80 minute read

Rannsóknarverkefni 3. árs læknanema

Rannsóknarverkefni

Kortlagning valbjögunar: Munur á skimuðu og tilviljanagreindu forstigi mergæxlis Aðalbjörg Ýr Sigurbergsdóttir1 , Sigrún Þorsteinsdóttir1,2,*, Sæmundur Rögnvaldsson1,*, Sigurður Yngvi Kristinsson1,2,* . 1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Blóðsjúkdómadeild Landspítala Inngangur: Forstig mergæxlis og annarra tengdra eitilfrumusjúkdóma (MGUS) er einkennalaust ástand sem er til staðar í um 5% einstaklinga yfir fertugu. Forstigið greinist venjulega fyrir tilviljun þegar einstaklingar sækja heilbrigðisþjónustu vegna annarra, ótengdra heilsufarskvilla. Af þeim sökum hafa flestar rannsóknir á MGUS verið framkvæmdar á þýði sem hugsanlegt er að, vegna valbjögunar, hafi innihaldið fleiri einstaklinga með önnur heilsufarsvandamál en hinir almennu einstaklingar með forstigið. Mögulegt er að þessi valbjögun skekki mynd okkar af MGUS en það hefur ekki verið rannsakað. Þessi rannsókn er fyrsta rannsóknin þar sem leitast er við að kortleggja þessa valbjögun með því að bera saman einstaklinga með tilviljanagreint MGUS og þá sem eru með MGUS greint í skipulagðri skimun en markmið hennar er að lýsa muninum á milli þessara tveggja hópa m.t.t. lýðfræðilegra einkenna, MGUS tengdra breyta og fylgisjúkdóma.

Advertisement

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin byggir á gögnum rannsóknarinnar Blóðskimun til bjargar, lýðgrundaðri skimunarrannsókn fyrir MGUS á Íslandi, sem hófst árið 2016 (ClinicalTrials.gov nr. NCT03327597). Upplýsingar um þátttakendur með áður þekkt, tilviljanagreint MGUS voru fengnar úr gögnum frá Læknasetrinu og rannsóknarstofum Landspítala. Upplýsingar um fæðingarár, kyn og búsetu þátttakenda voru fengnar úr þjóðskrá og magn og mótefnagerð M-próteins og hlutfall léttra keðja í sermi mælt í skimunarrannsókninni. Þá voru upplýsingar um fylgisjúkdóma þátttakenda fengnar úr skrám heilbrigðisstofnana. T-próf og kí-kvadrat próf voru notuð til að meta mun á aldri, kyni og búsetu milli þátttakenda með tilviljanagreint MGUS og þeirra sem voru með áður óþekkt forstig. Línuleg aðhvarfsgreining var notuð til að bera saman magn M-próteins og fjölda fylgisjúkdóma milli sömu hópa. Tvíkosta aðhvarfsgreining var notuð til að meta mun milli mótefnaflokka M-próteina, tíðni afbrigðilegs hlutfalls léttra keðja og tíðni sérstakra fylgisjúkdóma.

Niðurstöður: Rannsóknarþýðið samanstóð af 1.891 einstaklingum með MGUS greint í Blóðskimun til bjargar, þar af 110 (5,8%) með áður þekkt, tilviljanagreint MGUS, 1.533 (81,1%) með áður óþekkt þung-keðju MGUS og 248 með áður óþekkt létt-keðju MGUS. Ekki fannst marktækur munur á aldri, kyni eða búsetu þátttakenda milli hópa. Þátttakendur með áður þekkt MGUS voru að meðaltali með 0,74 g/L hærri styrk M-próteins í sermi (2,57 g/L og 2,24 g/L), samanborið við þá þátttakendur sem voru með áður óþekkt þung-keðju MGUS (95% öb: 0,11-1,37, p-gildi: 0,02). Munur milli hópa á öðrum þáttum hvað varða eiginleika forstigsins var ómarktækur. Þá voru þátttakendur með áður þekkt MGUS með marktækt fleiri fylgisjúkdóma en þeir sem voru með áður óþekkt þung-keðju MGUS (3,93 og 3,16, 95% öb: 0,29-1,06, p-gildi: >0,001) og var munurinn marktækur meðal gigtsjúkdóma, krabbameina, langvinnra nýrnasjúkdóma, innkirtlasjúkdóma og taugasjúkdóma.

Ályktanir: Niðurstöður þessarar rannsóknar benda til þess að einstaklingar með tilviljanagreint MGUS hafi fleiri fylgisjúkdóma en þeir einstaklingar sem eru með MGUS greint í skimun. Þær staðfesta einnig að valbjögun hefur skekkt fyrri rannsóknir á MGUS og sýna að nauðsynlegt er að rannsaka tengsl MGUS við sjúkdóma í skimuðu MGUS þýði.

Lífsstíll ungra Íslendinga og tengsl við líkamssamsetningu Alexandra Ásgeirsdóttir (Ágrip barst ekki)

Líkamssamsetningarmælingar barna í Heilsuskóla Barnaspítalans Anna Rún Arnfríðardóttir1, Tryggvi Helgason2, Ragnar Bjarnason1,2 1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Barnaspítali Hringsins Inngangur: Offita og ofþyngd barna og fullorðinna hefur verið ört vaxandi heilbrigðisvandamál síðan um miðja síðustu öld. Offita á barnsaldri hefur verið tengd ótímabærum dauðsföllum og auknum líkum á ákveðnum sjúkdómum á fullorðins árum en þar að auki getur offita haft heilsufarslegar afleiðingar strax í barnæsku. Heilsuskóli Barnaspítalans var stofnaður árið 2011 til þess að aðstoða börn sem kljást við offitu og fjölskyldur þeirra við að bæta lífsvenjur sínar og heilsu. Markmið rannsóknarinnar var í fyrsta lagi að lýsa líkamssamsetningu þeirra barna sem hefja meðferð í Heilsuskólanum, í öðru lagi að meta áhrif líkamssamsetningar á árangur meðferðar þeirra og í þriðja lagi að meta hvort að tengsl væru milli líkamssamsetningar barnanna og tilvist frávika í blóðgildum þeirra.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og lýsandi. Hún náði til barna sem höfðu farið í líkamssamsetningarmælingu með BIA aðferð á vegum Heilsuskóla Barnaspítalans frá 24. ágúst 2016 til og með 21. febrúar 2020 (n=285). Til þess að meta áhrif líkamssamsetningar barnanna á árangur meðferðar voru bornar saman mælingar barna sem höfðu farið í tvær líkamssamsetningarmælingar með 9−15 mánaða millibili (n=64). Árangur var skilgreindur út frá breytingu í LÞS-SFS milli mælinga. Til þess að meta tengsl milli líkamssamsetningar barnanna og frávika í blóðgildum þeirra voru líkamssamsetningarmælingar barna bornar saman við blóðrannsóknir sem teknar voru 0–6 mánuðum á undan eða eftir líkamssamsetningarmælingu barnsins (n=178). Niðurstöður blóðrannsókna fyrir börn sem höfðu verið í meðferð í Heilsuskólanum á fyrrnefndu tímabili fengust frá Upplýsingatæknisviði Landspítala.

Niðurstöður: Stelpur eru marktækt yngri en drengir og 5–9 ára drengir eru með marktækt alvarlegri offitu en 5–9 ára stúlkur við upphaf meðferðar. Aðeins aldur og vöðvamassi barns við upphaf meðferðar reyndust hafa marktæk spágildi fyrir árangur næstu 9–15 mánaða meðferðar. Gagnlíkindi þess að barn næði minni eða engum árangri skv. skilgreiningu jókst um 71,6% þegar aldur barns við upphaf meðferðar jókst um 1 ár og gagnlíkindi þess að

3. árs nema 2020

barn næði góðum eða mjög góðum árangri skv. skilgreiningu jukust um 6,5% með eins kg aukningu í vöðvamassa. 75,8% barnanna (n=178) mældust með frávik í a.m.k. einu af þeim níu blóðgildum sem mæld voru. Þá mældust 80,1% barnanna með skert insúlínnæmi (HOMA-IR > 3,42) og var meðal-HOMAIR þeirra 7,31 (± 4,97). Meðaltal LÞS, LÞS-SFS, fitumassa, fituprósentu og vöðvamassa var marktækt hærra hjá þeim börnum sem mældust með a.m.k. eitt frávik í blóðgildum samanborið við þau börn sem mældust ekki með nein frávik.

Ályktanir: Rannsóknin áréttaði mikilvægi þess að öll börn með alvarlega offitu hefji meðferð eins ung og hægt er og að bætt sé úr meðferðarúrræðum þessara barna. Meðalbiðtími eftir meðferð í dag er u.þ.b. eitt ár en niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að sá biðtími geti haft mikil áhrif á árangur meðferðarinnar. Ljóst er að meirihluti þeirra barna sem hefja offitumeðferð hjá Heilsuskóla Barnaspítalans séu þegar farin að kljást við afleiðingar og fylgikvilla offitu sinnar. Meðal-HOMA-IR þessara barna bendir til alvarlegrar skerðingar á insúlínnæmi og er mikilvægt að fylgjast vel með þróun sykursýki II hjá þeim. Tilefni er til þess að rannsaka betur spágildi mismunandi líkamssamsetningarmælinga fyrir frávik í blóðgildum.

Samanburður á klínísku mati og ómskoðun á frumbyrjum við fæðingu Anna Hjördís Grétarsdóttir, Hulda Hjartardóttir Læknadeild Háskóla Íslands, Kvennadeild Landspítalans Inngangur: Til að fylgjast með framgangi fæðingar er notað klínískt mat með þreifingu um leggöng sem oftast er framkvæmt af ljósmóður. Við slíka skoðun er metin meðal annars staðsetning höfuðs í grind, staða hnakka og útvíkkun legháls. Nýlegar rannsóknir benda til þess að með ómskoðun sé hægt að safna sömu upplýsingum, mögulega á nákvæmari hátt og með minni óþægindum fyrir fæðandi konur. Til þess að hægt sé að nota ómskoðanir í sama tilgangi þurfa að liggja fyrir upplýsingar um hvernig þær reynist í samanburði við klínískt mat. Tilgangur rannsóknarinnar var að bera saman ómskoðunarbreytur og breytur sem fengust við klínískar skoðanir. Einnig var kannað hvaða áhrif fæðingarsveppur, sem auðvelt er að greina með ómskoðun, hefur á útkomu fæðinga.

Efni og aðferðir: Rannsóknin er framsýn ferilrannsókn og stóð gagnasöfnun yfir tímabilið janúar 2016 til apríl 2018. Rannsóknarhópurinn samanstóð af 99 frumbyrjum í sjálfrafa sótt við ≥37 vikur sem fæddu á Kvennadeild Landspítalans. Niðurstöður sem fengust út úr klínískri skoðun með innri þreifingu annars vegar og með ómskoðun hins vegar með innan við 30 mínútna millibili. Klínísku breytunum um stöðu höfuðs í grind var breytt yfir á sama form og ómskoðunarbreyturnar AoP og HPD svo hægt væri að bera þær saman. Þessar niðurstöður voru bornar saman ásamt samanburði á mælingum á útvíkkun legháls og stöðu hnakka. Samband fæðingarsvepps í ómskoðun við stöðu hnakka, fæðingarmáta og tímalengd fæðingar var einnig skoðað.

Niðurstöður: Hver kona var skoðuð að meðatali 3,6 sinnum. Ómskoðun sýndi að meðaltali 17º stærra framgangshorn (AoP) en klínísk skoðun, eða sem nemur 2 cm mun, en þar gat munað allt að 50º (p-gildi < 0,001). Fjarlægð fósturhöfuðs frá spöng (HPD) mældist einnig marktækt neðar við ómskoðun þar sem 3,9% klínískra skoðana gaf í skyn að fósturhöfuð væri komið niður fyrir nibbuplan á meðan 31,4% ómskoðana gerði það (p-gildi < 0,001). Við fyrstu skoðun á stöðu hnakka fengust aðeins niðurstöður úr 31/99 klínískum skoðunum og þar af voru 45% rétt miðað við ómskoðunina en við síðustu skoðun fengust aðeins gildi úr 61/99 klínískum skoðunum og þar af voru 85% rétt. Þegar staða hnakka við skoðun var flokkuð sem framhöfuðstaða, hægri eða vinstri þverstaða og venjuleg hvirfilstaða leiddi samanburður á klínísku mati og ómskoðun í ljós marktækan mun (p-gildi < 0,001). Marktækt meiri útvíkkun legháls mældist við klínískt mat en við ómskoðun og var munurinn að meðaltali 2 cm en gat farið í allt að 4 cm (p-gildi < 0,001). Enginn marktækur munur var á stöðu hnakka (p-gildi = 1,0), fæðingarmáta (p-gildi = 0,4) og tímalengd fæðingar (p-gildi=0,07) eftir því hvort fæðingarsveppur var til staðar eða ekki.

Ályktanir: Niðurstöður þessarar rannsóknar leiða í ljós talsverðan mun er varðar mat á framgangi fæðingar milli hefðbundinnar klínískrar skoðunar og mati með ómskoðun. Fósturhöfuð var almennt metið ofar í grind í klínískri skoðun miðað við við ómskoðun. Munur á mati á útvíkkun legháls var í samræmi við fyrri rannsóknir. Ekki fannst nein tenging milli fæðingarsvepps og annara breyta.

Rafrænn aðgangur sjúklinga að eigin sjúkraskrá

Anna María Sigurðardóttir

(Ágrip barst ekki)

Rétt staðsetning barkarennu hjá nýburum: Hagnýt notkun klínískra upplýsinga við áætlun barkarennustaðsetningar Correct Endotracheal Tube Placement in Neonates Arna Ýr Karelsdóttir1, Elín Ögmundsdóttir2 , Þórður Þórkelsson2 1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Barnaspítali Hringsins Inngangur: Barkaþræðing er forsenda þess að hægt sé að veita öndunarvélarmeðferð, sem er algengt form öndunaraðstoðar hjá nýburum. Auk þess má nota barkarennu til að koma lyfjum eða lungnablöðruseyti til lungnanna eða í blóðið. Mikilvægt er að barkarenna sé rétt staðsett til að hámarka virkni og takmarka fylgikvilla, en almennt viðmið er að endi barkarennu skuli vera um það bil miðja vegu á milli raddbanda og barkakjalar (í hæð við fyrsta liðbol brjósthryggjar, T1). Það er hægt að festa barkarennu ýmist við nös eða vör. Á Vökudeild Landspítala hefur verið sú venja að festa hana við nös ef kostur er. Markmið þessarar rannsóknar var að útbúa reiknilíkan til að áætla á áreiðanlegan hátt, út frá klínískum upplýsingum hvar staðsetja skuli barkarennu hjá nýburum við nös annars vegar og við vör hins vegar. Þá var einnig lagt upp með að bera saman nákvæmni þessara tveggja leiða til að festa barkarennu.

Efni og aðferðir: Þýðið samanstóð af öllum börnum sem höfðu verið barkaþrædd og legið á Vökudeild Landspítalans á árunum

2005-2019. Úr Vökudeildarskrá fengust upplýsingar um kyn, meðgöngulengd, fæðingarþyngd, lengd og höfuðummál við fæðingu. Úr gæsluskrám voru sóttar upplýsingar um staðsetningu barkarennu við nös eða vör. Skoðaðar voru röntgenmyndir af börnunum teknar á fyrstu viku lífs og út frá þeim reiknað hversu langt frá barkakili endi barkarennu ætti að vera staðsettur, þ.e. í sömu hæð og T1 og miðað við það var fundið út hvar barkarennan hefði átt að vera fest við nös eða vör. Síðan var gerð línuleg aðhvarfsgreining á þeim breytum sem höfðu línulegt samband við rétta staðsetningu til að smíða reiknilíkanið.

Niðurstöður: Þátttakendur í rannsókninni voru 464 börn, fædd á 23.-42. viku meðgöngu, þar af voru 311 með barkarennu festa við nös (N-hópur) og 153 með barkarennu festa við vör (O-hópur). Meðalfjarlægð frá kjörstaðsetningu í N-hóp var 5,9 mm en 10,6 mm í O-hóp (p<0,01), en í báðum hópum var algengara að barkarenna færi of langt niður en of stutt, auk þess sem meðalfjarlægðin í þá átt var lengri (p<0,01). Allar breytur sem voru skoðaðar höfðu línulegt samband við rétta staðsetningu að kyni undanskildu. Samsett líkön fyrir allar breyturnar fengust með R2=0,8272 (við nös) og R2=0,7365 (við vör). Líkön byggð eingöngu á meðgöngulengd höfðu R2=0,7639 (við nös) og R2=0,5924 (við vör). Öll líkönin gáfu nákvæmari staðsetningu fyrir börn fædd fyrir 28 vikna meðgöngu, en börn fædd eftir 28 vikna meðgöngu.

Ályktun: Niðurstöðurnar benda til þess að barkaþræðing um munn sé ónákvæmari m.t.t. staðsetningar en um nef, en fyrir báðar aðferðir er hættara við því að barkarenna fari of langt en of stutt. Ættu læknar því mögulega að þræða barkarennu styttra en lengra, ef vafi leikur á um það hvort um rétta staðsetningu sé að ræða. Reiknilíkönin eru nákvæmari en þau viðmið sem notuð eru í dag og notkun líkananna gæti orðið til að fækka þeim skiptum þar sem endurstaðsetja þarf barkarennu og dregið úr alvarlegum fylgikvillum tengdum rangt staðsettri barkarennu. Þá er jafnframt hentugt að hafa líkan sem byggir eingöngu á meðgöngulengd, þegar barkaþræða þarf nýbura í bráðaaðstæðum strax eftir fæðingu og aðrar stærðir ekki þekktar. Þó er ekki víst að líkönin gefi góða raun fyrir börn eldri en viku gömul né heldur fyrir mjög stór börn, þar sem rannsóknarhópurinn innihélt bara börn barkaþrædd á fyrstu viku lífs og mjög fá þyngri en 4500g. Association of Lowering Default Pill Counts in Electronic Medical Record Systems With Postoperative Opioid Prescribing After Cardiac Surgery Arnar Einarsson BS1, Alexander S. Chiu MD3 , Makoto Mori MD2, Arianna Kahler-Quesada BS4, Roland Assi MD MMS2, Prashanth Vallabhajosyula MD MS2, Arnar Geirsson MD2 1 Faculty of Medicine, School of Health Sciences, University of Iceland, 2 Division of Cardiac Surgery, Yale School of Medicine, New Haven, CT, USA, 3 Department of Surgery, Yale School of Medicine, New Haven, CT, USA, 4 Yale School of Medicine, New Haven, CT, USA Objective: Overprescribing of opioids has contributed to the opioid epidemic. Electronic medical records (EMR) systems can auto-populate a default number of opioids that are prescribed at time of discharge. The aim of this study was to examine the association between lowered default pill counts with changed prescribing practices after cardiac surgery.

Methods: On May 18 2017, the default number of pills prescribers see in electronic medical records in the Yale New Haven Health System was lowered from 30 to 12. Patients undergoing coronary artery grafts, valve surgeries, and thoracic aortic aneurysm surgeries were included in this study. Data was gathered and stratified in to two groups: One year prior and one year following the default change. The amount of opioid prescribed was compared between the two groups.

Results: A total of 1741 patient charts were reviewed, 832 before the change and 909 after the change. Significant changes were seen in prescribing practices, where the average amount of opioid prescribed was about 25% lower after the change. This amounted to about 15 fewer pills of 5 mg morphine for each patient. A linear regression model adjusting for other factors determined a prescribing difference of 75.2 morphine milligram equivalent (MME) per prescription (p < 0.01). In addition, a significant decrease in opioids prescribed was found for each type of procedure.

Conclusions: Lowering the default opioid pill count in EMRs is a simple intervention that may modify prescribing behavior to promote judicious prescribing of opioids after cardiac surgery.

Getur súrefnismettun í æðum sjónhimnu gefið vísbendingar um orsök vægrar vitrænnar skerðingar?

Ágúst Kolbeinn Sigurlaugsson

(Ágrip barst ekki.) Árangur míturlokuviðgerða vegna hrörnunartengds míturlokuleka á Íslandi 2004-2018 Árni Steinn Steinþórsson1, Martin Ingi Sigurðsson1,2, Tómas Guðbjartsson1,3 1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala, 3Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala Inngangur: Míturlokuviðgerð er þriðja algengasta opna hjartaaðgerðin á Íslandi en árlega eru gerðar á bilinu 10-15 slíkar aðgerðir. Míturlokuleki er algengasta ábendingin og má skipta í annars vegar starfrænan míturlokuleka og hins vegar hrörnunartengdan leka. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna fjölda og árangur míturlokuviðgerða vegna hrörnunartengds leka með áherslu á fylgikvilla og langtímalifun.

Efni og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og náði til 82 sjúklinga (meðalaldur 55 ár, 76% karlar) sem gengust undir míturlokuviðgerð vegna hrörnunartengds leka á Landspítala á tímabilinu 2004 – 2018. Úr sjúkraskrám voru skráðar tæplega 150 breytur, m.a. um fyrra heilsufar og einkenni míturlokulekans. Niðurstöður hjartaómunar fyrir aðgerð voru skráðar sem og helstu aðgerðartengdir þættir. Farið var yfir snemmkomna (< 30 daga) fylgikvilla, bæði alvarlega og minniháttar og reiknuð 30 daga dánartíðni. Árlegur fjöldi aðgerða var aldursstaðlaður skv. upplýsingum frá Hagstofu og poisson-aðhvarfsgreining notuð til að meta breytingar á fjölda þeirra. Langtímalifun var áætluð með aðferð KaplanMeier. Miðgildi eftirfylgdartíma var 6 ár (bil: 0 – 15) og miðaðist við 31.desember 2018.

Niðurstöður: Að meðaltali voru gerðar 6 viðgerðir á ári (bil: 1-12). Algengi snemmkominna fylgikvilla var 65% og 30 daga dánartíðni 2,4%. Alvarlegir fylgikvillar greindust hjá 36,6% sjúklinga og var hjartadrep tengt aðgerð algengast (26,8%) og enduraðgerð vegna blæðingar næst algengast (8,5%). Minniháttar fylgikvillar greindust hjá rúmlega helming (56,1%) sjúklinga og var nýtilkomið gáttatif algengast (28,0%). Miðgildi dvalar á gjörgæslu var 1 [0,5] dagar og heildarlegutími 7 [0,16] dagar. Enginn sjúklingur þurfti að gangast undir enduraðgerð vegna endurkomu míturlokuleka á eftirfylgdartímabilinu. Mánuði eftir aðgerð var lifun 97,6% (95%-ÖB: 94,3-100) og einu ári eftir aðgerð var lifun 97,6% (95%ÖB: 94,3-100), fimm árum eftir aðgerð var lifun 94,8% (95%-ÖB: 90,0-99,9) og eftir 10 ár 88,1% (95%-ÖB:78,3-99,1).

Ályktun: Árangur míturlokuviðgerða vegna hrörnunartengds leka er góður á Íslandi og á pari við árangur á stærri hjarta skurðdeildum erlendis. Almennt farnast sjúklingum vel, bæði með tilliti til fylgikvilla og langtímalifunar (95% 5-ára lifun).

Tíðni enduraðgerða er mjög lág en hafa verður í huga að miðgildi eftirfylgdar er enn aðeins 6 ár.

Arfgerð Íslendinga með arfgenga hrörnunarsjúkdóma í sjónhimnu: Afturskyggn, lýsandi rannsókn með klínískt notagildi Daníel Arnar Þorsteinsson1, Sigríður Þórisdóttir3, Vigdís Stefánsdóttir2, Þór Eysteinsson1,3, Jón Jóhannes Jónsson1,2 1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Erfða- og sameindalæknisfræðideild Landspítala, 3Augndeild Landspítala Inngangur: Arfgengir hrörnunarsjúkdómar í sjónhimnu (AHS) er stór hópur ágengra sjónskerðingarsjúkdóma og eru samanlagt ein aðalorsök fyrir sjónskerðingu/blindu í heiminum. Þeir stafa af breytingum í genum sem eru nauðsynleg fyrir eðlilega virkni í sjónhimnu, sem er sérhæfður ljósnæmur taugavefur í augnbotnum. Sjúkdómsflokkar AHS eru t.a.m. litefnahrörnun í sjónhimnu (RP), Stargardt sjúkdómur, arfgengt sjóntaugamein Lebers (LHON), sjónhimnurof og Usher heilkenni. Markmið rannsóknar var að kortleggja erfðaorsakir AHS á Íslandi, meta árangur í erfðagreiningu þeirra og endurmeta erfðabrigði sjúklinga.

Efni og aðferðir: Rannsóknarúrtak samanstóð af íslenskum AHS sjúklingum, sem höfðu undirgengist klínískt erfðapróf á erfða- og sameindalæknisfræðideild Landspítala (ESD). Alls höfðu 69 sjúklingar farið í erfðapróf á tímabilinu 2004 - mars 2020. Þar af voru 53 á skrá hjá ESD en 16 bættust við, sem fóru framhjá gagnasöfnun á ESD, eftir yfirferð yfir komulista í sjónhimnuritsmælingu á augndeild Landspítala. Listar með ICD10 númerunum H35.5 og Z82.1 frá Landspítala og Sjúkrahúsi Akureyrar og listar frá Þekkingar- og þjónustumiðstöð blindra og Blindrafélaginu voru notaðir til hliðsjónar. Sjúklingar höfðu undirgengist klíníska stökkbreytingaleit í þekktum meingenum fyrir sjúkdóma þeirra. Prófin voru mismunandi víðfeðm eftir próftíma. Útbúinn var gagnabanki með 18 breytum, m.a. niðurstöður erfðarannsókna, upplýsingar um sjúkdóm og lýðupplýsingar. Þýðing erfðabrigða var endurmetin.

Niðurstöður: Um 2/3 sjúklinga voru með erfðaskýringu á sínum sjúkdómi eftir endurmat. Alls fundust 19 meingen í RP sjúklingum, þar af var RLBP1 genið algengast (n=4). Erfðabrigðið c.1073+5G>A í PRPF31 geni er mögulega erfðaorsök fyrir víkjandi RP í íslensku þýði en erfðabrigði í PRPF31 geni eru þekkt fyrir að valda ríkjandi RP sjúkdómi. Algengasta erfðabrigðið í Stargardt sjúklingum var c.768G>T í ABCA4 geni. Eingöngu eitt erfða brigði fannst hjá 30% Stargardt sjúklinga. Erfðabrigðið m.3460G>A í MT-ND1 geni fannst í öllum tilvikum hjá LHON sjúklingum með erfðaskýringu. Sjúklingar með sjónhimnurof voru allir með sömu breytinguna, p.W147X. Meingen í Usher sjúklingum voru ADGRV1 og USH2A.

Ályktun: Erfðaorsakir RP eru fjölbreyttar og verða ekki útskýrðar með landnemaáhrifum. Hins vegar, þar sem samsætutíðni erfðabrigðisins c.1073+5G>A í PRPF31 geni er töluvert hærri hér á landi, þá er mögulegt að um landnemaáhrif fyrir þetta tiltekna erfðabrigði sé að ræða. Einnig gæti sjónhimnurof verið útskýrt með landnemaáhrifum, þar sem p.W147X gæti verið séríslensk breyting. Það er þekkt vandamál að aðeins eitt erfðabrigði finnist hjá um 30% Stargardt sjúklinga, sem samsvarar hlutfallinu hérlendis.

Salmonella sýkingar á Íslandi 2005-2019: Samanburður á sjúklingum með ífarandi sýkingu og iðrasýkingu Daníel Óli Ólafsson1, Magnús Gottfreðsson1 , Hjördís Harðardóttir2, Helga Erlendsdóttir2 1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Sýklafræðideild Landspítala Inngangur: Nýgengi iðrasýkinga af völdum non-typhoidal Salmonella sermisgerða hefur verið metið á heimsvísu sem 93,8 milljónir tilfella á ári og þar af eru um 155.000 dauðsföll en sú tala tekur ekki tillit til ífarandi sýkinga. Markmið þessarar rannsóknar var tvíþætt (1) Að lýsa faraldsfræði Salmonellasýkinga á Íslandi síðastliðin 15 ár. (2) Að kanna hvernig sá hópur sem fær ífarandi Salmonella-sýkingu er frábrugðinn þeim sem fær iðrasýkingu og gefa yfirlit um meðferð sjúklinga og afdrif.

Efniviður og aðferðir: Gögn voru sett saman yfir alla þá sem greindust með Salmonella-sýkingu á Íslandi frá 1. janúar 2000 til 31. desember 2019, skv. gögnum Sýklafræðideildar Landspítala. Úr þessum gögnum var klínískum upplýsingum safnað um blóðsýkta einstaklinga og sýkingarvald þeirra árin 2005-2019 og fyrir hvern slíkan voru tveir einstaklingar með iðrasýkingu paraðir m.t.t. aldurs, kyns og greiningardagsetningar og upplýsingum jafnframt safnað um þá. Gögnin voru skráð í REDcap. Þaðan voru gögnin flutt sem Excelskjal inn í tölfræðiforritið R sem notað var til tölfræðilegrar greiningar.

Niðurstöður: Alls voru 1081 sýni frá 949 einstaklingum greind jákvæð fyrir Salmonella á Íslandi á rannsóknartímabilinu, þar af voru 56 jákvæðar blóðræktanir frá 38 einstaklingum. Nýgengi Salmonella var lægst árið 2010: 10,7/100.000 íbúa og hæst árið 2008: 42,8/100.000 íbúa. Meðaltal nýgengis yfir rannsóknartímabilið reiknaðist sem 19,9/100.000 íbúa. Erlend smit voru um 69% allra smita þar sem uppruni smits var þekktur. Af innlendum smitum reyndist S. Typhimurium vera algengasta sermisgerðin (35,2%) en af erlendum reyndist það vera S. Enteritidis (57,2%). Ónæmi fyrir ampicillíni reyndist 24,8% meðal innlendra stofna en 15,1% meðal erlendra. Þá hafa tilfelli síprófloxacínónæmra Salmonella-stofna fjölgað milli ára á Íslandi. Í sjúklinga- samanburðarrannsókn á blóðsýkingum og iðrasýkingum voru sjúklingar á aldrinum 0-95 ára. S. Napoli ræktaðist í um 2% allra Salmonella-tilfella á rannsóknartímabilinu og reyndist vera sýkingarvaldur í 15,8% tilfella blóðsýkinga sem þýðir að sermisgerðin hefur valdið ífarandi sýkingu í um 32% tilfella. Einkenni iðrasýkinga virðast fyrst og fremst vera niðurgangur (98,6%) en helstu einkenni blóðsýkinga reyndust vera hiti (89,5%), magnleysi/slappleiki (63,2%), kuldahrollur/ skjálfti (34,2%) og höfuðverkir (31,6%). Blóðsýktir sýna einkenni að meðaltali u.þ.b. átta dögum lengur en iðrasýktir. Blóðsýktir einstaklingar fengu sýklalyfjameðferð í 94,7% tilfella og var kefalósporín mest notaða sýklalyfið bæði sem fyrsta (55,3%) og annað lyfjaval (26,3%). Hvað varðar iðrasýkta fengu 40,8% þeirra sýklalyfjameðferð og voru flúorókínólón algengasta fyrsta lyfjaval. Blóðsýktir voru að meðaltali 17,4 sólarhringum lengur á sýklalyfjum en iðrasýktir.

Ályktanir: Nýgengi Salmonella á Íslandi hefur verið talsvert lægra eftir árið 2008 sem mögulega er hægt að útskýra með efnahagskreppunni sem skall á það árið. Ónæmi Salmonella-stofna á Íslandi fyrir sýklalyfjum er áhyggjuefni þar sem um fjórðungur innlendra Salmonella-stofna reyndist ónæmur fyrir ampicillíni og virðist síprófloxacín-ónæmi fara vaxandi yfir rannsóknartímabilið. Innan rannsóknarhópsins voru 5,5% með undirliggjandi illkynja sjúkdóm en þeim einstaklingum var hættara við að fá blóðsýkingu og endursýkingu, því þarf sérstaklega að gæta að þeirra meðferð. Salmonella Napoli olli ífarandi sýkingum í um 32% sýkinga af völdum sermisgerðarinnar en það er töluvert hærra hlutfall en sést hefur í öðrum rannsóknum. Iðrasýktir fengu sýklalyf í 40,8% tilfella sem er hátt hlutfall þegar horft er til þess að ekki hefur verið sýnt fram á gagnsemi slíkrar meðferðar við Salmonella. Þá virðast Salmonella-sýkingar leggjast af meiri þunga á blóðsýkta einstaklinga en iðrasýkta.

Gæðaskráning vélindakrabbameina á Íslandi 2012-2019. Samanburður milli tímabila og við gæðaskráningu í Svíþjóð Einar Daði Lárusson (Ágrip barst ekki)

Virkni inflúensubóluefnis á Íslandi: Árin 2014-2019 Elín Birta Pálsdóttir1, Valtýr Stefánsson Thors1,2, Ásgeir Haraldsson1,2, Íris Kristinsdóttir1 1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Barnaspítali Hringsins Inngangur: Inflúensa er árlegur vágestur sem veldur fjölda sýkinga, mest meðal barna og eldra fólks. Besta forvörnin gegn sýkingu er bólusetning en vegna hæfileika veirunnar til að stökkbreytast þarf að bólusetja árlega. Ár hvert er spáð fyrir um hvaða veirutegundir verða ríkjandi á næsta tímabili og þær síðan notaðar í bóluefni þess árs. Hversu vel tekst til að áætla hvaða veirutegundir verða ríkjandi ræður því m.a. hve góð virkni bóluefnisins verður. Af þessum sökum er virkni bóluefnisins mismunandi ár frá ári og gegn mismunandi veirutegundum. Mikilvægt er að þekkja virknina til að áætla árangur bólusetningarinnar. Markmið rannsóknarinnar var að meta virkni inflúensubólusetninga á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Í rannsóknarúrtakinu voru allir einstaklingar sem vegna gruns um inflúensu áttu sýni fyrir leit að inflúensuveiru á sýkla og- veirufræðideild Landspítalans. Rannsóknartímabilið var fimm inflúensutímabil, frá hausti 2014 til vors 2019. Úr bólusetningagagnagrunni Landlæknis fengust upplýsingar um hvort einstaklingar þýðisins væru bólusettir gegn inflúensu. Virkni bóluefnisins var metin í hópi einstaklinga > 60 ára en í þeim hópi er bólusetning ráðlögð og þekjun ásættanleg. Notast var við „test negative design“ rannsóknarsnið, sem er afbrigði af tilfellaviðmiða rannsókn, til þess að reikna virkni inflúensubóluefnisins. Þeir sem greindust jákvæðir fyrir inflúensu mynduðu hóp tilfella en þeir sem greindust neikvæðir voru hópur viðmiða. Gagnlíkindahlutfall (e. odds ratio, OR) inflúensu var reiknað með því að bera saman hlutfall bólusettra meðal þeirra sem voru sýktir af inflúensu og hlutfall bólusettra meðal þeirra sem ekki voru sýktir af inflúensu. Virkni bóluefnisins (e. vaccine effectiveness, VE) var síðan reiknuð með jöfnunni (1-OR)*100%.

Niðurstöður: Staðfestar inflúensugreiningar á tímabilinu voru 1915, þar af 374 hjá börnum og 768 hjá öldruðum ( > 67 ára) sem eru mikilvægir hópar. Algengasta tegund inflúensu á tímabilinu var inflúensa A H3N2 sem greindist í 1007 tilfellum en 542 tilfelli voru af inflúensu B og 363 tilfelli inflúensu A H1N1pdm09. Virkni inflúensubóluefnisins var best inflúensutímabilið 2016-2017 þegar hún var 36,6% (95%CI:15,3;52,7). Lakasta virknin var inflúensutímabilið 2018-2019 þegar hún var -128,3% (95%CI: -239,6; -53,3). Virkni inflúensubóluefnisins var 29,4% (95%CI: -17,2; 57,6) inflúensutímabilið 2014-2015, -42,8% (95%CI: -146; 16.9) inflúensutímabilið 2015-2016 og -21,6% (95%CI: -63; 9,6) inflúensutímabilið 2017-2018.

Ályktanir: Inflúensufaraldrar á Íslandi eru svipaðir og í nágrannalöndunum. Ljóst er að margir fleiri fá inflúensu þó ekki séu tekin sýni og líklegt að sá hópur sem prófaður er fyrir inflúensu sé með meiri einkenni en aðrir. Ýmsir aðrir þættir geta haft áhrif á sýnatökur. Erfitt er að draga ályktanir um virkni inflúensubóluefna vegna þess hve þýðið var lítið (eingöngu metið fyrir > 60 ára). Af þessum niðurstöðum má þó draga þá ályktun að virkni bóluefnisins sé afar mismunandi milli ára og ekki nægilega góð fyrir þennan aldurshóp. Þessar niðurstöður gefa tilefni til nákvæmari greiningar á virkni inflúensubóluefna til að bæta fyrirbyggjandi aðgerðir gegn útbreiðslu veirunnar.

Pneumókokkar í nefkoki leikskólabarna 20162020. Sýklalyfjanæmi og hjúpgerðir Emil Sigurðarson1, Helga Erlendsdóttir1,2 , Ásgeir Haraldsson1,3 og Karl G. Kristinsson1,2 Læknadeild 1Háskóla Íslands, 2Sýkla- og veirufræðideild Landspítala, 3Barnaspítali Hringsins Inngangur: Pneumókokkar eru algeng orsök öndunarfærasýkinga og geta valdið ífarandi sýkingum. Sýklalyfjaónæmi pneumókokka lækkaði í kjölfar upptöku ungbarnabólusetningar á Íslandi en hefur farið vaxandi undanfarin ár. Börn eru lykil smitberar pneumókokka til annarra aldurshópa.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er yfirstandandi þversniðskönnun. Rannsóknin náði til 2236 barna frá 15 leikskólum á höfuðborgarsvæðinu sem tóku þátt á tímabilinu 2016-2020. Nefoksýni voru tekin árlega í mars. Sýnunum var sáð til ræktunar á pneumókokkum. Hjúpgreining var gerð með Latex-kekkjunarprófi og PCR. Sýklalyfjanæmi var fundið með lyfjaskífum, stuðst við Eucast staðal, og Etest.

Niðurstöður: Berahlutfall var 53%, 1184 sýni voru jákvæð fyrir pneumókokkum, þar af 94 með tvo stofna. Alls ræktuðust 1278 pneumókokka stofnar. Marktæk hækkun var á sýklalyfjaónæmi eftirfarandi sýklalyfja 2016-2020, (p<0,01): erýtrómýsín (12,9 í 38,2%), tetrasýklín (11,8 í 25,2%), klindamýsín (9,3 í 28,2%), trímetóprímsúlfametoxazól (11,5 í 22,1%), fjölónæmi (12,1 í 26,0%), minnkað penisillín næmi (18.8 í 58,0%). Aukning var á algengi hjúpgerðar 6C á tímabilnu 13,8 í 22,1% (p<0,01), og aukning á minnkuðu penisillín næmi þeirrar hjúpgerðar 32,7 í 75,9% (p=0,018). Aukning var á algengi hjúpgerðar 35B á tímabilinu úr 0,6 í 6,9% (p<0,001), minnkað penisillín næmi og erýtrómýsín ónæmi var hvort um sig 82%. Fjölónæmi var algengt hjá hjúpgerðum 6C (46,3%) og 15A (74,4%). Það var einnig algengt hjá hjúplausum stofnum (54,9%).

Ályktanir: Sýklalyfjaónæmi pneumókokka í nefoki barna sem fór minnkandi er að aukast aftur. Mikilvægt er að huga að sýklalyfjanotkun barna, fylgjast með faraldsfræði og sýklalyfjanæmi pneumókokka. Meta þarf hvaða hjúpgerðir eru að valda aukningu á sýklalyfjaónæmi og sjúkdómsbyrði á Íslandi.

Eggjastokkahormón og kæfisvefn Erla S. Sigurðardóttir1, Þórarinn Gíslason1,2 , Bryndís Benediktsdóttir1,3 og Kai Triebner4,5 1Faculty of Medicine, University of Iceland, Reykjavík, Iceland; 2 Department of Sleep, Landspitali University Hospital, Reykjavík, Iceland; 3Faculty of Medicine, University of Iceland, Reykjavík, Iceland; 4Department of Clinical Science, University of Bergen, Bergen, Norway; 5Core Facility for Metabolomics, University of Bergen, Bergen, Norway Inngangur: Kæfisvefn er svefnháð öndunartruflun sem er algengari meðal karla en kvenna en sá munur dvínar með hækkandi aldri kynjanna. Orsakir þessa eru ekki fyllilega þekktar en skýringa mætti leita í hormónabúskap. Faraldsfræðilegar rannsóknir sýna aukningu í algengi kæfisvefns hjá konum eftir tíðahvörf. Þar að auki hafa rannsóknir sýnt fram á verndandi áhrif estrógena og prógesteróns í ferlum er koma að meinmyndun kæfisvefns.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin tók til 774 konu sem tók þátt í annarri eftirfylgd ferilrannsóknarinnar ,,Evrópurannsóknin Lungu og Heilsa” (e. ,,European Respiratory Health Survey” (ECRHS)). Tvíkosta aðhvarfsgreiningalíkani (e. logistic regression) var beitt til að kanna samband estrógena og prógesteróna við kæfisvefnseinkenni. Kvenhormónin (log-umbreyttum í grunni tveimur) voru mötuð inn í líkönin sem skýribreytu með föstum hópi hlutabreyta: BMI, aldri, menntunarstigi, rannsóknarmiðstöð, reykingarvenjum og frjósemisaldri kvenna. Frjósemisaldur kvenna var metinn með stærðfræðilegum aðferðum út frá aldri, reykingarvenjum, fjölda eggjastokka og fjölda blæðinga síðastliðið ár. Rannsóknin hefur hlotið leyfi vísindasiðanefndar VSN 11-121.

Niðurstöður: Tvöföldun í plasmastyrk estróns og prógesteróns voru tengd 19% og 8% lægri gagnlíkindum á hrotum (Gagnlíkindahlutfall(GH): 0.81 , 95% öryggisbil(ÖB): 0.67-0.97 og GH: 0.91, 95%ÖB: 0.83-1.00). Tvöföldum í plasmastyrk 17β-estradíols, estróns og estrón 3-súlfats var tengt lægri gagnlíkindum á óreglulegri öndun í svefni (GH: 0.82, 95%ÖB: 0.71-0.95, GH: 0.77, 95%ÖB: 0.59-0.99 og GH: 0.83, 95%ÖB: 0.70-0.98). Önnur tengsl voru ekki marktæk.

Ályktanir: Niðurstöður benda til þess að hærri plasmastyrkur estrógena og prógesteróns tengist lægri gagnlíkindum á því að greina frá hrotum og óreglulegri öndun.

Delivery Care at Mangochi District Hospital, Malawi Eygló Dögg Ólafsdóttir1, Olive Munthali2 , Geir Gunnlaugsson3 1Faculty of Medicine, University of Iceland, 2 Mangochi District Hospital, Malawi, 3 Faculty of Sociology, Anthropology and Folkloristics, University of Iceland. Introduction: Maternal mortality is a significant disease burden in many countries. Despite global progress, it in unevenly spread with sub-Saharan Africa particularly lagging behind. The Sustainable Development Goal 3.1 aims for maternal mortality ratio (MMR) reduction to less than 70 maternal deaths per 100,000 live births, and all deliveries to be assisted by skilled birth attendants (SBA). The aim of this study was to identify key challenges in labour and delivery care in a low-income sub-Saharan setting.

Methods: The study was conducted in Mangochi District, Malawi. It included participant observation to better understand the setting of delivery care in the district, in particular at the new maternity wing at the Mangochi District Hospital (MDH) which was inaugurated in January 2019. The Health Management Information System (HMIS) in Malawi provided district level maternity care data for the years 2015-2019. Two additional datasets were created based on registration books in the labour ward and its surgical theatre at MDH. These include all delivery services at MDH from 19 February to 17 March 2020. Interviews were conducted with eight staff members at the maternity wing. The data were analysed in RStudio and the Mangochi Health Research Committee granted the study a permission.

Results: From 2015 to 2019, on average about two out of three deliveries in Mangochi District took place in health facilities; the Caesarean-section (C-section) rate was 4%. A quarter of the district’s institutional deliveries and nearly two thirds of the district’s C-sections took place at MDH. Institutional MMR in the district decreased from 162 to 64 per 100,000 live births in the period. MDH registers annually on average 34 maternal deaths. During the data collection period in 2020, 797 women received delivery care at MDH; 27 of the women had delivered before admission out of whom just less than one third delivered by SBA. All women who delivered at MDH were assisted during the delivery with SBA. Out of all admissions, 18% had obstetric complications and 6% received emergency obstetric care; about one in five of deliveries at MDH were C-sections. Nine out of 10 operations at the maternity wing were C-sections and 97% of the operations were emergencies. Overall, the staff were happy with the new facility, staffing had improved, and patients were better accommodated. However, having only one surgical theatre caused delays for C-sections. Further, lack of equipment was reported as well as deficient maintenance, especially for anaesthesia. Supply of drugs and single use items was also often reported as insufficient and unaccountable. Although teamwork was good and staffing had improved, there was still shortage of anaesthetists, Clinical Officers, and nurses.

Conclusion: To decrease maternal mortality rate still further in Mangochi District, SBA needs to be improved with better and timely access to C-sections. While the new maternity wing at MDH was a quality improvement in delivery services, the option for a second theatre should be considered, coupled with improved maintenance, better staffing and stable supply of equipment and drugs to further decrease maternal mortality ratio in Mangochi District. These results may have implications for other similar settings.

Sýkingar eftir þræðingaraðgerðir á Landspítala 2014 – 2019: Bjargráður, gangráður og TAVI Gyða Jóhannsdóttir, Már Kristjánsson, Kristján Orri Helgason, Hjörtur Oddsson, Ragnar Danielsen, Ingibjörg Jóna Guðmundsdóttir Tilgangur: Ósæðarlokuþrengsl má meðhöndla með ísetningu á hjartaloku með þræðingartækni (TAVI) og takttruflanir með gang- (PM) eða bjargráðum (ICD). Sýkingar í slíkum tækjum eru alvarlegar. Markmið rannsóknarinnar var að kanna tíðni, greiningu og meðhöndlun sjúklinga með sýkingar eftir TAVI-, PM- og ICD-aðgerðir á Landspítala.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og náði til allra sjúklinga sem greindust með sýkta hjartaþelsbólgu (IE) eða sýkingu eftir TAVI-, PM- eða ICD-aðgerð á Landspítala frá 1. janúar 2012 til 30. júní 2020. Upplýsingar fengust úr sjúkraskrám.

Niðurstöður: Af 2616 PM-sjúklingum voru 24 greindir með staðfesta sýkingu og tveir með mögulega (79% karlar, meðalaldur 76 ár). Af 515 ICD-sjúklingum voru 11 greindir með staðfesta sýkingu og tveir með mögulega (65% karlar, meðalaldur 64 ár). Nýgengi sýkinga var 0,95% (PM) og 2,7% (ICD). Algengustu bakteríurnar voru S. aureus (27%, PM) og S. epidermidis (29%, ICD). Sjúklingar fóru bæði í hjartaómun í gegnum framvegg (TTE) og vélinda (TEE) í 52% (PM) og 31% (ICD) tilvika.

Af 194 TAVI-sjúklingum voru fimm greindir með staðfesta sýkingu og tveir með mögulega (71% karlar, meðalaldur 80 ár). Nýgengið var 4,7 og nýgengitíðnin 2,5 tilfelli á hver 100 lokuár. Algengasta bakterían var S. aureus (43%). Ef grunur lék á IE eftir TAVIaðgerð (PVE) voru í 13% tilvika tekin þrjú sett eða fleiri í blóðræktun og 40% sjúklinga fóru bæði í TTE og TEE. Yfir meðallegu (38 dagar) fóru sjúklingar í tvær hjartaómanir. Í 40% tilvika var blóðræktun ekki fullnægjandi til notkunar á breyttum skilmerki Dukes.

Ályktun: Nýgengi sýkinga er lágt (PM), hátt (ICD) eða sambærilegt (TAVI) hér á landi samanborið við erlendar rannsóknir. Nýgengitíðnin er hærri nema fyrir fyrstu ísetningu (PM), þá er hún lægri. Greining sýkinga, sérstaklega PVE, eftir þræðingaraðgerðir er ábótavant. Samræmt verklag gæti bætt greiningu og meðferð.

Bygging innri eyru langreyðar. Samanburður byggingar innra eyra hvala og manna með tilliti til sjóveiki. Halla Kristjánsdóttir (Ágrip barst ekki)

Áhrif þolþjálfunar á öndun og öndunarmunstur hjá heilbrigðum einstaklingum (ISO samanburður) Hákon Örn Grímsson (Ágrip barst ekki)

Áhrif notkunar vankómýsíns og amínóglýkósíða hjá börnum á nýrnastarfsemi Helga Katrín Jónsdóttir1, Arnar Jan Jónsson3, Ásgeir Haraldsson1,2, Þórunn Óskarsdóttir3, Viðar Örn Eðvarðsson1,2 , Valtýr Stefánsson Thors1,2 . 1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Barnaspítali Hringsins, 3Lyflækningaeining Landspítala Inngangur: Vankómýsín og amínóglýkósíð eru reglulega notuð sýklalyf hjá börnum sem meðferð við alvarlegum sýkingum. Eitrunaráhrifum hefur verið lýst af báðum þessum lyfjum og er bráður nýrnaskaði (BNS) algengastur. Ekki er vitað hvort notkun lyfjanna auki hættu á langvinnum nýrnasjúkdómi (LNS).

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og tók til allra sjúklinga utan nýburagjörgæslu sem fengu vankómýsín eða amínóglýkósíð á Barnaspítala Hringsins frá 1. janúar 2012 til og með 31. desember 2019. Upplýsingar fengust frá vöruhúsi gagna á Landspítala og úr Heilsugátt Landspítala. Notast var við KDIGO (Kidney Disease: Improving Global Outcomes) skilgreininguna til að meta og flokka BNS og við mat á LNS var notast við CKiD (Chronic Kidney Disease in Children) bedside jöfnuna til að ákvarða reiknaðan gaukulsíunarhraða.

Niðurstöður: Á rannsóknartímabilinu fengu 470 einstaklingar vankómýsín eða amínóglýkósíð á Barnaspítala Hringsins. Af þeim fengu 72 BNS á tímabilinu innan við sjö

dögum eftir sýklalyfjagjöf, þar af 31 (43,1%) á stigi 1, 16 (22,2%) á stigi 2 og 25 (34,7%) á stigi 3. Tilfellum BNS fækkaði og hlutfall BNS tilfella lækkaði eftir því sem leið á tímabilið. Meðalaldur sjúklinga sem fengu BNS (6,5 ár) var hærri en hjá sjúklingum sem fengu ekki BNS (3,8 ár). Meðferðarlengd og fjöldi skammta vankómýsíns var marktækt hærri hjá þeim einstaklingum sem fengu BNS (10,9 dagar og 33,6 skammtar) en hjá þeim sem fengu ekki BNS (3,9 dagar og 14,3 skammtar), p<0,003. Einnig reyndist meðferðarlengd og fjöldi skammta gentamísíns marktækt hærri hjá þeim einstaklingum sem fengu BNS (3,4 dagar og 7,0 skammtar) samanborið við þá sem fengu ekki BNS (1,8 dagar og 4,1 skammtur), p<0,001. Eftir 3 mánuði var BNS genginn til baka hjá 77% sjúklinga. Algengi undirliggjandi sjúkdóma var hærra hjá sjúklingum með BNS og voru tengsl milli þeirra og vaxandi alvarleika nýrnaskaðans. BNS sjúklingar voru marktækt líklegri til að hafa fengið krabbameinslyf, ACEi eða ARB hemla og NSAID lyf. Enginn greindist með LNS eftir gjöf vankómýsíns eða amínóglýkósíða. Átta sjúklingar með þekktan LNS fengu þó vankómýsín eða amínóglýkósíð á rannsóknartímabilinu og 1 þeirra fékk einnig BNS á tímabilinu eftir vankómýsíngjöf.

Ályktanir: Rúm 15% þátttakenda fengu BNS í tengslum við rannsóknarlyfin á rannsóknartímabilinu. BNS tilfellum hjá börnum fækkaði á rannsóknartímabilinu í samræmi við færri vankómýsín- og amínóglýkósíðmeðferðir. BNS virðist síður leggjast á yngstu börnin og eykst algengi og alvarleiki BNS með hækkandi aldri. Heildarskammtur, meðferðarlengd og skammtafjöldi vankómýsíns og gentamísíns var hærri hjá þeim sem fengu BNS. Notkun krabbameinslyfja, ACEi/ARB-hemla og NSAID lyfja virðast auka áhættu á BNS. Enginn greindist með LNS eftir töku sýklalyfjanna á rannsóknartímabilinu. Með gætilegu vali á þörf, nánu eftirliti með skömmtum og meðferðarlengd þessara sýklalyfja má minnka áhættu á BNS sem myndi án efa vera íslensku heilbrigðiskerfi til framdráttar.

Bráður nýrnaskaði í kjölfar bæklunarskurðaðgerða 2006-2018. Nýgengi, áhættuþættir og horfur sjúklinga Helga Þórsdóttir1, Ólafur Skúli Indriðason1,3, Runólfur Pálsson1,3, Martin Ingi Sigurðsson1,2 1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Svæfinga-og gjörgæsludeild, 3Lyflækningasvið Landspítalans Inngangur: Bráður nýrnaskaði (BNS) er skyndileg skerðing á nýrnastarfsemi sem getur komið upp í kjölfar skurðaðgerða, bráðra veikinda eða annarra inngripa. BNS er algengt vandamál bæði innan og utan spítala, og eykst hættan með hækkandi aldri. Tilkoma BNS tengist aukinni tíðni fylgikvilla, lengri sjúkrahúsdvöl og verri skammtíma- og langtímalifun. Bæklunarskurðaðgerðir, hvort sem um er að ræða bráða- eða valaðgerðir, eru oft framkvæmdar á eldra fólki með margþættan heilsufarsvanda sem er í aukinni áhættu á að fá fylgikvilla eins og BNS. Markmið þessarar rannsóknar var að reyna að varpa ljósi á umfang BNS í kjölfar bæklunarskurðaðgerða á rannsóknartímabilinu, hverjir eru áhættuþættir fyrir tilkomu BNS og hverjar eru horfur sjúklinga sem fá BNS.

Efni og aðferðir: Rannsóknin var afturvirk ferilrannsókn sem náði til allra bæklunarskurðaðgerða sem fram fóru á Landspítala á tímabilinu 2006-2018 hjá einstaklingum 18 ára og eldri. Skilyrði var að til væru kreatínínmælingar fyrir og eftir aðgerð og samanstóð því rannsóknarhópurinn af 3208 aðgerðum. Rannsóknargagnagrunnur verkefnisins var unninn úr samtals 7 gagnasöfnum, sem innihéldu margvíslegar upplýsingar um sjúklingana og aðgerðirnar. Munur á milli hópanna, það er þeirra sem fengu BNS og ekki á tímabilinu, var skoðaður með einbreytugreiningum. Gerð var Poisson aðhvarfsgreining til að kanna nýgengið á rannsóknartímabilinu og logistísk aðhvarfsgreining til að meta áhættuþætti fyrir bráðum nýrnaskaða. Kaplan-Meier lifunargraf var teiknað upp til að bera saman lifun sjúklinga, bæði skammtíma- og langtímalifun. Að auki var gerð cox proportional aðhvarfsgreining til að kanna hvort tilkoma BNS væri sjálfstæður áhættuþáttur verri lifunar þegar leiðrétt hefði verið fyrir öðrum þáttum sem aðgreina hópana.

Niðurstöður: Á rannsóknartímabilinu greindust alls 222 tilfelli af BNS eða 6,9% af heildarþýðinu, og var meðalaukning í nýgengi BNS 17% milli ára á tímabilinu. Þeir áhættuþættir sem tengdust auknum líkum á því að fá BNS í kjölfar bæklunarskurðaðgerða voru hækkandi aldur, karlkyn og skert nýrnastarfsemi fyrir aðgerð. Óleiðrétt lifunargreining sýndi að bæði skammtíma- og langtímalifun sjúklinga sem fengu BNS var marktækt verri. Þeir þættir sem höfðu marktæk áhrif á líkurnar á dauða í kjölfar bæklunarskurðaðgerðar voru BNS, aldur, kyn, alvarlegasta stig nýrnaskerðingar fyrir aðgerð (eGFR<15), ef sjúklingar fóru í bráðaaðgerð, ASA-skor III og IV, Elixhauser stuðull yfir 8 og hátt hrumleikastig

Ályktanir: Aukning hefur orðið í nýgengi BNS í kjölfar bæklunarskurðaðgerða. Bráður nýrnaskaði tengist marktækt verri skammtíma- og langtímahorfum, og BNS tengist auknum dánarlíkum jafnvel þó leiðrétt sé fyrir öðrum þáttum eins og skertri nýrnastarfsemi. Mögulega gagnast sjúklingum í aukinni áhættu á BNS þéttara eftirlit til greiningar og eftirfylgdar BNS.

Ungbarnadauði á Íslandi 1989-2018 Hera B. Jörgensdóttir1, Ragnheiður I. Bjarnadóttir1,2, Ragnhildur Hauksdóttir1,2 , Þórður Þórkelsson1,3 1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Kvennadeild Landspítala, 3Barnaspítali Hringsins Inngangur: Miklar framfarir hafa orðið hér á landi á undanförnum áratugum varðandi heilsu og lifun ungbarna. Tíðni ungbarnadauða er einna lægst á Íslandi borið saman við önnur lönd á heimsvísu. Markmið rannsóknarinnar var að kanna tíðni og orsakir ungbarnadauða á 30 ára tímabili, frá 1989 til ársins 2018. Áhersla var lögð á að skoða breytingar á nýgengi andláta eftir orsökum þeirra yfir tímabilið. Seinustu ár hefur nýgengi ungbarnadauða haldist í kringum 2 á hver 1000 lifandi fædd börn og spurningin er hvort, og þá hvernig, mætti gera betur.

Efni og aðferðir: Framkvæmd var afturskyggn og lýsandi rannsókn fyrir tímabilið 1989-2018. Gögnum var safnað frá Vökudeildarskrá, Fæðingaskrá Embættis landlæknis, Hagstofu Íslands og Sögukerfinu. Ungbarnadauði var skilgreindur sem andlát barns á fyrsta aldursári. Nýgengi var reiknað sem fjöldi dauðsfalla á hver 1000 lifandi fædd börn ár hvert og rannsóknartímabilinu skipt upp í þrjú 10 ára tímabil, það er tímabil 1 (1989-98), 2 (1999-2008) og 3 (2009-18). Teknar voru saman dánarorsakir og flokkaðar eftir ICD-10 flokkunarkerfinu í 10 yfirflokka, það er kvillar með upphaf á burðarmálsskeiði, meðfæddar vanskapanir og litningafrávik, illa skilgreindar orsakir, smit- og sníklasjúkdómar, æxli, innkirtla-, næringar- og efnaskiptasjúkdómar, sjúkdómar taugakerfis og skynfæra, sjúkdómar blóðrásarkerfis, sjúkdómar meltingarfæra og ytri orsakir. Eftir meðgöngulengd var börnunum flokkað í fullburða (> 37 vikur), síðfyrirbura (32-36 vikur), mikla fyrirbura (28-31 vika) eða ákaflega mikla fyrirbura (< 28 vikur).

Niðurstöður: Nýgengi ungbarnadauða á Íslandi lækkaði marktækt milli 1. og 2. tímabils úr 5,04 í 2,43 og hefur síðastliðinn áratug verið í kringum 2 eða 1,87 á 3. tímabili. Yfir allt rannsóknartímabilið voru 412 dauðsföll og af þeim voru 209 vegna kvilla með upphaf á burðarmálsskeiði. Lækkun á nýgengi burðarmálskvilla sem dánarorsök var marktæk milli allra tímabila. Undir þessum flokki voru algengustu dánarorsakirnar fyrirburaskapur og vanþroski. Tilfelli andláta vegna fyrirburaandnauðar voru á miklu

undanhaldi en hækkun varð á nýgengi garna- og ristilbólgu með drepi (NEC), í samræmi við fjölgun á fæðingu fyrirbura. Næstalgengasta orsök voru meðfæddar vanskapanir, 87 tilfelli, og af þeim voru meðfæddir hjartagallar flestir. Nýgengi meðfæddra heilagalla hækkaði á meðan nýgengi litningaþrístæðu sem dánarorsök dróst alveg saman á 3. tímabili. Fjöldi tilfella vöggudauða lækkaði úr 26 tilfellum í 9 milli 1. og 3. tímabils.

Ályktanir: Marktæk lækkun hefur orðið á ungbarnadauða hér á landi síðustu þrjá áratugina og er nýgengið eitt það lægsta í heiminum. Í ljósi þess hve nýgengið er lágt er erfitt að meta breytingar á nýgengi eftir dánarorsökum. Niðurstöður benda þó til þess að vert sé að fylgjast vel með nýgengi vandamála sem eru algeng dánarorsök meðal fyrirbura, eins og NEC. Fækkun dauðsfalla vegna litningagalla og fæðingargalla má vafalítið rekja til framfara er varða fósturskimun. Þrátt fyrir lækkað nýgengi vöggudauða þá mætti í framtíðinni rannsaka betur raunverulegar orsakir þeirra dauðsfalla og skoða hvort fyrirbyggja megi slík dauðsföll. Meðfram þeim breytingum þarf alltaf að hafa í huga þá siðferðilegu umræðu um að útrýma ekki genabreytileika sem ekki er banvænn. Ísland er greinilega verðugt fordæmi þegar kemur að lágum ungbarnadauða og athugavert verður að fylgjast með breytingum sem gætu orðið hér á landi næstu ár og áratugi.

Brot í nökkvabeini greind á bráðamóttöku Landspítalans árin 2015-2019 Hilmir Gestsson (Ágrip barst ekki)

Recurrence of Uterine Leiomyomas, Adhesions and Dehiscence Post Myomectomy at Time of Cesarean Section Hjördís Ásta Guðmundsdóttir, Jón Ívar Einarsson Introduction: Uterine leiomyomas are the most common tumor in patients with a uterus of reproductive age. They present a major public health problem due to their high frequency, incidence, morbidity and affect on fertility. Currently, leiomyoma recurrence rate is of debate and pelvic adhesions post myomectomy, their surgical removal, are defective. The aim of this retrospective cohort study was to better understand and describe recurrence of uterine fibroids, formation of pelvic adhesions and uterine dehiscence in patients that had an abdominal (AM) versus laparoscopic (LM) or robotic-assisted laparoscopic myomectomy (RALM) at a time of subsequent cesarean section (CS).

Methods: This was a retrospective chart review at Brigham and Women’s Hospital and Partners Hospitals with a history of myomectomy cases from January 1st 2009 through December 31st 2016 and a subsequent CS. Recurrence of leiomyoma, pelvic adhesions and uterine dehiscence noted in CS operation reports were recorded.

Results: A total of 352 cases were initially included. Of the 352 cases identified, 47 met the exclusion criteria. The 305 remaining cases included 290 cesarean sections and 16 vaginal deliveries. There were 48 (63.2%) and 68 (29.7%) patients with pelvic adhesions in the AM and LM/RALM (p-value <0.001), respectively, demonstrating statistically less adhesiogenesis in the LM/RALM group. Uterine dehiscence was observed in 21 (6.9%) of 305 cases with five (6.6%) and 16 (7.0%) cases in the AM and LM/RALM groups, respectively. (p=0.868). Estimated blood loss (EBL) differed by type as mean EBL was 957.3(432.4)mL in the AM group and 790.5(332.7)mL in the LM/RALM group (p=0.001). Recurrence of fibroids occurred in 105 (33.43%) of the 305 patients included in the study, thereof were 33 (43.4%) and 72 (31.4%) patients in the AM and LM/RALM group (p=0.07), respectively. If the number of previously removed leiomyomas were not accounted for, the study found LM/RALM to have a lower OR=0.611 of recurrence, compared to AM (p=0.0716). Accounting for the myoma number changed the OR=1.989 (p=0.0801), pointing to the number of leiomyomas removed in prior myomectomy to make a significant difference. The change in OR for each leiomyoma removed, OR=1.13. Regression analysis of the data demonstrated that compared to AM, recurrence of leiomyomas was positively associated with LM/RALM (OR 2.325, 95% CI 1.042-5.19), in a statistically significant fashion. Furthermore, pelvic adhesions were found to be negatively associated with LM/RALM (OR 0.289, 95% CI 0.12-0.72).

Conclusion: The study found that at time of a subsequent cesarean section, patients with a history of laparoscopic or roboticassisted laparoscopic myomectomy were positively associated with a recurrence of uterine leiomyomas (OR 2.325, 95% CI 1.042-5.19) when adjusted for confounding variables, and negatively associated with pelvic adhesions (OR 0.289, 95% CI 0.12-0.72)., compared to abdominal myomectomy.

Neonatal Care in Mangochi District Hospital, Malawi Ingunn Haraldsdóttir1, Bob Milanzi Faque2 , Þórður Þórkelsson1,3, Geir Gunnlaugsson4 1Faculty of Medicine, University of Iceland, 2Mangochi District Hospital, Malawi, 3Children’s Hospital, Reykjavík, Iceland and 4Faculty of Sociology, Anthropology and Folkloristics, University of Iceland Introduction: In 2018, globally 18 infants out of 1,000 live births died in their first 28 days of life, the neonatal period. Neonatal mortality has reduced substantially during the last decades, as it was 33 deaths per 1,000 live births in 1990. However, 99% of neonatal deaths take place in low- and middle-income countries. Neonatal deaths are predominantly due to preterm birth and intra-partum complications, 80% happen during the first week of life. One of the United Nations Sustainable Development Goals is to reduce neonatal mortality to at least 12 per 1,000 live births, by the year 2030. Current trends suggest that over 60 countries will miss this target. This study aims to identify some key problems in neonatal care and how the services can be improved in a hospital in a sub-Saharan country.

Methods: Data were collected at the nursery department of Mangochi District Hospital in Malawi, where a new maternity wing, along with a nursery, opened in January 31, 2019. Study group I included information on admission, diagnosis and outcome of all neonates, admitted in the nursery registry book during the period July 1, 2018 to December 31, 2019. Comparison of admission rate was made between the Old and the New nursery, using a binomial test and the survival rate was compared by using a chi-square test. The number of admissions in Study group I were 2,368. Study group II included information on admission, diagnosis, treatment and outcome of all neonates admitted in the nursery in the period February 20, 2020 to March 11, 2020. Study group II consisted of 149 neonates. Furthermore, interviews were conducted with four health care providers working at the nursery, during the period, March 12-14, 2020.

Results: In Study group I, there were 625 newborn admissions at the Old nursery and 1,743 at the New nursery. There were missing values for all variables, but most for gestational week, length of stay and outcome (40-80%), and usually higher in the Old nursery. Survival rate increased significantly in the New nursery, compared to the Old one (82.9% vs. 87.6%, p=0.0039). There was also a significant change in average monthly admissions, where admissions more than doubled (86.4 vs. 177.4, p<0.001). In Study group II, more than two-thirds were admitted during their first day of life. Birth asphyxia was the most common condition, diagnosed in almost half of the neonates. More than 20% died in the nursery. In interviews with the staff, shortage of staff and heavy workload were mentioned as main challenges at the workplace. Further, improvement in

monitoring of infants and management of data at the New nursery compared to the Old one, was reported.

Conclusion: Survival of neonates improved significantly, demonstrating improvements in the neonatal care by inauguration of a New nursery. Despite a decrease of missing data in the New nursery compared to the Old one, lack of registration and storage of data is still a major problem. Increase in admissions following the inauguration of the New nursery indicates that more women seek hospital service in MDH at delivery. Yet, for quality improvement, the health workforce gap must be addressed, coupled with improved monitoring of sick neonates and appropriate equipment and drugs, for further success towards the fulfillment of the Sustainable Developmental Goals.

Ketónblóðsýring og flæðispennudá á Landspítala 2000-2019 Jóhannes Gauti Óttarsson1, Rafn Benediktsson1,2 , 1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Landspítali háskólasjúkrahús Inngangur: Sykursýki er langvinnur efnaskiptasjúkdómur sem einkennist af insúlínskorti, insúlínvið-námi eða hvoru tveggja sem leiðir til blóðsykurhækkunar. Ketónblóðsýring (DKA) og flæðispennudá (HHS) eru bráðir og lífshættulegir fylgikvillar sykursýki og orsakast af algjörum (DKA) eða hlutfallslegum (HHS) insúlínskorti ásamt mismikilli hækkun mótvægishormóna. Ýmsir þættir geta ýtt undir DKA og HHS, einkum sýkingar og slæm meðferðarheldni. Erlendar faraldsfræðirannsóknir staðfesta breytileika í nýgengi og algengi DKA og HHS en faraldsfræði DKA og HHS á Íslandi er óljós.

Markmið: Að kanna tíðni innlagna vegna DKA og HHS á Landspítala (LSH) á árunum 2000-2019 í tengslum við aldur, kyn, búsetu, lyfjameðferð, tegund sykursýki, nýgreiningu sykursýki, lengd innlagnar og hvort sömu sjúklingar voru ítrekað að lenda í DKA eða HHS. Þá var gert að kanna fyrstu mælingar innlagðra vegna DKA og HHS.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn. Listi sjúklinga með ICD-10 greiningar E10-E14 (.0, .1) á árunum 20002019 fékkst með aðstoð heilbrigðis- og upplýsingatæknideildar. Að gefnu leyfi Vísindarannsóknanefndar heilbrigðisrannsókna á Landspítala og Siðanefndar heilbrigðisrannsókna á Landspítala voru upplýsingar um sjúklinga og meðferð þeirra fengnar úr sjúkragögnum.

Niðurstöður: Alls voru 408 innlagnir 245 sjúklinga (143 karlar, 103 konur) vegna DKA og 21 innlögn 16 sjúklinga (12 karlar, 4 konur) vegna HHS. Að meðaltali voru 20,5 tilfelli DKA meðal 12,3 sjúklinga á ári og 1,1 tilfelli HHS meðal 0,8 sjúklinga á ári. Hlutfall innlagna karla (52,0%) og kvenna (48,0%) var svipað vegna DKA. Karlar voru í meirihluta innlagna vegna HHS (71,4%). Meðal tilfella DKA voru 83,1% sjúklinga með SS1 og 71,4% með SS2 meðal tilfella HHS. Nýgreind sykursýki við innlögn vegna DKA var í 23,5% tilfella og var algengasta aldursbil innlagðra vegna DKA 11-15 ára (17,9%) og 61-65 ára vegna HHS (28,6%). Sjúklingar lögðust inn á gjörgæslu í 48,7% tilfella. Meðalaukning tilfella DKA 2008-2019 var 10,6%. 0-4 tilfelli HHS voru á ári 2008-2019. Meðallegulengd yfir tímabilið var 4,33 dagar; 4,00 dagar árið 2000 og 6,13 dagar árið 2019. Meðaltal HbA1c meðal tilfella DKA (10,4%) og HHS (10,0%) var hærra en meðaltal HbA1c á göngudeild sykursjúkra 2015-2020 (8,4%).

Ályktun: Aukning var á fjölda tilfella DKA 2008-2019. Engin marktæk breyting sást í fjölda innlagna vegna HHS 2008-19. Eins og erlendar rannsóknir hafa sýnt virtust konur líklegri til að lenda endurtekið í DKA og voru að meðaltali yngri en karlar. Meðallegulengd hækkaði yfir tímabilið, gagnstætt erlendum rannsóknum. Verri sykurstjórn (hátt HbA1c) var sjáanleg meðal innlagðra í samanburði við meðaltal af göngudeild sykursjúkra. Helsti veikleiki rannsóknarinnar var skortur á gögnum 2000-2007. Mikilvægt er að koma af stað íslenskri þjóðskráningu um sykursýki líkt og á öllum Norðurlöndum til að fá betri yfirsýn yfir sykursjúka á Íslandi, geta metið hvaða undirhópar virðast útsettari fyrir fylgikvillum og skapa aðgengilegri grunn fyrir faraldsfræðirannsóknir sykursýki á Íslandi í framtíðinni.

Algengi áhættuþátta og tengsl þeirra við fylgikvilla eftir valkvæðar liðskiptaaðgerðir á Íslandi Jón Gunnar Kristjónsson1, Martin Ingi Sigurðsson1,2, María Sigurðardóttir2 1Háskóli Íslands, 2Landspítali háskólasjúkrahús Inngangur: Helsta orsök liðskipta er slitgigt, sem er liðsjúkdómur sem talinn er orsakast af álagi og áverkum á liðinn en er viðhaldið með bólgu- og viðgerðarsvari. Lokastig meðferðar við slitgigt eru liðskipti sem hafa í för með sér sjaldgæfa en alvarlega fylgikvilla. Mögulega er unnt að hafa áhrif á áhættuþætti fylgikvillanna til að bæta útkomu aðgerðanna. Líklegt er að með hækkandi meðalaldri þjóðarinnar verði biðlisti eftir liðskiptaaðgerðum á Landspítalanum langvarandi, en tímann á biðlistanum má nota til að bæta árangur aðgerðarinnar.

Markmið: Að kanna tíðni áhættuþátta fylgikvilla og tengsl þeirra við sýkingar eftir valkvæðar liðskiptaaðgerðir.

Efni og aðferðir: Alls var 706 einstaklingum sem undirgengust valkvæð liðskipti á hné eða mjöðm á Landspítalanum fylgt eftir. Heilsufar sjúklinga var metið fyrir aðgerð með spurningalista, blóðprufum og lífmælingum ásamt því að glúkósi var mældur í blóði sjúklinga eftir aðgerð. Loks var upplýsingum um tíðni fylgikvilla safnað við sex vikna endurkomu. Fylgni fylgikvilla við svör spurningalista og niðurstöðu blóðprufumælinga var könnuð.

Niðurstöður: Alls fengu 151 (21,3%) sjúklingur einhverja af 14 fylgikvillum sem skráðir voru við sex vikna endurkomu. Algengastir voru fylgikvillarnir vessun úr sári (8,1%) og sárasýking (7,5%). Alvarlegasti skráði fylgikvilli var liðsýking (0,8%). Einstaklingar sem höfðu fengið blóðgjöf fyrir aðgerð voru líklegri til þess að fá fylgikvilla og fengu 44,4% þeirra fylgikvilla eftir aðgerðina á meðan 20,7% þeirra sem ekki fengu blóðgjöf við aðgerðina fengu fylgikvilla í kjölfar aðgerðar (p-gildi = 0.0335).

Ályktanir: Tengsl fundust milli blóðgjafa og sýkingafylgikvilla eftir liðskiptaaðgerðir. Vonir standa til að unnt sé að nota þessar niðurstöður til að hanna inngrip til að fækka blóðgjöfum eftir aðgerðir.

Algengi áhættuþátta og tengsl þeirra við fylgikvilla eftir valkvæðar liðskiptaaðgerðir á Íslandi Karen Sól Sævarsdóttir1, Jóhanna Gunnarsdóttir1,2,3, Kristjana Einarsdóttir1,3 , Ragnheiður Ingibjörg Bjarnadóttir1,2 1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Kvennadeild Landspítalans, 3Miðstöð í lýðheilsuvísindum Inngangur: Blæðing eftir fæðingu er ein algengasta orsök mæðradauða. Aukinni tíðni blæðingar eftir fæðingu hefur verið lýst víðsvegar í heiminum og samkvæmt skýrslum Fæðingaskráningar gæti einnig hafa orðið aukning á Landspítala. Tölur skýrslnanna byggðu á greiningarkóða (O72) og óljóst var hvort sams konar skilgreining lá að baki greiningar með kóðanum yfir allt tímabilið. Markmið rannsóknarinnar var að kanna tíðni blæðinga eftir fæðingu einbura á Íslandi á árunum 2013-2018 og varpa ljósi á mögulega áhættuþætti mikillar blæðingar eftir fæðingu sem skilgreind var sem 1000 ml blæðing eða meira.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var ferilrannsókn sem náði til 23.375 einburafæðinga á árunum 2013-2018. Gögn fengust úr Fæðingaskrá og útkoma rannsóknarinnar, blæðing eftir fæðingu, var skilgreind annars vegar út frá skráðu magni blæðingar í millilítrum (ml) og hins vegar út frá ICD-10 greiningarkóðum. Gerð var tvíkosta aðhvarfsgreining til þess að reikna leiðrétt gagnlíkindahlutfall (OR) og 95% öryggisbil fyrir líkur á > 500 ml blæðingu og mikilli blæðingu (≥ 1000 ml) á

árunum 2014-2018 borið saman við árið 2013. Einnig var reiknað óleiðrétt og leiðrétt OR og 95% öryggisbil fyrir hvern áhættuþátt til þess að meta tengsl þeirra við miklar blæðingar eftir fæðingu.

Niðurstöður: Tíðni blæðingar eftir fæðingu hækkaði á tímabilinu 2013-2018. Mikil aukning var á tíðni blæðingar þegar blæðing var skilgreind með greiningarkóðum en aukningin var minni þegar hún var skilgreind sem magn blæðingar yfir 500 ml og sem 1000 ml eða meira. Konur sem fæddu einbura árin 2017 (OR 1,39; ÖB 1,13-1,71) og 2018 (OR 1,38; ÖB 1,12-1,70) voru tæplega 40% líklegri til þess að blæða bæði yfir 500 ml og 1000 ml eða meira borið saman við konur sem fæddu einbura árið 2013. Áhættuþættir sem reyndust hafa sterkustu tengslin við miklar blæðingar eftir fæðingu voru: Óeðlileg festing fylgju eða fylgjulos (OR 8,37; ÖB 5,06-13,48), fyrirsæt fylgja (OR 4,72; ÖB 2,74-7,74), þungburi (OR 2,33; ÖB 1,86-2,89), rifa hátt í leggöngum eða legháls (OR 5,17; ÖB 3,75-7,01), bráðakeisaraskurður (OR 2,83; ÖB 2,36-3,38) og 3. eða 4. gráðu spangarrifa (OR 2,70; ÖB 2,09-3,45).

Ályktun: Skráning greiningarkóða fyrir blæðingar eftir fæðingu var ábótavant á rannsóknartímabilinu og því lítið samræmi á milli skráninga á magni blæðingar yfir 500 ml með greiningarkóðum annars vegar og hins vegar með skráðu magni blæðingar í millilítrum. Tíðni blæðingar eftir fæðingu jókst á árunum 2013-2018. Marktæk aukning sást á > 500 ml blæðingu og mikilli blæðingu eftir leiðréttingar en aukningin skýrðist að hluta til af aldri móður, upphafi fæðinga, fæðingarþyngd barns og fyrri fæðingarsögu. Niðurstöður um áhættuþætti mikillar blæðingar eftir fæðingu voru að mestu í samræmi við erlendar rannsóknir, nema að engin tengsl fundust á milli þess að hafa sögu um fimm eða fleiri fæðingar og blæða mikið eftir fæðingu.

Öndunarörðugleikar hjá börnum sem fæðast með valkeisaraskurði Katrín Hrefna Demian1, Þórður Þórkelsson1,2, Hildur Harðardóttir1,3 og Jóhanna Vigdís Ríkharðsdóttir3 1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Barnaspítali Hringsins, 3Kvennadeild Landspítala Inngangur: Börn sem fæðast með valkeisaraskurði (VKS) eru í aukinni áhættu að fá öndunarörðugleika strax eftir fæðinguna. Í flestum tilfellum eru einkennin væg og tímabundin, en sum börn fá alvarlega öndunarörðugleika. Markmið þessarar rannsóknar var þríþætt. 1) Meta hvort barksteragjöf á meðgöngu til kvenna sem fæða með VKS við 37 vikur minnki nýgengi öndunarörðugleika hjá börnum. 2) Meta hvort munur sé á nýgengi og alvarleika öndunarfæravandamála eftir meðgöngulengd barna sem fæðast með valkeisaraskurði. 3) Meta hvort konum sem fæddu börn sem fengu öndunarörðugleika eftir fæðingu með VKS sé eiginlegt að ganga lengur með sín börn en aðrar konur.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og þýðið samanstóð af einburum sem fæddust með VKS eftir ≥ 37 vikna meðgöngu á kvennadeild Landspítala á árunum 2000 – 2019 (n=3501). Af þessum börnum voru 104 börn lögð inn á Vökudeild vegna öndunarörðugleika strax eftir fæðingu. Upplýsingar um barksteragjafir, meðgöngulengd og alvarleika öndunarfæravandamála fengust úr sjúkraskrám og Vökudeildaskrá. Viðmiðahópur fyrir rannsóknarspurningu 3 samanstóð af mæðrum barna sem fæddust með VKS eftir ≥ 37 vikna meðgöngu en fengu ekki öndunarörðugleika. Borin var saman meðgöngulengd systkina þeirra barna sem fæddust með VKS og fengu öndunarörðugleika strax eftir fæðingu annars vegar og systkina þeirra barna sem fæddust með VKS og fengu ekki öndunarörðugleika hins vegar.

Niðurstöður: Marktæk aukning reyndist á gjöf barkstera við 37 vikna meðgöngu (37v0d – 37v6d) á tímabilinu (11% og 66%; p<0,0001). Börn þeirra kvenna sem fengu barkstera á meðgöngunni fengu síður öndunarörðugleika en þeirra sem ekki fengu barkstera (p=0,052; OR=0,31). Nýgengi öndunarörðugleika hjá börnunum var í öfugu hlutfalli við meðgöngulengd og hlutfallsleg áhætta á að fá alvarlegan lungnasjúkdóm (þörf fyrir súrefnis- og/ eða aðra meðferð > 2 klst. eftir fæðingu) var 77% minni hjá nýburum sem fæddust ≥ 38 vikur en hjá þeim sem fæddust við 37 vikur. Konur sem fæddu börn með VKS sem fengu öndunarörðugleika stuttu eftir fæðingu voru líklegri til að fæða önnur börn sín seinna (40 – 42 vikur) eftir sjálfrafa sótt eða vegna framköllunar fæðingar en konur sem fæddu börn með VKS sem fengu ekki öndunarörðugleika (64% og 47%; p=0,008).

Ályktanir: Notkun barkstera til undirbúnings barns fyrir fæðingu með valkeisaraskurð við 37 vikur (37v0d – 37v6d) jókst marktækt á rannsóknartímabilinu og er vísbending um að hún minnki líkur á öndunarörðugleikum hjá börnum sem fæðast með VKS. Nýgengi og alvarleiki öndunarörðugleika hjá nýburum sem fæðast með VKS er í öfugu hlutfalli við meðgöngulengd. Hvort tveggja minnkaði marktækt hjá börnum sem fæddust eftir 37 vikna meðgöngu á rannsóknartímabilinu. Vísbendingar eru um að þeim konum, sem fæða börn sem fá öndunarörðugleika eftir VKS, sé eiginlegt að ganga lengur með sín börn en aðrar konur. Hugsanlega mætti því minnka líkur á öndunarörðugleikum hjá börnum þeirra með því að fresta VKS hjá þeim nær fullri meðgöngulengd, svo fremi sem aðstæður leyfa.

Ósæðarlokuísetning með þræðingartækni við ósæðarlokuþrengslum (TAVI) á Íslandi Katrín Júníana Lárusdóttir1, Tómas Guðbjartsson1,2, Martin Ingi Sigurðsson1,3 , Ingibjörg Jóna Guðmundsdóttir1,4 1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Hjarta- og lungnaskurðdeild, 3Svæfinga- og gjörgæsludeild, 4Hjartadeild Landspítala Inngangur: Ósæðarlokuþrengsl er algengasti lokusjúkdómurinn á Vesturlöndunum og hefur hefðbundin meðferð þeirra verið opin hjartalokuskipti með gerviloku. Síðustu ár hefur ósæðarlokuísetning með þræðingartækni (TAVI) rutt sér til rúms. Í upphafi var hún þróuð fyrir óskurðtæka sjúklinga en á síðustu árum hefur TAVI aðgerð í vaxandi mæli verið beitt hjá sjúklingum í minni áhættu. Sjúklingur þarf að vera samþykktur af sérstöku teymi hjarta- og svæfingarlækna áður en hann fær að undirgangast TAVI aðgerð þar sem takmarkaðar aðgerðir eru framkvæmdar á hverju ári. Heildstæður gagnagrunnur um sjúklingahóp og árangur aðgerðanna hefur ekki verið fyrir hendi en markmið rannsóknarinnar var að bæta úr því.

Efni og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og náði yfir 152 TAVI aðgerðir sem framkvæmdar voru á Íslandi frá 1. janúar 2014 til 2. apríl 2020. Upplýsingar fengust úr sjúkraskrám og gagnagrunni hjartaþræðingardeildar Landspítalans sem tengdur er SwedeHeart gagnagrunninum. Skráðir voru áhættuþættir, fylgikvillar og lifun. Fylgikvillar voru flokkaðir eftir þeim sem komu upp í aðgerð, innan 30 daga frá aðgerð og frá 30 dögum þar til ári frá aðgerð. Einnig voru skráðar niðurstöður hjartaómskoðunar fyrir aðgerð og mánuði eftir hana. Heildarlifun var reiknuð með aðferð Kaplan-Meier. Meðal eftirfylgd var 2.1 ár og miðast við 5. apríl 2020.

Niðurstöður: Meðalaldur sjúklinga var 83 ára (46% konur) og árlegur meðalfjöldi aðgerða 24 (bil 9-37). Alvarlega mæði (NYHA III-IV) höfðu 128 (84.2%) sjúklingar og 38 (25.0%) hrumleika. Alls höfðu 29 (19.1%) sjúklingar farið áður í opna hjartaaðgerð og 47 (30.9%) í kransæðavíkkun. Hámarks þrýstingsfallandi yfir lokuna fyrir aðgerð var að meðaltali 78 (± 23) mmHg og meðal þrýstingsfallandi 48 (± 15) mmHg. Helmingur sjúklinga voru með eðlilegt útfallsbrot vinstri slegils (>50%) og 8 (5.3%) höfðu verulega samdráttarskerðingu (<30%). Eftir aðgerð var hámarks þrýstingsfallandi að meðaltali 14 (± 7.8) mmHg, 117 (77.0%) höfðu eðilegt útfallsbrot (>50%) og 3 (2.0%) verulega skertan samdrátt (<30%). Vægan randstæðan leka höfðu 115 (75.7%) sjúklingar

en einungis einn (0.7%) hafði mikinn leka. Í 33 (21.7%) tilfellum komu upp fylgikvillar í aðgerð, flestir minniháttar en nokkrir alvarlegir eins og rof á hjarta (1.3%), hjartaþröng (3.3%) og heilablóðfall (0.7%). Einni aðgerð (0.7%) þurfti að breyta brátt í opna hjartaaðgerð. Alvarlegir skammtíma fylgikvillar voru rof á hjarta (0.7%) og heilablóðfall (2.6%). Tíðni langtíma fylgikvilla var lág: heilablóðfall (1.3%), hjartaþelsbólga (0.7%) og versnandi hjartabilun vegna mikils randstæðs gervilokuleka (0.7%). Alls þurftu 38 (25%) sjúklingar ísetningu varanlegs gangráðs eftir aðgerðina. Þrjátíu daga dánartíðni var 2.0% (n=3/152) en eins árs lifun var 92.2% (95% ÖB: 87.9-96.8) og tveimur árum frá aðgerð 81.3% (95% ÖB: 74.3-88.8).

Ályktanir: TAVI aðgerðum hefur fjölgað verulega á Íslandi og er árangur sambæri legur eða ívið betri en í sambærilegum erlendum rannsóknum. Þrjátíu daga dánartíðni var lág (2%) og langtímalifun mjög góð þar sem 92.1% sjúklinga voru á lífi ári frá aðgerð, sem telst góð lifun í erlendum samanburði og þegar tekið er tillit til hás aldurs sjúklinganna. Tíðni alvarlegra fylgikvilla var lág en þörf á ísetningu varanlegs gangráðs var í hærra lagi.

Veldur sjaldgæfur íslenskur arfbreytileiki í HMBS geni slitróttri bráðaporfýríu? Kjartan Helgason1, Bragi Walters2 , Ásmundur Oddsson2 Magnús Karl Magnússon1,2 1 Læknadeild Háskóla Íslands, 2 Íslensk erfðagreining Inngangur: Slitrótt bráðaporfýría (AIP) er sjaldgæfur, ríkjandi erfðasjúkdómur sem hefur ekki verið greindur hjá Íslendingi. Sjúkdómurinn stafar af vanvirknibreytingu í HMBS geninu sem kóðar fyrir ensími í myndunarferli hems. Klínísk einkenni sjúkdómsins koma oftast í bráðum köstum vegna upphleðslu taugaeitraðra milliefna þegar álag á ferlið er aukið. Almennt eru þau: verkir þar sem kviðverkir eru algengastir; meltingarvegseinkenni s.s. hægðatregða; skyntruflanir o.fl. taugakvillar en einnig hefur ýmsum geðrænum einkennum verið lýst. Klínísk birtingarmynd er ófullkomin og algengari hjá konum.

Efniviður og aðferðir: Í víðtækri erfðamengisrannsókn hjá Íslenskri erfðagreiningu (ÍE) fannst nýlega eins basa breytileiki í HMBS geninu með samsætutíðni 0,009% í tengslum við breiðan svipgerðalista sem hannaður var til skimunar fyrir einkennum þráhyggjuárátturöskunar (OCD). Listinn byggði á sjúkdómsgreiningum og spurningalistum. Umritamengisgagnagrunnur ÍE var notaður til að rannsaka sameindalíffræðilega eiginleika arfbreytileikans. Íslendingabók var notuð til að rekja saman ættir arfbera. Sjúkraskrár 26 arfbera og 52 viðmiða voru skoðaðar blindað og aftursætt í Heilsugátt m.t.t. sjúkdómsgreininga og koma á heilbrigðisstofnanir vegna einkenna tengdum AIP og ýmissa geðrænna kvilla. Alls voru 434 komur skráðar og þar af 386 bornar saman milli hópa. Mælanlegar breytur voru bornar saman með t-prófi og flokkabreytur með kí-kvaðrat prófi.

Niðurstöður: Arfbreytileikinn er G>A punktbreyting í fyrsta basa 8. innraðar og skemmir því splæsigjafa. Þekjugraf fyrir umrit gensins sýndi varðveitingu innraðar í mRNA í um helmingi umrita. Framarlega í innröðinni er lokatákni í lesfasa og ber arfbreytileikinn því merki þess að vera vanvirknibreyting. Sambærilegar stökkbreytingar í splæsiseti eru þekktar af því að valda slitróttri bráðaporfýríu (9 mismunandi skráðar á vef OMIM). Af 29 arfberum sem fundust í gögnum ÍE tókst að rekja ættir 28 þeirra saman til einnar fjölskyldu. 10 arfberar uppfylltu skilmerki skimunarlista fyrir einkennum OCD, allir með spurningalistum eingöngu. Ekki fannst tölfræðilega marktækur munur milli einkenna arfbera og viðmiða. Áhugaverð tilfelli fundust meðal arfbera s.s. komur á heilbrigðisstofnanir vegna verkja og dökks þvags, einkenni sem geta samræmst AIP. Engar upplýsingar um greiningar OCD fundust í sjúkraskrám arfbera.

Ályktanir: Við höfum lýst nýjum arfbreytileika í HMBS sem ber einkenni þess að vera vanvirknibreyting. Erfðamengismarktæk tengsl arfbreytileikans við OCD-einkenna svipgerðarlista eru áhugaverð en þarfnast frekari rannsókna. Hugsanlega eru þau tengsl tilkomin vegna valbjögunar á fjölskyldu með umræddan arfbreytileika. Ekki fundust tölfræðilega marktæk tengsl milli klínískra einkenna og arfbreytileikans sem mælir gegn því að hann tengist AIP. Þó fundust áhugaverð tilfelli í sjúkraskrám arfbera sem gætu samrýmst AIP með lágri sýnd, en án frekari sjúkdómsgreinandi klínískra rannsókna (t.d. mæling milliefnisins PBG í þvagi) á meðan bráðu kasti stendur, er ekki hægt að álykta frekar.

Faraldsfræði mjaðmarbrota á Landspítala 2013-2018 Krister Blær Jónsson 1, Halldór Jónsson Jr.1,2 1 Læknadeild Háskóla Íslands, 2 Bæklunarskurðdeild Landspítala Inngangur: Mjaðmarbrot er næstalgengasta beinbrotið meðal aldraðra, um þriðjungur þeirra sem brotna látast innan árs. Á Íslandi eru mjaðmarbrot algeng ástæða innlagna á Landspítala. Markmið rannsóknarinnar var að skoða lifun og áhættuhlutföll einstaklinga sem gangast undir skurðaðgerð vegna mjaðmarbrots m.t.t. kyns, blóðgilda fyrir aðgerð og staðsetningar brots.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn ferilrannsókn sem tók til 1874 skurðaðgerða (meðalaldur 79 ár, 67% konur) á Landspítala, á árunum 2013-2018. Viðeigandi gögn komu frá Hagstofu Landspítala og breytur staðfestar í Heilsugátt. Röntgenmyndir sjúklinga voru yfirfarnar til staðfestingar á greiningu brots og íhlut.

Niðurstöður: Meðal karla var dánarhlutfall hærra bæði innan 30 daga og eins árs frá aðgerð (11,5% og 28,9%) samanborið við konur (8,3% og 21,8%). Voru karlar 1.31 sinnum líklegri (p<0,001, ÖB: 1,14-1,49) en konur til að látast innan árs. Dánarhlutfall karla með hemóblóbín skort (Hgb <130) var 42,4%, samanborið við 15,2% án skorts, og voru þeir 2,5 sinnum líklegri (p<0,001, ÖB: 1,86-3,4) til að látast innan árs. Til samanburðar voru konur með skort (Hgb <120) 2,05 sinnum líklegri (p<0,001, ÖB: 1,37-2,6) til að látast innan árs og voru dánarhlutföllin 30,8% og 16,3% fyrir sig. Lifun sjúklinga með brot innan liðpoka var hærri (78,0%) samanborið við utan liðpoka (73,2%) og áhættuhlutfallið 1,08 (p=0,67, ÖB: 0,75-1,57).

Ályktanir: Karlar eru líklegri en konur til að látast eftir skurðaðgerð vegna mjaðmarbrots þegar litið er til bæði skamm- og langtímalifunar. Sjúklingar með lágt hemóglóbín eru rúmlega tvöfalt líklegri til að látast innan árs eftir aðgerð. Þá hefur staðsetning mjaðmarbrotsins ekki marktæk áhrif á lifun.

Mat á stoðvefshlutfalli í brjóstaæxlum í tengslum við brjóstakrabbameinsháða lifun Estimation of tumour-stroma ratio in Icelandic breast cancers with regards to breast cancer specific survival

Magnea Guðríður Frandsen

(Ágrip barst ekki

Dánarorsakir íslenskra barna 1971-2018 Marína Rós Levy1, Ásgeir Haraldsson1,2 , Valtýr Stefánsson Thors1,2, Sigríður Haralds Elínardóttir3, Alma D. Möller3 1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Barnaspítali Hringsins, 3Embætti Landlæknis Inngangur: Dánarhlutfall barna er mikilvægur mælikvarði á heilbrigðisástand þjóða, en á Íslandi er það með því lægsta sem gerist í heiminum. Til þess að fækka dauðsföllum barna markvisst er nauðsynlegt að þekkja helstu dánarorsakir þeirra hverju sinni. Markmið rannsóknarinnar var að finna dánarhlutfall barna á Íslandi lagskipt eftir kyni, aldri og búsetu, greina dánarorsakir þeirra á rannsóknartímabilinu og leggja mat á mögulegar aðgerðir til að koma í veg fyrir ótímabær dauðsföll barna.

Efniviður og aðferðir: Um er að ræða afturskyggna lýsandi rannsókn sem náði til allra íslenskra barna frá fæðingu upp að 18 ára aldri sem létust á tímabilinu, frá 1. jan 1971 til og með 31. des 2018. Upplýsingar um þau 2005 börn sem létust á tímabilinu voru fengnar úr Dánarmeinaskrá Embættis Landlæknis, en tölur um fjölda lifandi barna á hverjum tíma fengust hjá Hagstofu Íslands. Búseta var skráð eftir heilbrigðisumdæmum. Þegar frekari upplýsinga var þörf voru sjúkraskrár og/ eða krufningarskýrslur frá Landspítala skoðaðar. Poisson línuleg aðhvarfsgreining var notuð til að greina lækkun dánarhlutfalls eftir kyni. Til að meta fækkun dauðsfalla og kynjamun innan dánarorsaka var kí-kvaðrat próf notað þar sem borin voru saman fyrstu 10 ár tímabilsins við síðustu 10 árin.

Niðurstöður: Drengir voru 41% líklegri til að deyja á tímabilinu en stúlkur (ÖB: 0,51-0,67) en dánarhlutfall þeirra lækkaði úr 1,5 fyrir hverja 1000 lifandi drengi í 0,18 (88% lækkun), árleg lækkun var um 4,3% (ÖB: 0,95-0,96). Dánarhlutfall stúlkna lækkaði um 81%, úr 0,9 í 0,17, árleg lækkun um 3,4% (ÖB: 0,96-0,98). Dánarhlutfall barna fyrir fimm ára aldur lækkaði um 89%, úr 3,5 í 0,4 fyrir drengi og úr 2,8 í 0,3 fyrir stúlkur, árleg lækkun um 4,4% (ÖB: 0,95-0,96). Dánarhlutfall lækkaði í öllum heilbrigðisumdæmum á árunum 1991-2018. Helstu dánarorsakir voru burðarmálskvillar (n=525), slys (n=447), meðfæddir sjúkdómar (n=371), sýkingar (n=157), krabbamein (n=122), taugakerfissjúkdómar (n=76), sjálfsvíg (n=56) og hjarta- og æðasjúkdómar (n=35). Af ofantöldum dánarorsökum var marktæk fækkun á dauðsföllum vegna burðarmálskvilla, slysa, meðfæddra sjúkdóma, sýkinga og krabbameina (p <0,0001). Ekki var lækkun á dánarhlutfalli í taugakerfissjúkdómum og hjarta- og æðasjúkdómum sem ekki töldust til meðfæddra kvilla, né sjálfsvígum þar sem einnig var marktækur kynjamunur.

Ályktanir: Veruleg lækkun hefur orðið á dánarhlutfalli barna á tímabilinu og hefur tekist að fækka fyrirbyggjanlegum dauðsföllum verulega með forvörnum og bættri heilbrigðisþjónustu. Enn eru þó mörg börn sem lenda í banaslysum og er þar helst að nefna umferðarslys. Mikilvægt er að halda áfram með þær slysavarnir sem framkvæmdar hafa verið seinustu ár til að lækkunin haldi áfram. Ekki var fækkun á sjálfsvígum á tímabilinu og var þar einnig áberandi kynjamunur. Mikilvægt er að auka vitund barna um geðheilbrigði og fjölga úrræðum fyrir þau sem þurfa á aðstoð að halda. Nýjar fyrirbyggjandi aðgerðir gegn sjálfsvígum eru nú í gangi sem gætu sýnt árangur á næstu árum. Niðurstöðurnar sýna frábæran árangur þjóðarinnar í lækkun dánarhlutfalls barna hér á landi og leiða vonandi til áframhaldandi fækkunar á ótímabærum dauðsföllum barna.

Notkun þorskroðs í meðferð fullþykktarbrunasára í dýramódeli Nikulás Jónsson1, Hilmar Kjartansson2,3 , Baldur Tumi Baldursson2,3, Helga Kristín Einarsdóttir2 1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Kerecis, Reykjavík, Ísland, 3Landspítali háskólasjúkrahús Inngangur: Meðhöndlun fullþykktarbrunasára getur falið í sér upphafsmeðferð með líkhúð eða annarskonar húðlíki (e. skin substitute) þar sem hlutþykktargræðlingur (e. split-thickness skin graft, STSG) er síðan settur á í framhaldinu. Þar sem engin þekkt örverusmit eru á milli Norður-Atlantshafsþorsksins (Gadus morhua) og mannsins þarf Kerecis sáraroð sem framleiddur er úr roði þorsksins ekki að ganga í gegnum viðamikla hreinsun sem meðal annars leysir upp fitu og fituleysanleg prótein. Þannig er hægt að halda í sömu mikilvægu sameindirnar og mynda húð manna. Að auki inniheldur sáraroðið hátt hlutfall ómega-3 fitusýra sem hefur sýnt hafa góð áhrif á sáragræðslu.

Efniviður og aðferðir: Hundrað fullþykktarsár (3 cm í þvermál) voru gerð á bak og síðu fimm kvenkyns Yorkshire Cross svína (Sus scrofa). Sárum var slembiraðað (e. randomized) til meðferðar með; möskvuðu (1,5:1) Kerecis sáraroði (n=28), ómöskvuðu Kerecis sáraroði (n=30), líkhúð (n=20) eða engri sértækri meðferð (n=20). Á þriðja degi voru leifarnar af sáraroðinu fjarlægðar og þá fengu Kerecis meðhöndluðu sárin ýmist ómöskvaðan hlutþykktargræðling (n=19) eða möskvaðan (3:1) hlutþykktargræðling ásamt Kerecis sáraroði ofan á (n=29). Einn hópur af sárum fékk tilraunameðferð þar sem roðið var ekki fjarlægt áður en ómöskvaður hlutþykktargræðlingur var settur ofan á (n=10). Á degi fjórtán var líkhúð fjarlægð og settur ómöskvaður hlutþykktargræðlingur (n=20). Ljósmyndir voru teknar reglulega til að geta mælt samdrátt sára og vefjasýni voru tekin til að skoða byggingu og skipulag kollagens, uppbyggingu húðþekju og bólgufrumuíferð. Talnabreytur voru bornar saman með einþátta fervikagreiningu (e. one-way anova) og Tukey eftiráprófi, eða t-prófi eftir því sem við átti. Fyrir flokkabreytur var framkvæmt Fisher próf og Bonferroni leiðrétting. Tölfræðileg marktækni miðaðist við α = 5%.

Niðurstöður: Enginn munur var á notagildi þess að meðhöndla með hefðbundinni Kerecis meðferð og að nota líkhúð sem tímabundna þekjumeðferð fullþykktarbrunasára, áður en sjálfsgræðlingur er settur á, hvort sem litið var á klíníska skoðun eða vefjasýna skoðun. Samdráttur í sárum var 30% ef engin sértæk meðferð var notuð miðað við 11-16% (p<0,001) ef notuð var sértæk meðferð. Tilraunameðferð með að setja hlutþykktargræðling á sár sem hafði enn roðið sýndi lakara skor á gæðum í byggingu kollagens ofarlega í sári, uppbyggingu húðþekju og skipulagi kollagens. Ekki reyndist vera munur á því hvort notað væri ómöskvað eða möskvað (1,5:1) Kerecis sáraroð sem tímabundin þekjumeðferð. Ekki reyndist heldur vera munur á því hvort notaður væri ómöskvaður eða möskvaður (3:1) hlutþykktargræðlingur sem seinni meðferð, ef Kerecis sáraroð var sett á þann möskvaða.

Ályktun: Niðurstöður benda til þess að hægt sé að nota Kerecis sáraroð í stað líkhúðar við fyrstu meðferð alvarlegra brunasára. Enn fremur kemur fram að þegar Kerecis sáraroð er notað sem stuðningur við 3:1 hlutþykktargræðling er mögulegt að minnka það gjafasvæði sem þarf að taka af eðlilegri húð til að nota í sjálfsgræðslu fullþykktarbrunasára.

Rannsókn á tengslum erfðabreytileika í og við genin TTN/CCDC141 við hjartsláttartruflanir í gáttum Ólafur Hreiðar Ólafsson1, Hildur M. Ægisdóttir2, Davíð O. Arnar2,3, Hilma Hólm2 . 1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Íslensk erfðagreining, 3Landspítali háskólasjúkrahús Inngangur: Víðtækar erfðamengisrannsóknir hafa fundið tengsl á milli 170 erfðabreytileika og gáttatifs en minna er vitað um erfðafræði annarra hjartsláttartruflana í gáttum. Nýlegar rannsóknir Íslenskrar erfðagreiningar hafa gefið vísbendingar um tengsl erfðabreytileika á svæðinu TTN/CCDC141 við ýmsar hjartsláttartruflanir í gáttum. Markmið þessarar rannsóknar var að meta betur þessi tengsl.

Efni og aðferðir: Við safngreindum upplýsingar úr víðtækri erfðamengisleit fyrir hjartsláttartruflanir í gáttum frá Íslandi, UK Biobank og Copenhagen Hospital Biobank en afmörkuðum okkur við svæðið TTN/CCDC141. Við könnuðum tengsl 8366 erfðabreytileika á svæðinu við fjórar hjartsláttartruflanir og notuðum Bonferroni leiðréttingu til að fá marktækniþröskuldinn 6,0×10-6 . Einnig skoðuðum við tengsl erfðabreytileika sem tengdust hjartsláttartruflunum við hjartalínuritsmælingar frá Landspítala og rannsóknum Íslenskrar erfðagreiningar.

Niðurstöður: Við fundum tengsl við fjórar hjartsláttartruflanir í gáttum. Erfðabreytileikinn rs2288327 tengdist gáttatifi (P = 2,8 × 10-29, OR (e. odds-ratio, gagnlíkindahlutfall) = 1,11), rs10660645 tengdist sjúkum sínushnúti (P = 6,8

× 10-9 , OR = 1,13), rs13031826 tengdist gáttasleglarofi (P = 2,65 × 10-17, OR = 1,23), rs10497529 tengdist ofansleglahraðtakti (P = 1,7 × 10-11, OR = 1,23) og einnig tengdist rs1873164 ofansleglahraðtakti (P = 1,4 × 10-12 , OR = 1,22). Allir þessir breytileikar sýndu minna marktæk tengsl við aðra hjartsláttartruflun í gáttum, eina eða fleiri. Skilyrt greining sýndi hins vegar að þau tengsl voru afleiðing tengslaójafnvægis. Allir erfðabreytileikarnir höfðu tengsl við ýmsar hjartalínuritsmælingar, en tengslamynstrið var mismunandi á milli breytileikanna. Engin marktæk tengsl fundust milli þessara erfðabreytileika og háþrýstings, hjartavöðvakvilla, hjartabilunar og kransæðasjúkdóms, sem bendir til þess að áhrif á rafleiðni hjartans miðli tengslum erfðabreytileikanna við hjartsláttartruflanirnar, fremur en aðrir hjartasjúkdómar.

Ályktanir: Við sýndum að það eru fimm erfðabreytileikar á svæðinu TTN/ CCDC141 sem tengjast mismunandi hjartsláttartruflunum í gáttum og einnig hjartalínuritsmælingum sem mæla rafl eiðni í hjartanu. Engu öðru svæði í erfðamenginu hefur verið lýst með víðtækri erfðamengisrannsókn sem hefur áhrif á svona margar mismunandi hjartsláttartruflanir í gáttum. Þessar niðurstöður kalla á frekari rannsóknir til að skilja betur áhrif þessa svæðis á rafleiðni í hjarta.

Siðferðilegt réttmæti fósturskimana með tilliti til lífvænlegra fæðingargalla

Rakel Ástrós Heiðarsdóttir

(Ágrip barst ekki)

Methicillin ónæmur Staphylococcus aureus á Íslandi 2009–2019 Sif Snorradóttir1, Valtýr Stefánsson Thors1,2, Hjördís Harðardóttir3, Gunnsteinn Haraldsson3, Ásgeir Haraldsson1,2 1Læknadeild Háskóla Íslands , 2Barnaspítali Hringsins , 3Sýkla- og veirufræðideild Landspítala Inngangur: Methicillin ónæmur Staphylococcus aureus (MÓSA) er ónæmur fyrir öllum β-laktam lyfjum, þar með talið β-laktam lyfjum blönduðum β-laktamasa hemlum. Methicillin ónæmi meðal S. aureus er oftast miðlað með mecA geninu sem kóðar fyrir nýja gerð af penisillín bindipróteini, PBP2a, sem hefur lága sækni í β-laktam lyf og leiðir þannig til ónæmis gegn þessum flokki sýklalyfja. Þó MÓSA sýkingar séu fátíðar á Íslandi miðað við flest Evrópuríki virðist hafa orðið aukning á MÓSA sýklun og mjúkvefjasýkingum hjá börnum og fullorðnum sem leita til heilbrigðisstofnana undanfarin ár. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvort nýgengi MÓSA hafi raunverulega aukist undanfarin 11 ár og meta faraldsfræði hjá börnum og fullorðnum.

Efni og aðferðir: Gerð var afturskyggn faraldsfræðileg rannsókn á MÓSA greiningum á landsvísu á tímabilinu 1. janúar 2009 - 31. desember 2019. Úr gagnasafni Sýkla- & veirufræðideildar LSH (SVEID) fengust upplýsingar um öll MÓSA-jákvæð sýni auk upplýsinga um næmispróf og ástæðu sýnatöku. Gagnasafn með spa týpu og Panton Valentine Leukocidin (PVL) greiningum MÓSA stofna á tímabilinu fékkst hjá SVEID. Birtingarmynd sýkingar eða sýklunar var flokkuð eftir sýnatökustað og skiptist í mjúkvefjasýkingu, aðra sýkingu (t.d. blóðsýkingu eða þvagfærasýkingu) eða einkennalausa sýklun. Upplýsingar um tengsl við heilbrigðiskerfið, nýlegar utanlandsferðir eða þekkt tengsl við önnur MÓSA tilfelli voru notaðar til að álykta um uppruna smits. Áætlaður uppruni sýkingar/sýklunar var flokkaður í heilbrigðiskerfissmit, samfélagssmit eða samfélagssmit með tengsl við heilbrigðiskerfið.

Niðurstöður: Alls greindust 660 MÓSA tilfelli hjá 631 einstaklingum. Nýgengi MÓSA tilfella jókst á rannsóknartímabilinu 2009-2019 (p<0,05). Mjúkvefjasýking var ástæða sýnatöku í 48% tilfella, aðrar sýkingar 11% en 41% tilfella voru einkennalausar sýklanir sem greindust við MÓSA-skimun. Hlutfall mjúkvefjasýkinga var hæst í aldurshópnum 2-5 ára, einkennalausrar sýklunar hjá yngri en 6 mánaða og annarra sýkinga hjá 6 mánaða að 2 ára aldri. 15% smita höfðu orðið innan heilbrigðisstofnunar, 54% voru samfélagssmit og 31% samfélagssmit með tengsl við heilbrigðiskerfið. Aldurshópar 0-5 mánaða og 67 ára og eldri voru með hæsta hlutfall heilbrigðiskerfissmita. Samfélagssmit var algengasti uppruni sýkinga eða sýklunar hjá börnum. Aldurshópur 40-66 ára var með hæsta hlutfall samfélagssmita með tengsl við heilbrigðiskerfið. Alls greindust 149 spa týpur meðal 660 MÓSA tilfella á tímabilinu og 42% stofna báru PVL gen.

Ályktanir: Nýgengi MÓSA sýklunar og sýkingar á Íslandi hækkaði á tímabilinu 2009-2019 í samræmi við hækkun á árunum 2000-2008 (p<0,05). Hækkun nýgengis varð þó sérstaklega hjá aldurshópum undir 2ja ára (p<0,001). Hluti skýringarinnar kann að vera valbjögun vegna vikulegrar skimunar á Vökudeild LSH í kjölfar MÓSA faraldurs þar árið 2015. Hátt hlutfall mjúkvefjasýkinga hjá aldurshópnum virðist þó benda til þess að um raunverulega aukningu sé að ræða. Meirihluti tilfella eru samfélagssmit og ástæður þess margvíslegar. Ísland er með lægra nýgengi MÓSA en flest önnur Evrópuríki en aukin ferðamennska gæti átt þátt í aukinni útbreiðslu MÓSA stofna. Notkun geðrofslyfsins clozapine í meðferð á Laugarási meðferðargeðdeild

Sigrún Harpa Stefánsdóttir

(Ágrip barst ekki)

Preventive child health services in Mangochi District Hospital, Malawi Snædís Ólafsdóttir1, Chifundo Michael Manong’a2, Triza Fatma Masauli2, Geir Gunnlaugsson3 Faculty of Medicine, University of Iceland1 , Mangochi District Hospital Malawi2, Faculty of Sociology, Anthropology and Folkloristics, University of Iceland3 Introduction: Malawi was one of few subSaharan countries to reach the Millennium Developmental Goal 4 to reduce child mortality by two thirds. However, children in sub-Saharan Africa are 15 times more likely to die before turning five years of age compared to those in high-income countries. Preventive services such as immunisation, growth monitoring and vitamin A supplementation play a vital role in reducing child mortality. The aim of the study was to identify and describe potential problems in preventive child health services in a low-income sub-Saharan setting, in Mangochi District Malawi, assess the trends in vaccination coverage and explore how the services could be improved.

Methods: Both qualitative and quantitative data was collected over the period 26 February to 17 March 2020. Qualitative data was collected with participatory observation and by conducting interviews with Health Surveillance Assistants. Quantitative data was collected for all vaccinations from 2015-2019 both in Mangochi District and Mangochi District Hospital (MDH) from the District Vaccine Data Management Tool (DVDMT). Data on the flow of children through the static under 5 (U5) clinic at MDH, was collected from a registration book for seven days during the period; 97 children came for vaccination services.

Results: In the period 2015-2019, more than 3 million immunisation injections were provided in Mangochi District for children. Fewest were given in 2016 and most in 2019, a difference of 33%. Through the whole period, more static sessions at the health facilities were conducted than outreach in the rural villages. The proportion of cancelled sessions, both static and outreach, rose from 2015-2017; the average proportion of cancelled outreach sessions was 72% higher compared to static sessions over the period. The coverage rate for oral polio vaccine given at birth (OPV0) was significantly lower than the coverage rate for Bacillus Calmette-Guérin vaccine (BCG) (p=3.5*10-5). On average, the coverage

for the third dose of pentavalent vaccine (penta3) was nine percentage points lower than for penta1, with the largest difference seen in 2017 and smallest in 2019. The coverage rate was significantly lower for measles-rubella 2 (MR2) than MR1 (p=0.01). At MDH, on average, 589 vaccinations were given at the static clinic weekly, 14% higher compared to vaccinations provided at the outreach clinics. BCG was administered 5.9 times more often at the static than the outreach clinics, with an average coverage of 155%. On average, there were 14 visits and 40 vaccines administered daily. Most of the children (70%) were given four vaccines, and 24% of them were not vaccinated at the visit. Half of the children who had their birth registered in the registration book, were immunised timely.

Conclusion: Utilisation of health services is good both in Mangochi District and at MDH. The vaccination coverage was higher for immunisations provided earlier after birth compared to those provided later; still, not all children are reached. The facility at the static clinic has improved since the inauguration of a new maternal wing while the working conditions could still be improved with more space and staff. Further, data registration needs to be improved for all preventive child health services offered in the district.

Kynheilsa einstaklinga sem koma á göngudeild kynsjúkdóma á Landspítala Snædís Inga Rúnarsdóttir1, Már Kristjánsson2, Elísabet Reykdal Jóhannesdóttir2 1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Landspítali Inngangur: Einn þáttur kynheilsu er það að vera laus við kynsjúkdóma. Hægt er að minnka líkurnar á því að smitast af þeim með því að stunda öruggara kynlíf. Öruggara kynlíf snýr meðal annars að notkun kynsjúkdómavarna og reglulegs heilsueftirlits. Kynsjúkdómum geta fylgt alvarlegir fylgikvillar og þar sem smit eru oft einkennalaus er mikilvægt að auðvelda fólki aðgang að kynsjúkdómaeftirliti. Markmið rannsóknarinnar var að lýsa hópnum sem sækir sér þjónustu göngudeildar kynsjúkdóma á Landspítala og kanna hver kynhegðun þess hóps er.

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur voru allir þeir einstaklingar sem komu á göngudeild kynsjúkdóma frá 1. júlí 2019 til 31. desember 2019. Á rannsóknartímabilinu voru 3483 komur frá 3190 einstaklingum. Allir þátttakendur svöruðu spurningalista um kynhegðun sína. Fyrir niðurstöður um komur á deildina voru skoðaðar heildarkomur á tímabilinu en fyrir þær sem snéru að kynhegðun voru aðeins skoðaðar komur frá einstaklingum sem höfðu stundað kynmök.

Niðurstöður: Af komunum voru 43,2% frá konum en 56,7% frá körlum. Meðalaldur við komu var 26,4 ár; yngsti einstaklingurinn 14 ára en sá elsti 71 árs. Meirihluti komanna (74,8%) var frá einstaklingum sem höfðu áður farið í kynsjúkdómatékk. Meirihluta þátttakenda höfðu einungis stundað kynmök með gagnstæðu kyni (83,6% karla og 83,0% kvenna). Af þeim komum frá einstaklingum sem höfðu stundað kynmök sögðust 93,0% hafa stundað kynmök um leggöng síðustu 12 mánuðina, 83,4% munnmök og 25,4% stundað endaþarmsmök. Karlar sem höfðu einungis stundað kynlíf með körlum (MSM) var sá hópur sem hlutfallslega flestir höfðu stundað endaþarmsmök (88,2%) og konur sem höfðu einungis stundað kynlíf með konum (WSW) var sá hópur sem hlutfallslega flestir höfðu stundað kynmök um leggöng (100%) og munnmök (100%). Fyrir komu höfðu 41,7% smitast áður af kynsjúkdómi. Við komu merktu 8,1% þátttakenda við það að nota smokkinn alltaf og 10,1% við að nota hann aldrei. Í hópi MSM voru hlutfallslega flestir (20,5%) sem merktu við að nota smokkinn alltaf. Konur sem höfðu eingöngu stundað kynmök með körlum (WSM) var sá hópur þar sem hlutfallslega fæstir (6,9%) merktu við að nota smokkinn alltaf.

Ályktanir: Flestar komur voru frá einstaklingum undir 30 ára aldri og er það í samræmi við erlendar rannsóknir. Helstu veikleikar rannsóknarinnar voru hve fámennur hópur WSW kvenna var og að niðurstöðurnar töku ekki tillit til þess að sami einstaklingurinn gat komið á deildina oftar en einu sinni á tímabilinu. Erfitt er að meta hvort hinsegin fólk nýtir sér þjónustuna. Hlutfall komna frá einstaklingum sem höfðu haft kynmök við einstakling af sama kyni var svipað milli kynja en þó voru fleiri konur sem höfðu haft kynmök með báðum kynjum. Meirihluti þátttakenda hafði stundað bæði munnmök og kynmök um leggöng.

Fyrirburablóðleysi og blóðgjafir á Vökudeild Barnaspítala Hringsins árin 2000-2019 Sóley Isabelle Heenen1, Þórður Þórkelsson1,2 1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Barnaspítali Hringsins Inngangur: Allir nýburar fá lífeðlisfræðilegt blóðleysi fljótlega eftir fæðingu vegna aðlögunar þeirra að súrefnisríku umhverfi utan móðurkviðar. Venjulega þarfnast slíkt blóðleysi ekki blóðgjafar. Stöðnun á blóðmyndun fyrirbura varir lengur en hjá fullburða börnum vegna vanþroska í blóðmyndunarkerfi þeirra og er slíkt blóðleysi skilgreint sem fyrirburablóðleysi (e. anemia of prematurity, AOP). Veikir fyrirburar þola blóðleysið stundum illa en það er sá hópur sjúklinga sem fær hvað oftast blóðgjafir. Markmið rannsóknarinnar var að meta nýgengi AOP sem þarfnaðist blóðgjafar, forspárþætti þess, meðgöngualdur (e. postmenstrual age, PMA) við síðustu blóðgjöf og breytingar á meðferð við AOP sl. tíu ár eftir meðgöngulengd með því að kanna breytingar á fjölda blóðgjafa fyrir hvern fyrirbura, meðgöngualdri þeirra við síðustu blóðgjöf og viðmiðunargildum (hemóglóbín og hematókrít) í blóði fyrir blóðgjöf.

Efni og aðferðir: Afturskyggn rannsókn, að hluta til tilfella-viðmiðarannsókn, á árunum 2000-2019. Þýði rannsóknarinnar voru 901 fyrirburi sem fæddust eftir 23-32 vikna meðgöngu og útskrifuðust lifandi af Vökudeild Barnaspítala Hringsins. Gögn fengust úr Vökudeildaskrá, Fæðingaskrá Embætti landlæknis og sjúkraskrám. Ef fyrirburi fékk blóðgjöf eftir tveggja vikna aldur var það skilgreint sem AOP sem þarfnaðist blóðgjafar (tilfellahópur, n=347) og voru aðrir í viðmiðunarhópi (n=554). Eitt viðmið var valið fyrir hvert tilfelli, parað á meðgöngulengd þegar metið var nýgengi AOP (n=420:420). Nýgengi AOP sem leiddi til blóðgjafar var reiknað sem fjöldi tilfella á ári deilt með heildarfjölda þýðisins. Gerð var tvíkosta aðhvarfsgreining, reiknuð gagnlíkindahlutföll og 95% öryggisbil til að meta breytingar á nýgengi AOP sem leiddi til meðferðar, meta hugsanlega forspársþætti þess og til að meta tengsl annarra sjúkdóma fyrirbura við blóðgjafir. Gerð var línuleg aðhvarfsgreining og notuð lýsandi tölfræði til að meta aldur barna við síðustu blóðgjöf eftir meðgöngulengd.

Niðurstöður: Nýgengi AOP yfir öll árin var 38,5 á hver 100 börn og hækkaði á rannsóknartímabilinu. Fyrirburar voru tvöfalt líklegri að fá blóðgjöf v/AOP á árunum 2010-2019 en 2000-2009 (p<0,001; OR: 2,0). Allir 23-25 vikna og 91,2% fyrirbura með fæðingarþyngd <1000 g fengu blóðgjöf v/AOP. Meðgöngulengd ≤28 vikur (p<0,001; OR: 4,5), Apgar <7 við einnar mínútna aldur (p<0,001; OR: 1,8) og fæðingarþyngd <1000 g (p<0,001; OR: 30,1) voru sjálfstæðir forspárþættir AOP. Miðgildi PMA í vikum við síðustu blóðgjöf var 34 hjá 23-28 vikna, 36 hjá 29-30 vikna og 37 hjá 31-32 vikna fyrirburum. Fjöldi 29-32 vikna fyrirbura sem fengu blóðgjöf v/AOP jókst (p<0,001; OR:4,8) ásamt því að þeir voru eldri við síðustu blóðgjöf (p<0,05) og fjöldi blóðgjafa á hvern fyrirbura var meiri (p<0,05) á rannsóknartímabilinu. Ekki varð marktæk breyting á meðferð við AOP hjá 23-28 vikna fyrirburum, nema hækkun á viðmiðunargildum hjá 25-26 vikna fyrirburum (p<0,05).

Ályktanir: Aukning hefur orðið á blóðgjöfum sl. tíu ár, einkum vegna breytinga á meðferð AOP hjá 29-32 vikna fyrirburum sem er ekki í samræmi við erlendar rannsóknir. Fleiri 29-32 vikna fyrirburar fá

blóðgjöf, hver fær fleiri blóðgjafir og eru þeir eldri við síðustu blóðgjöf. Tilefni er því til að endurskoða verklagsreglur um blóðgjafir fyrirbura á Íslandi. Sjálfstæðir forspárþættir eru m.a. styttri meðganga en allir 23-25 vikna fyrirburar þurfa blóðgjöf v/AOP. Ekki liggja fyrir óyggjandi niðurstöður á því við hvaða aldur börn þurfa ekki lengur á blóðgjöf að halda v/AOP.

Blóð- og járnhagur kvenkyns blóðgjafa og tengsl við meðgöngu- og fæðingasögu Stefanía Ásta Davíðsdóttir1, Anna Margrét Halldórsdóttir1,2, Kristjana Einarsdóttir1,3, Ýr Frisbæk4 og Þóra Steingrímsdóttir1,4 1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Blóðbankinn Landspítala, 3Miðstöð í lýðheilsuvísindum, 4Kvennadeild Landspítala Inngangur: Sýnt hefur verið fram á að kyn, aldur og fjöldi blóðgjafa hafa áhrif á járnbirgðir. Vitað er að járnþörf kvenna eykst á meðgöngu og stór hluti af járnbirgðum móður er nýttur til fósturþroska. Ef konur ná ekki að viðhalda járnbirgðum sínum getur það leitt til járnskorts. Járnskortur á meðgöngu getur leitt til fyrirburafæðinga, lágrar fæðingarþyngdar og fósturláta. Blóðbankinn nýtir ferritínmælingar í sermi sem mælikvarða á járnhag allra nýskráðra gjafa og eftir 2017 hjá öllum heilblóðsgjöfum í Blóðbankanum. Markmið rannsóknarinnar voru; að rannsaka járn- og blóðhag kvenkyns blóðgjafa í Blóðbankanum. Að skoða dreifingu járn- og blóðhags kvenna og tengsl við fjölda fyrri fæðinga og tímalengd frá síðustu fæðingu. Að skoða tíðni járnskorts og blóðleysis með tilliti til sömu breyta.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin náði til 10.824 kvenna sem höfðu gefið heilblóð og/eða verið nýskráðar í Blóðbankanum á árunum 1997-2019. Gögn úr Blóðbankanum voru samkeyrð við gögn úr Fæðingaskrá Embættis landlæknis til að fá upplýsingar um meðgöngu- og fæðingasögu. Úr ProSang tölvukerfi Blóðbankans fengust niðurstöður blóðhags og serum ferritínmælinga blóðgjafa. Til að bera saman járnhag milli hópa var notast við meðal ferritíngildi hverrar konu. Járnskortur var skilgreindur sem serum ferritín <15 µg/L. Blóðleysi var skilgreint sem blóðrauði <120 g/L.

Niðurstöður: Hjá nýskráðum gjöfum mældist ferritín að meðaltali 40,1 ± 49,5 µg/L en hjá virkum gjöfum 28,0 ± 20,2 µg/L (p<0,001). Hjá nýskráðum mældist meðalblóðrauði 136,0 ± 12,9 g/L en hjá virkum blóðgjöfum 134,0 ± 9,4 g/L (p<0,001). Ferritíngildi fóru hækkandi með hækkandi aldri. Hæstu gildin voru hjá 50-65 ára konum hjá virkum (34,1 ± 24,2 µg/L) og nýskráðum (78,6 ± 124,5 µg/L). Ferritíngildi innan hvers aldurshóps voru svipuð eftir því hvort kona fæddi barn eða ekki. Járnskortur var algengari hjá virkum gjöfum (31%) en nýskráðum (11%) (p<0,001). Ferritín- og blóðrauðagildi fóru hækkandi með lengri tíma frá fæðingu fram að blóðgjöf. Alls voru 12,2% kvenna með blóðleysi (blóðrauði <120 g/L) og 25,6% með járnskort (serum ferritín <15 µg/L) einhvern tímann á tímabilinu. Tíðni járnskorts hjá þeim sem ekki fæddu barn (27,5%) var hærri en þeirra sem fæddu barn (25,3%).

Ályktanir: Tími frá fæðingu að næstu blóðgjöf virðist hafa áhrif á ferritín- og blóðrauðagildi kvenna. Mögulega væri skynsamlegt að lengja lágmarkstíma (nú níu mánuðir) frá fæðingu að næstu heilblóðsgjöf í Blóðbankanum að minnsta kosti þegar ferritíngildi eru lág. Hluti kvenna nær ekki að endurnýja járnbirgðir sínar og járnskortur er algengur meðal kvenna. Einnig gæti járnuppbót og mikil eftirfylgd fyrir konur með lágar járnbirgðir eftir fæðingu bætt heilsu þeirra kvenna.

Meðferð háþrýstings í heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu

Stefán Júlíus Aðalsteinsson

(Ágrip barst ekki)

Tíðni og afleiðingar hjartadreps í eða eftir kransæðahjáveituaðgerð Sunna Rún Heiðarsdóttir1, Martin Ingi Sigurðsson1,2, Tómas Guðbjartsson1,3 1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala, 3Hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala Inngangur: Hjartadrep í eða eftir aðgerð (perioperative myocardial infarction) er flokkað með alvarlegum snemmkomnum fylgikvillum kransæðahjáveituaðgerðar en áhrif þess á horfur sjúklinga eru óljós. Markmið rannsóknarinnar var að meta áhrif hjartadreps á aðra fylgikvilla, 30 daga dánartíðni og langtímalifun.

Efni og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og náði til 1446 sjúklinga sem gengust undir kransæðahjáveituaðgerð á Landspítala á tímabilinu 2002-2018. Upplýsingar um sjúklinga fengust úr sjúkraskrám og aðgerðarskýrslum en sjúklingar sem lagðir voru inn með hjartadrep fyrir aðgerðina voru útilokaðir. Hjartadrep var skilgreint skv. alþjóðlegum skilmerkjum (WHO) þ.e. tíföld hækkun á efri mörkum hjartavísinum TnT, en einnig tíföld hækkun á CK-MB, ásamt nýjum óeðlilegum Q-bylgjum og/eða vinstra greinrofi. Sjúklingar sem fengu hjartadrep í tengslum við aðgerð voru bornir saman við sjúklinga án hjartadreps (viðmiðunarhóp) hvað varðar snemmkomna fylgikvilla og 30 daga dánartíðni. Eftirfarandi langtíma fylgikvillar voru sérstaklega skoðaðir; hjartaáfall, heilablóðfall, hjartaþræðing með eða án ísetningu stoðnets en einnig endur-hjáveituaðgerð og dauði og þeir teknir saman í sameiginlegan endapunkt, MACCE (major adverse cardiac and cerebrovascular events). Langtímalifun og MACCE-frí lifun voru síðan áætlaðar með aðferð KaplanMeiers en meðal eftirfylgdartími var 8,4 ár og miðast við 31. desember 2018.

Niðurstöður: Alls fengu 78 (5,4%) sjúklingar hjartadrep (bil: 0-15,5%) og lækkaði tíðnin marktækt yfir rannsóknartímabilið. Í hjartadrepshópi höfðu marktækt fleiri þriggja æða sjúkdóm og/eða vinstri höfuðstofnsþrengsli (98,7% sbr. 67,9%) og hlutfall sjúklinga með alvarleg blóðþurrðar einkenni var hærra (80,8% sbr. 64,9%). Hæsta meðalgildi CK-MB í hjartadrepshópi var 170,2 ± 116,8 sbr. 22,4 ± 16,2 (p<0,001) og fyrir TnT 3952 ± 6027 sbr. 501 ± 353 (p<0,001). Tíðni snemmkominna fylgikvilla var hærri í hjartadrepshópi og þar af var lungabólga algengust (15,4% sbr. 5,2%) og fleiri þeirra þurftu ósæðardælu (IABP) (9% sbr. 1,7%). Hlutfall sjúklinga sem létust innan 30 daga frá aðgerð var 11,5% í hjartadrepshópi en 0,4% í viðmiðunarhópi (p<0,001). Einnig reyndist marktækur munur á MACCE-frírri lifun (69,2% sbr. 84,7% við 5 ár, p=0,01). Hins vegar reyndist 5 ára heildarlifun ekki breytileg milli hópa.

Ályktanir: Sjúklingar sem fá hjartadrep í eða eftir kransæðahjáveituaðgerð hafa hærri tíðni snemmkominna fylgikvilla og verri 30 daga lifun. Ef sjúklingar lifa fyrsta mánuðinn eftir aðgerð eru horfur sambærilegar og hjá þeim sem ekki fá hjartadrep.

Notkun immúnóglóbúlína á Landspítala 2010–2019 Valgeir Steinn Runólfsson1, Þórunn Óskarsdóttir2, Rannveig Einarsdóttir2 , Valtýr Stefánsson Thors1,4, Björn Rúnar Lúðvíksson3, og Ásgeir Haraldsson1,4 1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Landspítali, 3Ónæmisfræðideild Landspítala, 4Barnaspítali Hringsins Inngangur: Immúnóglóbúlínmeðferð er sannreynd og mikilvæg meðferð við mótefnaskorti og ákveðnum bólgu- og sjálfnæmissjúkdómum. Framleiðsla lyfsins er flókin og kostnaðarsöm, og með vaxandi notkun þess hefur borið á skorti á lyfinu á heimsvísu. Því er mikilvægt að meðferð sé beitt eftir læknisfræðilegum ábendingum og er lyfið því leyfisskylt hér á landi. Meginmarkmið þessarar rannsóknar var að meta notkun immúnóglóbúlína á Landspítalanum á árunum 2010-2019.

Efniviður og aðferðir: Samþykktar leyfisumsóknir sjúklinga sem fengu immúnóglóbúlínmeðferð 2010-2019 voru yfirfarnar. Fengnar voru upplýsingar um aldur, kyn, tegund lyfs, ábendingar og sérgreinar lækna sem ávísuðu meðferð. Einnig var upplýsingum um einstakar

lyfjagjafir á dag- og göngudeildum safnað. Útlagður lyfjakostnaður var fenginn úr gagnagrunni Sjúkrahúsapóteks Landspítala.

Niðurstöður: Á tímabilinu fékk 921 einstaklingur immúnóglóbúlínmeðferð á Landspítalanum. 861 fékk meðferð í æð, 26 fengu gjöf undir húð og 34 fengu bæði. Af 921 meðferð voru 667 með skráðar ábendingar (72,4%), 245 óskráðar og óljósar ábendingar voru 9. Algengustu sjúkdómsflokkar allra ábendinga voru ónæmisbrestir, taugasjúkdómar og krabbamein. Lungnalæknar og ofnæmis- og ónæmislæknar ávísuðu lyfinu mest. Algengasta ábending fyrir meðferðinni á tímabilinu var áunninn mótefnaskortur, hjá 23% einstaklinga. Fjöldi einstaklinga sem fengu samþykkta leyfisumsókn á ári jókst um 350% og fjöldi lyfjagjafa á ári jókst um 296% á tímabilinu og var marktækur munur á milli ára. Útlagður lyfjakostnaður, leiðréttur fyrir verðlagi, jókst úr 300 í 638 milljónir á ári á tímabilinu.

Ályktanir: Notkun immúnóglóbúlína á Landspítalanum fer vaxandi. Hlutfall notkunar eftir skráðum ábendingum er svipað og í niðurstöðum fyrri rannsóknar sem bendir til árangurs verklags við leyfisveitingar. Þó er ljóst að skráningu er ábótavant, sérstaklega er varðar árangursmat meðferðar, og þörf er á skýrum meðferðarleiðbeiningum. Immúnóglóbúlínmeðferð er árangursrík en hún er takmörkuð auðlind. Innleiðing meðferðarleiðbeininga auk árangurs- og lífsgæðamats gæti leitt til bættrar útkomu meðferðarmarkmiða auk þess að nýtast til frekari vísindarannsókna í tengslum við notkun mótefna í lækningaskyni.

Erfðir sjálfsmótefna: Víðtæk erfðamengisrannsókn á erfðabreytileikum tengdum myndun sjálfsmótefna Þorsteinn Markússon1, Sædís Sævarsdóttir1,2,3, Ingileif Jónsdóttir1,2, Björn R. Lúðvíksson3 1Læknadeild Háskóla Íslands, 2Íslensk erfðagreining, 3Landspítali háskólasjúkrahús3 Inngangur: Ólíkar gerðir sjálfsofnæmissjúkdóma ganga saman í ættir, birtast jafnvel samtímis í sama einstaklingi og geta einkennst af sömu gerðum sjálfsmótefna. Jafnframt mælast ættingjar einstaklinga með slíka sjúkdóma fremur með sjálfsmótefni í blóði en aðrir, jafnvel án klínískrar þýðingar. Til þessa hafa örfáar víðtækar erfðamengisrannsóknir (e. genome wide association studies; GWAS) skoðað erfðabreytileika tengda jákvæðum mælingum nokkurra gerða sjálfsmótefna, svo sem þeim einkennandi fyrir sjálfsofnæmi í skjaldkirtli og sykursýki. Markmið þessarar rannsóknar var að finna erfðabreytileika tengda myndun allra algengra sjálfsmótefna, þ.e. jákvæðum mælingum þeirra.

Efniviður og aðferðir: Til grundvallar rannsókninni var þýði 53.741 einstaklinga. Um þá lágu fyrir niðurstöður mælinga algengra sjálfsmótefna frá ónæmisfræðideild LSH, frá þrettán ára tímabili (2005-18). Í GWAS rannsókn voru tengsl 33.903.150 erfðabreytileika við jákvæðar mælingar allra algengra sjálfsmótefna (> 100 jákvætt mældir á tímabilinu) skoðuð sem og við mælingar algengustu gerða þeirra (ANA, skjaldkirtilssjálfsmótefna, ACPA, RF og sértækari undirgerða þeirra tveggja fyrstnefndu). Til samanburðar var annars vegar hafður rúmlega 300.000 manna viðmiðunarhópur úr gagnasöfnum Íslenskrar erfðagreiningar og hins vegar hópar þeirra sem mælst höfðu neikvæðir fyrir sömu sjálfsmótefnum. GWAS marktækniþröskuldur var reiknaður með Bonferroni-veginni aðferð fyrir hvern starfrænan flokk erfðabreytileika. Breytileikar með GWAS marktæk tengsl við einhverja svipgerðanna voru skoðaðir miðað við nýjan marktækniþröskuld (α = 4,46E-4), veginn eftir takmörkuðum fjölda breytileika og svipgerða, til þess að rannsaka áhrif þeirra þvert á svipgerðir. mRNA raðgreiningargögn úr heilblóði 13.173 Íslendinga voru notuð til þess að rannsaka cis-eQTL tjáningaráhrif breytileika á nálæg gen.

Niðurstöður: Átta erfðabreytileikar á sjö genasvæðum sýndu GWAS marktæk tengsl við myndun ólíkra gerða sjálfsmótefna, í samanburði við þýðisviðmið. Sjö þeirra, í eða við IRF5, IRF8, PTPN22, CTLA4, SH2B3, og ARID5B hafa þegar þekkt tengsl við sjálfsofnæmissjúkdóma. Mislestursbreytileiki rs2476601 G>A í PTPN22 var þá sá eini sem sýndi GWAS marktæk tengsl við fleiri en eina ólíka gerð sjálfsmótefna, en það gerði innskotsbreytileiki í IRF5 líka þegar áhrif allra GWAS marktækra breytileika voru skoðuð þvert á svipgerðir með rýmri marktækniþröskuldi. Aðeins einn breytileiki, tengdur myndun skjaldkirtilssjálfsmótefna, hafði marktæk cis-eQTL áhrif en hann jók tjáningu genanna RNASET2 og CCR6.

Ályktanir: Í þessari fyrstu GWAS rannsókn á erfðabreytileikum tengdum myndun sjálfsmótefna sem slíkri og undirgerða þeirra, fundust breytileikar sem flestir hafa þegar þekkt tengsl við sjálfsofnæmissjúkdóma. Athygli vakti hve lítil skörun var á tengslum breytileika við jákvæðar mælingar ólíkra gerða sjálfsmótefna. Með sjúkdómsgreiningar viðfanga til hliðsjónar munum við kanna nánar hvort tengsl erfðabreytileika við sjálfsmótefni endurspegli tengsl við sjálfsofnæmissjúkdóma eða geti út af fyrir sig verið hluti af flóknu orsakasamhengi sjálfsmótefnamyndunar. Faraldsfræði briskrabbameins á Íslandi 2010–2014 Þóra Hlín Þórisdóttir (Ágrip barst ekki)

Greining og meðferð sjúklinga með krabbamein í ristli- og endaþarmi árin 2014–2018 Þórður Líndal Þórsson (Ágrip barst ekki)

This article is from: