![](https://static.isu.pub/fe/default-story-images/news.jpg?width=720&quality=85%2C50)
2 minute read
Þau vinna, við vinnum
Rán Birgisdóttir
Í umræðunni um málefni flóttafólks takast á þau sem telja að Ísland ætti að taka við fleira flóttafólki og þau sem telja að taka ætti við færri. Rök þeirra sem eru á móti fjölgun flóttafólks byggja oft á hugmyndum um að hún hafi neikvæð efnahagsleg áhrif. Þvert á þau rök hafa fjölmargar rannsóknir sýnt fram á að koma flóttafólks hafi jákvæðar afleiðingar á efnahag dvalarlandsins. Þrátt fyrir þessar upplýsingar er afstaða íslenska ríkisins óljós og reynist mörgu flóttafólki erfitt að fóta sig í íslensku samfélagi og komast inn á vinnumarkaðinn. En þá kemur að spurningunni: af hverju hafa íslensk stjórnvöld ekki auðveldað flóttafólki að komast inn á vinnumarkaðinn ef það hefur þessi jákvæðu áhrif á efnahagslífið?
Advertisement
Þegar flóttafólk kemur til Íslands og reynir að fóta sig í samfélaginu mætir það ýmsum hindrunum. Ein stærsta áskorunin er eflaust ferlið sem flóttafólk þarf að ganga í gegnum til að fá atvinnuleyfi. Útlendingastofnun (ÚTL), sem sér um það ferli, fylgir mjög strangri og flókinni reglugerð. Flest flóttafólk þarf að bíða í þrjá mánuði áður en það geta sótt um atvinnuleyfi en þá þarf viðkomandi að vera fluttur úr búsetuúrræðum ÚTL. Til að geta flutt frá búsetuúrræði þarf viðkomandi oftast að vera með örugga framfærslu. Á þessu stigi má fólk hins vegar ekki vinna og því nær ómögulegt að uppfylla þessi skilyrði. Þegar fólk uppfyllir loks skilyrðin tekur við flókið ferli og oftast langur biðtími og algengt er að fólki sé vísað úr landi áður en það ferli klárast.
Rannsóknir um allan heim sýna fram á jákvæð áhrif flóttafólks á vinnumarkað og hagkerfi dvalarlandsins. Rannsóknir benda meðal annars til þess að það að veita flóttafólki atvinnuleyfi skili ríkinu sem þau dvelja í meiri pening í kassann í gegnum skattgreiðslur, hækki verga þjóðarframleiðslu (VÞF) sem og að draga úr atvinnuleysi (sjá t.d. Maxmen, Migrants and refugees are good for economies, 2019). Samkvæmt rannsóknum William Evans frá Háskólanum í Notre Dame, sem gerð var í Bandaríkjunum, má sjá að aðeins átta árum eftir komu flóttafólks var ábati þátttöku þeirra á vinnumarkaði orðinn meiri en kostnaðurinn sem fylgdi þeirri aðstoð og þeim bótum sem þau fengu frá ríkinu við komuna. Sú þróun takmarkast ekki við Bandaríkin og má sjá merki um svipaða þróun um allan heim. Því mætti segja að það sé ákveðin fjárfesting fólgin í því að aðstoða flóttafólk við að komast inn á vinnumarkaðinn.
En hvers vegna beita stjórnvöld sér þá ekki fyrir breytingum á þessum reglugerðum fyrst það liggur ljóst fyrir að íslenskt samfélag og ríkið sjálft gætu hagnast á því? Vandamálið liggur ef til vill í að hvatar stjórnmálamanna beinast oft að skammtímaáformum og lausnum. Kostnaðurinn sem fylgir breytingum á ferlinu þegar litið er til skamms tíma, gæti haft neikvæð áhrif á ímynd stjórnmálamannsins sem talaði fyrir þeim breytingum, áður en að langtímaáhrifin koma í ljós. Þess vegna er tilhneigingin sú að líta fram hjá langtímaáhrifunum. Í staðinn er athyglinni beint að skammtímalausnum svo breytingarnar kosti þá ekki endurkjörið. Pólitískir hagsmunir stjórnmálamanna kunna þannig að vega meira en lífsgæði og öryggi flóttafólks jafnvel þótt það sé á kostnað samfélagsins.
Ég hvet alla til þess að kynna sér þessi mál betur og það væri gott ef íslenskir stjórnmálamenn myndu ná að leggja pólitíska hagsmuni sína til hliðar, vinna í þágu samfélagsins og kalla eftir breytingum á málaflokknum. Ef ekki af mannúðarástæðum, þá af efnahagslegum.