8 minute read

Frá verbúðum til vottaðrar vinnslu

Þjóðin hefur ekki farið varhluta af þeim hræringum sem hér hafa átt sér stað undanfarið. Jarðskjálftar skuku suðvesturhornið vikum saman og fann fólk svo sannarlega fyrir því. Sjávarútvegsfyrirtækið Vísir er staðsett í Grindavík, skammt frá upptökum skjálftana. Sjávarafl tók framkvæmdastjórann Pétur Hafstein Pálsson tali.

Við erum vön svona skjálftahrinum, ég hef upplifað tvær stórar áður, 1967 og 1973, og svo alltaf af og til einhverja skjálfta en þetta var þannig að það hlaut eitthvað að gerast.

Gosið er léttir

Vísir hf var eitt þeirra fyrirtækja sem glímdi við rafmagnsleysi þegar sló út í orkuveri HS Orku á Svartsengi vegna skjálfta í byrjun mars, en orkuverið sér bæjarfélaginu fyrir rafmagni. Jarðskjálftarnir sjálfir höfðu einnig áhrif á daglegt líf og líðan fólks á svæðinu. Pétur Hafsteinn segir að starfsfólk fyrirtækisins hafi heldur betur fundið fyrir því. „Jarðskjálftarnir voru erfiðir og taugatrekkjandi, fólk missti bæði svefn og hvíld vegna þeirra. Þetta byrjaði með látum í fyrra í kringum Þorbjörn, og þá var ekki á hreinu hvort það væri vegna niðurdælingar á heitu vatni eða kvikuinnskots. Nú sjá menn hvað er um að vera og þakka sínum sæla fyrir að þetta kom ekki upp hjá Þorbirni heldur þar sem það er núna.“

Það var ákveðinn léttir þegar eldgos braust út við Fagradalsfjall og viðstöðulausri skjálftahrinu linnti. „Við erum sæmilega róleg yfir eldgosinu. Þetta er eins mikið túristagos og það getur verið og það verður sífellt tignarlegra og fallegra,“ segir Pétur Hafsteinn, og bætir við: „Við erum vön svona skjálftahrinum, ég hef upplifað tvær stórar áður, 1967 og 1973, og svo alltaf af og til einhverja skjálfta en þetta var þannig að það hlaut eitthvað að gerast.“

Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis hf. Mynd aðsend.

Bjuggu á verbúðunum

Í gegnum tíðina hafa ýmsir aðilar verið meðeigendur Vísis, en þó hefur fjölskyldan ávallt farið með meirihluta í fyrirtækinu og er Vísir hreinræktað fjölskyldufyrirtæki í dag sem leggur áherslu á hátæknivinnslu og ábyrgar veiðar. Fjölskylda Péturs flutti til Grindavíkur árið 1965 þegar faðir hans, Páll H. Pálsson stofnaði Vísi ásamt tveimur öðrum.

Fyrstu árin í Grindavík hafðist fjölskyldan við þar sem nú eru skrifstofur fyrirtækisins. „Þetta voru verbúðir, sem almennt gengu undir nafninu „braggi“ eins og aðrar verbúðir í bænum en voru náttúruleg ekki braggar í þess orðs merkingu, þegar pabbi keypti fyrirtækið. Við bjuggum hérna fyrstu árin og það fór bara vel um okkur. Á veturna

Skurðarvélar og róbótar frá Marel eru undirstaðan í glæsilegu frystihúsi sem Vísir reisti nýlega. Mynd aðsend.

Það eru engin skip betri en línuskipin yfir hávetur í vitlausum veðrum að skaffa fisk í húsin.

voru með okkur Húnvetningar og Færeyingar og annað gott fólk á vertíð,” segir Pétur og bætir við: „Svo fluttum við upp í bæ í einni jarðskjálftahrinunni, en það hafði staðið lengi til. Og það hefur einhvern veginn æxlast þannig að hér erum við búin að vera síðan ýmist búandi eða vinnandi meira og minna síðan við komum.“

Skjálftahrinan sem Pétur minnist gekk yfir dagana 28.-30. september 1967. Alls voru skjálftar yfir 4,0 á Richterkvarðanum 14 talsins og sá stærsti 4,9: „Við gátum borið saman hljóðin í gömlu Sævíkinni og í nýja húsinu uppi í Mánagerði. Það var talsverður munur á hljóðunum í húsunum þegar skjálftarnir riðu yfir. Þau voru talsvert þyngri og drungalegri hérna í húsunum heldur en upp frá. Hér í bragganum var hitað upp með gömlum þungum pottofnum og þeir létu alveg vita af sér þegar það var jarðskjálfti.“

Sveigjanleg vinnsla og markaðssetning

Undanfarin misseri hefur Vísir lagt áherslu á uppbyggingu innviða. Skipaflotinn hefur að miklu leyti verið endurnýjaður og endurbyggður og í fyrra hófst tilraun með rekstri á trollbát samhliða línuskipunum sem eru uppistaðan í flota Vísis. Kristínu hefur verið lagt og er Bylgja á leigu í hennar stað. Að sögn Péturs hefur tilraunin gengið vel, en henni fylgja vissulega áskoranir: „Við erum enn að meta hvernig trollfiskur passar inn í okkar vinnslu og markaðssetningu, en gefum okkur bara góðan tíma í það. Helsta áskorunin í svona samrekstri snýr að markaðnum, en okkur hefur tekist að halda þessu aðgreindu. Þeir viðskiptavinir sem kjósa línufisk fá hann auðvitað áfram, en nú bjóðum við einnig upp á trollfisk fyrir þá sem hafa áhuga á því.“ Markmiðið er þannig annars vegar að breikka hóp viðskiptavina Vísis og hins vegar að jafna út veiðina yfir árið segir Pétur: „Það eru engin skip betri en

Framtíðin er þannig að það þarf miklu fjölbreyttari reynslu og nám inn í þessi fyrirtæki en hefur verið hingað til.

Vísir gerir aðallega út á þorsk og ýsu en nýlega byggði fyrirtækið nýtt hátæknifrystihús

línuskipin yfir hávetur í vitlausum veðrum að skaffa fisk í húsin en að sama skapi geta línuskipin verið örlítið erfiðari yfir sumartímann.

Vísir gerir aðallega út á þorsk og ýsu en nýlega byggði fyrirtækið nýtt hátæknifrystihús. Vinnslan er í gömlu húsi en byggðir voru glænýir salir með skurðarvélum og róbótum frá Marel. Þetta eykur á sveigjanleika vinnslunnar og fjölbreytni afurða sem Pétur segir að sé einn lykillinn að velgengni Vísis: „Línufisk má nota í hvernig vinnslu sem er: saltfisk, léttsaltað, ferskt, frosið, bita, heilflök og hvað eina. Þess vegna erum við með sérhæfðar veiðar en sveigjanlega vinnslu, þegar eftirspurn eftir einni afurð minnkar þá getum við brugðist með því og framleitt það sem markaðurinn kallar eftir hverju sinni.“

Markaðsstarfið tekur eðli málsins samkvæmt mið af þessu og markast starfið af því að skapa útgönguleiðir fyrir þær ýmsu vöru sem Vísir býður upp á og stilla enn betur saman ólíka þætti virðiskeðjunnar. Pétur segir að stefnan sé skýr: „Við komum hlutunum þannig fyrir að þegar einar dyr lokast þá getum við opnað aðrar. Við erum í eðli okkar langhlauparar og tökum okkur tíma í þetta. Það ærið verkefni núna. Á tímabili fór allt í að kaupa sér veiðiheimildir jafnóðum og þær voru teknar af okkur en vonandi heyrir það nú sögunni til svo við getum nýtt orkuna í að búa sem mest til úr því sem við höfum í höndunum.“

Faraldur og fjölbreytileiki

Þetta fyrirkomulag reyndist Vísi einstaklega vel þegar heimsfaraldurinn skall á í byrjun síðasta árs. Helmingurinn af afurðunum úr frystihúsinu eru ferskar, en hinn helmingurinn frystur. Vægi léttsöltunar hefur aukist en söltunin fer enn fram í sama húsi og vinnslan hófst í árið 1965, þar sem fjölskyldan bjó á efri hæðinni. Fjölbreytt vöruúrval og vinnsluleiðir hefur gert Vísi kleift að takast á við sveiflur á mörkuðum og flutningsleiðum. En það er ýmislegt annað sem faraldurinn hefur sett mark sitt á.

Í ljósi faraldursins og annarra aðstæðna hefur farið fram kortlagning á þjóðhagslega mikilvægum fyrirtækjum. Vegna stærðar sinnar og eðli starfseminnar flokkast Vísir sem eitt þeirra og hefur því fengið að halda starfseminni gangandi í gegnum faraldurinn með ströngum skilyrðum: „Eins og flest fyrirtæki og Íslendingar almennt höfum við náð að stilla okkur mjög vel inn á þau. Við settum upp mjög strangar aðskilnaðar- og umgengnisreglur í landi og á haustmánuðunum tókum við upp skimanir á bátunum. Allir sem mæta um borð úr fríum eru skimaðir fyrir veirunni,“ segir Pétur og bætir við að starfsfólkið hafi tekið vel í nýtt skipulag sem fylgir breyttum aðstæðum: „Það kom okkur svolítið á óvart að þegar við vorum búin að setja upp strangar aðgengisreglur þá var það frekar það að starfsfólk væri að benda okkur á eitthvað sem gætum gert til viðbótar frekar en hitt. Starfsfólkinu er mjög annt um að þetta sé í lagi.“

Vottanir og vinnustaðamenning

Samhliða sóttvarnaraðgerðum er einnig gerð sterk krafa um opna upplýsingagjöf vegna þjóðhagslega mikilvægrar stöðu fyrirtækisins. „Það er eins og hvert annað verkefni sem krefst mannafla og fyrirhafnar, en við erum vel undirbúin undir það,“ segir Pétur og þakkar góðri vinnustaðamenningu og starfsanda fyrir hvernig hefur tekist til. Breyttir tímar kalla á breyttar áherslur og síðastliðin ár hefur Vísir lagt kapp sitt á að fá starfsemi sína vottaða meðal annars út frá sjálfbærnis- og jafnréttissjónarmiðum. Til þess þarf að taka tillit til ýmissa þátta sem snúa að því hvernig fyrirtækið vinnur í sínu umhverfi og með sínu starfsfólki: „Við erum komin með jafnlaunavottun og vinnslan er vottuð út frá matvælaöryggi, sjálfbærni og rekjanleika. Við getum verið nokkuð brött með hvernig við stöndum að þessum málum,“ segir Pétur og leggur áherslu á það sem hann nefnir fernuna: öryggi, umhverfi, gæði og mannauð: „Þetta hangir allt saman. Þú þarft að falla vel inn í umhverfið og samfélagið og í dag er ætlast til þess að menn vinni með þessum hætti.“ Vísi hefur tekist vel til að svara því kalli og ítrekar Pétur að menningin innan fyrirtækisins geri það að verkum að auðvelt sé að takast á við slík verkefni. Það sama á við um að taka inn nýjar tæknilausnir og þróa þær. Þar leikur ungt fólk með mikla reynslu veigamikið hlutverk.

„Ég kalla það ungt fólk sem er undir fertugu, það er af því að maður er sjálfur yfir sextugt. Þegar mín kynslóð tók til starfa var hún með allt annan bakgrunn en fólk í dag. Við erum alin up á sjó og í vinnslunum og bárum því snemma mikla ábyrgð. Ungt fólk sem kemur inn í þetta núna var kannski í skóla og öðrum störfum fram undir þrítugt og er því með alls konar öðruvísi reynslu og þekkingu til dæmis úr iðnnámi, tölvuheimum og hagfræðiskólum,“ segir Pétur. „Þegar þetta fólk er búið að vinna og bera ábyrgð í 10 ár ásamt sínu námi og sínum bakgrunni þá er yfirleitt komið það fóður inn í fyrirtækin sem þarf til að horfa fram á veginn. Án þess að gera neitt lítið úr reynslu okkar kynslóðar, hún er öðruvísi og dugði í það sem við vorum að gera, en ég held að framtíðin sé þannig að það þarf miklu fjölbreyttari reynslu og nám inn í þessi fyrirtæki en hefur verið hingað til.“

Að sjá verðmæti…

þar sem aðrir sjá þau ekki er einn dýrmætasti hæfileiki sem fólk býr yfir. Okkar hlutverk er að auðvelda þeim sem hafa þennan hæfileika að þroska og framkvæma hugmyndir sínar, samfélaginu öllu til hagsbóta.

This article is from: