2 minute read
Ástblær 2021
Guðrún Anna Halldórsdóttir Formaður Ástblæs 2020–2021
Advertisement
Ástblær er nýstofnað undirfélag Ástráðs og er undirtitill þess hinsegin félag læknanema. Félagið var stofnað á félagsfundi Ástráðs í nóvember 2020. Auglýst var eftir framboðum í stjórn Ástblæs og var fyrsta stjórn félagsins kynnt í framhaldi af því í febrúar 2021. Stjórn félagsins skipa þau Ívan Árni Róbertsson, Bríet Jónsdóttir, Snædís Inga Rúnarsdóttir ásamt undirritaðri, sem gegnir stöðu formanns.
Fyrsta verkefni félagsins var að komast að því hver reynsla nemenda væri af Læknadeild þegar kæmi að hinsegin málefnum. Við sendum því út könnun sem hægt var að svara nafnlaust. Niðurstöður hennar sýndu svart á hvítu að það má ýmislegt bæta. Nemendur sögðu að það vantaði mikið upp á sýnileika hinsegin nemenda í Læknadeild og að oft liði hinsegin nemum eins og þeir væru einir á báti. Auk þess fannst nemendum vanta umræðu og fræðslu þegar kæmi að hinsegin málefnum. Í heildina má segja að niðurstöður hafi undirstrikað að mikil þörf væri á að stofna hinsegin félag og gátum við sett okkur skýrari markmið eftir að hafa heyrt frá nemendum.
Sýn félagsins er að öll þau sem stunda nám í læknisfræði við Háskóla Íslands finni fyrir öryggi og líði vel innan deildarinnar, burtséð frá kynhneigð, kynvitund eða kyntjáningu. Auk þess viljum við stuðla að því að hinsegin nemar finni að þau séu velkomin innan Læknadeildar. Við viljum vera til staðar fyrir hinsegin læknanema og gefa þeim öruggt rými og stuðning til að koma sínum málefnum á framfæri og getum einnig verið trúnaðaraðili og milliliður komi upp erfiðar aðstæður innan Læknadeildar. Það að starfrækt sé hinsegin félag innan Læknadeildar eykur sýnileika nemenda sem skilgreina sig sem hinsegin og varpar um leið ljósi á fjölbreytileika fólks innan Læknadeildar.
Annað markmið félagsins er að auka þekkingu læknanema og þar með verðandi lækna á málefnum hinsegin fólks, þá sérstaklega innan heilbrigðiskerfisins. Það er mjög mikilvægt að verðandi læknar hafi innsýn í reynsluheim hinsegin fólks, þekki hugtök tengd hinseginleika og svo framvegis. Það eru allt of mörg dæmi þess að hinsegin fólk sem leitar heilbrigðisþjónustu þurfi að byrja á því að útskýra og í raun fræða heilbrigðisstarfsfólk um hugtök tengd sinni kynhneigð eða kynvitund. Þetta er hægt að koma í veg fyrir.
Aukinni fræðslu fylgir að fyrirfram ákveðnum og oft yfirborðskenndum hugmyndum fólks fækkar, til dæmis um einstaklinga sem tilheyra ákveðnum hópi. Þannig er hægt að koma í veg fyrir fordóma. Þess vegna langar okkur að skipuleggja málstofur eða fræðsluerindi fyrir læknanema, til dæmis um reynslu hinsegin fólks af heilbrigðiskerfinu, andlega líðan hinsegin fólks og þar fram eftir götum
Í byrjun árs fórum við í stjórn Ástblæs á fund framkvæmdastjóra Samtakanna ‘78 og forseta Q-félagsins og var mjög fróðlegt og skemmtilegt að heyra hvað þau höfðu að segja. Því næst skipulögðum við þriggja vikna fræðslu um hinseginleikann á Instagram reikningi Ástráðs.
Okkur langar á komandi mánuðum að auka samheldni meðal hinsegin nema með því að skipuleggja viðburð þar sem við getum komið saman, spjallað um reynslu okkar – eða bara hvað sem er til að kynnast betur! Ég er mjög spennt fyrir komandi tímum með þessu nýja félagi. Mig langar að þakka meðlimum í stjórn Ástráðs fyrir að fá þá frábæru hugmynd að stofna hinsegin félag og hrinda henni í framkvæmd – og stjórn Ástblæs fyrir ótrúlega skemmtilega fundi og vel unnin störf.