11 minute read

Viðtal við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra

Next Article
Kennarastofan

Kennarastofan

Óskar Örn Bragason og Valgeir Bragi Þórarinsson

Við hittum Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, þann 11. mars síðastliðinn og ræddum við hana um starf hennar í stjórnmálum, núverandi stjórnmálaástand og verkefnin framundan. Á þessum tíma stóðu Katrín og samstarfsfólk hennar í ströngu og tóku stórar pólitískar ákvarðanir en tveimur dögum eftir að viðtalið var tekið voru fyrstu samkomutakmarkanir lýðveldissögunnar kynntar. Við viljum því þakka Katrínu sérstaklega fyrir að gefa sér tíma til að svara spurningum okkar á þessum fordæmalausutímum.

Advertisement

Hvað vakti fyrst áhuga þinn á stjórnmálum?

„Ég hef náttúrulega alltaf verið mjög félagslega virk og haft áhuga á félagsstörfum. En það sem rak mig út í einhvers konar pólitíska þátttöku, það var annars vegar háskólapólitík, þar sem ég var dregin inn í Röskvu af nöfnu minni, Júlíusdóttur, fyrrum þingmanni og ráðherra Samfylkingarinnar, og hins vegar umhverfismálin sem gerðu það að verkum að ég ákvað að gefa kost á mér í landsmálapólitík.“

„Mér fannst alltaf mjög gaman í háskólapólitík. Við stóðum í stórræðum á þessum tíma, mikil átök um skólagjöld og afgreiðslutíma bókhlöðunnar sem var þá bara til fimm á daginn. Við stóðum fyrir setuverkfalli og ýmsu öðru. Svo ætlaði ég nú ekkert í þessa pólitík en einhvern veginn gerðist þetta.“

Eru einhver málefni sem fengu þig frekar til að taka þátt í stjórnmálum en önnur?

„Já, það var auðvitað heit barátta um Kárahnjúkavirkjun á árunum 2002-3. Ég var ein af þeim sem mætti að mótmæla á Austurvelli. Þannig að ætli það hafi ekki verið Kárahnjúkavirkjun og framtíðin og umhverfismálin sem kveikti á mér að fara í þetta af öllu afli.“

Eftir að þú byrjaðir í stjórnmálum, myndir þú segja að það væru einhver málefni sem hafa komið þér á óvart hvað varðar að vera skemmtileg, áhugaverð eða vanmetin?

„Það að vera í stjórnmálum krefst þess að maður þarf að gera alls konar; vera í stjórnarandstöðu, vera í stjórn. Það eru forréttindi því maður nær að kynnast ótrúlega fjölbreyttum hlutum. Ég var til dæmis í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis í hruninu sem var mikil lífsreynsla. Þegar við fórum í ríkisstjórn 2009 sóttist ég eftir því að vera menntamálaráðherra, ég hef alltaf brunnið fyrir menntun og menningu. Svo þegar við fórum í stjórnarandstöðu aftur, þá skipti ég um nefnd á hverju einasta ári, ekki síst til að fá sem fjölbreyttasta reynslu.“

Hvernig er að gegna starfi forsætisráðherra miðað við önnur störf sem þú hefur unnið?

„Öll störf geta verið leiðinleg og skemmtileg, það er náttúrulega svona fyrsta vers. En það er allt öðruvísi að vera forsætisráðherra en menntamálaráðherra, því maður þarf að vera vel inn í mjög ólíkum málum; vita mikið um sumt, og svolítið um allt. Það er ekki hægt að leyfa sér að fara á dýptina í einum málaflokki og vera stikkfrí í öðrum, þú þarft að vera með allt á hreinu. Svo hefur það auðvitað komið mér á óvart í stjórnmálum almennt að maður fer inn með einhvern bakgrunn, ætlar sér að vinna að einhverju málefni, en svo fer meirihlutinn af tímanum í að bregðast við því sem gerist, hvort sem maður er í stjórn eða stjórnaraðstöðu. Maður hefur sín gildi og leiðarljós og ætlar að vinna að ákveðnum málum en tíminn til þess getur verið af skornum skammti. Maður verður svolítið að temja sér það hugafar að maður veit aldrei hvað dagurinn mun bera í skauti sér.“

Varðandi Covid-19. Búist þið við svona krísum og eruð þið með undirbúið plan eða gerist þetta bara svona jafn óðum?

„Gallinn við kreppur er að þær eru sjaldnast fyrirsjáanlegar. Og núna erum við með þessa veiru sem er að leggjast á heiminn og við vitum ekki nógu mikið um hana, við vitum ekki alveg hvernig hún hegðar sér. Á hverjum degi förum við forystufólk ríkisstjórnarinnar yfir stöðuna og heilbrigðisráðherra fer yfir stöðuna í heilbrigðiskerfinu og áhrifin af veirunni á hverjum einasta ríkisstjórnarfundi. Síðan eru aukafundir fyrir utan ríkisstjórnarfundi þar sem heilbrigðisráðherra, ég og dómsmálaráðherra sem er ráðherra almannavarna hittumst til að fara yfir stöðuna. Í svona ástandi er eiginlega ekkert annað hægt að gera en að eiga mjög reglulegt samráð og vinna áfram. Sem betur fer þekkir maður aðeins fyrri kreppur þannig að það þýðir ekkert að fara á taugum, maður þarf bara að halda áfram.“

Hvernig gengur að gera málamiðlanir í ríkisstjórnarsamstarfinu og reynið þið að gera málamiðlanir í öllum málum?

„Það er kannski svolítið breytilegt, við erum auðvitað með stjórnarsáttmála sem er fyrsta leiðarljós og hann er saminn sem einhvers konar málamiðlun. En síðan höfum við stjórnskipan þar sem hver og einn ráðherra ber ábyrgð á sínum málaflokki. Þetta er ekki eins og í Svíþjóð sem er með fjölskipað stjórnvald, þannig að ákvarðanir þurfa allar að fara í gegnum ríkisstjórnina alla. Það er auðvitað flókið að vera með stjórnskipan eins og okkar og jafn ólíka flokka og raun ber vitni við ríkisstjórnarborðið, eðlilega koma upp alls konar flókin mál sem erfitt er að leysa.“

Finnst þér það vera jákvæð þróun að stjórnmálaflokkum sé að fjölga?

„Ef ég horfi eingöngu á Evrópu þá er þróunin almennt að flokkum er að fjölga. Við erum í raun að sjá gerbreytingar á flokkakerfinu eiginlega alls staðar, t.d. hafa orðið gífurlegar breytingar í Frakklandi og Þýskalandi. Bretland er undantekningin sem skýrist af kosningakerfinu. Við sjáum þetta á Norðurlöndunum líka þar sem bæði spretta upp fleiri vinstriflokkar og fleiri hægriflokkar. Þannig að þetta er þróunin. Er hún jákvæð eða neikvæð? Að einhverju leyti endurspeglar hún stöðu lýðræðisins á breyttum tímum. Það eru fleiri sem hafa rödd í samtímanum en höfðu. Það þýðir að flokkarnir

verða fleiri sem er frábært en getur líka skapað flókna stöðu þegar á að mynda ríkisstjórn. Þannig að við getum sagt að þessi þróun endurspegli að einhverju leyti hvað lýðræðið er virkt, sem er stórkostlegt, og skapi líka ný úrlausnarefni. Hún hefur þau áhrif að fólk þarf að nálgast ríkisstjórnarmyndun með öðrum hætti en áður og kannski er það bara gott þótt það geti verið flókið.“

Heldurðu að þetta sé þróunin framundan?

„Já, svo höfum við séð flokka koma og fara. Jafnvel sjáum við flokka verða til, ná miklu fylgi og svo hverfa hreinlega, eins og við höfum séð á Íslandi. Tryggð fólks gagnvart flokkum er ekki sú sama og hún var hér áður. Þetta er þar af leiðandi orðinn dálítið annar bransi. Stundum finnst mér talað um stjórnmálakerfið á Íslandi eins og árið sé 1980 en raunin er sú að við getum einfaldlega jarðað gamla hugtakið um fjórflokkinn, það heyrir einfaldlega fortíðinni til.“

Hvaða málefni finnst þér vera mest aðkallandi nú og eru einhver málefni sem eiga eftir að verða ennþá meira áberandi en við erum vön?

„Stóra málið er loftslagsváin og sú staðreynd að hún á eftir að breyta mjög miklu. Það er gríðarlegt verkefni að vinna að okkar markmiðum um samdrátt í losun og við erum núna að vinna að uppfærðri aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem hefur tekið sinn tíma. Hún er unnin með ólíkum geirum samfélagsins og snýst um að allar atvinnugreinar setji sér skýr markmið um losun í samstarfi við stjórnvöld þannig að við getum náð grænum umskiptum á samfélaginu.“

„Síðan eru það tæknibreytingarnar sem eru nú þegar byrjaðar að breyta vinnumarkaðinum. Við þurfum að móta okkur stefnu um gervigreind, hvernig ætlum við að nýta gervigreindina og hvaða takmörk ætlum við að setja henni? Ætlum við að hafa það algjörlega opið spil eða ætlum við að sammælast bæði á Íslandi og alþjóðlega um einhver gildi í þróun gervigreindar? Þetta er bara eitt af því sem er í senn krefjandi og spennandi verkefni. Verðum við til dæmis tilbúin að fara í uppskurð hjá tölvu bara eftir nokkur ár og hvar liggur ábyrgðin ef eitthvað fer úrskeiðis – hversu varin erum við?“

„Netöryggismál eru orðin stóra málið í öryggisumræðu á alþjóðavettvangi, svo dæmi sé tekið. Hér er mikið talað um 5G. Hvernig ætlum við að eiga við það að koma upp einhverju sem heitir 5G án þess að koma okkur upp nægjanlega öflugum vörnum í netöryggi? Þetta verður að farasaman.“

„Að lokum mætti nefna þá staðreynd að við lifum lengur sem er stórkostlegt en það þýðir að það verða færri hendur sem halda uppi fleirum þegar kemur að samneyslunni og álagið á heilbrigðiskerfið mun gjörbreytast.“

Núna er Ísland með aðgerðaáætlun í loftslagsmálum um að draga verulega úr losun, heldurðu að Ísland nái þessum markmiðum sínum?

„Losun á Íslandi er mikil og við settum okkur strax mjög metnaðarfull markmið um að draga úr losun um 40% fyrir 2030 og verða kolefnishlutlaus ekki seinna en 2040. Þetta eru stóru markmiðin okkar. Við erum núna farin að sjá að það sem við byrjuðum á að kynna er farið að skila sér nú þegar, þannig ég held að við getum náð mjög góðum árangri í þessu.“

„Aðgerðir okkar eru nú þegar farnar að skila ákveðnum árangri enda ákváðum við að leggja af stað strax með fyrstu aðgerðaáætluninni og ráðast strax í aðgerðir en halda áfram að vinna að uppfærðri áætlun. Maður verður bara að byrja einhvers staðar. Við erum til dæmis farin að sjá breytingu í bílainnflutningi. Þessi áætlun sem við kynntum 2018 er búin að skila því. Nú eru að hefjast mjög miklar fjárfestingar í almenningssamgöngum sem munu breyta ferðavenjum. Við sjáum líka breyttar ferðavenjur í stóraukinni rafhjólanotkun og reiðhjólanotkun. Þannig að það eru jákvæð teikn. Við sáum að það væri bæði einfaldast að byrja á samgöngunum og ná þar árangri hratt. Það sem blasir við eru síðan breytingar í sjávarútvegi, landnotkun, landbúnaði, og ferðaþjónustu sem er auðvitað nátengd samgöngunum o.s.frv. Þannig að ég segi: Þetta er hægt, en það hangir auðvitað á því að við höfum hér stjórnvöld sem hafa skýra sýn og einbeittan vilja til að ná árangri.“

Hafa loftslagsmótmælin og aukin vitundarvakning meðal almennings haft bein áhrif á ákvarðanir stjórnvalda hvað varðar loftslagsmál?

„Já, ég held það hafi haft mjög mikil áhrif á stjórnmálin sem heild. Ég er náttúrulega búin að hafa áhuga á þessu mjög lengi og þegar VG var stofnað 1999 þá ályktuðum við um

loftlagsmál. Það var umhverfisráðherra VG sem setti fyrstu lögin um loftlagsmál á Íslandi árið 2012. Það var nú ekki gríðarlegur spenningur í samfélaginu fyrir því á þeim tíma. Það sem mér finnst frábært við loftslagsmótmælin er að þau hafa áhrif, ekki bara á stjórnmálin heldur samfélagið allt, á atvinnulífið og verkalýðshreyfinguna. Við erum að sjá hugafarsbreytingu sem er náttúrulega það mikilvægasta.“ „Þetta hefur haft þau áhrif að ég tel að það sé líklegra að þessi vilji stjórnvalda haldi áfram - þetta er orðið þverpólitískt mál.“

Hvað viltu helst láta minnast þín fyrir þegar þú hættir í stjórnmálum?

„Ég held að maður ráði því ekki sjálfur.“

En ef þú gætir óskað þér þess?

„Ég er stjórnmálamaður og manneskja, að því leytinu er það enginn aðskilnaður og ég hugsa bara alltaf einn dag í einu. Ég hef mín gildi, hugsanir og horfi auðvitað til lengri tíma en svo veit maður bara að maður ræður einhvern veginn ekki sinni för.“

„Ég get nefnt eitt dæmi frá því þegar ég var menntamálaráðherra. Þá var mikið atvinnuleysi rétt eftir hrun. Það var ekkert rosa gaman að vera menntamálaráðherra fyrir manneskju sem langaði mest að stórauka framlög en þurfti að skera niður. Það sem ég vona að mín verði minnst fyrir er verkefnið „Nám er vinnandi vegur“, sem gekk út á að opna leiðir fyrir fólk sem missti vinnuna inn í nám. Við sérhönnuðum námsleiðir, við tryggðum að fólk gat haldið atvinnuleysisbótum og það voru á fjórða þúsund manns sem höfðu misst vinnuna sem fóru inn í ný námstækifæri. En svo getur verið að mín verði ekkert minnst fyrir það heldur að hafa lokið við byggingu Hörpu sem ég fékk í fangið hálfbyggða. Mikilvægt hús fyrir tónlistina og kannski öllu hefðbundnara dæmi um það sem kallað hefur verið minnisvarðar.“ „Þannig við skulum bara sjá hvað gerist, ég held að það verði bara spennandi. Ég get svarað þessari spurningu þegar ég hætti.“

Sérðu fyrir þér að starfa lengi í stjórnmálum?

„Það er nú eitt. Þegar ég gaf kost á mér í prófkjöri fyrst 2007, á því frábæra ári, hugsaði ég með mér að ég ætlaði að vera í tvö kjörtímabil sem hefði þá þýtt að ég hefði verið hætt 2015. En staðreyndin er sú að ég er á fimmta kjörtímabili því það hafa verið mjög margar óvæntar kosningar og allt hefur æxlast öðruvísi en ég hélt. Ég hef hins vegar aldrei ætlað mér að gera þetta að ævistarfi því það er mjög margt sem ég á eftir að gera. Ég þarf einhvern smá tíma fyrir það.“

Ertu með einhver ráð til þeirra sem vilja byrja að taka þátt í stjórnmálum?

„Ég held að maður þurfi náttúrulega að hafa tvennt til að byrja. Í fyrsta lagi að hafa sýn og hugmyndir, um það snúast stjórnmál. Sýn og hugmyndir um hvert maður vill leiða samfélagið. Í öðru lagi held ég að maður þurfi að hafa áhuga á fólki. Ég þekki alveg stjórnmálamenn sem hafa eingöngu áhuga á fólki en ekkert sérstaklega mikla sýn og ég þekki stjórnmálamenn sem hafa mikla sýn en hafa kannski ekki mikinn áhuga á fólki. Ég held að maður verði að hafa hvort tveggja til að bera ef maður vill verða farsæll stjórnmálamaður en svo verður maður líka að hafa mjög mikið æðruleysi því það er staðreynd að maður ræður ekki alltaf örlögum sínum í stjórnmálum.“

This article is from: