vera á réttri hillu því nú stýrir hann einu stærsta útgerðarfyrirtæki landsins, Síldarvinnslunni í Neskaupstað. „Ég byrjaði að vinna árið 1996 hjá SR Mjöli hf., en fyrirtækið var stofnað uppúr Síldarverksmiðjum ríkisins sem rak fiskimjölsverksmiðjur víða um land. Síldarvinnslan keypti svo stóran hlut í SR og árið 2003 sameinuðust fyrirtækin. Þá flutti ég í Neskaupstað og hef verið hér síðan.“