4 minute read

Hinir klínísku sjálfsalar

Sjálfsalar Landspítalans eru eins misjafnir og þeir eru margir. Hér verður gerð úttekt á þeim helstu á Hringbraut og í Fossvogi til að einfalda læknanemum (og öðrum áhugasömum) lífið á vöktum þegar matsalir eru lokaðir, of langt í burtu eða þegar hið klíníska nef stefnir rakleiðis í sykurfall. Til að geta með öryggi gengið sjálfala um spítalann er mikilvægt að vera kunnur staðháttum og ganga rakleiðis til verks.

Hringbraut: Starfsmannainngangur við Eiríksgötu Einna helst nytsamlegur til að grípa sér eitthvað á leiðinni inn að morgni. Staðsettur við línherbergið á Hringbraut og því hægt að nýta tækifærið þegar maður tekur sér föt. Þessi er fyrir hinn forsjála læknanema enda getur smá gotterí gert dimma vetrardaga bærilega. Vert að nefna þó í þessu samhengi að ekkert matarkyns fæst í þessum sjálfsala svo ef stjörnurúlla er ekki þinn „breakfast of choice“ þá myndi ég bara skauta framhjá. Gott úrval af orkudrykkjum þó sem getur reynst hentugt ef maður er illa sofinn og það er stutt í grill á stofugangi. Ef maður kemst stabíll framhjá honum að morgni er hann þó vita gagnslaus og úr alfaraleið það sem eftir lifir dags.

Advertisement

Hringbraut: Kringlan Fjórir veglegir sjálfsalar, allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Virkilega gott drykkjaúrval, til að mynda hægt að fá Coke í plasti, dós OG gleri. Selur samlokur og vefjur. Þrátt fyrir að vera ekki beinlínis miðlægt eru þessir sjálfsalar einna þægilegastir til að hlaupa í þegar maður er á lyflækningadeildum eða skurðstofum. Hægt að stoppa og spjalla við konuna í Rauða Kross búðinni á móti og skoða hinar ýmsu nauðsynjavörur sem þar fást. Þessir fá smá frádrátt fyrir að vera oft með stæla og þykjast bara taka við peningum.

Hringbraut: Barnaspítalinn, á fyrstu hæð við BMB Krúttlegt lítið horn með þremur sjálfsölum, þar á meðal Coke sjálfsalanum fræga. Hentug staðsetning þegar maður er í fyrirlestrum í Hringsalnum. Líður aðeins fyrir að vera nálægt dásamlegri kaffisölu Hringskvenna. Ef maður er heppinn er hægt að fá samloku eða jógúrt en það klárast þó yfirleitt um hádegi. Eini sjálfsalinn sem fannst við þessa rannsókn sem selur kaffi. Gott að vita af því ef maður leggur ekki í sírópskaffið í matsalnum og er of lítill í sér til að smygla sér í pumpurnar á deildunum.

Hringbraut: Kvennaspítalinn, undir stiganum á fyrstu hæð Ágætlega falinn. Gott að leita til ef þessi á Barnaspítalanum klikkar. Oft nóg eftir af samlokum og líka hægt að fá skyr. Samlokurnar eru líka flokkaðar eftir tegundum sem er alls ekki algilt í sjálfsölum spítalans. Stendur nálægt lyftunni á kvenna og því fljótlegt að nálgast af öllum deildum kvennaspítalans. Hægt að nýta ferðina og heimsækja eitt besta klósettið á Hringbraut sem er þarna rétt hjá (sjá umfjöllun í Læknanemanum 2020). Þessi fær aukastig fyrir að selja „nipple covers“ en fleiri sjálfsalar mættu tileinka sér að selja aukahluti í takt við staðsetningu.

Hringbraut: K-bygging (já, hún er til) Stakur, lítill sjálfsali sem geymir þó nokkurn veginn allar helstu nauðsynjar. Viðurkennum að þar fást hvorki samlokur né jógúrt en ólíkt mörgum sjálfsölum spítalans fást þarna próteinstykki og hnetumix. Einnig ágætt úrval af koffíndrykkjum miðað við hvað hann er lítill um sig. Ekki allir sem vita af þessum en hann er þó nær en maður heldur. Fallegt umhverfi og mikið um list, algjörlega þess virði að gera sér ferð til að taka út gripinn. Hringbraut: Geðdeild Sá sem kemur verst út í þessari úttekt. Áður en fráfarandi deildarforseti Læknadeildar mætir og skammar okkur skulum við útskýra af hverju. Til að byrja með er þessi sjálfsali staddur á geðdeildinni og er því illa aðgengilegur nema maður sé staðsettur á geðinu (nema maður labbi UTANHÚSS á leiðinni, bjakk). Einnig vill svo óheppilega til að hann er staðsettur við reykingaherbergi sjúklinga og því stendur maður í stybbunni þegar maður velur sér góðgætið. Þetta getur leitt til fljótfærnislegra ákvarðana og allt í einu stendur maður úti á miðju gólfi með dísæta smáköku og kókómjólk, nýbúinn að stela sér Óskajógúrti úr ísskápnum á BMG og kominn með hausverk af hyperglycemiu. Miðað við verðlagið í sjálfsölum spítalans getur þetta líka auðveldlega sett mann á hausinn. Þar að auki er ekki hægt að fá einn einasta koffíndrykk þarna. Og samlokurnar klárast yfirleitt um hádegi. Hann fær samt alveg einhverjar stjörnur því hann er yfirleitt með flott úrval af gotteríi.

Fossvogur: Við stigann á annarri hæð Fjórir stórir. Keimlíkir þeim í Kringlunni en miðlæg staðsetning og veglegra úrval gerir þessa sjálfsala að góðum viðkomustað. Þeir virðast vera óþrjótandi uppspretta froskabrjóstsykurs, sem margur hefur ánetjast. Sá sem staðsetti þessa sjálfsala á hrós skilið, nálægt bæði lyftum og stiga og fólk af flestum deildum í Fossvogi ætti að geta stokkið í þá án þess að fara yfir velsæmismörk í skrefafjölda. Þeir njóta þess vissulega við stigagjöfina að vera nánast þeir einu í Fossvogi og er samkeppnin því lítil. Hafa gerst sekir um að hafna kortum en enginn er fullkominn.

Fossvogur: Endurkoma á BMT ? Sáum þessa einhvers staðar út undan okkur á ferð um bráðamóttökuna. Þeir virtust vera fullir af góðgæti og gersemum en við hættum okkur þó ekki nær þar sem þeir voru staðsettir á biðstofu sjúklinga. Mætti líkja við óopnaðan konfektkassa um jól þegar maður var barn, má bara horfa en ekki snerta.

This article is from: