1 minute read
Ávarp ritstjórnar
Urður Helga, Jón Tómas, Oddný, Jóhann, Thelma, Sigríður, Hlíf, Guðrún
Óratími virðist vera síðan við tókum að okkur að gera þetta blað og ýmislegt hefur gengið á frá því að ritstjórn Læknanemans 2021 var skipuð. Um tíma virtist lögmál Murphys vera allsráðandi og má vera að einhverjir innan ritstjórnarinnar hafi á tímabili efast um að blaðið myndi í raun og veru koma út. En nú, nokkrum faraldursbylgjum, ótal tölvupóstum, einu barni, meiriháttar eldgosi og minniháttar ósigrum síðar, stöndum við með Læknanemann í höndunum. Ekki nóg með það heldur erum við virkilega stolt af lokaútgáfu blaðsins. Í því má finna fjölda greina, af ýmsum toga, og uppfyllir blaðið bæði skilyrði þess að vera fimm punkta vísindatímarit og þess að vera ákaflega skemmtilegt (þó við segjum sjálf frá). Útlit blaðsins sker sig frá síðustu útgáfum en við ákváðum að leita til Elínar Eddu Þorsteinsdóttur við uppsetningu þess en hún hefur ekki áður komið að Læknanemanum. Hún sýndi dyntum okkar og sérþörfum einstaka þolinmæði og listrænt auga hennar glæddi blaðið svo sannarlega miklu lífi. Á hún mikið hrós skilið fyrir bæði.
Advertisement
Við viljum þakka öllum þeim sem komu að útgáfu blaðsins fyrir störf sín: greinahöfundum, ritrýnum, faglegri ritstjórn og í raun hverjum þeim sem hlúði með einum eða öðrum hætti að þessu barni okkar og gerði því kleift að komast út í heiminn. Það þarf heilt þorp eins og máltakið segir.
Við vonum innilega að þú njótir þessa Læknanema ágæti lesandi, hvort sem þú lúslest hann eða skimar snöggt í gegn til að reyna að koma auga á mynd af sjálfum þér.
Já og blóð, sviti, tár – gleymdum næstum að nefna það, nóg af svoleiðis alveg hreint.