1 minute read
Drjúgar tekjur fyrir þjóðarbúið
Grásleppuvertíðin hófst hinn 20. mars. Leyfilegir veiðidagar voru gefnir út til bráðabirgða nokkru áður en vertíð hófst og endanlegur fjöldi verður gefinn út í byrjun apríl. Fjöldi veiðidaga var í upphafi 25, en endanlegur fjöldi þeirra liggur ljós fyrir að loknu togararalli sem lýkur seint í mars. Grásleppuveiðar standa nú yfir hringinn í kringum landið að undanskilinni suðurströndinni. Misjafn gangur er í veiðunum eins og oft vill vera.
Frá upphafi atvinnuveiða á grásleppu, árið 1964, hefur fyrst og fremst verið sóst eftir hrognunum. Fyrir nokkrum árum opnaðist markaður í Kína fyrir frysta, slægða grásleppu. COVID faraldurinn lokaði þeim markaði. Nú eru merki um að þetta sé að breytast. Í kjölfar faraldursins var grásleppuveiðimönnum leyft að „skera í sjó“, þ.e. að fleygja búkum á miðunum. Staðan í byrjun vertíðarinnar 2023 að óbreyttu er sú að þeir verði að koma með hana heila í land, segir Arthur Bogason, formaður Landssambands smábátaeigenda, í samtali við Sjávarafl.
Þess má geta að stærstur hluti Íslendinga hefur aldrei lagt sér grásleppu til munns. Þó eru margir sem fá vatn í munninn þegar grásleppuvertíðin er hafin. Sumir smjörsteikja hana, grilla eða sjóða og borða með bestu lyst. Sigin grásleppa er jafnframt ómissandi á matseðli margra af eldri kynslóðinni.
Í blíðskaparveðri á grásleppuveiðum. Ljósmynd/Sjávarafl
Grásleppan er hrygna hrognkelsisins og rauðmaginn hængurinn. Rauðmaginn hefur löngum verið talinn einn af vorboðunum. Íslendingar hafa veitt hrognkelsi í hundruðir ára og til eru heimildir fyrrir því að hún var borin á tún til skepnufóðurs. Þá var rauðmagi stunginn í fjöruborði við Ísland amk frá því um miðja 15. öld og trúlega miklu fyrr.