LAND & SAGA
Isortoq: Stefán heindýrabóndi
I
sortoq: Stefán hreindýrabóndi er ævisaga Stefáns Hrafns Magnússonar, hreindýrabónda á Suður-Grænlandi. Stefán Hrafn ólst upp í Reykjavík á veturna en á sumrin var hann í sveitinni hjá ömmu sinni og afa fyrir vestan og dreymdi um að gerast bóndi. Hann heillaðist ungur af norðurslóðum og hafði mikinn áhuga á landkönnuðum. Hann fór einn til Grænlands 15 ára gamall og kynntist þá landinu sem hann átti eftir að búa í. Stefán lærði búfræði hér heima, flutti til Noregs þar sem hann vann við hreindýrhjarðmennsku á meðal Sama í ævintýralegu umhverfi Noregs og bjó um tíma í hefðbundnu Samatjaldi. Hann vann um tíma á nautabúgarði í Kanada og gekk svo yfir freðmýrarnar frá Inuvik til Tuktuyaktuk. Stefán vann
98 | www.landogsaga.com
ÆVINTÝRALEGT LÍF HREINDÝRABÓNDANS síðar við hreindýragæslu í Guðbrandsdal og Jötunheimum í upplöndum SuðurNoregs og gekk hann um veturinn um 3600 kílómetra á skíðum við hreindýragæsluna. Stefán lærði meira um hreindýrarækt á hreindýraræktarbraut menntaskóla í Svíþjóð og síðar hélt hann á freðmýrarnar í Alaska og vann við ráðgjöf og þjálfun á starfsfólki við hreindýrarækt. Þar kynntist hann kúrekanum Bud Williams sem skildi öll dýr að sögn Stefáns. Stefán tók svo flugmannspróf í Kanada. Íslendurinn víðförli hafði á þessum tíma kynnst grænlenskum hreindýrabónda sem hann átti síðar félag með í áratugi. Stefán fékk til dæmis árið 1984 1100 ferkílómetra beitiland á Suður-Grænlandi í viðbót við þá 400 ferkílómetra sem félagi hans var með fyrir.
Stefán hefur í um þrjá áratugi verið hreindýrabóndi á bújörðinni Isortoq á Suður-Grænlandi og lent þar í ýmsum ævintýrum og áskorunum. Fyrir utan að tala um ævi sína talar Stefán í bókinni meðal annars um slysin sem hann hefur lent í sem og veiðimennsku og veiðiþjófa og svo segir hann nokkrar veiðisögur. Fjöldi veiðimanna víða að úr heiminum dvelur á svæðinu ár hvert en íslenskt fyrirtæki er þar með glæsilegar veiðibúðir auk þess sem fólk getur gist á svæðinu í kringum búgarðinn sjálfan. Náttúrubarnið talar auk þess um hið fjölbreytta dýralíf sem er á Suður-Grænlandi, Grænlandsjökul og loftslagsbreytingar sem hafa haft áhrif á reksturinn og grænlenskt samfélag. Fjöldi dagbókarfærsla er í bókinni en Stefán hefur skrifað í dagbækur í áratugi. -SJ