6 minute read

Eðli mannsins er alltaf það sama – viðtal við Boga Ágústsson

Jóhannes Guðmundsson og Rán Birgisdóttir

Eðli mannsins er alltaf það sama

Advertisement

– viðtal við Boga Ágústsson

Bogi Ágústsson er án efa einn ástsælasti og reyndasti fréttamaður þjóðarinnar og vel kunnugur flestum landsmönnum. En hver er maðurinn sem hefur flutt okkur fréttirnar svo áratugum skiptir? Við hittum Boga og ræddum við hann um ferilinn og starf fréttamannsins.

Hvernig er daglegt líf fréttamanns?

„Það er mjög misjafnt eftir því hvaða verkefnum hann sinnir. Svona „basic“ skipting er innlent – erlent. Svo erum við líka með fréttamenn sem eru úti á landi og við erum með fréttamenn sem að sinna fréttaöflun inn á fréttastofunni, eru mest að skrifa á vefinn og fyrir stuttu fréttirnar í útvarpinu og þeir eru eiginlega bundnir við sinn vinnustað allan daginn sem og erlendu fréttamennirnir“ segir Bogi. Hann bendir á að fréttastofa Ríkisútvarpsins sé opin allan sólarhringinn og þar af leiðandi þarf að sinna fréttaflutningi á næturnar líka. „Vinnan er mjög ólík hvað þetta ytra skipulag varðar. Vinnan hins vegar í sjálfu sér er í eðli sínu hin sama. Að afla upplýsinga, sannreyna þær og koma þeim síðan í eitthvert svona skipulagt, vitrænt form til þeirra sem við þjónum. Hvort sem það er í útvarpi, sjónvarpi eða á vefnum. Þannig að þetta er í eðli sínu fréttamennska og við verðum náttúrulega að hafa góð tengsl, við verðum að fylgjast mjög vel með, það verður að vera gott skipulag og fólk sjálft verður að vera vel skipulagt í sinni vinnu því það eru tímamörk. Þú verður að vera tilbúinn áður en að klukkan verður átta eða tólf eða sjö.“

Hvernig er það að flytja fréttir um stjórnmál í samanburði við önnur málefni?

„Já, það er náttúrulega munur á milli. Það er allt annað mál að flytja fréttir af stjórnmálum en slysum. Stjórnmál eru hins vegar stór hluti af því sem að við erum að fjalla um og þá er náttúrulega spurning hvernig þú skilgreinir stjórnmál“ segir Bogi. Hann segir það einnig skipta máli hvort stjórnmál séu skilgreint þröngt t.d sem borgarstjórn eða bæjarstjórn, þing, formlega stjórnmálaflokka og þess háttar eða hvort skilgreiningin sé víðtækari og nái yfir kjaramál, verkalýðsbaráttu og annað slíkt. Jafnvel þó það sé aðeins litið á stjórnmál sem framboð og þingstörf er það samt sem áður verulega stór partur af vinnu fréttamanna. „Það eru oft erfiðar vaktir, sérstaklega þegar þingið situr lon og don fyrir jól og við þinglok og annað. En eðli fréttamennskunar gagnvart stjórnmálum og gagnvart öðru er eins. Við erum á höttunum á eftir upplýsingum sem að við teljum að eigi erindi til almennings.“ Í því samhengi bendir Bogi á að hlutverk Ríkisútvarpsins sé töluvert frábrugðið öðrum fjölmiðlum hér á landi. „Við skilgreinum Ríkisútvarpið sem almannaþjónustumiðil sem er í eigu almennings og eins og allir aðrir miðlar þá þjónum við eigendum okkar en eigendur okkar eru almenningur. Við teljum okkur óháð öllum stjórnmálaöflum, viðskiptaöflum eða hreyfingum sem berjast fyrir einu eða öðru, hvort sem að við förum í ESB eða erum á móti því. Við tökum enga afstöðu. Við eigum að vera fulltrúi alls almennings. Öfugt við aðra miðla þá er skylduáskrift að Ríkisútvarpinu, það er ekki hægt að segja Ríkisútvarpinu upp. Ef að þú ert óánægður með leiðarann í Mogganum eða óánægður með einhverja stefnu sem að áskriftarmiðlar eru að taka þá geturðu sagt þeim upp. Það út af fyrir sig gefur þeim miðlum umboð til að hafa og taka afstöðu vegna þess að fólk getur af fúsum og frjálsum vilja, ef að það er óánægt, bara sagt „nei takk.“ Það er ekki hægt í Ríkisútvarpinu. Þess vegna getum við ekki haft neina leiðara. Við getum ekki haft það að stefnu að berjast fyrir einhverjum breytingum á samfélaginu eða berjast gegn breytingum á samfélaginu. Við verðum að vera eins hlutlæg og hlutlaus í okkar fréttamati og nokkur kostur er.“

Að hverju þarf að gæta þegar fjallað er um stjórnmál?

Bogi segir það einna mikilvægast að gæta að því að öll lögmæt sjónarmið komi fram. Með lögmætum sjónarmiðum á hann við að útiloka þurfi sjónarmið sem brjóta á landslögum sem og rasisma og annað slíkt. Hann segir það einnig skyldu Ríkisútvarpsins að sjá til þess að formenn allra stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa á þingi fái að koma sínum málum og stefnum á framfæri. Annað mikilvægt verkefni er að meta hvaða málefni teljist fréttnæm. Sumir eru á þeirri skoðun að

það eitt að velja hvaða efni sé til umfjöllunar útiloki hlutleysi í sjálfu sér. „Þú ert ekki hlutlaus um leið og þú byrjar að velja eitthvað. Ég fellst svo sem á þau sjónarmið en í 99% tilfella þá er býsna augljóst hvað það er sem er fréttnæmt og hvað það er sem er ekki fréttnæmt.“

Hvernig hefur fréttaflutningur af stjórnmálum þróast frá því þú byrjaðir í fréttamennsku?

Bogi segist hafa verið það lengi í bransanum að hann hafi sjálfur orðið vitni að miklum breytingum á fréttaflutningi. Hann nefnir sérstaklega tilkomu fréttastofu sjónvarpsins en fram að því var afar sjaldgæft að ráðamenn væru spurðir gagnrýninna spurninga, það hafi beinlínis ekki þótt vera við hæfi. „Það verður svona ákveðin þróun í því að það er hætt að taka við upplýsingum gagnrýnilítið og farið að taka á fréttum af stjórnmálum og yfirlýsingum ráðamanna eins og hverjum öðrum fréttum.“ Þá hafa einnig orðið breytingar með tilkomu nýrra miðla þar sem önnur sjónarmið en sjónarmið ráðandi afla geta komið fram. „Það sem hefur breyst með tilkomu netsins er að það verður „kanall“ fyrir hvern sem er að koma sínum upplýsingum á framfæri hvort sem þær eru sannar eða lognar. Þá breytist hlutverk miðla frá því vera sem mætti kalla hliðverðir upplýsinga því nú hefur fólk aðgang að gífurlegu magni af óritstýrðu efni á netinu allan sólarhringinn.“ Hann hvetur því fólk til þess að vera gagnrýnið á þær upplýsingar sem það fær hvort sem það er frá Ríkisútvarpinu eða á netinu.

Ef þú gætir tekið viðtal við hvern sem er, lífs eða liðinn hver yrði fyrir valinu?

„Það er góð spurning. Ég var ekki alveg undirbúinn fyrir þessa“ segir Bogi en eftir stutta umhugsun segist hann þó gjarnan hafa viljað tala við Nelson Mandela. „Eitt af því sem að ég lærði í sagnfræðinni var að þú dæmir ekki fortíðina út frá forsendum samtímans.“ Hann segir því snúið að að hugsa sér að taka viðtöl við fólk fortíðarinnar. Þetta á líka við í nútímanum þegar viðtöl eru tekin við fólk með samfélagslegan bakgrunn sem er frábrugðinn okkar eigin. Nauðsynlegt er að miða ekki við eigin aðstæður heldur vera tilbúinn að sjá hlutina út frá öðrum forsendum.

Hvaða atburður stendur helst upp úr á þínum ferli sem fréttamaður?

Bogi segist ekki geta sagt að eitthvað eitt standi sérstaklega upp úr en sumir atburðir séu þó eftirminnilegri en aðrir. „Þeir erfiðustu eru náttúrulega hlutir eins og snjóflóðin í Súðavík og á Flateyri fyrir aldarfjórðungi. Það voru erfiðir atburðir að fjalla um þó að ég væri ekki á staðnum.“

„Umfjöllunin um morðið á Olof Palme, það er mjög eftirminnilegur atburður líka. Þá var ég fréttamaður í Kaupmannahöfn og fór strax til Stokkhólms.“

Ertu með einhver skilaboð í lokin?

„Nei, ég veit að reynslu verður ekki skilað á milli kynslóða. Það þarf hver kynslóð að gera sín eigin mistök og læra af þeim. Þau geta ekki lært af mistökum foreldra sinna.“ „Það er sagt sko að tímarnir breytast og mennirnir með. Ég er þessu ósammála og segi að tímarnir breytast, mennirnir ekki. Eðli mannsins er alltaf það sama.“

This article is from: