3 minute read
Félag Læknanema Annálar samstarfs-
Félag Læknanema
Hjördís Ásta Guðmundsdóttir Formaður Félags Læknanema 2021–2022
Advertisement
Félag læknanema (FL) fagnaði sínu 89. starfsári skólaárið 20212022. Starfsárið var viðburðaríkt og einkenndist af mikilvægri hagsmunabaráttu og vaxandi starfsemi eftir viðburðalægð á tímum heimsfaraldurs. Í stjórnum FL, undir og samstarfsfélaga þess sátu um 70 læknanemar sem héldu uppi öflugu starfi FL.
Á árinu voru 250 félagar skráðir í félagið sem er svipað skráningu fyrri ára. Reglubundin starfsemi stjórnar FL gekk vel en vert er að fjalla nánar um nokkur málefni.
Áhersla var lögð á kynbundna mismunun, kynferðislega áreitni og ofbeldi í nærumhverfi læknanema. Könnun FL leiddi í ljós að 40% kvenkyns læknanema höfðu upplifað að ekki væri borin virðing fyrir þeim á grundvelli kyns en aðeins 4,4% karlkyns læknanema, alls svöruðu 226 læknanemar könnuninni. Undirrituð skrifaði grein um málefnið í Læknablaðið í byrjun starfsárs og í kjölfarið gáfu FL og Félag almennra lækna (FAL) út yfirlýsingu þar sem var kallað eftir innleiðingu stefnu þess efnis að kynferðisleg áreitni, kynbundið ofbeldi og mismunun verði ekki liðið með neinum hætti á þjóðarsjúkrahúsi okkar og framtíðarvinnustað. FL tók jafnframt þátt í skipulagningu málþings á Læknadögum, ásamt öðrum fagfélögum lækna, sem bar yfirheitið „Áhrif kynbundinnar áreitni á heilbrigði, starfsöryggi og starfsframa lækna og læknanema“. Að lokum innleiddi FL jafnréttisstefnu í lög félagsins sem var samþykkt á aðalfundi á vormánuðum. Það er von stjórnar að kennsla um málefnið verði innleidd í læknanámið.
Samstarf FL við FAL og Læknafélag Íslands (LÍ) hefur verið einstaklega gott á árinu. Mikill sigur vannst í stéttarfélagsbaráttu læknanema á haustmánuðum. Læknanemar í afleysingarstörfum eftir fjórða námsár hafa verið utan stéttarfélags en aðalfundur Læknafélags Íslands (LÍ) samþykkti með miklum meirihluta tillögu þess efnis að læknanemar fái hlutaaðild að félaginu. Nú er unnið að útfærslu innleiðingar læknanema í LÍ og fyrirséð er að á næstunni munu stéttlausir læknanemar án kjarasamninga heyra sögunni til. Jafnframt rituðu FL og LÍ sameiginlega umsögn um drög að frumvarpi til útlendingalaga sem sneri að heilbrigðisskoðunum og læknisrannsóknum. Félögin litu breytingartillögurnar alvarlegum augum, þóttu þær ekki samræmast siðareglum lækna og fyrirhuguð framkvæmd umræddra læknisverka var óljós.
Stjórn FL hefur einnig barist fyrir að læknanemar séu ráðnir inn í réttan launaflokk á Landspítala sem samsvarar námsári og fékkst það í gegn í vor. Áður voru læknanemar ráðnir inn í lægri launaflokk en námsár sagði til um, þar til skilað var inn staðfestingu lokum námsárs, sem fékkst einungis eftir starfsupphaf með tilheyrandi tekjutapi. Annað baráttumál var aðgangur klínískra læknanema að lyfjagagnagrunni Embætti landlæknis sem hefur nú fengist í gegn og mun auka öryggi og gæði meðferðar sjúklinga.
Félagsherbergi FL fékk yfirhalningu um jólin þökk sé Læknadeild. Nú er til staðar góð fundaraðstaða og fyrsta bókasafn læknanema var stofnað, sem inniheldur alla útgefna Læknanema og önnur áhugaverð rit læknanema frá fyrri tíð. Hýsingarvandi heimasíðu FL hafði hrellt stjórn í dágóðan tíma og var leyst með samstarfi við félag rafmagns og tölvuverkfræðinema HÍ. Það var því stjórn FL mikið gleðiefni þegar ný heimasíða félagsins fór í loftið á árinu með glæsibrag.
Ljóst er að starfsemi FL hefur tekið við sér eftir heimsfaraldur. Viðburðahald jókst á ný við mikla gleði læknanema. Í fyrsta sinn voru haldnar tvær árshátíðir og læknanemar sóttu aftur ráðstefnur utan landsteina, bæði hina árlegu samnorrænu ráðstefnu læknanema (Federation of International Nordic Medical Students’ Organisations, FINO) í Noregi og einnig aðalfund alþjóðasamtaka læknanema (March Meeting, International Federation of Medical Students’ Associations, IFMSA) í NorðurMakedóníu. Stefnumótunarfundur var haldinn í upphafi skólaárs sem reyndist vel. Stjórn FL fundaði með deildar, aðstoðardeildar og kennslustjóra, yfirlækni læknanema á Landspítala, sótti deildarráðsfundi og skipulagsfundi með umsjónaraðilum fjórða árs sem vinna ötullega að góðum breytingum á okkar námi.
Læknanemar eru einstaklega samheldinn og skemmtilegur hópur sem gera félagsstarfið jafn skemmtilegt og raun ber vitni. Ég er stolt af okkar starfi í stjórn síðastliðið starfsár og vil þakka dýrmætum vinum í stjórn, þeim Teiti, Stefáni, Daníel, Inga, Kristjáni og Hjalta fyrir frábært ár. Jafnframt vil ég þakka öllum sem hafa tekið tillögum okkar í FL með opnum hug undanfarin ár, við erum því þakklát. Að lokum vil ég þakka þér, kæri læknanemi, fyrir þátttöku í FL og óeigingjarnt starf í þágu okkar allra.