1 minute read

Ávörp og annálar Ávarp ritstjórnar

Ávarp ritstjórnar

Advertisement

Það er komið að því enn og aftur! Nýr Læknanemi lítur nú dagsins ljós í 73. skiptið. Skemmtanalífið í deildinni fór í gang á ný eftir smá heimsfaraldurspásu og voru svo dæmi sé tekið haldnar tvær árshátíðir þetta skólaárið. Þegar horft er til baka til stjórnarskipta er varla annað hægt en að brosa því þar stóðu níu stjórnarmeðlimir sem höfðu ekki hugmynd um í hverju útgáfa fimm punkta vísindarits fælist. Sumarið var skrautlegt þar sem helmingur stjórnarinnar fluttist búferlum út í hin ýmsu héruð landsins sem gerði fundarhöld flóknari.

Núna tæplega ári seinna er blaðið loksins komið út og erum við mjög stolt af okkar verki. Við viljum þakka innilega öllum þeim sem komu að útgáfu blaðsins; greinahöfundum, ritrýnum, faglegri ritstjórn og almennum peppurum. “We’re all in this together” eins og skáldið sagði.

Elín Edda Þorsteinsdóttir sá um uppsetningu blaðsins líkt og í fyrra og erum við gríðarlega ánægð með hennar starf. Fátt á eins stóran þátt í lífi læknanema og maturinn á Landspítalanum svo ekkert annað kom til greina en að forsíðan og ritstjórnarmyndirnarnar myndu endurspegla það. Hugmyndir ritstjórnar um að forsíðuna skyldi prýða þróun lífsins allt frá þorsk í orly til fullmótaðs læknanema voru ekki einfalt verkefni fyrir Elínu Eddu en erum við afar ánægð með útkomuna.

Innihald nýjasta Læknanemans er ekki síðra en undanfarin ár og inniheldur það að okkar mati hina fullkomnu blöndu af frábærum ritrýndum greinum, fróðleiksefni og kostulegu skemmtiefni. Við vonum að þið njótið öll lestursins og að það fylli ykkur trú á komandi kynslóð lækna að lesa fræðigreinar og skemmtiefni eftir þau.

This article is from: