8 minute read
Að blanda fræðum og fjöri læknisfræðileg hlaðvörp
Að blanda fræðum og fjöri
Læknisfræðileg hlaðvörp eru sífellt að verða vinsælli uppspretta símenntunar og skemmtunar hjá læknum og læknanemum um heim allan. Hlaðvörpunum fjölgar dag frá degi og getur það reynst óvönum erfitt að átta sig á hvar best er að stíga niður fæti. Við vonum að þessi umfjöllun nýtist í þeim efnum og komi sem flestum á hlaðvarpsvagninn. Að fræðast á einfaldan og handhægan máta með lágmarks áreynslu? Stöngin inn.
Advertisement
Hvað eru læknanemar að hlusta á? Í skoðanakönnun Læknanemans 2021 spurðum við læknanema hvaða læknisfræðilegu hlaðvörp þeir hlusta helst á. Hér má sjá fimm vinsælustu svörin.
Dagáll læknanemans
This Podcast Will Kill You Curbsiders
JAMA Clinical Reviews Sawbones
Dagáll læknanemans
Hlaðvarpið Dagáll læknanemans leit dagsins ljós á haustdögum 2020 og er það gefið út sem þáttasyrpa innan Hlaðvarps Landspítala. Það fjallar um klíníska læknisfræði og fá þáttastjórnendur til sín sérfræðinga og sérnámslækna og leysa með þeim tilfelli í viðkomandi sérgrein. Efni þáttanna byggir helst á lyflækningum og er því beint að læknanemum og öðrum áhugasömum. Hlaðvarpið er það fyrsta sinnar tegundar á Íslandi og hefur hlotið mikið lof bæði lækna og læknanema.
Við tókum viðtal við þau Sólveigu Bjarnadóttur og Teit Ara Theodórsson, þáttastjórnendur Dagáls læknanemans, og spurðum þau út í hlaðvarpið og aðdragandann að gerð þess.
Hver eruð þið? TAT: Ég heiti Teitur Ari Theodórsson og er 5. árs læknanemi og fráfarandi formaður Félags læknanema (FL). SB: Ég heiti Sólveig Bjarnadóttir og er nýútskrifaður læknir í sérnámsgrunni og fyrrum FL-ari.
Hvernig kom hugmyndin upp? TAT: Ég hafði verið að vinna á hjartadeildinni eftir 4. ár. Það sumar uppgötvaði ég læknisfræði hlaðvörpin sem eru mjög mörg og mörg gífurlega góð. Mæli með við alla læknanema að kíkja á þau. Hins vegar fannst mér glufa á markaðnum sem mig langaði að fylla, fæst hlaðvörpin voru sérstaklega sniðin að læknanemum. Svo fannst mér bara svo góð hugmynd að fá klukkutíma með vel völdum sérfræðingum sem myndu þá svara öllum mínum spurningum um tiltekið málefni undir því yfirskini að ég væri að taka upp hlaðvarp. SB: Ég hafði hlustað töluvert á hlaðvarpið Curbsiders eftir að mér var bent á það af góðum sérnámslækni og fannst ég læra margt þar sem ég hafði ekki endilega lært í skólanum. Ég hélt samt að Teitur væri að grínast þegar hann varpaði fram þeirri hugmynd að við myndum byrja með hlaðvarp fyrir læknanema. Áttaði mig hins vegar fljótt á því að honum var fúlasta alvara og að þetta væri raunhæf og í raun frábær hugmynd.
Var auðvelt að koma hugmyndinni í framkvæmd? TAT: Þrettán dögum frá því að ég ræddi þetta við Sólveigu var fyrsti þátturinn kominn í loftið. Kosturinn við hlaðvörp er að það er mjög lítil yfirbygging. LSH átti græjur sem þau voru tilbúin að lána okkur. Svo er þetta bara plug and play. Samskiptafræðideild LSH var okkur og er mjög innan handar ef eitthvað kemur upp á. SB: Við vissum að við þyrftum öflugan viðmælanda til að ríða á vaðið og fengum því Eyjamanninn Hjálmar Ragnar Agnarsson í fyrsta þátt. Verandi sérstaklega veikur fyrir hjartabilun þá var hann auðvelt fórnarlamb. Höfum síðan fengið fjölmarga góða gesti, suma oftar en einu sinni, og fólk er undantekningarlaust mjög jákvætt fyrir því að taka þátt.
Voruð þið að byggja á einhverri ákveðinni fyrirmynd? TAT: Ég hugsa að fyrst um sinn hafi aðal fyrirmyndin verið hlaðvarpið Curbsiders. Þeir eru með mjög langa þætti þar sem kafað er ofan í tiltekið málefni. Mér finnst þættirnir okkar þó núna vera að þróast meira í átt að hlaðvarpi CPS (Clinical Problem Solver) og verða þannig enn meira tilfellamiðaðir, fær þannig hlustandann til þess að setja sig í stellingar og hlusta af athygli. SB: Höfum einmitt tekið þrjá þætti - um hita, gigt og lungnabólgu - þar sem rétt greining er afhjúpuð í lok þáttarins.
Var eitthvað sem kom á óvart? TAT og SB: Það sem kom einna helst á óvart var hversu breiður hópur hlustar á þættina. Við lögðum af stað með það að gera hlaðvarp fyrir læknanema en höfum síðan heyrt frá sérnámslæknum, hjúkrunarfræðingum, lyfjafræðingum og fjölmörgum öðrum sem eru að hlusta og okkur þykir sérstaklega vænt um það.
Af hverju lyflækningar? TAT og SB: Þegar ég var að hlusta á hlaðvörp eins og Curbsiders tengdi ég mjög við þáttastjórnendurna. Þeir voru oft að spyrja um atriði sem ég var að velta fyrir mér, eftir að hafa haft einhverja klíníska reynslu af einhverju tilteknu vandamáli. Varð mér þá ljóst að til þess að gera gott klínískt hlaðvarp þyrfti maður helst að haft einhverja klíníska reynslu. Þess vegna held ég að lyflækningarnar hafi orðið ofan á í þáttunum til þessa, þar sem við höfum bæði unnið á lyflækningasviði. Við erum þó að færa út kvíarnar. Við fengum t.d. geðlækna með okkur í þátt um óráð og erum með nokkra geð þætti á planinu. Svo erum við líka með augn þátt í pípunum. Svo kannski bara BMT þætti eftir sumarið hver veit?
Unnur Lilja Úlfarsdóttir Sérnámslæknir í skurðlækningum Hlaðvarpið Surgery 101 er sniðugt fyrir læknanema. Þar eru stuttir og hnitmiðaðir þættir um ákveðin efni í öllum greinum skurðlækninga. Einnig er hægt að skoða LEGO surgery en það eru stutt og skemmtileg myndbönd þar sem einfaldar skurðaðgerðir eru útskýrðar með legóköllum. Behind the knife er hlaðvarp um almennar skurðlækningar, þar er farið aðeins dýpra í efnið með lengri þáttum. Það er bæði fróðlegt og skemmtilegt og hefur reynst mér vel.
Anna Kristín Gunnarsdóttir Sérnámslæknir í geðlækningum Uppáhalds hlaðvörpin tengd mínu sérnámi eru tvö og má finna bæði á Spotify. Annars vegar er það PsychEd en stjórnendur þess eru sérnámslæknar í geðlækningum í Kanada. Þau fjalla um hvernig skal greina og meðhöndla geðsjúkdóma ásamt öðru sem getur komið að gagni í klínískri vinnu. Hins vegar er það hlaðvarpið Psychopharm Updates á vegum Psychopharmacology Institute. Þar er stiklað á stóru á skemmri tíma og farið hnitmiðað yfir meðferðarmöguleika við ýmis konar geðröskunum. Berglind Bergmann Sérnámslæknir í lyflækningum Ég mæli með Clinical Problem Solvers hlaðvarpinu! Þetta er ekki einungis hlaðvarp heldur líka smáforrit og frábær vefsíða með allskyns gagnlegum greiningarskemum tengdum mikilvægum viðfangsefnum í lyfl æknisfræði. Þetta er algjör fjársjóður! Hlaðvarpið samanstendur af margs konar týpum af þáttum og ég mæli sérstaklega með þáttunum sem heita Human Dx, Clinical Unknown og RLR. Þetta eru greiningarþættir þar sem eitt tilfelli er tekið fyrir og nokkrir aðilar, blindaðir fyrir tilfellinu, leysa tilfellið ,,in real time". Þetta eru yfirleitt frábærir þættir og mjög lærdómsríkir, en þau nota gjarnan aðferðafræði clinical reasoning við að leysa tilfellin sem ég er mjög hrifin af. Það er hins vegar ágætt að nefna að þáttastjórnendur eru gríðarlega jákvæðir fyrir viðmælendum sínum og dásama þá í hvert mál en þau eru að reyna að búa til jákvætt umhverfi þar sem allir þora að hugsa upphátt og taka þátt í umræðunni. Verð að nefna Curbsiders í lokin, en það þekkja núorðið allir það hlaðvarp!
Finnbogi Ómarsson Sérnámslæknir í barnalækningum Peds in a pod er mitt uppáhalds podcast um barnalæknisfræði. Gott yfirlit yfir helstu atriði barnalæknisfræðinnar. Mjög fjölbreytt efni með mörgum undirsérgreinum. Rætt við sérfræðinga í faginu sem auka þekkingu hlustandans og koma oft með góðar perlur sem nýtast í starfi. Þægileg lengd og komið beint að efninu. Guðrún Ingibjörg Þorgeirsdóttir Sérnámslæknir í bráðalækningum og stofnandi @dr.ladyreykjavik á Instagram Læknisfræðihlaðvörp eru án efa mín uppáhalds leið til símenntunar þessa dagana. Eftir að ég útskrifaðist úr grunnnáminu hafði ég mjög háleitar hugmyndir um að halda áfram að lesa og læra daglega til að halda þekkingunni við og öðlast nýja. Ég komst fljótlega að því að sérnám og vinna tekur sinn toll af bæði orku og tíma og áður en maður veit af tekur hversdagurinn yfir. Hlaðvörp koma hins vegar þar sterkt inn - það er svo ótrúlega handhægt að hlusta á einn þátt t.d. á meðan maður er að keyra eða í ræktinni. Mín uppáhalds hlaðvörp eru: • The St. Emlyn´s Podcast: Líklega það hlaðvarp sem ég hlusta hvað mest á - frábært hlaðvarp sem færir þér allt það nýjasta úr heimi bráðalækninga. Ég mæli sérstaklega með því fyrir læknanema sem hafa áhuga á að kynna sér bráðalækningar nánar því þau eru með ókeypis prógramm sem er sérhannað fyrir læknanema og kandídata sem eru að stíga sín fyrstu skref á bráðamóttöku. Prógrammið er að finna inni á vefsíðunni þeirra og einn hlaðvarpsþáttur fylgir hverjum kafla. • EM:RAP: Að öllum líkindum vinsælasta hlaðvarpið innan bráðalækningaheimsins.
Það er reyndar ekki einungis hlaðvarp heldur vefsíða með tilheyrandi appi þar sem hægt er að nálgast ógrynni hlaðvarpsþátta, myndbönd, æfingaspurningar og praktísk yfirlit yfir alls kyns algeng vandamál á bráðamóttökum. Maður þarf að greiða árgjald fyrir aðgang en læknanemar og sérnámslæknar fá góðan afslátt og aðgangurinn margborgar sig að mínu mati. • The Curbsiders: Að mínu mati langbesta hlaðvarpið um almennar lyflækningar.
Frábærir þættir þar sem þau taka saman greinargóð yfirlit yfir ákveðin efni innan lyfl ækninga. Auk þess eru “hot cakes” þættirnir þeirra í sérstöku uppáhaldi hjá mér en í þeim fara þau yfir nokkrar nýlegar greinar sem þau telja vera “practicechanging” eða með öðrum orðum svo gagnlegar að innihald þeirra breyti því hvernig við stundum læknisfræði dag frá degi!