![](https://static.isu.pub/fe/default-story-images/news.jpg?width=720&quality=85%2C50)
12 minute read
Skiptinám
Inger Erla Thomsen
Skiptinám í Kaþólska Háskólanum í Leuven
Advertisement
Tíminn minn í Belgíu var ekki langur en ég varð strax ástfangin af þessum „litla“ bæ sem ég á enn þá bágt með að trúa að ég hafi þurft að flytja frá eftir aðeins 5 vikna dvöl. Upphaflega ætlaði ég að vera þar eitt misseri en þar sem aðstæður breyttust þá verð ég í skiptinámi í Leuven þar til í janúar 2021. Leuven er gamall bær norðaustan af Brussel, í hollenskumælandi hluta Belgíu. Í Leuven ertu annað hvort háskólanemi eða vinnur í Stellu Artois brugghúsinu. Þar kvartaði fólk sífellt undan rokinu og köldu veðri á meðan ég labbaði í og úr skóla á stuttermabolnum en svitnaði samt á bakinu.
Skólinn minn heitir KU Leuven eða Katholieke Universiteit Leuven. KU Leuven var stofnaður árið 1425, þegar við Íslendingar vorum ennþá að moka flórinn í skinnskóm. Í skólanum er fólk alls staðar að, á öllum aldri og í alls konar fræðum (mörgum sem ég hafði ekki einu sinni hugmynd um að væru til). Þar er ECTS einingakerfi eins og heima. Helsti munurinn er hins vegar sá að allir áfangarnir sem ég er í eru 3-6 einingar, ég varð þess vegna að taka sjö áfanga til þess að fá þær 30 einingar sem ég þurfti á síðasta misseri. Mér finnst það samt frábært því að áfangarnir sem ég er í eru eins og einn undirkafli í fagi í Stjórnmálafræðideild HÍ. Dæmi um áfanga sem ég tók eru Labour markets, regulations and developments in Europe (Vinnumarkaðir, reglugerðir og þróun í Evrópu), Policy analysis (Stefnugreining) og Digital Marketing (sá áfangi er með áherslu á herferðir fyrir félagasamtök eða stjórnmálaflokka). Áfangarnir eru allir kenndir á ensku og einkunnagjöf er frá 1-20, eins og víða er í mið- og suður Evrópu. KU Leuven er frekar harður skóli hvað einkunnagjöf varðar en það er eiginlega engin leið að fá yfir 15 í einkunn. Á sama tíma þá fellur þú ef þú ert með undir 10. Öll lokaprófin voru munnleg í vor, sum þeirra áttu að vera munnleg frá upphafi en önnur voru færð yfir á munnlegt form fyrir þau sem höfðu farið aftur til síns heima vegna veirunnar.
Það er tekið ofboðslega vel á móti skiptinemum í Leuven, Belgar eru með allt
SKIPTINÁM
á hreinu og ekkert „þetta reddast“. Þar er aðsetur fyrir erlenda nemendur þar sem þú færð frítt kaffi allt skólaárið ef þú kaupir margnota mál frá þeim. Skipulagðir eru viðburðir þar sem einstaklingar frá mismunandi löndum skrá sig í hópa eftir tungumálum til þess að æfa sig í þeim. Svo eru auðvitað partý þar sem að bjórinn kostar eina evru og 50 sent. Við fengum leiðbeiningar um það hvar væri ódýrast að versla í matinn og hvernig flokkunarkerfið er. Við fengum „checklista“ með dagsetningum út misserið með þeim atriðum sem við þurftum að gera sem Erasmus nemendur. Svo er hægt að leigja hjól í langtímaleigu, en bærinn er bara rétt tæplega 3 km í þvermál og því ganga allir allt eða hjóla. Leuven er virkilega rólegur bær og þú sérð eiginlega enga bíla þar nema þú farir í úthverfin. Ég var ekki búin að átta mig á því hvað þetta væri raunverulega lítill bær fyrstu vikuna og ætlaði mér að taka strætó heim en endaði óvart í Brussel. Ég hafði nú litlar áhyggjur af því þar sem strætóar heima fara í hringi þannig ég gerði ráð fyrir því að þeir gerðu það þarna líka. Nema auðvitað var þetta síðasti strætóinn þetta kvöld og bjáninn ég festist í Brussel þar sem lestirnar voru líka hættar að ganga. Engar áhyggjur þetta reddaðist. Leigubílstjórinn sem keyrði mig heim frá Brussel var ofboðslega almennilegur og skilaði mér heim fyrir ekki nema 70 evrur.
Ég leigði lítið herbergi í blokk þar sem eru einungis stelpur, ég er sú eina á mínum gangi sem er ekki belgísk. Merkilegast finnst mér að þær fara allar heim til foreldra sinna hverja einustu helgi. Fjölskyldutengsl í Belgíu eru virkilega sterk og í Leuven eru eiginlega bara erlendir stúdentar eftir um helgar, nema auðvitað þau fáu sem búa hérna að staðaldri. Ennþá merkilegra er þó að þrátt fyrir að við séum allar með eins herbergi þá borgum við mismikið í leigu. Í Belgíu er það nefnilega reiknað út frá því hvað foreldrar þínir eru með í laun á ári hversu mikið þú borgar í leigu fyrir herbergi hjá skólanum, þau sem eru með lægri laun borga minna og foreldrar borga allt. Þrátt fyrir að þetta sé menningin hér er ég er ekki viss um að ég myndi vilja vera svona háð foreldrum mínum, þar sem þær eru sífellt að velta sér upp úr því hvort námið þeirra sé nógu góð fjárfesting fyrir foreldra þeirra. Við fengum mjög tilfinningaþrunginn tölvupóst frá Rektor skólans um daginn þar sem okkur var tjáð að vegna þess hve mörg okkar erum ekki lengur í þeim herbergjum sem við leigjum og margir einstæðir foreldrar sem greiða, þá mun skólinn koma til móts við nemendur vegna ófyrirséðra aðstæðna og við þurftum aðeins að greiða helming leigunnar það sem eftir var misseris. Þrátt fyrir að vera fimmfalt stærri skóli en HÍ þá er KU Leuven virkilega persónulegur skóli.
Prófessorum er annt um nemendur sína en það hefur sérstaklega sýnt sig eftir að flestir flugu aftur heim í byrjun mars. Þeir senda póst reglulega sem snúast aðeins um það hvort að við og fjölskyldan okkar séum heilsuhraust. Einn prófessor sendi meira að segja farsímanúmerið sitt og sagði okkur að vinsamlegast hringja þó það væri bara til þess að spjalla, því hann vill vita hvernig við höfum það og hvernig gengur í náminu. Það gleymist oft að það er fólk í kring um okkur, samnemendur til dæmis, sem eiga fáa að á svona erfiðum tímum og þá er svo ótrúlega dýrmætt að finna að fólki sé ekki sama. Mér þykir ofboðslega vænt um þetta, það er gott að finna fyrir því að jafnvel í margfalt fjölmennara landi en Íslandi sé maður ekki bara tala sem svífur um í skólakerfinu.
Ég ætlaði mér aldrei að fara í skiptinám, mér fannst stjórnmálafræðinámið í Háskóla Íslands vera það eina sem ég þurfti. Þar hafði ég rangt fyrir mér. Við sem verðandi stjórnmálafræðingar þurfum að hafa víðara akademískt sjónarhorn. Góð leið til þess að víkka það er að fara í skiptinám erlendis. Stjórnmálafræðideildin er vissulega góð og ég kann að meta hana, það sem ég vil benda á hérna er að til þess að öðlast dýpri þekkingu, hvort sem það er akademísk þekking eða persónuleg, þá þurfum við að fara út fyrir landsteinana. Ég vil því hvetja öll þau sem þetta lesa að nýta sér þann kost að fara í skiptinám eða nám erlendis af einhverju tagi, ég get sagt hér með fullri vissu að þetta er ekki eina skiptið sem ég mun fara erlendis í nám.
SKIPTINÁM
Guðrún Fríða Snorradóttir Wium
Í leit að fjögurra laufa smára
Fyrir ári síðan ákvað ég að sækja um í skiptinám, ég hafði alltaf ætlað mér að fara í skiptinám í menntaskóla en var alltaf smeyk við tilhugsunina að flytja ein til útlanda. Ég hafði í raun ekki sérstakt land í huga en hallaðist frekar að því að fara til enskumælandi lands. Ég eyddi heilmiklum tíma að skoða samstarfskóla HÍ og endaði á því að sækja um hjá University of Limerick á Írlandi. Skólinn er í þriðju fjölmennustu borg Írlands, Limerick, með tæplega hundrað þúsund íbúa. Ég var ótrúlega spennt fyrir þessu nýja ævintýri en loksins þegar komið var á leiðarenda tók við mikill kvíði og menningarsjokk sem ég hafði ekki búist við. Það tók mig þó ekki langan tíma að losna við þá tilfinningu og eftir það varð ferðin frábær í alla staði. Írar eru einstaklega vingjarnlegir, lífsglaðir og eru svo sannarlega með húmorinn í lagi. Háskólinn hefur unnið til verðlauna fyrir besta háskólasvæði á Írlandi og einnig fyrir besta Erasmus prógramið. Félagslífið í skólanum er mjög virkt með rúmlega 80 mismunandi klúbba og félög sem eru í boði fyrir alla og eru jafn ólík og þau eru mörg. Stærsta félagið er félag ætlað skiptinemum, International Society, sem skipuleggur ferðir og allskonar viðburði vikulega. Ég var sjálf meðlimur í því félagi, fór í nokkrar ferðir og fannst það frábær leið til að kynnast betur landi og þjóð en einnig öðrum skiptinemum. Félagið heldur International Night þar sem sextugur plötusnúður, DJ Ber, heldur uppi stuðinu með nákvæmlega sama lagalistann alla föstudaga. Írsku nemendurnir djamma afskaplega mikið en þó ekki um helgar því flest þeirra fara heim. Í staðinn eru mánudagar og fimmtudagar aðalmálið. Þetta þótti okkur skiptinemum frekar skondið og lærðum af reynslunni þegar enginn var í bænum á föstudagskvöldi. Þau héldu góðgerðarviku fyrir skömmu af öðrum toga en ég er vön; þau drekka og djamma allan liðlangan daginn sem mér þótti sniðug leið til þess að bæði skemmta sér og styrkja gott málefni í leiðinni.
Ég gæti ekki hafa beðið um betri sambýlinga. Við náðum öll ótrúlega vel saman þrátt fyrir gjörólíkan menningarlegan bakgrunn. Ég ætlaði að ferðast með nokkrum þeirra til Dublin á St. Patrick’s Day og til Edinborgar í páskafríinu en eins og flestir vita þá breyttist margt í mars á þessu ári vegna kórónuveirunnar. Það var mikil óvissa, sérstaklega í byrjun mars, bæði hvernig skólahald myndi vera og hvort ferðin mín myndi mögulega styttast. Skólinn færði allar kennslustundir og próf yfir í fjarkennslu um 10. mars, um svipað leiti hvöttu íslensk stjórnvöld Íslendinga sem voru
SKIPTINÁM
staðsettir erlendis til að huga að heimför. Foreldrar mínir voru þá komnir með verulegar áhyggjur og vildu að ég tæki næsta flug heim sem var áætlað tveimur dögum seinna. Það var ótrúlega erfitt að sætta sig við það að þurfa skyndilega að fara heim en ég vissi þó að það væri skynsamlegast. Síðustu tveimur dögunum eyddi ég með vinum mínum, við löbbuðum um skólasvæðið, elduðum saman og héldum lítið kveðjupartý. Þó svo að dvölin mín á Írlandi væri helmingi styttri en hún átti upprunalega vera var þetta ótrúlega skemmtileg lífsreynsla. Ég mæli eindregið með því að fara í skiptinám, þú kynnist fólki frá öllum heimshornum og menningarheimum. Það gæti verið erfitt að aðlagast í fyrstu en reynslan og upplifunin mun ávallt vera þess virði. Maður áttar sig líka betur á því hvað maður kann að meta heima og hvers maður saknar.
Ég enda hér með hér með þessa grein á fyrstu og vonandi einu tilraun minni að limrugerð.
Skiptinám í heimsfaraldri, geri aðrir betur Fór ein í leiðangur í landi Sankti Patreks Kynntist alls kyns fólki Sem mér gaman þótti Dvölin var jú dásamleg, Far þú ef þú getur
Oddur Þórðarson
Ekki þannig séð
Fæst sem við gerum er skemmtilegt. Það er ekki skemmtilegt að keyra í vinnuna, ákveða hvað maður á að borða í kvöldmatinn, þrífa baðherbergið eða læra fyrir próf. Það er heldur ekki gaman að fara í níu tíma langt flug, láta svæfa hundinn sinn eða að reka sig í. Það er heldur ekki gaman að fara í skiptinám – ekki þannig séð. Margir ímynda sér eflaust að fari maður í skiptinám sé maður sífellt á kaffihúsi í þröngri göngugötu, skoðandi söfn eða borðandi á veitingastöðum. Að fara í skiptinám er ekki að fara til útlanda – ekki þannig séð. Fólk í skiptinámi býr bara í útlöndum og gerir sömu hlutina og heima. Það þvær þvott, kaupir í matinn, hefur áhyggjur af peningum,
SKIPTINÁM
sefur yfir sig, missir símann sinn í gólfið og borðar Ristorante-pizzur. Að vera í skiptinámi er bara að vera heima hjá sér í útlöndum, það er það sem skiptinám snýst um.
Ég veit ekki hvaða dagur er hjá þér, en hjá mér er 10. mars 2020. Ég er staddur í Southampton á Englandi og ég er hér í skiptinámi. Ég hef verið hérna síðan seint í september og verð þangað til í lok maí. Þeir stjórnmálafræðiáfangar sem ég tek hérna eru ágætir, svona þegar ég mæti að minnsta kosti. Í einum þeirra fyrir jól fékk ég frekar háa einkunn en í hinum bara sæmilegar einkunnir. Ég get ómögulega spáð fyrir um hvernig námsframvindan verður eftir jól, en hún mun að öllum líkindum ekki vera nægilega góð til þess að rata í The Daily Echo, bæjarblaðið sem ég les aldrei. En það kannski breytir ekki öllu, ég á bara að vera að njóta mín hérna, er það ekki?
Nei. Alls ekki. Eins og ég sagði þá er það að vera í skiptinámi eins og að vera heima hjá sér nema í útlöndum. Í upphafi tekur maður þó út þriggja vikna tímabil þar sem maður hagar sér eins og maður sé í útlöndum. Maður fer á söfn og kaffihús og labbar um í frakka með regnhlíf eins og hálfviti. Fólk starir á mann eins og maður sé eitthvað ljóðskáldsskrípi sem villtist til smáborgar á Englandi þar sem ekkert er um að vera nema bílaumferð og raðir á skyndibitastöðum. Þegar hálfvitatímabilinu lýkur heilsar hversdagsleikinn manni eins og hann birtist manni heima á Íslandi. Bónus verður að ASDA eða Tesco og WorldClass úti á Seltjarnarnesi verður að PureGym 24/7 á Northlands Road. Líkt og á Íslandi sekkur maður inn í óumflýjanlegan hversdagsleika og þá áttar maður sig á hversu klámvædd hugmyndin um skiptinám er. Innan skamms þarf maður að fara að mæta í tíma, kaupa í matinn, sendaeinhvern póst á LÍN, mæta á fund með félagi skiptinema, hringja í Tollstjóra af því ilmvatnið sem mamma þín bað þig um að kaupa strandaði einhvers staðar í Keflavík, þvo þvott, þrífa baðherbergið o.s.frv, o.s.frv.
Það er ekki sanngjarnt að ég telji bara upp það „slæma“ við að fara í skiptinám – ekki þannig séð. Fólk talar yfirleitt bara um það góða við að fara í skiptinám, þess vegna er þörf á þessu sjónarhorni mínu. Það er gaman að kynnast nýju fólki, læra nýtt tungumál, skoða nýja heimshluta og gera einhverja aðra menningu en þá íslensku að sinni um hríð. Þrátt fyrir að þurfa að gera ótal hundleiðinlega hluti þá fær maður inná milli að gera eitthvað skemmtilegt, rétt eins og heima. Og ég get sennilega ekki neitað því að það er ögn skemmtilegra að gera leiðinlega hluti þegar maður getur verið úti á peysunni í febrúar heldur en heima á Íslandi í frosti og klaka.
Punkturinn minn er sá að það er ekkert gaman að fara í skiptinám – ekki þannig séð. Það á heldur ekki að vera gaman – ekki þannig séð. Skiptinám á að vera krefjandi, þroskandi, lærdómsríkt og uppbyggjandi rétt eins og háskólanám heima. Það er gaman að hafa yfirstigið þá hindrun sem skiptinám er. Það er skemmtilegt að geta litið til baka á þau krefjandi verkefni sem maður þurfti að takast á við, nú þegar maður tekist á við þau og það er gaman að geta séð hvernig það þroskaði mann og mótaði. Skiptinám er gott fyrir þig og ef þú hefur ekki farið í skiptinám áður, drífðu þig þá! En ég get lofað því að það verður ekki gaman eða skemmtilegt – ekki þannig séð.