6 minute read

Forsetaránið

Fyrstu dagarnir í fyrstu ferð ársins hjá okkur á varðskipinu Freyju í janúar 2023 voru viðburðaríkir. Verkefni okkar varðskipsmanna eru alla jafna eins fjölbreytt og hugsast getur og þessa daga sannaðist það vissulega. Útlagning öldumælisdufla, eftirlit í skipum, æfingar, viðbragð vegna almannavarnaástands í landi eru aðeins fáein dæmi um flóruna. Svo koma til önnur verkefni sem eru orðin verulega sjaldgæf á seinni árum. Að flytja forseta lýðveldisins milli landshluta vegna ófærðar á landi og í lofti eru meðal sjaldgæfustu verkefnanna af þeim öllum, en jafnframt mikill heiður og eftirminnilegt fyrir okkur varðskipsmenn að þjónusta forseta lýðveldisins. Ástæða ferðar forsetans okkar, Hr. Guðna Th. Jóhannessonar var sú að hann hafði áætlað að verða viðstaddur minningarathöfn um krapaflóðin mannskæðu sem féllu á byggðina á Patreksfirði 22. janúar árið 1983. Ég man þessa hræðilegu daga þegar flóðin féllu þó ég hafi aðeins verið rétt að verða 12 ára, en ég er fæddur og uppalinn á Tálknafirði og átti þá og á enn ættingja á Patreksfirði. Ég fékk sökum aldurs ekki að fara til björgunarstarfa með björgunarsveitarmönnum frá Tálknafirði en svo vill til að bátsmaðurinn okkar á Freyju var þá ungur háseti á varðskipinu Tý og tók hann þátt í leit og mokstri þessa dagana. Til að tryggja í bak og fyrir að forsetinn gæti verið viðstaddur hafði verið afráðið að nýta varðskipið til þrautavara ef aðrar samgöngur brygðust, sem þær gerðu.

Eftir að hafa sinnt ýmsum verkefnum fyrstu daga ferðarinnar lögðumst við að bryggju í Grundarfirði laugardaginn 22. janúar og biðum þar komu forseta. Forseti kom akandi að sunnan ásamt bílstjóra sínum í rysjóttu suðlægu hvassviðri og slydduhraglanda en gekk sú ferð annars ágætlega hjá þeim. Tókum við á móti þeim með lágmarks viðhöfn enda langt liðið á kvöld og veður heldur ömurlegt til formlegrar móttöku sem jú tíðkast annars. Léttum skrefum hljóp forsetinn upp landganginn og heilsaði í léttum tón „Sæll nágranni“ en báðir búum við á Álftanesi. Þar sem ég stóð teinréttur með handarkveðju við augabrún var mér létt að sjá forseta svona á óformlegri nótunum, enda fyrirliggjandi að ferðast af stað í leiðinda skælingi og hugurinn allur við það sem fram undan var. Rétt fyrir kl.22 var lagt úr höfn áleiðis vestur á Patreksfjörð en ég lagði til við forseta að hann færi beint í koju eftir brottför og reyndi að sofa af sér barninginn norður yfir Breiðafjörðinn. Freyja er reyndar stór og afar góð á lensinu (undan vindi) en fyrir óvana landkrabba er hreyfingin samt gjörn á að vekja upp árans sjóveikina. Eftir að hafa sjóveikiplástrað þá félagana var haldið af stað og þeir skriðu í koju. Fyrirhugað var að skila forseta í land á Patreksfirði um kl.10 á sunnudagsmorgninum. Takið eftir orðinu „fyrirhugað“... Eftir brottför frá Grundarfirði og þegar skipið var komið norður úr skerjum og grynningum ákvað ég að fara að fordæmi forseta og reyna að sofa eitthvað í hausinn á mér.

Ég náði með herkjum einhverjum svefni en um klukkan fjögur hringdi síminn í klefanum hjá mér. Vakthafandi stýrimaður var á línunni og bað mig að koma upp í brú þar sem beiðni um aðstoð okkar hafði þá borist frá fiskiskipi vestur á Halamiðum, en þau eru djúpt norðvestur af Vestfjörðum í Grænlandssundi. Þar var togskipið Hrafn Sveinbjarnarson GK-255 frá Grindavík vélarvana með 26 manna áhöfn. Raunar alveg aflvana þar sem einnig var dautt á ljósavél skipsins. Áhöfn Hrafns hafði gert ítrekaðar tilraunir til að koma vélum skipsins í gang aftur en við það klárað út af þrýstiloftskútum (ræsiloft) sem notaðir eru til að snúa vélum í gang, ekki ósvipað og þegar rafgeymirinn í bílnum tæmist. Voru þeim því allar bjargir bannaðar, utan að fá aðstoð annarra skipa. Engin lýsing, enginn hiti, ekkert kaffi. Veiðarfæri skipsins eða botntrollið var úti og skipið því fast og ferðlaust.

Nú jæja. Þetta verður þá svona skemmtileg og óvænt„ánægja“ fyrir forseta vorn. Stutt sjóferð endar í hugsanlega langdreginni björgunaraðgerð úti á Halamiðum um miðjan vetur, ef forsetinn setur mér ekki stólinn fyrir dyrnar og heimtar að komast í land áður en lengra er haldið. Þegar ég hafði rætt við vakthafandi stýrimann og athugað aðstæður var ljóst að besti kostur væri að halda þegar í stað áleiðis að Hrafninum á Halanum. Veður var þar með ágætum en spáin afar slæm og því betra að komast á svæðið sem fyrst. En þá þyrfti ég sennilega að dekstra forsetann eitthvað til og fá hann til að samþykkja ráðahaginn, þ.e. að hætta við að fara inn til Patreksfjarðar. Það voru þung skref fyrir mig að rölta að klefa forseta, vekja hann hugsanlega sjóveikan um miðja nótt til að kynna honum stöðu mála og að ég hygðist „ræna“ honum með okkur í verkefnið. Ég ímyndaði mér að sjálfsagt væri hann illskeyttur og úrillur yfir ónæðinu og ófyrirleitninni í mér að spilla svefni forseta lýðveldisins. Á göngunni að klefadyrunum rifjaði ég í huganum upp sögu sem ég heyrði af skipstjóra einum fyrir vestan, sá svaf alltaf með stígvélin við kojustokkinn hjá sér. Þegar ólánsamur háseti (vanalega sá yngsti og óvanasti í áhöfninni) var sendur til að vekja skipstjórann reif kallinn upp annað stígvélið og grýtti í áttina að hásetanum og bað hann aldrei þrífast fyrir ónæðið. Flestir sluppu við stígvélið, en ekki allir því hann náði mönnum oft með seinna stígvélinu ef hitt geigaði. Svo ég vonaði að forsetinn væri ekki svona grimmilegur í svefnrofunum og tæki bara vel í ónæðið frá mér. Og auðvitað var hann ekkert grimmur, þið þekkið hann. Eftir að hafa útskýrt stöðu mála og farið yfir möguleikana sem við hefðum sagði forsetinn vandamálið ekkert. Í minningunni sagði forsetinn, án mikillar umhugsunar (ekki nákvæm endursögn) : „Ef sjómenn eru í vandræðum hafa þeir forgang um aðstoð fram yfir allt annað. Þó það sé forsetinn. Patreksfirðingar skilja það manna best og fyrirgefa örugglega fljótt þó ég mæti ekki við minningarathöfnina. Höldum út á Hala!“. Nú jæja, þetta var bara ekkert mál.

Nú héldum við með mátulegum asa áleiðis á Halann. Um kl 9 kom forsetinn upp í brú en ég hafði aðeins verið áhyggjufullur yfir því að hann hefði líklega verið eitthvað vankaður og illa áttaður þegar ég vakti hann um nóttina og myndi kannski ekkert eftir samtalinu. Sjóveikiplásturinn hefði kannski verið að tala. En nei nei. Hann var ný búinn að raða í sig morgunverði og spenntur fyrir að koma að Hrafninum og veita þeim þá aðstoð sem við gætum. Engin sjóveiki og ekkert vesen.

Allar aðgerðir við Hrafninn gengu vel, veður var enn gott og sennilega besta veðrið á öllum Íslandsmiðum einmitt þar og þá, en talsverð undiralda. Landsins forni fjandi, hafísinn var þó þarna skammt vestur af skipunum og færðist með miklum hraða í áttina að okkur. Á meðan áhöfn Hrafnsins reyndi gangsetningu véla með þeim búnaði sem við færðum þeim, komum við dráttartaug á milli skipanna svo að hún væri klár áður en veður versnaði og ef viðgerð tækist ekki. Veðrið hélst þó gott en það var hafísinn sem helltist yfir og varð að lokum til þess að við urðum að hefja drátt skipsins áleiðis að landi. Áhöfn Hrafnsins varð að skera veiðarfærin frá svo að hægt væri að forða skipinu frá hafísnum. Ekki höfðum við þó dregið skipið nema í um þrjá tíma þegar gangsetning véla Hrafnsins tókst og skipið því orðið sjálfbjarga að nýju. Það er alltaf mikill léttir og ánægja sem fylgir árangursríkri björgun eða aðstoð og ekki spillir að engin slys urðu á mannskap eða tjón á búnaði varð við verkið.

Forsetinn fylgdist áhugasamur með öllum okkar athöfnum þarna á Halanum, íklæddur duggarapeysu með kaffibolla í hönd. Ég er ekki frá því að vera forseta í brúnni með okkur hafi gert verkefnið auðveldara og skerpt einbeitni okkar þennan dag. Eftir sunnudagssteikina var landsleikur í handbolta á skjánum hjá okkur þar sem karlaliðið var að keppa á HM. Forsetinn er eins og allir vita mikill íþróttaáhugamaður og tók líflegan þátt í að hvetja okkar menn áfram. Þar sem ég sat þarna og horfði á sjónvarpið sá ég út undan mér einhvern hávaxinn mann að sækja sér kaffi í bolla í eldhúsinu. Æ já. Þetta er bara Guðni hugsaði ég, svona eins og hann væri einn úr áhöfn skipsins. Mikið hefur hann góða nærveru maðurinn.

Eftir að aðgerðum lauk þarna fyrir vestan var ákveðið að halda til Akureyrar, forsetinn og bílstjórinn færu með flugi þaðan suður til Reykjavíkur mánudagsmorguninn 24. janúar. Sem er afmælisdagur minn svo það sé nú sagt. Frá Reykjavík fór svo forsetinn beint til Vestmannaeyja þar sem eldgossins í Heimaey var minnst. Það sem áætlað var að yrði 12 klst. sigling með forsetann varð að 35 klst. En það voru góðar stundir sem gáfu margar góðar minningar inn í framtíðina, bæði fyrir alla áhöfnina á varðskipinu Freyju sem og vonandi fyrir Guðna forseta.

This article is from: