5 minute read

Reynslusaga af spítala: Innlögn á lýtalækningadeild vorið 2020

Jón Torfason Fyrrverandi skjalavörður á Þjóðskjalasafni Íslands Á langri ævi hef ég farið betur en vel út úr samskiptum við heilbrigðiskerfið og sé máttarvöldunum þökk fyrir það. Hef þó að meðaltali einu sinni á hverjum aldarfjórðungi þurft að leggjast inn á spítala og var þriðja skiptið á vordögum í fyrra, þegar með beittum hníf og ýmsum öðrum tólum ákveðið líffæri var að hluta numið burt. Meginþungi framkvæmdanna var á deild A5 á Borgarspítalanum sem m.a. er lýtalækningadeild.

Ég undirbjó mig af kostgæfni fyrir mína þátttöku í aðgerðinni. Þar sem þetta var á nokkuð viðkvæmum stað byrjaði ég á að hitta viðkomandi lækni og gekk úr skugga um að hann væri ekkert skjálfhentur og að morgni aðgerðardagsins horfði ég vandlega í augu hans og sá að hann var hvorki rauðeygður né glaseygður, þetta var nefnilega á mánudagsmorgni og maður veit aldrei hvernig menn koma undan helgunum. Ég nefndi við hann að það væri draumur minn að leika í Dressmann auglýsingunni þannig að hann þyrfti að vanda sig við handverk sitt, sem hann lofaði og stóð drengilega við.

Advertisement

Af vandvirkni valdi ég lestrarefni og hafði með mér snilldarverk Gyrðis Elíassonar, Milli trjánna. Það er gott að lesa smásögur á spítölum því meðvitundin er stundum á reiki og ekki gott að festa hugann við stóra dramatíska doðranta. Um morguninn var ég klæddur í undarlegan slopp, sem var saumaður með þeim endemum, að ég þurfti aðstoð við að komast í hann, lagðist síðan upp í rúm og byrjaði að glugga í bókina. Þegar tíminn nálgaðist þorði ég ekki annað en að hætta að lesa því heyrst hefur að stundum fái menn óþægilega martröð eftir djúpa svæfingu. Algengt þema í mörgum bókum Gyrðis eru miðaldra hvítir karlmenn sem eru í vandræðum með líf sitt, oftast hálfgerðir auðnuleysingjar sem berast um í ráðleysu og lenda í ófærum eða vonlausum aðstæðum. Mig langaði ekki að eiga slíka martröð á hættu þannig að ég lagði bókina frá mér og fór ýmist að horfa út um gluggann eða á klukkuna. Þetta reyndist hyggilegt því ég slapp alveg við allar martraðir.

Á réttum tíma var mér fylgt á skurðstofuna, þar er eins konar alrými í miðju en miklar vinnustofur til hliða. Þarna var ys og þys, fólk í sloppum með skuplur yfir hári sem stormaði fram og til baka en sótthreinsunarkeimur lá í loftinu. Ég fékk á tilfinninguna að þarna væri um að ræða afar vel skipulagt kaos, en fékk því miður lítinn tíma til að kanna það nánar.

Í bjartri hliðarstofu tóku á móti mér þrjár ungar konur, heilsuðu hlýlega og byrjuðu að spjalla en ein breiddi yfir mig hlýtt teppi. Ég reyndi að skrúfa frá sjarmanum, innti eftir hvort einhver þeirra væri að norðan og fór að grennslast eftir ættartengslum. Ekki komst þetta nálægt því að farið væri að skiptast á símanúmerum og brátt stungu þær nál í handlegg og svo voru þær allt í einu horfnar en komin ný kona á allt öðrum stað, þ.e. vöknunardeild. Þar var nú ekki mikið talað en eiginlega heldur notalegt. Vísast sé ég þessar góðu konur aldrei framar. Þetta er það sem kallast skyndikynni.

Nú var mér skutlað inn á legudeild þar sem fyrir voru tvö gamalmenni á áttræðisaldri en ég sá þriðji í sama aldursflokki. Var nú svo sem ekki annað að gera en láta tímann líða og jafna sig. Líkami okkar er þannig gerður, að hann læknar sig í rauninni sjálfur en þarf til þess hvíld og smá aðstoð, uppbyggileg lyf og skynsamlegar æfingar. Nú átti ég stutt samtal við lækninn sem sagði að aðgerðin hefði tekst vel og stykkið sem hann nam brott hefði verið á stærð við mangóávöxt. Fáförull sveitamaður að norðan, að auki svolítið vankaður eftir svæfingu, henti þá líkingu ekki á lofti og var nokkra stund að meðtaka þessa stærð, hefði betur skilið ef talað hefði verið um stóra appelsínu eða bökunarkartöflu.

Hér má skjóta því inn að þegar læknar á síðari hluta 19. aldar þróuðu aðferðir í baráttu við sullaveikina, sem þá grasseraði í landinu, báru þeir stundum stærð sullanna saman við egg anda og annarra fugla, líkingar sem allir skildu á þeim tíma, en nú er sum sé talað annars konar líkingamál.

Stundum hefur verið rætt, þegar menn þurfa að gista saman t.d. í hópferð, hvort sé betra að vera í herbergi með manni sem talar látlaust eða manni sem aldrei segir neitt. Þetta er dálítið snúin spurning og ekki einfalt að svara. En á þessari stofu upplifði ég hvort tveggja í senn (eða bæði, eða hvernig sem á nú að orða þetta), því annar herbergisfélagi minn sagði eiginlega aldrei neitt, umlaði einstaka sinnum lítillega í honum, en hinn talaði nánast látlaust, alltaf þegar hann fékk einhvern viðmælanda og svo í símann þess á milli. Báðir voru þeir svo sem ágætir, bara hvor með sínu móti, en mér er enn óljóst hvor herbergisfélaginn hefði verið þægilegri í langri viðkynningu.

Ég svaf sæmilega um nóttina, þó aldrei nema stutta dúra, en undir morgun tókst mér loksins að sofna nokkuð fast. En einmitt þá, eða upp úr kl. 6, var farið að káfa á handleggnum og mér og taka blóðþrýsting og blóðprufu þannig að nú vaknaði maður aftur. Þetta er nú eiginlega óguðlegur tími en svona er hið spartverska skipulag spítalanna og þessu þurfti að ljúka fyrir vaktaskipti. Altækt og skilvirkt skipulag með járnhörðum aga, eins og verður að vera í hernum, hefur óhjákvæmilega í för með sér að rekast stundum á einkahagsmuni einstakra manna og maður fylgdi því afstöðu góða dátans Svejks og sætti sig við fyrirkomulagið.

Ég hef alltaf tekið sjúkdóma alvarlega og finnst þegar veikindi hrjá mann, að þá eigi að einbeita sér að því að vera veikur. Nú hugðist ég vera það næstu daga, meðan ég væri að jafna mig, og nýta tilboð ættingja og vina um aðstoð við heimilisstörf, innkaup (sem þeir myndu sjálfir fjármagna), matargerð, þrif og önnur slík leiðinleg húsmæðrastörf. Þegar ég kvaddi doktorinn góða að morgni útskriftardags hafði ég orð á þessu, hvort ég ætti ekki að hafa hægt um mig í þessum miklu veikindum, og reiknaði með stuðningi hans. En nú horfði hann í augun á mér og sagði að ég væri ekkert veikur og það væri ekkert að mér, væri sum sé fullkomlega frískur, gæti strax farið út að ganga og þyrfti enga aðstoð. Þar með fór sú ráðagerð út um þúfur.

Eftir að flestu leyti þægilega dvöl á spítalanum kom ég heill heim þakklátur hinu góða opinbera heilbrigðiskerfi og starfsfólki Landspítalans okkar.

This article is from: