Gott líf með glútenóþol og sykursýki Um það bil einn af hverjum tíu með sykursýki T1 eru einnig með glútenóþol. Þurfi maður að taka tillit til beggja þessara greininga þarf maður að læra ýmislegt nýtt og jafnframt að prófa sig áfram og læra af eigin reynslu. Það tekur tíma að skipuleggja, kaupa inn og elda mat og að fræða umhverfið sitt um báða sjúkdóma og hvernig eigi að meðhöndla þá. Það er auðvelt að finnast maður dálítið einn og viðkvæmur í þessum nýju aðstæðum. Glútenóþolið takmarkar úrvalið af mat sem maður getur borðað og margt af því glútenlausa sem í boði er er í staðinn uppfullt af kolvetnum og hækkar blóðsykurinn hratt. Möguleikarnir eru helst í hreinum og góðum hráefnum sem ekki innihalda glúten og svo er úrvalið af glútenfríum unnum vörum stöðugt vaxandi. Nútíma insúlínmeðferð einfaldar fólki líka að vera sveigjanlegt. Hér á eftir er farið yfir nokkur atriði sem gott er að hafa í huga þegar glímt er við sykursýki og glútenóþol saman.
Hvað þarf að hafa í huga þegar þú hefur verið með sykursýki og svo bætist glútenóþol við. Þegar þú ert með glútenóþol þarftu að taka út hveiti (líka kamut, spelt, dinkel, durum), korn og rúg og þann mat sem inniheldur þetta. Í staðinn þarftu að finna góða,
glútenfría valkosti, gjarna trefjaríka því það hjálpar við að viðhalda jöfnum blóðsykri. Sérstaklega meðhöndlaðir hafrar geta oftast verið hluti af glútenfríu mataræði. Sykursýki og glútenóþol saman þýðir að það eru færri valkostir í búðinni og þegar maður ætlar að fara út að borða, er á ferðalagi eða í heimboði. Því þarf oft að skipuleggja meira í kringum matinn, hringja á undan sér og athuga málið og stundum vera tilbúinn til að taka með sér nesti að heiman. Bragð og áferð glútenfría matarins getur stundum verið frábrugðið því sem þú ert vanur. Með tímanum muntu læra á þær vörur sem í boði eru og hvaða áhrif þær hafa á þig og þína líðan og brátt finnurðu þann mat sem þú heldur upp á. ● Haltu þig við þitt venjulega máltíðarplan sem þú hefur aðlagað aldri þínum, lífsstíl og virkni. ● Borðaðu mat án glútens. Lærðu hvað matvæli innihalda glúten og hvernig lesa á úr innihaldslýsingum. Glúten getur verið falið í mörgum fæðutegundum en flest hrein hráefni sem við borðum eru án glútens. ● Þú gætir þurft að aðlaga insúlínskammtana þína og tímann sem þú tekur insúlínið þar sem margar glútenfríar vörur innihalda mikið af kolvetnum. ● Ef þú ert óörugg/ur pantaðu þá tíma hjá næringarráðgjafa.
Hvað þarf að hafa í huga þegar þú hefur borðað glútenfrítt lengi og svo bætist sykursýki við. Með upplýsingum, stuðningi frá umhverfinu og með því að nýta eigin reynslu muntu finna út hvernig er best fyrir þig að borða, hreyfa þig og taka insúlínið þitt þannig að blóðsykurinn haldist í þeim gildum sem leyfa þér að líða vel og hafa orku til að geta gert það sem þú þarft og vilt. 32
J A F N VÆ G I N Ó V E M B E R 2020