3 minute read

Allt er

Allt er … Hugvekja um allt og ekkert

Thelma Kristinsdóttir Fimmta árs læknanemi 2020–2021

Advertisement

Hvað er allt? Er allt ónæmisfræði? Er allt vænt sem vel er grænt? Eru einkunnir mögulega allt? Páll Óskar syngur „Allt fyrir ástina.“ En hvað ef ég elska læknisfræði? Get ég gert allt fyrir læknisfræðina? Ég læri samviskusamlega fyrir allar deildir og get yfirleitt svarað þeim spurningum sem fólk baunar á mig með stakri prýði. Ég sýni áhuga á öllu sem sagt er við mig, hvort sem það er um heilaskurðaðgerð eða Bristol hægðaskalann. Ég sýni virðingu og umburðarlyndi í starfi og tek því með jafnaðargeði þegar einhver hvæsir á mig á skurðstofu eða byrstir sig og lítillækkar mig fyrir að vita ekki svörin við spurningum sínum. Ég læt eins og ég vilji ekkert frekar en að skrifa aðra innlagnarskrá þegar ég er við það að fara heim eftir langan skóladag og kvöldvakt. Deildarlæknar hafa nefnilega áhrif á hverjir fá vinnu sem læknanemar á Landspítalanum á sumrin, þetta hefur mér verið sagt. Ég er búin að vinna nógu lengi á hjúkrunarheimili. Ég hef að sjálfsögðu tekið hjúkrunarvaktir, mér var sagt að það væri bráðnauðsynleg reynsla. Ég skrifa vísindagreinar og er skráð í doktorsnám samhliða læknanáminu því rannsóknarstörf eru jú eitt af grunnhlutverkum læknisins. Hver myndi einu sinni líta á ferilskrána mína hefði ég ekki stundað neinar rannsóknir? Ég vinn á spítalanum með skóla til þess að öðlast meiri klíníska reynslu og tek allar aukavaktir sem mér bjóðast. Ég vil að allir sjái að ég sé dugleg og fá sem mesta þjálfun áður en ég fæ lækningaleyfið því ég veit að því fylgir mikil ábyrgð og vinna. Ég passa svo að hreyfa mig reglulega, fórna bara akkúrat nógu miklum svefni og kaupa próteinstykki í sjálfsalanum á vöktunum í staðinn fyrir súkkulaði. Svo eru það áhugamálin. Ég les auðvitað bækur, helst þessar læknisfræðitengdu sem allir deildarlæknarnir eru að tala um, en líka þessar nýju sem komu út um jólin og kannski einhverja klassíkera. Ég fylgist með fréttum, les greinar á PubMed og sæki stundum sinfóníutónleika. Eitthvað verð ég að geta talað um í skurðaðgerðum, fólk sem horfir bara á Netflix í frítíma sínum er ekki áhugavert. Ég byrja að svitna þegar fólk fer að spyrja mig út í barneignir. Það hefur verið heitt umræðuefni í gegnum árin hjá okkur kvenkyns einstaklingum bekkjarins hvenær best er að eignast börn í þessu ferli. Hvernig hægt er að gera það án þess að það fresti náminu um eina einustu mínútu. Guð forði því að lífið standi í vegi fyrir læknisfræðinni.

En vil ég gera allt fyrir læknisfræðina? Má ég gera bara sumt fyrir læknisfræðina? Get ég elskað læknisfræði en samt ekki verið tilbúin að fórna öllu fyrir hana? Ég var nefnilega að ljúga í textanum hér að ofan. Stundum kem ég heim eftir dag á spítalanum, sest í sófann og hugsa ekki meira um læknisfræði þann daginn. Satt best að segja gerist það mjög reglulega. Ég veit ekki svarið við öllum spurningum sem ég er spurð að og stundum tek ég það inn á mig þegar ég er niðurlægð fyrir að vita ekki svarið. Það kemur líka fyrir að ég sé bara alls ekkert þakklát fyrir að fá að halda í haka. Ég dáist að fólki sem stundar rannsóknir af kappi en ég hef ennþá ekki fundið neitt sem mig langar að rannsaka og ég hef heldur ekki nægan áhuga á þessu sviði til að skrifa bara eitthvað til að ferilskráin mín líti betur út. Það eru fleiri lygar hér að ofan en nóg um það. Ég vil koma aftur að spurningunni, hvað er allt? Er allt í lagi? Allt í lagi þýðir bókstaflega að ekkert sé í ólagi en ef einhver segði mér að ég væri bara allt í lagi í læknisfræði þá myndi ég líklega ekki taka því mjög vel. Allt í lagi er nefnilega af einhverjum ástæðum túlkað sem sæmilegt í íslenskri tungu. Það finnst mér endurspeglast í læknisfræðinni. Stöðug þörf til að vera meira en allt í lagi, finnast maður þurfa að vera framúrskarandi, vera betri en aðrir, gera betur en aðrir, gera engin mistök. En það að vera ekki allt þýðir ekki að maður sé ekkert. Og þrátt fyrir algengan misskilning meðal mín og kollega minna er það að vita ekki allt ekki það sama og að vita ekkert. Sumir geta verið allt og það er bara frábært. Ég má samt elska læknisfræði án þess að vera allt. Ég má elska læknisfræði og vera bara sumt. Ég má elska læknisfræði og vera bara allt í lagi.

This article is from: