7 minute read
Valtímabil í Nýja Sjálandi
Ásta Guðrún Sighvatsdóttir Birna Brynjarsdóttir Hrafnhildur Bjarnadóttir Stella Rún Guðmundsdóttir Þórdís Þorkelsdóttir Kandídatar/sérnámsgrunnslæknar 2020–2021 Það er sumarið 2019, fimmta árið var að klárast, það er maí, eftirvæntingin fyrir sumrinu og koffínhöfuðverkurinn eftir síðustu prófatörn ræður ríkjum. Það eru fimm strembin ár af læknisfræðinni búin, bara eitt einasta eftir og á því er valtímabilið. Hvílíkt og annað eins tækifæri til að gera eitthvað öðruvísi, hugsa út fyrir kassann og prófa nýja hluti. Viðraði svo sannarlega vel til víðáttubrjálæðis. COVID-19 var ekki einu sinni til.
Við vorum fimm saman búnar að ákveða að fara eitthvert á valtímabilinu. Okkur langaði að fara langt í burtu, þar sem við gætum skilið og talað tungumálið, þar sem væru ágætis innviðir með tilheyrandi gæðum í heilbrigðisþjónustu og þar sem sumarið er í janúar. 22.541 kílómetrum í burtu (17.534 ef þú ferð hina leiðina) er Christchurch í Nýja-Sjálandi, staður sem uppfyllti allt á listanum og var nánast eins langt í burtu og hægt var að komast. Þangað var ferðinni heitið. Í gegnum tengilið einnar úr hópnum fengum við sex vikna námsstöður á bráðamóttöku, blóðlækninga- og háls- nef- og eyrnadeild á spítalanum í Christchurch við University of Otago frá 6. janúar til 14. febrúar 2020.
Advertisement
Þegar förinni er heitið hinum megin á hnöttinn er eins gott að nýta það og skoða aðra staði í „nágrenninu“. Flug var keypt til Fiji, hótel bókað og við ætluðum að hafa það náðugt á ströndinni í viku áður en herlegheitin hæfust. Tveim dögum fyrir brottför skall fellibylur á Fiji eyjar og flugum var aflýst. Í stuttu máli enduðum við í Hong Kong yfir áramótin og komumst ekki út af hótelinu á nýársdag vegna mótmæla. Eftir nokkra daga í Hong Kong flugum við yfir til Nýja-Sjálands.
Við leigðum okkur hús í nágrenni við sjúkrahúsið þar sem við bjuggum saman í fjórum herbergjum. Það tók um fimm mínútur að hjóla á milli, mest allan tímann í gegnum grænt gras og himinhá tré í Hagley Park, sem var kærkomin breyting frá janúar á Íslandi.
Christchurch, eða Ōtautahi er stærsta borgin á suður eyju Nýja-Sjálands og telur tæplega 400.000 íbúa. Þar, eins og annars staðar í landinu, er rík menning Maori fólksins, sem byggði landið löngu áður en hvíti maðurinn kom og gerði það að sínu. Á síðustu áratugum hafa stjórnvöld lagt ríka áherslu á að halda uppi menningu þeirra og er það nokkuð áþreifanlegt, sem dæmi hafa flest staðarheiti bæði heiti á ensku og á Maori. Fólk heilsast gjarnan með „Kia Ora“, sem í bókstaflegri merkingu þýðir „hafðu líf“ eða „vertu heilbrigður“. Einnig var lögð áhersla á það á spítalanum að virða hefðir þeirra. Sem dæmi um það má nefna tilfelli þar sem einstaklingur lést úr hjartastoppi á trauma herberginu á bráðamóttökunni. Áður en viðkomandi var fluttur úr herberginu safnaðist öll fjölskyldan í kringum hann og kyrjaði sálm, athöfn sem var áhrifaríkt að verða vitni að. Tilgangurinn, að okkur skilst, var að hjálpa sálinni úr líkamanum og auðvelda ferðalagið yfir í andaheiminn.
Mikil áföll hafa dunið yfir borgina á síðustu árum, röð jarðskjálfta varð á svæðinu á árunum 2010 til 2012, sá alvarlegasti í febrúar 2011, þar sem 185 manns létu lífið og þúsundir bygginga hrundu. Mikil uppbygging hefur átt sér stað á síðustu árum en enn eru heilu hverfin í eyði og auðar byggingar sem á eftir að rífa setja svip sinn á borgina. Árið 2019 var gerð hryðjuverkaárás á tvær moskur í borginni þar sem 51 manns létu lífið. Það er óhætt að segja að þessir atburðir hafi haft mikil áhrif á íbúana, borgina, sem og spítalann.
Við vorum þrjár á bráðamóttöku, þar sem við unnum á dag- og kvöldvöktum undir leiðsögn þeirra lækna sem voru á vakt. Starfið var mjög vel skipulagt og flæðið í gegnum bráðamóttökuna með besta móti. Yfirleitt var búið að vinna fólk upp, senda það aftur heim, flytja það yfir í obs eða á viðeigandi deild innan sex klukkustunda frá komu. Það var magnað að fylgjast með því. Verkefnin voru fjölbreytt, mórallinn góður og allir boðnir og búnir að hjálpa. Við sáum 23 í hemóglóbín (tvímælt - hann var fölur), necrotiserandi fasciitis, hnoðuðum í ROSC, greindum brisbólgur, ökklabrot og svo framvegis. Hittum samt líka fullt af slappleika og byltum, teljum að það fylgi sama hvar maður er staddur í hinum velmegandi hluta heimsins. Gefinn var tími til að lesa fyrir utan vinnu og þurftum við því bara að mæta á þrjár vaktir í viku, sem okkur þótti mikill lúxus.
Birna var á blóðlækningadeild spítalans. Dagarnir voru fjölbreyttir og mjög vel skipulagðir af yfirlækninum svo hægt væri að kynna sem mest af blóðlækningum á stuttum tíma. Suma daga var stofugangur og hefðbundin deildarvinna, aðra daga göngudeild með sérfræðilæknum, samráðsfundir með meinafræðingum og krabbameinslæknum, konsúlt og beinmergstökur með sérnámslæknum, úrlestur beinmergssýna eða blóðstroka auk vettvangsferða á rannsóknarstofurnar og í blóðbankann. Allir tóku manni opnum örmum og lögðu mikið á sig til að gera starfsnámið fjölbreytt og skemmtilegt.
Stuttir stofugangar tíðkast greinilega ekki aðeins á skurðdeildum fyrir norðan miðbaug og á háls-, nef- og eyrnalækningadeild spítalans var þeim lokið stundvíslega klukkan 08:15 á morgnanna. Eftir stofugang var ýmist hægt að fylgjast með sérfræðingum á göngudeild, fylgja deildarlæknum á móttöku til að framkvæma smávægileg inngrip eða fara á skurðstofu. Nýsjálendingar eiga heimsmet í húðkrabbameinum og er því mikið framkvæmt þar af stórum aðgerðum vegna höfuð- og hálskrabbameina sem voru vægast sagt svakalegar. Einnig fékk heill hellingur af háls- og nefirtlum að fjúka, sinusar voru skolaðir og gert var við örsmá heyrnarbein svo eitthvað sé nefnt. Allir starfsmenn voru jákvæðir, hjálpsamir og áhugasamir um Ísland sem gerði upplifunina af deildinni enn betri.
Tímanum utan spítalans var vel varið. Við lágum í sólbaði á veröndinni, fórum á sunnudagstónleika í garðinum og fórum mikið út að borða. Christchurch virðist hafa fullkomnað fyrirbærið mathöll því þær voru margar og hægt að fá hvern þann mat sem sem manni datt í hug og var hann nánast undantekningarlaust mjög góður. Við lærðum líka að skilja hjólin eftir a.m.k. tvö læst saman - annars er þeim rænt. Á Sumner Beach er tilvalinn staður til að læra að sörfa, sem var eitt af því fyrsta sem við gerðum stuttu eftir komu. Við fengum síðhærðan, sólbrúnan og aðeins hrukkóttan sörf kennara að nafni Adam til að kenna okkur að stíga ölduna ásamt slagorðunum „Wind, waves, rips and tides“.
Það var viðurkennt að taka löng helgarfrí á spítalanum og við nýttum okkur það til að ferðast. Nýja-Sjáland skartar alveg mögnuðum fjölbreytileika af náttúru, frá fjörðum sem líkjast því sem við þekkjum á Íslandi, til hitabeltisfrumskóga. Við keyrðum suður eyjuna endilanga niður að Milford Sound og Queenstown. Löbbuðum upp á Roy’s Peak og sáum tréð úti í Lake Wanaka (mæli með gúgli). Við fórum í sólarhringsferð á bát inn Doubtful Sound, sem er fjörður aðeins aðgengilegur frá sjó, þar sem við fylgdumst með höfrungum synda meðfram bátnum, hoppuðum í sjóinn og skelltum okkur á kajak. Við heimsóttum Auckland og auðvitað Hobbiton, fórum á vínekrueyju þar sem við skutluðumst á milli vínekra í 30 gráðum og sól.
Eftir sex vikur í verknámi skildust leiðir og Birna fór heim í USMLE undirbúning. Við hinar fórum í fjögurra daga göngu- og kajakferð um Abel Tasman þjóðgarðinn sem er með fallegri stöðum sem við höfum séð. Með ófáar blöðrur á fótunum, vel saltaðar af böðum í sjónum (og smá eigin svita) fórum við í nýtt sólarhrings ferðalag til Sri Lanka „á heimleiðinni“. Hér er pro tip að fara í lounge þegar bið eftir næsta flugi eru 9 tímar!
Á Sri Lanka var efst á dagskrá að hitta sambýlismann og vinkonu að heiman, sörfa, hanga, liggja, fara í jóga og njóta lífsins. 12. mars lentum við á Keflavíkurflugvelli, sólarhring áður en fyrsti upplýsingafundur þríeykisins var haldinn og samkomutakmarkanir skullu á.
Fyrirhugaðar eru breytingar á læknanáminu og tækifærum til að gera svipaða hluti fækkar mögulega aðeins. Þrátt fyrir það viljum við hvetja alla sem geta að nýta sér þau tækifæri sem eru í boði (IFMSA skipti t.d.) og gera eitthvað nýtt, víkka sjóndeildarhringinn og skoða heiminn. Við lofum, það er hverrar krónu og mínútu virði.
Kia Ora!